Þriðjudagur 18.10.2016 - 13:01 - FB ummæli ()

Á Viðskiptaráð að stýra stjórnvöldum?

Viðskiptaráð slær aldrei af í hagsmunabaráttu sinni í þágu atvinnurekenda og fjárfesta.

Þeir eru ásamt Samtökum atvinnulífsins (SA) öflugustu talsmenn nýfrjálshyggju og forréttinda fyrir ríkasta eina prósentið á Íslandi.

Þessir aðilar senda nánast vikulega frá sér síbyljuáróður um eigin hagsmuni og stefnu, sem þeir vilja að stjórnmálamenn þjóni.

Viðskiptaráð vill sem sagt fá að stjórna réttkjörnum stjórnvöldum!

Þeir amast t.d. endalaust við velferðarríkinu, sem almenningur kann að meta og vill gjarnan efla.

 

Ýkjur allt um kring

Nú þykjast þeir hafa metið kostnaðinn við þau kosningaloforð sem fram hafa komið fyrir kosningarnar og boða að allt fari norður og niður ef loforðin yrðu hugsanlega efnd (sjá hér).

Þessir útreikningar Viðskiptaráðs eru raunar verulega ýktir.

Til dæmis segja þeir að hækkun lífeyrislágmarks fyrir einhleypa (eins og lofað er – og raunar hefur þegar verið efnt af sitjandi ríkisstjórn) muni kosta 25 milljarða.

Mat ríkisstjórnarinnar er hins vegar að það muni einungis kosta um 5 milljarða! Þar að auki á það ekki að vera að fullu komið til framkvæmda fyrr en árið 2018. Hóflegt loforð það…

Það sama á enn frekar við um útreikninga Viðskiptaráðs á kostnaði við umræddar umbætur í heilbrigðismálum.

Ýkjurnar eru allt um kring!

Þar horfa þeir einnig framhjá því að stór hluti væntanlegs kostnaðar við nýbyggingar Landsspítalans er að mestu einskiptiskostnaður.

Geta ríkisins til að mæta slíkum einskiptiskostnaði er einstaklega góð núna. Þar má til dæmis byggja á stöðugleikaframlögum kröfuhafa föllnu bankanna og einnig mun ríkið væntanlega hafa mikið fé til ráðstöfunar á næstunni vegna eignasölu.

Það fé sem verður tiltækt til umbóta og framfara fyrir almenning í landinu telur í hundruðum milljarða á allra næstu árum.

Svo mætti líka hugsa sér að hækka lítillega skatta á meðlimi Viðskiptaráðs, til dæmis með því að fella niður fáránlegan afslátt ferðaþjónustunnar á virðisaukaskatti.

Og svo er rík ástæða til að þjóðin fái alvöru auðlindarentu af fénýtanlegum náttúruauðlindum sínum, bæði til lands og sjávar.

Það eru því veruleg sóknarfæri fyrir þá sem vilja bæta hag almennings á Íslandi um þessar mundir.

Menn eiga ekki að láta síbyljuraus peningaaflanna í Viðskiptaráði hafa áhrif á framkvæmd lýðræðisins.

 

Síðasti pistill:  Eignaskiptingin á Íslandi – lök staða lægri og milli hópa

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar