Uppljóstranir Panama-skjalanna benda til að Íslendingar hafi verið óvenju miklir notendur skattaskjóla, á árunum að hruni.
Samt hafa ráðherrar verið hikandi í viðbrögðum sínum frá því þetta kom fyrst á dagskrá árið 2004 – og nú síðast Bjarni Benediktsson ráðherra skattamála (sjá hér).
Ríkisskattstjóri hefur hins vegar tekið afgerandi afstöðu gegn þessari spilaborg siðleysis, lögbrota og spillingar, sem notkun skattaskjóla er.
Í nýjasta hefti tímarits Ríkisskattstjóraembættisins, Tíund, er mikið fjallað um þessi mál.
Leiðarinn hefur verið fréttaefni í dag og í gær og er það vel.
Hins vegar er einnig í tímaritinu mikið um gagnlegar upplýsingar um hvernig þessi mál hafa verið á dagskrá skattayfirvalda, a.m.k. frá árinu 2004.
Ríkisskattstjóraembættið hefur ítrekað bent á misbrestina sem þarna er að finna – en ríkisstjórnir hafa ekki viljað taka á málinu.
Það er skiljanlegt. Hvers vegna?
Jú, vegna þess að forysta Sjálfstæðisflokksins og hluti Framsóknarflokksins studdu notkun skattaskjóla á tímabilinu frá 1997 og að hruni.
Hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins (Hannes Hólmsteinn Gissurarson) var sérstakur talsmaður aukins frelsis fyrir auðmenn, þar með talið með notkun skattaskjóla til skattasniðgöngu og til að fela eignir.
Davíð Oddsson ver enn notkun skattaskjóla til sniðgöngu
Davíð Oddsson og fjármálaráðherrar hans (Geir Haarde og Árni Mathiesen) voru allir á þessari línu.
Davíð Oddsson er enn í dag á þessari línu (sjá hér og hér).
Þeir studdu og réttlættu skattasniðgöngu íslenskra auðmanna, meðal annars með notkun skattaskjóla.
Þess vegna var ekkert gert til að sporna við því, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir skattayfirvalda.
Þannig er rökrétt að íslenskir viðskiptamenn og fjárfestar yfirstéttarinnar hafi notað þessi spillingarbæli í meiri mæli en kollegar þeirra í grannríkjunum.
Það er svo auðvitað umhugsunarefni að talsmaður slíkrar spillingar, Davíð Oddsson, skuli nú vera í framboði til að gegna embætti forseta Íslands!
Skattaundanskot yfirstéttarinnar bitna á almenningi í hærri sköttum og grafa að auki undan íslenska samfélaginu.
Hvernig gæti það samrýmst hagsmunum Íslendinga almennt að hafa forseta sem er talsmaður notkunar skattaskjóla?
Fyrri pistlar