Fréttir af ofurbónusum stjórnenda og starfsmanna þrotabúa föllnu bankanna vekja enn á ný mikla athygli.
Nær öllum er gróflega misboðið.
Mest afgerandi viðbrögð, enn sem komið er, voru frá Þorsteini Sæmundssyni þingmanni Framsóknar, á Alþingi í dag.
Hann vill skattleggja þessa óheyrilegu bónusa með 90-98% álagningu.
Mér sýnist það ágæt hugmynd.
Ofursköttun er viðeigandi þegar ofurbónusar eru greiddir.
Fjármálageirinn og ýmsir aðrir í yfirstéttinni hafa fyrir löngu sýnt að þeir svífast einskis í græðgi sinni og sjálftöku.
Því þarf að taka fast á slíkum málum, ef við ætlum ekki að sleppa fjármálaelítunni og græðgi hennar lausri á ný.
Síðast þegar það gerðist setti fjármálaelítan samfélagið á hliðina og olli saklausum almenningi verulegu tjóni.
Jafnvel Bandaríkjamenn hafa ofurskattað hæstu tekjur
Slík ofurskattlagning, eins og Þorsteinn Sæmundsson nefnir, er hreint ekki án fordæma.
Allra hæstu tekjur voru til dæmis skattlagðar með meira en 90% álagningu í Bandaríkjunum í nærri 20 ár, eða frá árum seinni heimsstyrjaldarinnar og fram til um 1963.
Þetta má sjá á myndinni hér að neðan (hún sýnir hæstu álagningu í tekjuskatti einstaklinga, frá 1913 til 2014).
Þetta gerðu Bandaríkjamenn til að greiða fyrir kostnaðinn af Kreppunni miklu og seinni heimsstyrjöldinni.
Við eigum enn eftir að bæta margvíslegt tjón sem hlaust af fjármálahruninu 2008.
Við eigum líka eftir að siða fjármálageirann.
Síðasti pistill: Eygló stendur vaktina
Fyrri pistlar