Þrátt fyrir að margir tölfræðilegir möguleikar séu á myndun meirihlutastjórnar 3ja til 5 flokka þá standa hugmyndafræðilegar andstæður og jafnvel fordómar í vegi margra samstarfsmöguleika.
Niðurstaða kosninganna var í senn sveifla til hægri (Viðreisn og Sfl.) og til vinstri (Píratar og VG).
Ekki væri óeðlilegt að stjórnarmyndun tæki mið af því. Hægri vængurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn (með aðstoð BF), hefur þegar reynt tvisvar og fer nú hugsanlega í þriðju tilraunina.
Úr því yrði mesta hægri stjórn lýðveldissögunnar á Íslandi – réttnefnd “Engeyjarstjórn”.
Hins vegar er kosturinn á mið-vinstri stjórn fimm flokka, sem Viðreisn blés af í síðustu viku, án þess að fullreynt væri á málefnasamstöðu.
Það yrði þó í reynd ekki nema fjögurra flokka stjórn, því líta má á Viðreisn og Bjarta framtíð sem einn flokk. En það er aukaatriði, hvort við köllum hana fjögurra eða fimm flokka stjórn.
Hverjar eru horfurnar?
Það verður áfram erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að gleypa samstarf með Viðreisn og BF sem skilar þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald aðildarviðræðna við ESB á kjörtímabilinu og uppboði á 3% kvótans á hverju ári (sem í reynd eru bæði upphaflega stefnumál Samfylkingarinnar).
Hið sama á við um aukna markaðsvæðingu í landbúnaði (óheftari innflutning landbúnaðarvara, sem myndi grafa undan veikri bændastétt – og minnka fylgi Sjálfstæðisflokksins á landsbyggðinni).
Það yrði kræsileg saga til næsta bæjar ef Viðreisn tækist að þvinga þessa stefnu Samfylkingarinnar uppá Sjálfstæðisflokkinn – einmitt núna!
Og það yrði ekki minna magnað ef Viðreisn myndi hlaupa frá þessum höfuðmálum sínum til að komast í faðm Sjálfstæðisflokksins!
Í þessum ómöguleika liggur möguleikinn á 4-5 flokka stjórninni.
Inn í það dæmi vantar hins vegar einhvern nýjan hvata sem gerir slíkt samstarf fýsilegra fyrir Viðreisn en það var í síðustu viku.
VG menn gætu til dæmis boðið Viðreisn og BF að fá forsætisráðherraembættið í slíkri stjórn. Viðreisn og BF væru jú stærsta einingin í þeirri stjórn (11 þingmenn á móti 10 VG-mönnum), ef við gerum ráð fyrir áframhaldandi tvíburasamstarfi þeirra, sem virðist frágengið.
Þessi leið gæti verið einhvers virði fyrir bættan samstarfsvilja Viðreisnar gagnvart VG, Pírötum og Samfylkingu.
Kanski menn ættu að reyna aftur við þann kost á nýjum forsendum?
Svo eru líka fleiri óreyndir kostir, ef sveigjanleiki er fyrir hendi, eins og ég hef áður bent á (t.d. hér).
Þegar pólitískur ómöguleiki hefur skotið rótum þurfa menn að plægja moldina aftur og rækta nýja möguleika.
Leiðarljósið ætti að vera þetta: Allt er betra en „Engeyjarstjórn“!
Fyrri pistlar