Í síðustu viku var kynnt ný bók um endurreisn fjármálakerfisins og eftirstöðvar hrunsins, eftir Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson.
Bókin heitir The Icelandic Financial Crisis: A Study into the World’s Smallest Currency Area and its Recovery from Total Banking Collapse. Hún er gefin út af Palgrave Macmillan forlaginu. Höfundar eru báðir fræðimenn við Háskóla Íslands og störfuðu í fjármálakerfinu fyrir hrun.
Bókin er ólík fyrri bókum um hrunið sem flestar lýsa aðdraganda hrunsins og orsökum, til dæmis bækur Guðrúnar Johnsen (2014) og Robert Aliber og Gylfa Zoega (2011). Hún segir sögu þeirra viðbragða og aðgerða sem gripið var til eftir hið fordæmalausa gjaldþrot þriggja stærstu bankanna haustið 2008 – og lýsir þeim árangri sem náðist við endurreisnina.
Þetta nýja sjónarhorn er mikilvægt til að draga lærdóm af því hvernig bregðast má við djúpri fjármálakreppu og því er mikill fengur í þessari nýju bók.
Bókin er lipurlega skrifuð og aðgengileg, raunar fljótlesin fyrir þá sem hafa fylgst með þróuninni undanfarin ár. Hún segir sögu viðbragðanna all ítarlega, birtir margvísleg gagnleg talnagögn og endar með nýjum athyglisverðum útreikningum á nettó kostnaði ríkisins af hruni bankanna.
Þetta er saga sem þarf að segja á ítarlegan hátt, ekki síður en saga aðdraganda hrunsins. Þetta ævintýri “íslensku alþjóðlegu fjármálamiðstöðvarinnar”, sem oft hefur verið kallað “tilraun nýfrjálshyggjunnar á Íslandi”, var einstakt og afdrifaríkt um margt.
Nauðsynlegt er að draga réttan lærdóm af þessari tilraun svo forðast megi slíkar hamfarir í framtíðinni. Einnig er mikilvægt að gera grein fyrir þeirri um margt óvenjulegu leið sem Ísland fór við endurreisn fjármálakerfisins. Þessi bók hjálpar til við það.
Aðdragandi hrunsins var um flest klassísk en óvenju stór fjármálabóla, sem blés út með ósjálfbærri skuldasöfnun og tengdist öðru fremur óhóflegri spákaupmennsku og braski. Helstu gerendurnir græddu gríðarlega á ævintýrinu en almenningur þurfti að bera þungar byrðar í kreppunni sem í kjölfarið fylgdi (sjá nánar hér).
Bókin er ekki tæmandi um eftirmála hrunsins, því enn á eftir að gera fulla grein fyrir því hvernig ævintýrið lék heimilin: lífskjör og velferðarþjónustu, vinnumarkað, skólakerfið og aðra innviði, skulda- og skattamál og útdeilingu byrðanna sem af hlutust milli ólíkra þjóðfélagshópa
Stjórnmálamönnum hælt fyrir góð verk
Það sem mér finnst hvað athyglisverðast við þessa bók þeirra Ásgeirs og Hersis er sá þráður sem gengur meira og minna í gegnum bókina.
Það er niðurstaðan um að flestar þær aðgerðir sem gripið var til af stjórnvöldum þriggja ríkisstjórna skiluðu góðum árangri, frá setningu neyðarlaganna til samningsins um stöðuleikaframlögin.
Þetta er merkilegra fyrir þær sakir að Ísland fór að umtalsverðu leyti ótroðnar slóðir í úrræðum.
Sumt var óhjákvæmilegt, svo sem að bankarnir færu í gjaldþrot, enda ekki viðbjargandi eftir alltof öran og glannalegan vöxt í umhverfi takmarkandi gjaldmiðils í örríki. Bankakerfið var í reynd án lánveitanda til þrautavara að minnsta kosti frá árinu 2006, ef ekki þegar frá árinu 2005.
Annað var heppni (til dæmis góðar göngur makríls inn í íslenska lögsögu, eldgos er örvaði ferðaþjónustuna, sigur í Icesave-málinu fyrir EFTA dómstólnum o.fl.).
Neyðarlögin, gjaldeyrishöftin, fyrirkomulag bankaendurreisnarinnar, lagfæring ríkisfjármálanna, Icesave kosningarnar og samningurinn um stöðugleikaframlögin fela hins vegar í sér margt sem var frumlegt og jafnvel séríslenskt.
Með neyðarlögunum nýtti Ísland sér fullveldisrétt sinn í meiri mæli en hægt hefði verið fyrir einstök Evru-lönd, eins og dæmin sanna hvað best í Grikklandi. Uppskipting föllnu bankanna í innlenda og erlenda hluta var óvenjuleg, en rökrétt og gekk vel.
Gjaldeyrishöftin sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði til voru afdrifarík og í raun einstaklega vel heppnað úrræði.
Bókin er satt að segja meiri málsvörn fyrir gjaldeyrishöftin en áður hefur sést hér á landi, a.m.k. síðan ég skrifaði einmanalegar bloggfærslur í þá veru (sjá t.d. hér).
Raunar segja höfundarnir að sennilega verði gjaldeyrishöftin “hetja” þessarar sögu í kennslubókum framtíðarinnar. Höftin færðu stjórnvöldum tæki til að ná utanum fordæmalausar og erfiðar aðstæður og sköpuðu svo að auki forsendur fyrir sterkri samningsstöðu stjórnvalda gagnvart fjármálaöflunum, einkum erlendum kröfuhöfum.
Hagfræðingum er gjarnt að ofmeta kosti óheftra markaða og hafna ríkisafskiptum hvers konar. Þess vegna virðast þeir Ásgeir og Hersir vera með óbragð í munni er þeir hæla gjaldeyrishöftunum og öðrum ríkisafskiptum á tímabilinu, sem þó skiluðu góðum árangri.
Þeir líkja upptöku gjaldeyrishaftanna við samning Faust við myrkrahöfðingjann, í kafla 7!
Í líkingunni á það líklega að vera sál hagfræðinnar (trúin á óhefta markaði) sem seld er ríkisvaldinu (myrkrahöfðingjanum), til að ná veraldlegum árangri. Til að friða samvisku hagfræðinganna bæta höfundarnir við að gjaldeyrishöftunum fylgi líklega ókostir, einkum til langframa.
Þeir sýna hins vegar engin afgerandi sönnunargögn um þá meintu ókosti, frekar en aðrir hagfræðingar hafa gert. Þylja bara léttvægar þulur um að erlent fjárfestingarfé hafi síður komist til landsins (en engin þörf var þó fyrir það) og að innlendir efnamenn og fyrirtæki hafi ekki getað flutt fé úr landi (sem varla hefði skilað sér í hagvexti og sköpun starfa innanlands).
Því fer fjarri að höfundarnir sýni að hugsanlegir ókostir gjaldeyrishaftanna geti verið meiri en kostirnir sem fyrir liggja.
Stöðugleikasamkomulagið, sem gert var í skjóli gjaldeyrishaftanna, skilaði svo ríkinu umtalsverðum fjárhæðum upp í þann beina kostnað sem ríkið hafði af hruninu. Samkvæmt útreikningum í lokakafla bókarinnar gera þau útslagið um að ríkið gæti náð inn að fullu fyrir útlögðum beinum kostnaði sínum vegna hrunsins.
Þá vantar að vísu inn í dæmið framleiðslutap kreppuáranna og þungar byrðar heimilanna vegna hrunsins og kreppunnar sem fylgdi. Hrunið var fjarri því að vera ókeypis fyrir þjóðina, þó einhverjir hafi grætt á því.
Annmarkar
Ég hef einkum fjallað um ágæta kosti bókar þeirra Ásgeirs og Hersis. Hún er þó ekki gallalaus frekar en flestar aðrar bækur.
Helstu annmarkana fann ég í fyrsta kafla. Á bls. 18 og 19 eru nokkrar yfirborðslegar yfirlýsingar um aðdraganda og orsakir hrunsins sem kalla á fleiri og ítarlegri skýringar. Það er að vísu utan erindis bókarinnar, sem einkum beinist að eftirmálum bankahrunsins.
