Nú eru uppi vaxandi kröfur um að ríkið grípi inn í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna. Jafnvel er nefnt að taka megi upp sjómannaafsláttinn að nýju.
Slíkar kröfur eru beinlínis um það, að almenningur taki að sér að greiða hluta launakostnaðar útvegsmanna.
Það væri eins fáránlegt við núverandi aðstæður og nokkuð gæti orðið!
Hagur sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur batnað um nærri 350 milljarða frá hruni og til 2015 (samanlagt eigið fé og arðgreiðslur til eigenda).
Á meðan það gerðist fór þjóðin í gegnum djúpa kreppu – almenningur tapaði kaupmætti og eignum.
Pælið í því!
Arðgreiðslur til eigenda útvegsfyrirtækja námu ríflega 50 milljörðum frá 2010 til 2015.
Á sama tíma hafa veiðigjöld til ríkisins lækkað úr rúmlega 12 milljörðum á ári í um 4,8 milljarða.
Margir hafa eðlilega kallað eftir því að útgerðin greiði mun stærri hluta af auðlindarentunni til almennings (ríkissjóðs) en verið hefur. Það væri eðlilegt og því var lofað af sumum stjórnmálamönnum fyrir kosningar.
Í stað þess að við því sé orðið kemur nú upp sú krafa að almenningur taki á sig hluta af launakostnaði útgerðanna!
Því ber að fagna að talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa tekið afgerandi afstöðu gegn slíkum inngripum stjórnvalda. Vonandi heldur sú afstaða alla leið.
Ef útvegsmenn skyldu færa hluta launagreiðslna sinna í form dagpeninga (sem yrðu þá skattfrjálsir), til að leysa kjaradeiluna, þá hljóta stjórnvöld að hækka veiðigjöldin sem nemur a.m.k. slíkum skattaafslætti.
Annað væri óverjandi.
Þeir sem fá dagpeninga ofaná laun, vegna starfa fjarri heimilum sínum, fá slíkar greiðslur til að mæta kostnaði við gistingu og uppihald. Slíkt er hins vegar veitt um borð í fiskiskipunum og dagpeningar eiga því varla við í tilviki sjómanna.
Útvegsmenn eiga því einir að greiða launakostnað sjómanna. Upp í topp.
Það væri með öllu óboðlegt að ýta hluta hans yfir á almenna skattgreiðendur, sem flestir hafa mun lægri laun en tíðkast í fiskveiðum.
Fyrri pistlar