Menn velta nú fyrir sér mögulegum stjórnarmynstrum.
Kannanir hafa bent til að hugsanlega nái stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir nægum meirihluta – og þeir ræða það sín á milli. Það er þó ekki í hendi enn.
Þá kemur allt í einu upp þessi pólitíski ómöguleiki, sem er krafa Pírata um stutt kjörtímabil og höfuðfókus á setningu nýrrar stjórnarskrár.
Það er ekki efst á lista kjósenda og varla geta hinir andstöðuflokkarnir samþykkt það, þó þeir hafi mikinn áhuga á stjórnarskrárumbótum.
Annað hvort víkja Píratar frá þessari fráleitu kröfu eða sá stjórnarmöguleiki fer út af borðinu. Væri það gott fyrir framgang umbóta á stjórnarskránni og önnur áhugamál Pírata?
Til að koma fram umbótum á grunni tillagna stjórnlagaráðs þarf vönduð vinnubrögð með samstarfi allra flokka, nema helst Sjálfstæðisflokksins (sem hefur engan áhuga á slíku).
Það þýðir að framgangur stjórnarskrárbreytinga kallar á samstarf stjórnarandstöðunnar við Framsókn og Viðreisn. Menn þurfa helst að tryggja að stjórnarskrárbreytingar lifi af tvennar kosningar – annars kunna þær að verða til einskis.
Í þessu samhengi er mikilvægt að menn átti sig á að stjórnarskrárbreytingar eru ekkert smámál sem tekur örfáa mánuði. Ekki dugir að ljósrita tillögur stjórnlagaráðs og greiða atkvæði um þær. Vinna þarf með þær og útfæra vandlega, með aðstoð sérfræðinga. Ná nægri samstöðu.
Óraunsæ tímapressa og einstrengingur eru ekki sérlega skapandi innlegg í þá vinnu.
Stjórnarmyndun og samstarf þarf að vanda. Flaustur og ringulreið skila engu nema vonbrigðum.
Þess vegna ættu stjórnarandstöðuflokkarnir að hafa Framsókn og Viðreisn einnig inni í kortlagningu sinni á pólitískum möguleikum.
Samstarf við Framsókn í velferðarmálum og umhverfismálum landsbyggðar getur verið mikilvægt og farsælt. Viðreisn hefur reifað vilja til alvöru umbóta í sjávarútvegsmálum – svo nokkuð sé nefnt.
Allt getur þetta fallið vel að mikilvægum markmiðum stjórnarandstöðuflokkanna. Menn fá þó sjaldan allt sem er á óskalistanum.
Umbótastjórn verður varla mynduð ef pólitískir ómöguleikar eru settir í forgang!
Pólitík er list hins mögulega.
Fyrri pistlar