Mikið var gaman að horfa á afmælistónleika Gunnars Þórðarsonar á RÚV í gærkveld. Ég missti því miður af tónleikunum í Hörpu á sínum tíma og beið því spenntur.
Það er raunar óhjákvæmilegt að tónleikar þar sem flutt er yfirlit um lög Gunna Þórðar verði góðir, því af slíku perlusafni er að taka. Og það gekk eftir.
Frábær hljómsveit, landsliðið í söng og ágætur kór tryggðu topp flutning.
Að öðrum ólöstuðum stóðu gítarsnillingarnir Guðmundur Pétursson og Friðrik Karlsson út úr, enda almennt gert ráð fyrir stóru hlutverki gítarsins í verkum Gunna.
Ég mæli eindregið með þessari kvöldskemmtun og gaman var að fá Gunna sjálfan á svið með syni sínum í lokin.
Mér fannst það raunar hraustlegt hjá Gunna að syngja Fyrsta kossinn meira og minna einn undir lokin. Þó hann hafi gert það vel þá vantaði auðvitað rödd Rúnars Júlíussonar, því hann var meira áberandi í upprunalegri útgáfu lagsins.
Mikið má Gunnar Þórðarson vera ánægður með æviverk sitt í tónlistinni – og hvergi nærri hættur.
Sjá tónleikana hér: http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/afmaelistonleikar-gunnars-thordarsonar/20160328
Fyrri pistlar