Ég held að það hafi verið sterkur leikur hjá Samfylkingunni að kjósa Oddnýju Harðardóttur sem nýjan formann.
Oddný er enginn spjaldagosi, sem er bólginn af innistæðulausu sjálftrausti og yfirborðsmennsku.
Nei, hún virðist frekar vera traustvekjandi og málefnalegur vinnuþjarkur. Og hún er alvöru jafnaðarmaður. Það hefur hún sýnt.
Á okkar tíma ríkir mikið vantraust á stjórnmálum og stjórnmálamönnum. Þannig hefur það verið frá hruni og lítið batnað.
Birting Panama-skjalanna ýfði upp vantraustið á ný, þegar sást inn í völunarhús spillingarinnar og óréttlætið sem fylgir forréttindum yfirstéttarinnar, sem byggðust upp á frjálshyggjutímanum.
Þess vegna er mikilvægara en áður að fá traustvekjandi fólk í forystu.
Erindi klassískrar jafnaðarstefnu
Ísland er mest alríkustu löndum heims, en samt eru kjör alltof margra Íslendinga ófullnægjandi. Yfirstéttin hefur víða á Vesturlöndum verið í mikilli sókn og tekið til sín sífellt stærri hluta þjóðarkökunnar og auðlindanna. Líka hér.
Eftir situr almenningur, milli og lægri tekjuhóparnir.
Það er því mikil þörf fyrir öfluga jafnaðarstefnu í íslenskum stjórnmálum.
Vestrænir jafnaðarmannaflokkar sem hafa færst um of til hægri hafa víðast misst fylgi. Þeir ættu að rifja upp erindisbréf sín og fylgja hjartanu, áður en það verður of seint.
Almenningur þarf ákveðna og sterka talsmenn, sem berjast fyrir almannahag og réttlátara samfélagi – og gegn sérhyggju og sérhagsmunum ójafnaðaraflanna.
Óheft markaðshyggja og Evrópusambandsaðild ættu því að verða meira víkjandi gildi á þessum vettvangi, en ekki ráðandi, eins og um of hefur verið á vettvangi Samfylkingarinnar.
Nýsköpun í anda réttlátara samfélags ætti að verða helsta leiðarstefið.
Oddný Harðardóttir getur stuðlað að því að Samfylkingin nái vopnum sínum á ný, ef hún vinnur vel og ræktar hina klassísku jafnaðarstefnu.
Það er stefnan sem skapaði bestu samfélög jarðarinnar – norrænu velferðarríkin.
Fyrri pistlar