Niðurstaða kosninganna í gær var nokkuð tvíátta.
Lítum fyrst á hvernig sveiflan á fylgi var hjá þeim sem komust á þing, á myndinni hér að neðan. Hún sýnir breytingar á fylgi þingflokkanna, í prósentustigum.
Viðreisn bætti mestu við sig, fór úr 0 í 10,5%. Píratar bættu næstmestu við sig, eða um 9,4 %-stigum (úr 5,1% í 14,4%). VG eru með þriðju stærstu sveifluna, 5 %-stig (þau fóru úr 10,9% í 15,9%) og svo kemur Sjálfstæðisflokkur sem bætti við sig 2,3 %-stigum (fór úr 26,7% í 29,0%).
Sjálfstæðisflokkur er stærstur, en samt er fylgi hans nú það fjórða minnsta í sögu hans.
Aðrir töpuðu fylgi. Framsókn tapaði mestu, eða 12,9 %-stigum (fór úr 24,4% í 11,5%), svo kom Samfylkingin sem tapaði 7,2 % stigum (úr 12,9% í 5,7%) og þá Björt framtíð sem tapaði 1,0 %-stigi (úr 8,2% í 7,2%).
Ef sveiflan er það sem mestu máli skiptir þá eru Viðreisn og Píratar helstu sigurvegarar kosninganna – og svo VG. Ef stærðin ein skiptir máli er Sjálfstæðisflokkurinn sigurvegarinn.
Er þetta sveifla til hægri, vinstri eða á miðjuna?
Ef við skilgreinum Viðreisn sem hægri flokk og Pírata sem vinstri flokk þá er sveiflan um tæp 13 %-stig til hægri. Miðjan tapar nærri 14 %-stigum (Framsókn og Björt framtíð samtals).
Á vinstri vængnum er jákvæð sveifla til Pírata og VG um 14,4 %-stig, en ef við drögum tap Samfylkingarinnar frá því þá er nettósveifla til vinstri um 7,2 %-stig.
Á heildina litið er sveiflan til hægri því stærri en vinstri sveiflan.
Ef við hins vegar teljum bæði Viðreisn og Pírata sem miðjuflokka þá er einungis um 2,3 %-stiga sveifla til hægri, 6,1 %-stiga sveifla til miðjunnar og um 2,2 %-stiga sveifla frá vinstri.
Fleiri rök eru þó fyrir því að telja Viðreisn hægri flokk (hún kemur mest úr Sjálfstæðisflokki og frá Samtökum atvinnurekenda). Pírata er réttara að telja vinstri flokk (þeir vilja ekki starfa með Sjálfstæðisflokki, heldur með vinstri flokkum; stefnan er meira til vinstri).
Þetta eru þannig nokkuð tvíátta úrslit: sveifla bæði til hægri og vinstri, en frá miðjunni (einkum frá Framsókn).
Í kosningunum 2009 var veruleg sveifla til vinstri. Svo var það sveifla yfir á miðjuna (Framsókn) í kosningunum 2013 og nú er sveifla frá miðjunni til bæði hægri og vinstri – meira þó til hægri.
Verður hægri blokkin allsráðandi í næstu ríkisstjórn?
Ætla má að Viðreisn vilji öðru fremur starfa með Sjálfstæðisflokki. Viðreisnarfólk er jú mest Sjálfstæðismenn, sem fóru í fýlu vegna meðferðar flokksins á Evrópuumsókninni. Stóra spurningin er hverja aðra þeir gætu fengið með sér, því þess er þörf? Björt framtíð og Framsókn koma helst til greina.
Með samstarfi Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks væri hægri blokkin í íslenskum stjórnmálum orðin mun sterkari en var á síðasta kjörtímabili. Þar var Framsókn með afar sterka stöðu og hélt að nokkru leyti aftur af nýfrjálshyggjuleitni Sjálfstæðisflokksins og þrýsti á um velferðarumbætur – oft í andstöðu við Sfl.
Ef Björt framtíð fer með Sjálfstæðisflokki og Viðreisn væri það mjög veik stjórn, með minnsta meirihluta (alls 32 þingmenn á móti 31). Það gæti þó gengið, ef Björt framtíð verður mjög hlýðin.
Þriðja hjólið undir vagn Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar mun þó ekki hafa sterka stöðu til að sveigja hægri öflin af leið og milda áhrif sterkrar hægri stefnu (t.d. í einkavæðingu, skattalækkunum til efnastétta o.s.frv.). Sérstaklega ekki ef það væri jafn veikt afl og Björt framtíð er.
Hægri áhrifin yrðu sem sagt afar sterk í slíkri stjórn (Sfl.+Vr.+Bf.).
Eina vonin til að hægt væri að halda aftur af hægri öflunum á þingi og í ríkisstjórn væri hins vegar að VG og Björt framtíð tækju höndum saman og störfuðu með Sjálfstæðisflokki – ef hann fengist til þess (þá er ég að gefa mér að stjórnarandstaðan og Viðreisn í 5 flokka stjórn muni alls ekki ganga eftir).
Slík stjórn (Sfl.+VG+Bf.) hefði stærri meirihluta (35 þingmenn).
Það væri stjórn með mun meira jafnvægi yfir miðjuna en ef Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn færu saman – með einhverju þriðja hjólinu. Eiginlega „þjóðarsáttarstjórn“.
Slík stjórn gæti sett ESB-umsóknina á ís, enda ætlar ESB ekki að taka við nýjum meðlimaríkjum næstu 4-5 árin.
Talsverð andstaða er innan VG við samstarf við Sfl. – en það gæti komið til greina í annarri umferð tilrauna til stjórnarmyndunar!
Ég spái því hins vegar að Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn muni fljótlega tengja sig saman og leita að ódýrri hækju til að ná meirihluta.
Stærstu og valdamestu hagsmunirnir á Íslandi liggja í atvinnulífinu. Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn eru nátengd þeim hagsmunum. Framsókn tengist þeim þó líka, en hún þykir of sködduð vegna innanflokksátakanna (og Viðreisn hefur hafnað því að ganga inn í núverandi stjórn). Það gæti líka breyst í annarri umferð!
Hægri öflin eiga nú meiri möguleika á pólitískum áhrifum en nokkru sinnum fyrr frá hruni.
Tilkoma Viðreisnar sem hjáleigu Sjálfstæðisflokksins gerir það að verkum – og auðvitað úrslit kosninganna, með þeirri hægri sveiflu sem þar varð.
Fyrri pistlar