Hvað getur maður sagt um árangur strákanna í Nice?!
Þeir voru frábærir, einfaldlega betri en Englendingar.
Það er ótrúlegt að verða vitni að þessum góðu sigrum okkar manna á EM.
Stórkostleg skemmtun.
Samstaða og fagmennska eru trúlega lyklarnir að þessum árangri.
Bretar segja að þjálfari þeirra sé með nærri 700 milljónir króna í laun – en að þjálfari Íslands sé tannlæknir í hlutastarfi! Hann og Lagerbäck hafa væntanlega bara brot af launum þess enska.
Og þá á eftir að bera saman laun bresku landsliðsmannanna við laun þeirra íslensku. Þar munar verulegu.
Rooney er með 50 milljónir á viku, 2600 milljónir á ári. Einhver álitsgjafi sagði á SKY fréttastöðinni að Rooney hefði eytt meiru í hárkollu sína en næmi launum alls íslenska landsliðsins! Sel það ekki dýrar en ég keypti…
Það eru sem sagt ekki launin sem ráða úrslitum!
Ekki heldur fólksfjöldi. Við erum 330 þúsund en Englendingar eru 51 milljón! Englendingar hafa því ævintýralega yfirburði í fjölda leikmanna sem þeir geta valið úr.
Líkindin eru þannig öll gegn okkur – í meira lagi. Ævintýrið sjálft er ævintýralegt!
Lars og tannlæknirinn hafa unnið frábært starf og strákarnir gefa allt sem þeir eiga í leikina.
Vonandi gengur þeim vel gegn Frakklandi…
Fyrri pistlar