Föstudagur 03.06.2016 - 11:15 - FB ummæli ()

Eygló sigrar Sjálfstæðismenn

Þau tíðindi urðu á Alþingi í gær að þrjú frumvörp Eyglóar Harðardóttur um nýskipan húsnæðismála voru samþykkt. Áður hafði þingið samþykkt fjórða frumvarpið sem fjallar um húsnæðisamvinnufélög.

Þarna er um að ræða lög um almennar íbúðir sem fela í sér nýja umgjörð um fjármögnun, rekstur og úthlutun íbúða til leigu sem eiga að tryggja að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda.

Þá eru lög um húsnæðisbætur sem stefna að lækkun húsnæðiskostnaðar efnaminni leigjenda og sem jafna stuðning við leigjendur því sem tíðkast hefur í stuðningi við kaupendur. Þar hefði þó mátt hækka upphæð húsnæðisbóta (bæði vaxtabóta og leigubótaþættina) yfir línuna, meira en gert er ráð fyrir, í ljósi þróunar markaðsverðs.

Loks eru ný lög um breytingu á húsaleigulögum sem styrkja réttarstöðu leigjenda og lögin um húsnæðissamfélög bæta skilyrði fyrir slíkri starfsemi og bæta jafnframt stöðu búseturéttarhafa.

Það er skemmst frá því að segja að Sjálfstæðismenn hafa lengi lagt staksteina í götu þessa umbótastarfs, sem Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra hefur beitt sér fyrir.

Framganga Sjálfstæðismanna hefur tafið málið og um hríð leit út fyrir að þeim tækist að stöðva það.

Sjálfstæðismenn vilja almennt engan eða lítinn velferðarstuðning við almenning, til dæmis með húsnæðisbótum, heldur vilja þeir styrkja fjárfesta og byggingaverktaka. Slíkur stuðningur er þó líklegastur til að auka arð þeirra aðila en ekki að auðvelda almenningi að koma þaki yfir höfuð sitt.

Eygló náði samstarfi við launþegahreyfinguna um málið, sem kom því inn í síðustu kjarasamninga, en það átti ríkan þátt í að tryggja framgang þessara mikilvægu umbóta. Það er einnig athyglisvert að stjórnarandstaðan hefur stutt málið.

Vonandi mun þessi nýskipan húsnæðismála duga vel til að bæta ófremdarástandið sem ríkt hefur á húsnæðismarkaði, þar sem markaðsöflin hafa bæði orsakað mikið misvægi milli framboðs og eftirspurnar og gert húsnæðisöflun alltof dýra fyrir of stóran hóp fjölskyldna, ekki síst fyrir ungt fólk.

Eygló getur því fagnað þessum sigri yfir Sjálfstæðismönnum. Það getur almenningur líka.

Þeir sem ekki fagna eru sérhagsmunaöflin sem Sjálfstæðismenn ætluðu að fóðra.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar