Árlegt uppgjör ríkisskattstjóra, þegar álagningu er lokið, gefur oft góða mynd af framvindu skattgreiðslna og velferðarbóta á síðastliðnu ári.
Um daginn birti fjármálaráðuneytið yfirlit um þróun helstu liða skatta og bóta frá 2014 til 2015 (sjá hér).
Niðurstöðurnar eru í megindráttum þessar:
- Velferðarbætur til heimila (vaxta- og barnabætur, sem einkum fara til barnafjölskyldna) rýrna verulega.
- Skattbyrði almennra heimila eykst umtalsvert, vegna rýrnunar persónuafsláttar. Menn greiða nú tekjuskatt af stærri hluta tekna sinna en áður.
- Skattbyrði fjármagnstekna eykst minna, en það hlífir hátekju- og stóreignafólki, sem eru helstu þiggjendur fjármagnstekna.
Hér eru nokkrar tölur úr yfirliti fjármálaráðuneytisins um þessi mál:
- Álagður tekjuskattur heimila hækkar umfram hækkun launavísitölu (þ.e. um 14,3% á meðan hækkun launavísitölunnar var 7,2% og hækkun tekjuskattstofns var 7,4%).
- Þeim sem greiða tekjuskatt fjölgar um 7,3% þó framteljendum í heild fjölgi aðeins um 2,1%. Fleiri eru sem sagt fangaðir í tekjuskattsnetið og almenn tekjuskattbyrði eykst.
- Ráðuneytið segir það vera vegna óvenju lítillar hækkunar persónuafsláttar. Hann fylgir aðeins verðlagi núna, en þarf alltaf að fylgja launahækkunum ef ekki er stefnt að aukinni skattbyrði.
- Gjaldendum fjármagnstekjuskatts fjölgar einungis um 1,1% og álagning á fjármagnstekjur hækkar aðeins um 6,6% (á móti 14,3% hækkun tekjuskatts á heimilin almennt).
- Samt jukust arðgreiðslur (sem eru stærsti liður fjármagnstekna þetta árið) um 18% frá fyrra ári. Það er einkum hátekju- og stóreignafólk sem fær arð og fjármagnstekjur almennt (sjá einnig hér).
- Fjármagnstekjur til hátekju- og stóreignafólks hafa aukist talsvert umfram almenn laun frá 2012 til 2015.
- Þeim sem fá barnabætur fækkar um 7,4%, vegna þess að viðmið barnabótanna hækka ekki í takt við launin. Heildargreiðslur til barnafjölskyldna lækka.
- Vaxtabætur lækkuðu um 25% á árinu 2015 og þeim sem þær fá fækkaði um 21%. Það er mikill samdráttur á alla mælikvarða.
- Vaxtabætur hafa rýrnar verulega (um meira en 40%) frá árinu 2013. Þessi rýrnun er vegna þess að viðmið vaxtabótakerfisins voru hækkuð of lítið. Stuðningur þess við ungar fjölskyldur er nú veikari en áður.
- Í fjármálaáætlun til næstu 5 ára boðar fjármálaráðherra að draga enn frekar úr barna- og vaxtabótum og auka tekjutengingar þeirra, svo þessir bótaflokkar verða þá væntanlega einungis fátækrastyrkir, en ekki almennur stuðningur við ungt fjölskyldufólk.
Ég geri ráð fyrir að þingmönnum og ráðherrum Framsóknarflokksins sé þessi þróun ekki beinlínis að skapi.
Félags- og húsnæðismálaráðherra Framsóknar hefur nýlega lagt fram ný frumvörp um húsnæðismál sem miða að bættum hag húsnæðiskaupenda og leigjenda. Þar er sem sagt öndverð stefna (en þó er enn óvíst hversu mikið fé fæst í nýju húsnæðisbæturnar).
Það er stefna Sjálfstæðismanna í fjármálaráðuneytinu sem ræður mestu um mótun og dreifingu skattbyrðarinnar og um upphæðir barna- og vaxtabóta til heimilanna.
Laun hækkuðu og fólk fékk skuldaleiðréttingu upp á 80 milljarða og greiddi til viðbótar sjálft niður skuldir sínar um 13 milljarða með eigin séreignasparnaði á árinu 2015.
Þeirri þróun var svo mætt með hærri tekjuskattbyrði og lækkun vaxtabóta.
Það rýrir kjarabæturnar sem fylgdu ágætum kauphækkunum og skuldaleiðréttingunni.
Fyrri pistlar