Miðvikudagur 27.04.2016 - 13:52 - FB ummæli ()

Mun Bjarni selja ríkiseignir til vina og ættingja?

Það sem tíðkaðist á Íslandi á áratugnum fram að hruni var yfirgengilegt og einstakt. Taumlausri græðgi var sleppt lausri og yfirstéttin fór offari í braski, siðleysi og lögbrotum, sem leiddu til hrunsins.

Allt var það gert með stuðningi og vitneskju stjórnvalda, undir forystu Sjálfstæðisflokksins og viðskiptaarms Framsóknarflokksins. Opinber stuðningur við notkun erlendra skattaskjóla var hluti af prógramminu.

Einkavæðing ríkisbankanna árið 2003 markaði stærstu tímamótin. Þaðan í frá fór allt á allra versta veg.

Nú ber svo við að miklar eignir (m.a. tveir bankar) eru á ný komnar í hendur ríkisvaldsins, sem fékk það hlutverk að bjarga fjármálakerfinu og þar með stórum hluta atvinnulífsins, á kostnað almennings.

Í stað þess að ríkið haldi umtalsverðu eignarhaldi á bönkunum og fái áfram tugi milljarða arðgreiðslur í sameiginlegan sjóð þjóðarinnar, sem nýtist öllum Íslendingum til framfara, þá þykir yfirstéttinni og hagfræðingum hennar betra að örfáir auðmenn fái slíkt fé til eigin þarfa

Því skal selja bankana og aðrar eignir sem ríkið er með á sinni hendi. Jafnvel þó að rekstur þeirra sé gjöfull og þjóðinni í hag.

 

Á ráðherrann einn að ráða meðferð ríkiseigna?

Nú er sem sagt stofnað einkahlutafélag á vegum fjármálaráðherra sem á að fá það hlutverk að annast umsýslu þessara eigna ríkisins og svo sölu.

Fyrstu fréttir voru þær að fjármálaráðherrann myndi skipa sjálfan sig sem stjórnarformann félagsins, sem ætti svo að semja við alter-egó fjármálaráðherrans um niðurstöður. Það þætti gott á Tortólu!

Ráðherrann leiðréttir þetta og segir nú að hann muni frekar skipa fulltrúa sína í stjórnina.

En það er líka ófullnægjandi að ráðherrann einn skipi stjórn sem ráðstafar ríkiseignum (sjá góða grein Gauta Eggertssonar um þessi mál).

Það er ekkert betra að ráðherrann skipi vini sína og hagsmunagæslumenn í stjórn svona félags en að hann skipi sjálfan sig.

Hann á einfaldlega ekki að ráða þessu einn.

Eðlilegra væri að allir stjórnmálaflokkar sem sæti eiga á Alþingi fái að tilnefna fulltrúa í stjórn slíks eignarhaldsfélags. Eða hæstiréttur.

Með því væru auknar líkur á að almannahagur komist á dagskrá í málinu.

Sú staðreynd að ráðherrann er af einni af þekktari auðmannaættum landsins gerir alla aðkomu hans að sölu ríkiseigna sérstaklega viðkvæma – ekki satt? Hver verður samkeppnisstaða annarra auðmannaætta?

Og hvernig ætti að verja hagsmuni almennings í svona ferli?

En ef til vill stóð það aldrei til. Þetta er kanski bara hugsað fyrir Borgunar-menn landsins og félög þeirra í myrkum skattaskjólum!

Eftir arfaslæma reynslu af einkavæðingu bankanna og annarri einkavæðingu á Íslandi þá virðumst við enn vera á nokkurn veginn sama stað.

Hugmyndir um að ríkið eigi umtalsverða hluti í tveimur bönkum má ekki einu sinni ræða, né heldur að bankakerfið sé sveigt að því að þjóna samfélaginu betur.

 

(Aths. höfundar: Það er leiðinlegt að setja þessa umfjöllun í svo persónulegt samhengi, eins og hér er gert, en annað er ekki í boði. Þannig liggur málið fyrir.)

 

 

Síðasti pistill: Blóðsugur á þjóðarbúinu

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar