Hagsmunasamtök atvinnurekenda og fjárfesta eru alltaf söm við sig.
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að færa álagningu virðisaukaskatts á ferðaþjónustu til jafns við það sem tíðkast í öðrum atvinnugreinum.
Það er bæði réttlátt og skynsamlegt – og löngu tímabært til að halda aftur af ofþenslu í ferðaþjónustunni.
Meiningin var jú að ferðaþjónusta væri til tekjuöflunar fyrir þjóðina en ekki ölmusuþegi í skattkerfinu.
En auðvitað væla ferðaþjónustuaðilar undan því að þurfa að greiða skatt eins og aðrir. Vilja undanþágur áfram.
Viðskiptaráð blandar sér nú í málið og heimtar að ferðaþjónustunni sé hlíft við þessu, en í staðinn vill Viðskiptaráð hækka matarskattinn upp í almennu álagninguna (sem þó yrði lækkuð og fyrir alla) (sjá hér).
Þetta myndi þó hækka stórlega álagningu á matarkaupa heimilanna – en hlífa fyrirtækjaeigendum í ferðaþjónustu.
Auðvitað vill Viðskiptaráð það – eins og alltaf!
Viðskiptaráð hefur mikil áhrif í Sjálfstæðisflokknum. Það er viðbúið að þeir fái sín hagsmunamál í gegn.
Heimilin gætu því þurft að taka á sig skattahækkun á matvælakaup sín, í einu dýrasta landi heims.
Það væri makalaus og metnaðarlaus útkoma gagnvart almenningi, ef eftir gengi.
Lágtekjufólk ber almennt hlutfallslega þyngri byrðar af virðisaukaskatti en hátekjufólk (sjá hér). Það er vel þekkt.
Tillaga Viðskiptaráðs er því um það að færa skattbyrði virðisaukans af hærri tekjuhópum yfir á þá lægri.
Kunnuglegt – ekki satt?
Fyrri pistlar