Guðni Th. Jóhannesson er eini frambjóðandinn sem er með góðan stuðning í öllum þjóðfélagshópum.
Hann hefur því bestu forsendurnar til að verða forseti allra.
Sameiningartákn, eins og Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir.
Óhætt er að óska Guðna til hamingju með prúðmannlega framkomu hans í kosningabaráttunni, þrátt fyrir að hart hafi verið sótt að honum, oft með ósanngjörnum og jafnvel ósvífnum hætti.
Samt hefur hann haldið ró sinni og forðast að láta etja sér út á foraðið.
Guðni er með mikla þekkingu á sögu forsetanna og stjórnmálanna. Hann býr einnig að öðrum ágætum mannkostum sem vel munu nýtast á Bessastöðum.
Ég ætla því að kjósa Guðna á morgun.
Ég hrífst þó einnig af Andra Snæ. Hann er með áhugaverðar hugsjónir og sterka framtíðarsýn.
Hann á skilið að fá góða kosningu.
Halla Tómasdóttir hefur sótt á, þrátt fyrir að hafa haft náin tengsl við Viðskiptaráð á þeim árum er peningaöflin keyrðu samfélagið fyrir björg. Hún kemur ágætlega fyrir, segist hafa lært sína lexíu og vilji nú bæta samfélagið með auknu réttlæti.
Sturla Jónsson hefur einnig sótt á og kemur mun betur fyrir en áður. Hann er líklega ákveðnasti talsmaður réttlætis í hópi frambjóðenda.
En morgundagurinn verður dagur Guðna.
Og það er vel.
Fyrri pistlar