Meðal fullyrðinganna þar er til dæmis sagt að ekki sé ástæða til að ætla að íslensku bankarnir hafi verið verr staddir en erlendir bankar. Raunar kemur svo á blaðsíðu 32 í sama kafla vísun í umsögn erlends sérfræðings frá Merril Lynch bankanum frá 2008, sem kollvarpar þessu sem fullyrt er á bls. 18.
Erlendi bankamaðurinn segir að “of ör vöxtur, óreyndir og djarfir stjórnendur, mikil notkun ytri fjármögnunar, há skuldsetningarhlutföll og leynd yfir krosseignatengslum” hafi sýnt meiri áhættu í íslensku bönkunum en almennt tíðkaðist í erlendum bönkum. Fleiru mætti bæta við þennan lista.
Reinhart og Rogoff (2010) segjast t.d. aldrei fyrr hafa séð jafn öra skuldasöfnun eins og hjá Íslendingum og Írum, og var hraðinn heldur meiri á Íslandi. Þessi atriði eru líka í samræmi við niðurstöður Guðrúnar Johnsen um orsakir falls bankanna, sem og niðurstöður Rannsóknarnefndar Alþingis og verka Gylfa Zoega og fleiri sem um það hafa ítarlega fjallað (sjá nánar um þetta hér).
Það dugir því ekki að skrifa bankahrunið eingöngu á reikning ókosta íslensku krónunnar, stærðar bankakerfisins og getu- og viljaleysis til að bjarga bönkunum eftir að þeir voru komnir í þrot. Þó skipta krónan og stærð bankakerfisins auðvitað máli, ásamt öðrum þeim oraskaþáttum sem að framan eru nefndir.
Þá eru full mikil lausatök á heimildaskránni. Þar vantar til dæmis inn tvö rita John Maynard Keynes um fjármálakreppur og ríkisafskipti sem fjallað er um í texta, en einnig vantar þar rit eftir Milton Friedman sem við sögu kemur. Þá er Keynes kallaður “George” Maynard Keynes í atriðaskrá!
Ég sé þó ekki ástæðu til að ætla að þessi meðferð á Keynes í heimildaskrá og atriðaskrá endurspegli neina fordóma höfunda í garð Keynes og fræða hans, enda gera höfundar árangri ríkisafskiptanna sem við sögu komu góð og sanngjörn skil í bók sinni.
Bókin er að mörgu leyti lofgjörð til fjármálahagfræða sem eru í anda Keynes.
John Maynard Keynes var, eins og menn muna, helsti hugmyndasmiður blandaða hagkerfisins, þar sem farsælli blöndu markaðsbúskapar og fínstillandi ríkisafskipta, eftirlits og aðhalds var beitt með afar góðum árangri.
Slík skipan var ríkjandi í vestrænum löndum frá lokum seinni heimsstyrjaldar til áttunda áratugarins. Þá færðist skipanin meira í átt nýfrjálshyggju með aukinni áherslu á óheftari markaðshætti.
Aðdragandi hrunsins á Íslandi sýnir einmitt vel hvers ber að varast við óhefta skipan fjármálageirans. Þegar einkageirinn og hinir óheftu fjármálamarkaðir voru búnir að leyfa íslenska fjármálakerfinu að reka sig í þrot var ríkið eitt til bjargar.
Mikilvæg lexía af þessari ágætu bók Ásgeirs og Hersis er sú, að við eigum að setja meiri fyrirvara við hugmyndina um algerlega óhefta markaði og átta okkur betur á gildi lýðræðislegs ríkisvalds í heildarmyndinni, sem þarf að vera heilbrigð blanda ríkis og markaða, eins og svo vel gafst á Vesturlöndum á árunum frá um 1950 til 1980.
Stjórnmálamenn eiga líka að njóta sanngirni fyrir það sem vel er gert á þeirra vettvangi. Mikið hefur vantað uppá það til þessa. Þessi bók hjálpar til við að rétta þann halla.
Fyrri pistlar