Umræðan um eignir Íslendinga í skattaskjólum er að aukast með nýjum upplýsingum um málið.
Hún nær væntanlega hámarki þegar Jóhannes Kristjánsson og samstarfsfólk hans birta lista yfir efnaða Íslendinga sem vista eignir í erlendum skattaskjólum.
Það ætti þó auðvitað ekki að koma neinum á óvart að íslenskt efnafólk eigi miklar eignir í erlendum skattaskjólum.
Íslensku einkabankarnir stofnuðu allir útibú í Lúxemborg sem höfðu það sem meginverkefni að hjálpa efnuðum Íslendingum við að koma eignum sínum úr landi og vista þær í hinum ýmsu skattaskjólum.
Einhverju hafa bankarnir væntanlega áorkað í þeim verkefnum, svo við hljótum að ætla að fjölmargir Íslendingar eigi umtalsverðar eignir erlendis.
En hversu miklar upphæðir gætu verið í þessum spilum?
Á það mætti slá út frá opinberum gögnum um fjármagnsflæði úr landi. Best væri að fá Indriða H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóra, til að lesa í þær tölur.
Önnur leið er að yfirfæra niðurstöður annarra sem rannsakað hafa notkun skattaskjóla.
Mat Zuckmans
Frakkinn Gabriel Zucman, einn af samstarfsmönnum Thomasar Piketty, birti í fyrra bók um slíkar rannsóknir í heiminum almennt, The Hidden Wealth of Nations.
Mat Zuckmans er að um 8% af auði heimsins sé nú vistað í ýmsum skattaskjólum og hefur umfangið verið mjög vaxandi á síðustu tveimur áratugum.
Samkvæmt Hagstofu Íslands eru skráðar hreinar fjáreignir íslensku þjóðarinnar um 7600 milljarðar króna, eða ígildi landsframleiðslu þriggja og hálfs árs.
Ef við notum heimsmeðaltal Zuckmans og áætlum að um 8% af fjáreignum Íslendinga séu vistuð í erlendum skattaskjólum gæti íslenskir efnamenn átt nálægt 600 milljörðum króna þar á bókum – þ.e. sex hundruð þúsund milljóna króna ígildi.
Það gæti til dæmis dugað til að byggja sjö til átta eintök af nýja Landsspítalanum.
Ef Íslendingar hafa notað skattaskjól meira en margar aðrar þjóðir á bóluárunum að hruni, sem virðist líklegt, þá gæti þessi upphæð verið hærri.
En kanski tapaðist líka eitthvað af þessum eignum í fjármálakreppunni. Eigendur eigna í skattaskjólum hafa þó verið betur varðir en ef þeir hefðu geymt slíkar eignir í íslenskum krónum, því gengi hennar féll miklu meira en gengi þeirra gjaldmiðla sem skattaskjólin nota.
Íslenskir stjórnmálamenn eru ekki líklegir til að vera stórtækastir í þessum efnum. Eignir eiginkonu forsætisráðherra, sem til umræðu hafa verið, eru til dæmis bara lítið brot af þessum heildareignum (um 1 af 600 milljörðum).
Það eru atvinnurekendur og fjárfestar sem eiga langmest af þessum eignum erlendis. Þar á meðal svokallaðir forystumenn atvinnulífsins á liðnum árum.
Fróðlegt verður að sjá hverjir úr þeim hópi verða á listunum sem væntanlega birtast á næstunni.
En skattaskjólin eru mörg og leiðirnar þangað flestar að einhverju leyti leyndar.
Því er varla við að búast að einstakir listar yfir notendur erlendra skattaskjóla geti verið tæmandi. Rétt er að hafa þann fyrirvara í huga.
Fyrri pistlar