Það er fyndið þegar Kári Stefánsson segir RÚV vera með drottningarstæla.
Staðreyndin er nefnilega sú, að það er hann sjálfur sem öðrum fremur er með drottningarstæla!
RÚV bauð honum að vera á pallborði á áhugaverðum borgarafundi um heilbrigðismál í Háskólabíói í kvöld – sem einnig verður í beinni útsendingu.
Auðvitað hefði Kári átt að vera þar og taka þátt í umræðunni, eftir hið góða framtak hans með undirskriftarsöfnun, tækjagjöf og ágætri annarri baráttu fyrir umbótum í heilbrigðisþjónustunni.
Enda bauð RUV honum að vera þar í öndvegi.
En Kári var með drottningarstæla. Bjó til mál um það að honum væri ekki réttilega til sætis skipað á pallinum.
Hann sætti sig ekki við að vera á borði með sérfræðingum um heilbrigðismál. Vildi heldur vera í hópi stjórnmálamanna.
„Who cares“ – myndu rappararnir segja!
Það er bara fyrir sérfræðinga í snobbi að ráða í mikilvægi þeirrar sætaskipanar sem í boði var og hvers vegna Kári styggðist við og afþakkaði boðið. Skiptir þó litlu máli, en samt hefði verið fengur af því að hafa hann með í umræðunni.
Þetta er raunar algengt hjá Kára. Hann er með stórt egó og ruddalega samskiptahætti á köflum. Sumir kalla þetta hroka. Slíkt getur þó haft skemmtigildi, ef það er ekki tekið of alvarlega.
Menn ættu því bara að brosa að hinum drottningarlegu leiksýningum sem hann annað slagið setur á svið.
Kanski Kári verði þrátt fyrir allt með uppistand á gólfinu í salnum í kvöld og taki nokkrar sveiflur í umræðunni…
Fyrri pistlar