Mánudagur 27.03.2017 - 11:05 - FB ummæli ()

Óhóflegt okur einkageirans

Það hefur lengi einkennt Ísland að verðlag á flestum nauðsynjavöru til heimilanna hefur verið mjög hátt, samanborið við önnur lönd.

Helsta undantekningin frá því er verð á hita og rafmagni.

Það sem einkageirinn annast er með allra dýrasta móti en það sem ríki og sveitarfélög annast, eins og rafmagn og hiti, er með ódýrasta móti.

Samt eru hita- og orkuveiturnar vel reknar. Tæknistig þeirra er gott, þjónustan skilvirk og fyrirtækin skila hagnaði til áframhaldandi uppbyggingar og einhverjum afgangi til þjóðarinnar.

Nú hillir í að Landsvirkjun geti til dæmis greitt þjóðinni árlega milljarða ef ekki milljarðatugi í arð. Væri betra að sá hagnaður rynni í vasa einkaaðila í erlendum skattaskjólum?

Annað sem hið opinbera kemur að, eins og heilbrigðisþjónusta og menntun, er líka með ódýrara lagi fyrir heimilin á Íslandi, eða að minnsta kosti viðráðanlegt.

Í heimalandi einkageirans, Bandaríkjunum, á stór hluti þjóðarinnar í erfiðleikum með að fá aðgengi að heilbrigðisþjónustu og menntun fyrir börn sín, vegna þess að einkageirinn okrar svo gríðarlega á slíkri þjónustu. Það sama gildir í öðrum löndum sem fylgja fordæmi Bandaríkjanna á þessu sviði.

Það blasir við að íslenski einkageirinn hefur brugðist þjóðinni. Honum fylgir alltof hátt verðlag. Af hverju er Viðskiptaráð ekki að vinna í því að laga þetta?

 

Hrópandi í eyðimörkinni

Framkvæmdastjóri IKEA, Þórarinn Ævarsson, hittir naglann á höfuðið þegar hann kveður upp sinn dóm um neytendavörumarkaðinn á Íslandi, en IKEA er ein fárra undantekninga á því sviði, sem veita góða þjónustu á sanngjörnu verði. Þórarinn segir:

„Fólk er komið með upp í kok af þeim aðilum sem hafa stýrt heild- og smásölumarkaði hér á landi. Ég held að við munum sjá verulegar breytingar með komu Costco. Ég held líka að þónokkur fyrirtæki muni líða undir lok. Costco mun breyta því hvað við borgum fyrir hluti eins og dekk, tölvu og sjónvarp. Ég held að koma Costco sé það besta sem hefur hent íslenskan almenning lengi.

Við getum haft mikil áhrif á það hvernig samfélagi við búum í. Það eru ekki bara stjórnmálamenn sem ákveða það. Það eru allir sem ákveða það, þú með þínum gjörðum og ég með mínum. Neytendur eiga ekki að samþykkja að það sé verið að níðast á þeim.“

Lök frammistaða einkageirans á Íslandi er staðreynd. Í því ljósi er vægast sagt undarlegt að áróðursöfl sjálfgræðisstefnunnar skuli linnulaust heimta að Landsvirkjun, orkuveiturnar, sjúkrahúsin og heilsugæslan, skólarnir og bara landið allt skuli afhent okrandi sjálfgræðisgreifum!

Einkageirinn þarf fyrst af öllu að sýna miklu betri árangur áður en til greina á að koma að fara í nokkra einustu einkavæðingu á opinberri þjónustu. Reynsla af fyrri einkavæðingum er einnig skelfileg og sýnir hvaða víti ber að varast.

Það er því æskilegt að fólk átti sig á því, að einkageirinn er ekki sjálfkrafa bestur til að annast það sem þjóðina skiptir mestu máli.

Sölumenn sjálfgræðisstefnunnar og einkageirans eru yfirleitt ekki að hugsa um hag almennings. Þeir eru talsmenn sérhagsmuna, sem oft stríða gegn almannahag.

 

Síðasti pistill:  Frumstæð læknisfræði Seðlabankans

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar