Ég hef lengst af stutt Ólaf Ragnar Grímsson í hlutverki forseta Íslands. Ég hef hælt honum fyrir góð verk, en þó einnig haft mínar efasemdir um sumt.
Á heildina litið hefur hann verið öflugur forseti og gert margt gott, ekki síst á erlendum vettvangi. Ferill hans hefur verið glæsilegur og sérstakur.
En ég varð mjög hugsi er hann tók síðasta snúning og hætti við að hætta – í annað sinn.
Bæði er seta hans í embætti orðin lengri en lýðræðisskipulagi er hollt og rökin sem hann notaði til að réttlæta endurtekið framboð voru þunn í roðinu.
Í grunninn sagði hann að birting Panama-skjalanna opnaði á ný þau sár í þjóðarsálinni sem hrunið skildi eftir og sem grófu undan trausti almennings á stofnunum samfélagsins og stjórnmálunum. Kosningar gætu einnig verið á næsta leiti.
Því væri nauðsynlegt að hann sæti lengur, í þágu stöðugleika og festu.
Nú þegar upplýst hefur verið að eiginkona hans er mikilvirkur notandi erlendra skattaskjóla þá grípur gráglettni örlaganna harkalega inní atburðarrásina – og sömu rök hitta hann sjálfan fyrir.
Hann er að auki staðinn að rangfærslu um málið í erlendum fjölmiðlum, sem gæti skaðað orðspor þjóðarinnar enn frekar.
Nú má vel vera að fjárhagur þeirra hjóna hafi verið alveg aðskilinn og að Ólafur Ragnar hafi ekkert vitað um þessi mál. Ef svo er má segja að það sé ósanngjarnt að hann líði fyrir gerðir eiginkonunnar og fjölskyldu hennar.
Hann hefði þó átt að kanna málið áður en hann fullyrti jafn mikið og hann gerði á CNN, eða hafa þann fyrirvara á að hann vissi ekkert um málið.
En framhjá því verður ekki horft, að forsetafrúin er hluti af framboði Ólafs Ragnars. Búseta hennar í öðru landi síðan 2012 og þessi notkun skattaskjóla kastar rýrð á sameiginlegt framboð þeirra, jafnvel þó hann sjálfur sé með hreinan skjöld.
Staðan er því sú, að framboð Ólafs Ragnars hefur veikst við þessi síðustu tíðindi.
Fyrri pistlar