Íslendingar vinna lengur fram eftir aldri en aðrir í hópi vestrænna hagsældarþjóða.
Opinber eftirlaunaaldur er við 67 ára markið hér á landi, en flestir Íslendingar vinna lengur en það. Í öðrum vestrænum löndum er algengast að fólk fari fyrr á eftirlaun en opinberi eftirlaunaaldurinn segir til um – stundum mun fyrr.
Norðmenn eru með sama opinbera eftirlaunaaldurinn og við (67), en hinar norrænu þjóðirnar eru með 65 ára markið. Allar hinar norrænu þjóðirnar fara þó fyrr á ellilífeyri en þessi aldursmörk segja til um.
Íslenskir karlar fara að jafnaði nærri sjötugu á ellilífeyri, sænskir og norskir karlar fara að meðaltali um 65 ára aldurinn, Danir 63ja ára og Finnar 62ja ára. Meðaltal OECD-ríkja er 64 ára fyrir karla – nærri 6 árum lægra en á Íslandi.
Íslenskar konur fara um 68 ára á ellilífeyri, sænskar og norskar við 64 ára aldurinn, finnskar konur fara 62ja ára og þær dönsku fara að jafnaði við 61 árs aldurinn. Meðaltal kvenna í OECD-ríkjunum er 63 ár – 5 árum lægra en á Íslandi.
Íslendingar vinna sem sagt mun lengur en frændþjóðirnar á hinum Norðurlöndunum og eru einir um að vinna lengur en þeir eiga rétt á í opinbera lífeyriskerfinu.
Þetta má sjá nánar á myndinni hér að neðan.
Ef við lítum á þetta frá sjónarhóli atvinnuþátttökunnar þá eru yfirburðir Íslendinga af sama toga.
Myndin hér að neðan sýnir virkni fólks á aldrinum 65 til 69 ára í launaðri vinnu.
Yfirburðir Íslendinga meðal Evrópuþjóða eru miklir – raunar algerir. Um 48% fólks á aldrinum 65-69 ára er í launaðri vinnu hér en meðaltal ESB-ríkja er tæp 12%, eða einungis um fjórðungur þess sem er á Íslandi.
Norðmenn koma næst okkur með um 27%. Þar munar þó miklu.
Er ástæða til að hækka eftirlaunaaldur á Íslandi?
Nú er til umræðu að hækka eftirlaunaaldur í íslenska lífeyriskefinu. Sú umræða er m.a. komin til vegna þess að lífeyrissjóðirnir rukka ekki inn nógu hátt iðgjald til að standa undir lífeyrisloforðum sínum til lengdar, vegna hækkandi lífaldurs fólks.
Tap lífeyrissjóðanna í hruninu á einnig sinn þátt í því að lífeyrissjóðirnir geta ekki staðið við lífeyrisloforð sín, að óbreyttu (þeir töpuðu um 20% eigna sinna).
Í ljósi þess að Íslendingar eru þegar með hæsta lífeyristökualdur á Vesturlöndum og fara að auki enn síðar en það á eftirlaun/lífeyri, er að mörgu að huga í þessari umræðu.
Ein góð og viðeigandi spurning er þessi: Er ástæða til að bæta afgerandi heimsmet okkar í vinnu eldri borgara núna, svo um munar, með því að hækka eftirlaunaaldur allra í 7o ára markið?
Ætti ef til vill að huga að öðrum leiðum?
Gott er að hafa í huga í þessu sambandi, að sumum hentar að vinna lengur – en öðrum ekki.
Til dæmis hentar erfiðisvinnufólki sem fór snemma út á vinnumarkað almennt ekki að vinna lengur. Flestir þeirra eru útbrunnir, slitnir á líkama og sál og eru alveg búnir að fá nóg við 65-67 ára aldurinn.
Sumir geta alls ekki unnið lengur af heilsufarsástæðum eða vinnumarkaðsástæðum.
Einnig er gott að hafa í huga að hækkun eftirlaunatökualdurs er réttindamissir vinnandi fólks og eykur að öllum líkindum álag á örorkulífeyriskerfið.
Ég flutti fyrirlestur um þessi mál á nýlegu málþingi Lífeyrissjóðanna og Aðila vinnumarkaðarins og mun fjalla meira um efnið á næstunni hér á Eyjunni.
Fyrri pistlar