Í Fréttatímanum í dag er stórmerk grein, eftir ritstjórann Gunnar Smára Egilsson, um það hvernig stjórnvöld á Íslandi studdu kerfisbundið við skattaundanskot efnafólks á liðnum áratugum (sjá hér).
Þetta var sérstaklega afgerandi á áratugnum fram að hruni, þegar stjórnvöld lögðu lykkju á leið sína til að greiða fyrirtækjaeigendum og fjárfestum nýjar leiðir til að nota leynifélög í skattaskjólum, samhliða því að þau veiktu skattaeftirlitið umtalsvert.
Tilmælum ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra um að Ísland fylgdi öðrum þjóðum í útfærslu skattareglna var ítrekað hafnað af Árna Matthiesen og Geir Haarde, fjármálaráðherrum í stjórnartíð Davíðs Oddsonar.
Gunnar Smári byggir að hluta á sögulegum gögnum úr mjög athyglisverðri MA ritgerð Jóhannesar Hraunfjörð Karlssonar sérfræðings í skattamálum.
Þetta er ekki bara saga um það hvernig ormagryfja skattaskjólanna stækkaði og dýpkaði á frjálshyggjuárunum, þegar Hannes Hólmsteinn hvatti félaga sína í Sjálfstæðisflokknum til að sleppa öllu siðferði lausu í þágu auðmanna. Sem þeir og gerðu, eins og Styrmir Gunnarsson hefur nú viðurkennt (sjá hér).
Þetta er líka saga langtíma samhengisins í forréttindameðferð stjórnvalda á yfirstéttinni á Íslandi.
Saga þess hvernig stjórnvöld, sem oftast voru undir forystu Sjálfstæðisflokksins, beinlínis leyfðu efnafólki margvísleg undanskot og vik frá þeim reglum sem almennum launaþrælum var gert að fara eftir í hvívetna.
Þetta er ljót saga sem allir eiga að kynna sér.
Greinin hefur líka mikið gildi fyrir það samhengi sem fylgir birtingu Panama-skjalanna, sem nú er hafin.
Gunnar Smári á þakkir skyldar fyrir að taka þetta efni saman og miðla því á svo skýran hátt í Fréttatímanum.
Fyrri pistlar