VG er næst stærsti stjórnmálaflokkur landsins.
Ef þau ætla ekki beinlínis að hætta í stjórnmálum þá finnst mér að VG-fólk ætti að endurskoða stöðu og markmið sín svolítið.
Það voru mistök að nálgast hina fjóra flokkana ekki meira í viðræðunum um daginn.
VG ætti sennilega að slá af þeim kröfum sem sigldu fimm flokka tilrauninni í strand. Og hinir kanski eitthvað líka. Þetta virðist hafa verið komið vel á veg.
Skilja mátti af umtali að helsta frágangssökin hafi verið mismunandi kröfur um útgjaldaaukningu til velferðarmála. VG hafi viljað fá 25-30 milljarða aukningu útgjalda en hinir boðið um 7 milljarða.
Ef þetta er rétt þá semja menn auðvitað um að mætast á bilinu 10-14 milljarðar.
Sjálfsagt er mögulegt að um 10 milljarða útgjaldaaukning geti borgað sig sjálf með veltuaukningu í hagkerfinu. Þannig hefur það verið undanfarin ár, vegna vaxtar ferðaþjónustu, hærra gengis, launahækkana og aukinnar einkaneyslu.
Í mesta lagi þarf minniháttar skattahækkun á breiðustu bökin, fullan virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna og lítillega hærri veiðileyfagjöld á sjávarútveg til að ná ofangreindum markmiðum.
Svo myndi ríkisstjórnin byggja nýjan Landsspítala fyrir fjármuni sem ríkið á til nú þegar, til dæmis óþarflega mikið eigið fé sem er í bönkunum eða með hluta af stöðugleikaframlögunum (sjá nánar um þetta hér).
Það þarf engar skattahækkanir til að byggja nýjan spítala.
Mér er óskiljanlegt hvers vegna VG-fólk ætti ekki að geta sætt sig við slíkan ramma að stjórnarþátttöku, þar sem hlutverk þeirra yrði án efa veglegt. Þjóðin fengi nýjan landsspítala og ýmsar umbætur aðrar.
Eða er betra að fá “Engeyjarstjórn”, sem ráðstafar ríkisbönkunum og öðru fémætu úr stöðugleikaframlögunum til einkavina sinna – og lækkar síðan skatta á fjármagnseigendur?
En hvað með að styðja minnihlutastjórn hinna?
Ef VG-fólk vill ekki koma betur til móts við hina flokkana fjóra (sem sagðir eru að mestu sammála um forsendur samstarfs), þá ætti VG að bjóðast til að styðja minnihlutastjórn þeirra.
Ef það gengur ekki ætti VG-fólk að reyna að semja um að styðja minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og freista þess að fá eitthvað út úr slíkum stuðningi.
Þar gæti t.d. verið um að ræða tímasetta byggingaráfanga í nýja Landsspítalanum eða eitthvað annað samsvarandi, t.d. brýnar umbætur í lífeyrismálum öryrkja og frekari húsnæðisumbætur fyrir ungt fólk – svo nokkuð sé nefnt. Kanski þjóðgarð á hálendinu!
Þá myndi VG meðal annars geta haft mikil áhrif á hvenær næst yrði gengið til kosninga, t.d. þegar næsta hneyksli kemur upp…
Pólitík á að snúast um að hafa áhrif. Til þess þarf list hins mögulega. Útsjónarsemi í samningum.
Þannig hugsuðu menn þegar sósíalistar og kratar fóru í Nýsköpunarstjórnina með Sjálfstæðisflokki Ólafs Thors árið 1944.
Út úr því fékk þjóðin glæsilega löggjöf um almannatryggingar, verulegar umbætur í heilbrigðis- og menntamálum, auk nýsköpunarátaks í atvinnumálum. Það var mikil framfarastjórn, eins og Styrmir Gunnarsson myndi væntanlega segja.
Svo er það auðvitað valkostur fyrir VG að verða varanlegur stjórnarandstöðuflokkur sem fælist það að hafa áhrif – ja, eða bara að hætta alveg í pólitík!
Það er pláss núna fyrir nýja aðila í vistvænni hænsnarækt! (smá grín…)
Fyrri pistlar