Það vakti athygli um daginn þegar upplýst var að stærstu íslensku tryggingafélögin greiddu eigendum sínum arð langt umfram hagnað síðasta árs – sem var þó veglegur.
Enn meiri athygli vakti þegar rifjað var upp að öll tryggingafélögin höfðu hækkað iðgjöld viðskiptavina sinna fyrir jólin, “vegna lélegrar afkomu” tryggingastarfseminnar á árinu.
Viðskiptavinirnir fá hækkun iðgjalda vegna lakrar afkomu en eigendur fá verulega aukinn arð vegna góðrar afkomu!
Hver er svo skýringin á þessari mótsagnakenndu útkomu?
Maður hefði haldið að annað hvort væri afkoma tryggingafélaga góð eða slæm, en ekki hvoru tveggja í senn!
Rán í björtu?
Skýringin kom fram í umfjöllun um málið í Fréttablaðinu. Þar var upplýst að stjórnendur tryggingafélaga ákveða iðgjöld með því að aðgreina fjárfestingastarfsemina frá tryggingastarfsemi félaganna.
Fjárfestingastarfsemin snýst um að ávaxta tryggingasjóðinn sem viðskiptavinir greiða inn með iðgjöldum sínum, sem eru staðgreidd, þó bætanlegt tjón flestra verði síðar eða aldrei.
Þess vegna eru tryggingafélög alla jafna með mikið fé í geymslu fyrir viðskiptavini sína. Þessir sjóðir eru skráðir í bókhaldi félaganna sem skuld við viðskiptavini, eins og inneignir í banka eru skuldir banka við viðskiptavini sína (innstæðueigendur).
Tryggingafélögin eiga ekki þessa sjóði, frekar en að bankinn geti sagt að hann eigi innstæður viðskiptavina sinna. Bankarnir taka hluta af ávöxtun þeirra með vaxtamun (sem reyndar er yfirleitt of mikill hér á landi). Innstæðueigendur fá þó eitthvað í sinn hlut.
En þannig er það ekki hjá tryggingafélögunum. Þau láta eins og þau eigi þessa sjóði og geti ráðstafað ávöxtun þeirra að fullu til eigenda en ekki til tryggingataka, viðskiptavina sinna.
Iðgjöldin eru sem sé ákveðin án þess að taka tillit til afkomu af fjárfestingastarfseminni, sem alla jafna er mjög ábatasöm. En viðskiptavinir eiga auðvitað einnig að njóta ávöxtunar tryggingasjóðanna.
Þetta lítur því út eins og rán í björtu.
Þessu til viðbótar var nýlega breytt reglum ESB um hversu stórir slíkir tryggingasjóðir eiga að vera og boðað að þá mætti minnka. Það þýðir með öðrum orðum að viðskiptavinir hafi verið látnir greiða hærri iðgjöld til þessa en þurfi alla jafna.
Í stað þess að endurgreiða viðskiptavinum sínum þessa oftöku iðgjalda þá juku stjórnendur tryggingafélaganna “eigið fé” þeirra og greiddu út til eigenda félaganna.
Þetta er augljóslega rán í björtu, eins og framkvæmdastjóri FÍB hefur ítrekað bent á.
Óvarinn almenningur?
Þannig hafa íslensku tryggingafélögin komið sér upp fyrirkomulagi sjálftöku sem á sér sennilega ekki mörg fordæmi í siðuðum samfélögum.
Að minnsta kosti er dæmi frá Danmörku um að alvöru tryggingafélag endurgreiði viðskiptavinum nærri helming af arði fyrra árs, vegna góðrar afkomu (sjá hér).
Á Íslandi skrökva menn því fyrst að afkoma síðasta árs hafi verið slæm og hækka iðgjöld. Örfáum vikum síðar segja þeir að afkoman hafi verið góð og greiða eigendum mun meira í arð en nemur hagnaði ársins!
Þetta hlýtur að vera séríslensk leið í sjálftöku! Hún er auðvitað ríkjandi í fjármálageiranum öllum og kanski víðar í atvinnulífinu.
Ef Fjármálaeftirlitið lætur þetta afskiptalaust þá hlýtur það að vera til marks um að almenningur standi óvarinn gegn slíku, eins og FÍB bendir á. Ekkert aðhald er að finna í raunverulegri samkeppni milli félaganna. Hún er lítil sem engin.
Á endanum eiga stjórnmálamenn að sjá til þess að einhverjar varnir séu í samfélaginu gegn slíkri sjálftöku elítunnar á kostnað almennings.
Góð byrjun væri að kanna hvort það sé almennt í tryggingum á Vesturlöndum að viðskiptavinir njóti ekki ávöxtunarinnar af tryggingasjóðum þeirra og hvernig iðgjöld eru ákveðin.
Við sáum hvernig þetta var á bóluárunum. Þá voru engar varnir gegn sjálftöku og braski með lánsfé, hvorki hjá Fjármálaeftirliti, Seðlabanka né ríkisstjórnum.
Því fór sem fór.
Sjálftökuliðið rak þjóðarbúið í þrot, með taumlausri græðgi sinni.
Fyrri pistlar