Miðvikudagur 14.09.2016 - 08:07 - FB ummæli ()

Vigdís leikur Víglund!

Skýrsla hins svokallaða “meirihluta fjárlaganefndar Alþingis”, um það sem kallað er „Einkavæðing bankanna hin síðari“, virðist vera hinn mesti farsi.

Höfundur er leyndur, en virðist vera Vigdís Hauksdóttir, sem hefur notið aðstoðar Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Þau hjúin eru í forystu fjárlaganefndar Alþingis.

Fyrir það fyrsta var endurreisn bankanna eftir hrun ekki „einkavæðing“ í venjulegri merkingu orðsins. Sömuleiðis er samningurinn um stöðugleikaframlög ekki „þjóðnýting bankanna“, í venjulegri merkingu.

Samhengi málsins er þannig afbakað strax í heiti skýrslunnar.

Vígdís hefur lengi boðað miklar nýjar uppljóstranir um meint mistök og jafnvel lögbrot eða föðurlandssvik við endurreisn fjármálakerfisins eftir hrun. Menn biðu spenntir.

Nú þegar þessi skýrsla er birt þá virðist hún lítið annað en sundurlausar endurtekningar á ásökunum Víglundar Þorsteinssonar, fyrrverandi eiganda Steypustöðvarinnar BM Vallá.

Ásakanir hans hafa komið fram með formlegum hætti að minnsta kosti þrisvar sinnum áður. Þeim hefur jafn harðan verið hafnað með ítarlegum efnisrökum (sjá umfjöllun Kjarnans um það hér).

Bæði embættismenn sem að málinu komu og þar til bærar opinberar stofnanir hafa upplýst um alla málavexti með þeim hætti að ekkert af þessum harkalegu og meiðandi ásökunum fær staðist.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem fór ítarlega ofan í málið allt og gerði úttekt á því fyrir stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd þingsins, var einnig búinn að hafna þessum málatilbúnaði, með skýrslu sinni.

Brynjar verður varla sakaður um að vilja sérstaklega verja pólitíska andstæðinga sína í þessu máli!

En finnst mönnum annars líklegt að Steingrímur J. Sigfússon beri svo mikla umhyggju fyrir alþjóðlegum fjármagnseigendum að hann hafi brotið lög og sveigt ákvarðanatöku við erfiða endurreisn fjármálakerfisins til að bæta sérstaklega hag hins erlenda auðvalds?

Finnst mönnum líklegt að Steingrímur hafi sem fjármálaráðherra getað fengið mikinn fjölda embættismanna og ráðgjafa til að fylgja sér í slíkri ferð – og að þeir hafi þagað um meint brot hans?

Þetta er ekki aðeins ólíklegt í meira lagi heldur hefur enginn sýnt fram á neitt slíkt, hvorki Víglundur né Vigdís.

Skýrslan er sem sagt ódýrt pólitískt áróðursplagg, sem miðar einkum að því að ófrægja pólitíska andstæðinga Vigdísar og Guðlaugs – á einstaklega ósmekklegan hátt.

Að auki virðast vinnubrögðin við skýrslugerðina og notkun aðstandenda á nafni fjárlaganefndar Alþingis vera í bága við eðlileg vinnubrögð og starfshætti þingsins.

Inntak þessa nýja máls er því lítið annað en það, að Vigdís Hauksdóttir bregður sér í hlutverk Víglundar Þorsteinssonar og endurtekur hinar misheppnuðu leiksýningar hans.

Þær leiksýningar áttu sér skiljanlegar skýringar (sjá hér).

Erfiðara er hins vegar að skilja Vigdísi – eins og stundum áður.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar