Frá hruni hafa orðið miklar sviftingar í íslenskum stjórnmálum.
Fram að hruni hafði nýfrjálshyggja Sjálfstæðisflokksins verið við völd, í minnst þrjú kjörtímabil samfleytt. Framsóknarflokkurinn tók við henni nánast gagnrýnilaust á þeim tíma.
Flestir tengdu hrunið við þessi nýfrjálshyggjuáhrif, óhefta markaðshyggju og afskiptaleysisstefnu ríkisvaldsins (sjá hér).
Strax í kjölfar hrunsins varð mikil sveifla til vinstri, sem var rökrétt ef menn vildu hafna nýfrjálshyggjunni. Það var ekki síst VG sem naut þeirrar sveiflu og fékk 21,7% fylgi í kosningunum 2009.
Samfylkingin, sem hafði verið í stjórn með Sjálfstæðisflokki frá 2007, fór lítillega upp, úr um 26,8% í 29,8%. Saman fengu vinstri flokkarnir tveir hreinan meirihluta – í fyrsta sinn í sögunni.
Kreppan var öllum erfið og vinstri stjórnin olli vonbrigðum, þó margt hafi verið vel gert í hennar tíð. Ekki tókst að efna stór loforð, svo sem um nýja stjórnarskrá og umbætur á kvótakerfi (þó var veiðileyfagjaldið hækkað). Icesave málið var hálfgert klúður.
Í kosningunum árið 2013 varð aftur mikil sveifla, einkum til miðjunnar. Fylgi vinstri flokkanna hrundi um meira en helming og Framsókn varð helsti sigurvegari kosninganna, fór úr 14,8% í 24,4%. Sjálfstæðisflokkur bætti lítillega við sig, fór úr 23,7% í 26,7%.
Núverandi ríkisstjórn hefur gert margt vel, eins og vinstri stjórnin, en er harðlega gagnrýnd fyrir að þjóna forréttindahópum samfélagsins um of (hátekjuhópum og útvegsmönnum).
Panamaskjölin sýndu svo að íslenskt efnafólk notar erlend skattaskjól í meiri mæli en almennt er í grannríkjunum. Jafnvel forystumenn stjórnarflokkanna beggja eru þátttakendur í þeim siðlausa leik. Almenningi var misboðið og grasrótin reis upp, eins og í byrjun hrunsins. Því er nú komið að kosningum, áður en kjörtímabilið er liðið.
Kannanir benda til að þriðju kosningarnar í röð stefni enn á ný í mikla sveiflu á fylginu. Nú er sveiflan til vinstri-miðju.
Píratar virðast ætla að fá mun meira fylgi en nýir flokkar hafa áður fengið. Það er merkilegt, en þeir eru skilgetið afkvæmi þess umróts sem einkenndi kreppuna í kjölfar hrunsins.
Ný stjórnarskrá, aukið gagnsæi, lýðræðisumbætur og trygging þess að auðlindir þjóðarinnar nýtist almenningi, en ekki eingöngu sérhagsmunaöflum yfirstéttarinnar, eru hluti af kröfunni um “nýtt Ísland”, sem víða ómaði í kjölfar hrunsins.
Þetta eru kröfur um kerfisumbætur sem aftra því að Ísland fari aftur inn á þá braut sem ríkjandi var hér fram að hruni.
Allt eru þetta mikilvægar áherslur Pírata og skýra mikið fylgi þeirra. VG falla einnig ágætlega að þessum markmiðum, ásamt fleiri stjórnarandstöðuflokkum.
Nýjustu kannanir benda til að hugsanlega geti stjórnarandstöðuflokkarnir fengið hreinan meirihluta á þingi og myndað ríkisstjórn.
Með slíkri stjórnarmyndum má segja að þau uppbyggingarmál eftirhrunstímans, sem vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms tókst ekki að framkvæma, komi kröftuglega á dagskrá á ný. Þetta er möguleiki, en þó ekki í hendi enn.
Nú er einnig mun hagstæðara tíðarfar til að gera umbætur í velferðarmálum, sem þjóðin kallar eftir. Það er því eftirsóknarvert að setjast í stjórn nú, ólíkt því sem var árið 2009.
Er tími Fjórflokksins liðinn?
Aukið umrót og fjölgun nýrra flokka hefur einkennt stjórnmálin frá hruni. Sveiflur hafa verið meiri en áður og nýir flokkar náð brautargengi, jafnvel fordæmalausu brautargengi eins og Píratar. Þeir hafa yfirburðafylgi hjá yngri kjósendum, sem eru óbundnari hefðbundnum stjórnmálum en eldri kjósendur.
Á liðnum árum hafa menn oft spyrt klassísku stjórnmálaflokkana saman, undir samheitinu Fjórflokkurinn. Þetta hefur iðulega verið tengt gagnrýni á hefðbundin stjórnmál á Íslandi, einkum fyrirgreiðslu og aðstöðubrask, sem erlendis er kallað spilling.
Sennilega var Vilmundur Gylfason einn helsti frumkvöðull slíkrar gagnrýni, um og upp úr 1980. Hann stofnaði síðan Bandalag jafnaðarmanna til höfuðs Fjórflokknum fyrir kosningar árið 1983.
Allar götur síðan hafa margir spáð Fjórflokknum óförum. Slíkar raddir voru einnig algengar eftir hrun.
Og nú virðist sem fjara muni enn meira undan Fjórflokknum en áður (þ.e. hefðbundnu stjórnmálaflokkunum með lengstu söguna). Þetta má sjá á myndinni hér að neðan. Það er auðvitað fylgi Pírata sem er vendipunkturinn nú – en þó ekki eingöngu.
Myndin sýnir samanlagt fylgi fjór-flokkanna (heila línan) og samanlagt fylgi allra annarra flokka eða framboða (Heimildir: Hagstofan og könnun Félagsvísindastofnun).
Ef marka má nýjustu kannanir gæti útkoman í kosningunum orðið sú, að þrír hefðbundnir flokkar fái minna fylgi en nokkrum sinnum fyrr í sögu lýðveldisins. Það eru Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin/Alþýðuflokkurinn. Það væru stór tíðindi.
Eins og sjá má á myndinni gæti Fjórflokkurinn fengið um 55% atkvæða (miðað við nýjustu könnun Félagsvísindastofnunar) og aðrir flokkar um 45%. Fjórflokkurinn hefur aldrei áður fengið minna en 75% og aðrir flokkar hafa áður fengið mest um 25% atkvæða samanlagt.
Þetta er því óvenju mikil sveifla sem nú stefnir í, fyrir Fjórflokkinn sem heild (þó vafasamt sé að tala um þessa fjóra flokka sem eina fylkingu).
Ný framboð náðu áður mestum árangri í kosningunum 1987 og 2013 (um 25% atkvæða samanlagt). Árið 1987 var ástæðan klofningur í Sjálfstæðisflokknum (Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar fékk um 10%) og vaxandi staða Kvennalistans, sem fékk einnig um 10% atkvæða.
Í kosningum 2013 var óvenju mikið framboð nýrra flokka (Björt framtíð og Píratar náðu inn þingmönnum) og fjöldi smáflokka náði ekki 5% lágmarkinu til að koma mönnum á þing.
Við getum því sagt að í kosningum sem orðið hafa eftir hrun hafa orðið óvenju miklar sveiflur á fylgi flokka.
Og nú virðist stefna í fordæmalausan árangur nýs framboðs Pírata. Viðreisn, sem er klofningur úr Sjálfstæðisflokki, gæti að auki fengið álíka mikið og ný framboð hafa hvað mest fengið áður, eða um 10%. Það skemmir fyrir Sjálfstæðisflokki. Píratar taka einkum frá öðrum stjórnarandstöðuflokkum.
En Vinstri-Græn stefna líka í afar góða kosningu. Þeir eru jú hluti Fjórflokksins!
Fjórflokkurinn á klárlega í vök að verjast, en hann er þó ekki dauður úr öllum æðum. Gamlir flokkar geta líka átt endurkomu, eins og Framsókn gerði eftirminnilega í síðustu kosningum.
Sveiflur á fylginu sýna hins vegar öðru fremur að kjósendur eru kröfuharðir og óvenju dómharðir á frammistöðu stjórnvalda. Þeir vilja að stjórnmálin þjóni almannahag en ekki sérhagsmunum forréttindahópa og yfirstéttar.
Hefðbundnir flokkar ættu auðvitað að geta svarað kröfum kjósenda þegar þeir eru í ríkisstjórn – og haldið lífi.
Ef ekki, taka nýir flokkar við.
Miklar sveiflur og fjölgun flokka þýðir líka að öðru jöfnu, að fleiri flokkar verða í stjórn hverju sinni.
Við gætum til dæmis fengið fjögurra flokka stjórn eftir kosningar – sem þarf ekki að vera vandamál, ef menn vanda sig og standa saman.
Niðurstaða
Sveiflur og umrót er mjög vaxandi í íslenska flokkakerfinu. Það eru breytingar sem jukust sérstaklega í kjölfar hrunsins.
Hvort slíkar breytingar verða þjóðinni til góðs eða ills ræðst af vinnubrögðum og árangri þegar á reynir í stjórnarsamstarfi.
Fyrri pistlar