Miðvikudagur 07.12.2016 - 12:28 - FB ummæli ()

Vegið að dómara úr launsátri

Fréttir um meint vanhæfi forseta hæstaréttar, Markúsar Sigurbjörnssonar, til að dæma í málum er tengjast Glitni banka hafa vakið mikla athygli og umræðu.

Málið kom upp vegna þess að einhver lak gögnum um hlutabréfaeign nokkurra dómara til fjölmiðla. Gögnin eru sögð koma frá slitanefnd Glitnis.

Fyrrverandi formaður slitanefndarinnar segir hins vegar að slitanefndin hafi ekki séð þessi gögn – og því væntanlega ekki getað lekið þeim.

Sá sem lak gögnunum virðist hafa hagað framsetningu þeirra með þeim hætti að þau beindust sérstaklega að Markúsi Sigurbjörnssyni. Enda var uppsláttur þeirra fjölmiðla sem gögnin fengu með sama hætti í byrjun.

Þetta hefur á sér sterkan svip leka úr launsátri, sem miðar að því að sverta mannorð og störf tiltekins einstaklings.

Þar sem um er að ræða fyrrverandi forseta hæstaréttar er þetta sérstaklega viðkvæm gagnrýni á réttinn og raunar á dómskerfi landsins – það er ef rétt væri að ekki hafi verið gætt hlutleysis og hlutlægni í starfi hæstaréttar í tilteknum málum er tengjast hruninu.

En því fer hins vegar fjarri að með þessum dularfulla leka hafi verið sýnt fram á einhverja misbresti eða tilefni til að draga fagleg vinnubrögð viðkomandi dómara í efa. Sjá ágæta umfjöllun Sigurðar Tómasar Magnússonar prófessors um það hér.

Forseti hæstaréttar virðist einnig hafa allt sitt á hreinu varðandi lögbundna tilkynningarskyldu um eigin hagsmuni er þessu tengjast.

 

Hvaðan kom lekinn og frá hverjum?

Eðlilega birta fjölmiðlar slíkar upplýsingar sem þeim eru réttar. Ekki er hægt að amast við því. Við viljum öll að mikilvæg störf opinberra aðila standist skoðun ef grunur vaknar um mistök eða misferli. Það gildir einnig um aðila í einkageiranum.

En hér var enginn rökstuddur grunur um hagsmunatengd mistök eða misferli á ferð hjá viðkomandi aðilum, áður en til lekans kom.

Því ber að taka þetta mál alvarlega sem tilraun til að grafa undan stöðu hæstaréttar og dómkerfisins alls. Málið snýst um traust á dómstólum.

Mikilvægt er að rannsakað verði hvernig þessi leki og þessi vafasami málatilbúnaður er til kominn.

Hvort hann megi til dæmis rekja til persónulegs illvilja gagnvart viðkomandi dómara eða hvort hann kunni að vera frá dæmdum mönnum sem vilja hafa áhrif á starf og stöðu dómstóla. Fleira getur komið til.

Dómstólar eru ekki yfir gagnrýni hafnir, frekar en annað, en slík gagnrýni þarf að byggja á traustum upplýsingum og málefnalegum rökum.

Þar virðist pottur vera brotinn í þessu máli.

Það er hvorki málefnalegt né heiðarlegt að vega að heiðri og störfum nafngreindra einstaklinga með dreifingu innihaldslítilla gagna úr launsátri.

 

Síðasti pistill:  Skapa þarf pólitískan möguleika

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar