Laugardagur 01.04.2017 - 11:01 - FB ummæli ()

Hverju var logið um Landsbankann?

Það hefur verið átakanlegt að fylgjast með fréttum af framkvæmd einkavæðingar Búnaðarbankans í vikunni.

Forystumenn í íslensku atvinnu- og fjármálalífi eru endanlega staðnir af því að hafa logið blákallt að þjóðinni og stjórnvöldum – sjálfum sér til hagsbóta.

Þó er ekki enn að fullu ljóst hverjir voru raunverulegir eigendur sumra leynifélaga í skattaskjólum sem að málinu komu. En það er ljóst hver höfuðpaurinn var.

Hann og samstarfsmenn hans sátu fyrir á myndum með ráðherrum, heilagir og ábúðarfullir á svip, eins og þeir væru að vinna að velferð þjóðarinnar.

Þeir sendu út fréttatilkynningar sem voru kaldrifjaðar lygar. Ráðherrar voru leiksoppar þeirra.

Þannig var einkavæðing bankanna frá byrjun og þannig var leiðin að hruni vörðuð síendurteknum lygaleiksýningum stórtækra sjálfgræðismanna. Þetta var “frjáls markaður á ferðinni”!

Þessir aðilar töppuðu miklum fjármunum af þjóðarbúinu, létu þá flæða í leyniskjól sín erlendis, en skildu eftir sig sviðna jörð skulda og fjármálahruns.

Þjóðin þurfti að bera byrðar hrunsins, en margir hinna vafasömu leikenda braskbólunnar eru enn mjög efnamiklir menn.

Við vissum svo sem af því sem fram kom í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um fall bankanna að ýmis óhreinindi tengdust aðkomu þýska braskbankans að fléttunni.

Það er þó mikilvægt að fá helstu málavexti endanlega staðfesta, eins og gert er með hinni nýju skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem fjallaði um einkavæðingu Búnaðarbankans.

 

Klára þarf rannsókn einkavæðingarinnar – ekki hætta í miðri á

Það er prófsteinn á ynnri styrk og siðferði samfélags okkar hvernig tekst að vinna úr málum sem eru jafn viðamikil og afdrifarík og einkavæðing bankanna var á sínum tíma.

Þjóðin þarf að vita um allt sem misfórst við framkvæmdina og hún og stjórnvöld hennar þurfa að geta horfst í augu við það. Ekki til að fullnægja hefndargirnd eða refsigleði, heldur til að læra af mistökunum svo þau megi varast í framtíðinni.

En þetta mál er ekki að fullu frágengið.

Einkavæðing Landsbankans er einnig sveipuð sambærilegum svikasögum og vísbendingar eru um vafasama þætti er tengjast fjármögnun og framkvæmd þeirrar einkavæðingar.

Það er vægast sagt ófullnægjandi að láta einkavæðingu Landsbankans órannsakaða í ljósi hinna nýju stórtíðinda um einkavæðingu Búnaðarbankans.

Fyrirhuguð einkavæðing bankanna sem féllu aftur í hendur ríkisvaldsins eftir hrun getur ekki hafist fyrr en öll vafamál fyrri einkavæðinga bankanna eru í ljós leidd.

Digurbarkaleg orð stjórnmálamanna um að allt sé í fína lagi duga hvergi til.

Þau reyndust innantóm síðast.

Svo mikið er nú víst.

 

Síðasti pistill:  Óhóflegt okur einkageirans

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar