Laugardagur 30.04.2016 - 11:19 - FB ummæli ()

Arfleifð Davíðs: Forréttindi fyrir þá ríkustu

Það vakti athygli nýverið að Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra, varði “skattasniðgöngu” og notkun skattaskjóla í Reykjavíkurbréfi.

Einmitt þegar umræðan um Panama-skjölin stóð sem hæst.

Davíð sagði meðal annars að ekkert væri rangt við “skattasniðgöngu”, þ.e. að nota sér glufur í löggjöf eða klækjabrögð til að koma tekjum undan skatti, meðal annars með notkun skattaskjóla.

Allir vita að slík skattasniðganga er einkum á færi einstaklinga sem eru með rekstur og kaupa sér þjónustu sérfræðinga í skattaundanskotum. Þetta er fyrst og fremst leið hinna ríkustu.

Þegar þeir ríkustu koma sér undan þeim skattagreiðslum sem löggjöfin ætlast til af öllum, þá heitir það “skattasniðganga” í heimi Davíðs.

En ef vinnandi almenningur gerir slíkt heitir það “skattsvik” – og er refsivert án undanbragða.

Davíð varði sem sagt sérreglur og sérmeðferð fyrir þá ríku.

 

Nýfrjálshyggjan: hugmyndafræði og hagsmunir yfirstéttarinnar

Það var þó ekki nýtt að Davíð Oddsson gætti hagsmuna þeirra ríku. Það gerir hann iðulega á Morgunblaðinu, eins og löng hefð er fyrir á þeim bæ.

Á þeim tíma sem hann var forsætisráðherra innleiddi Davíð ýmis úrræði í anda nýfrjálshyggju. Eins og flestir vita gengur stefna nýfrjálshyggjunnar nær alfarið út á óhefta markaðshætti, afreglun og fríðindi ýmis konar, sem einkum nýtast atvinnurekendum og fjárfestum – oft á kostnað almennings.

Skattastefna nýfrjálshyggjunnar gekk t.d. á árunum að hruni út á að lækka skatta á hátekjufólk, stóreignamenn og fyrirtækjaeigendur, um leið og skattbyrði lægri og milli tekjuhópa var aukin.

Og þeim efnuðustu var einnig auðvelduð notkun erlendra skattaskjóla, eins og Styrmir Gunnarsson benti nýlega á í viðtali á RÚV.

Notkun skattaskjóla er til að koma sér betur undan skattgreiðslum í heimalandinu og til að fela eignir, svo auðveldara sé að komast undan ábyrgðum, til dæmis við gjaldþrot.

Nú sjáum við ýmsar afleiðingar alls þessa í Panama-skjölunum.

Íslendingar virðast hafa gengið lengra en flestar vestrænar þjóðir í notkun erlendra skattaskjóla. Hér varð óhófið og taumleysið með alversta móti. Og afleiðingarnar eftir því.

Menn sem ráku íslensk fyrirtæki sín í risagjaldþrot og áttu ekki fyrir skuldum sínum á Íslandi, reynast enn eiga umtalsverðar eignir í erlendum skattaskjólum.

Frelsi nýfrjálshyggjunnar var þannig fyrst og fremst frelsi fyrir þá ríku.

Það var því ekki óvænt að Davíð Oddsson og félagar hans í frjálshyggjunni skyldu amast við uppljóstrunum Panama-skjalanna og neikvæðri umræðu um notkun skattaskjóla.

Davíð fann sig knúinn til að verja “skattasniðgöngu” þeirra ríku.

Siðfræði nýfrjálshyggjunnar er sem sagt tvöföld: almennar reglur fyrir almenning en sérreglur og vettlingatök fyrir yfirstéttina.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar