Stærstu einstöku sigurvegarar kosninganna eru Sigmundur Davíð, Logi Einarsson og Inga Sæland – og flokkar þeirra.
Miðflokkurinn bætir mestu við sig (10,9%), þá Samfylkingin (6,4%) og Flokkur fólksins (3,4%). VG bæta við sig 1% en allir aðrir tapa fylgi. VG nær mun minni árangri en kannanir gáfu von um.
Mestu tapa Píratar (-5,3%) og svo Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn (-3,8% hvor flokkur).
Þingflokkum fjölgar og atkvæðin dreifast meira en áður.
Forsendur fyrir myndun vinstri stjórnar eru afar veikar (þyrfti 4-5 flokka) og fyrir hægri stjórn (þyrfti 4 sundurlausa eða jafnvel 5 flokka).
Fátt er því um góða kosti ef litið er á málið frá sjónarmiði hægri eða vinstri stjórna.
Reynslan af fráfarandi stjórn gefur tilefni til að óttast um áframhaldandi upplausn og óstöðugleika í heimi stjórnmálanna.
Ný leið: Sátt hægri og vinstri afla?
Eini möguleikinn á þriggja flokka stjórn er að VG fari með Sjálfstæðisflokki í stjórn og þá kemur til greina að hafa annað hvort Samfylkingu, Framsókn eða Miðflokk með.
Sennilega er eina raunhæfa vonin um að fá VG í samstarf við Sjálfstæðisflokk að Samfylkingin kæmi með sem þriðji flokkurinn. Það yrði ásættanlegra innanhúss í búðum VG-fólks.
Mér sýnist að margt mæli með slíku samstarfi við þessar aðstæður.
Saman gætu VG og Samfylking veitt frjálshyggjuöflunum í Sjálfstæðisflokki alvöru mótvægi. Þau hafa samningsstöðu. Þau gætu samið um alvöru átak í velferðar- og innviðamálum.
Það þyrfti að fela í sér umtalsverða aukningu fjármuna og meiri hraða í byggingu nýs Landsspítala sem og í aðra heilbrigðisþjónustu. Þau gætu líka haldið aftur af frekari einkavæðingu í heilbrigðis- og menntamálum.
Þetta ætti einnig að ná til hækkunar frítekjumarks ellilífeyris vegna atvinnutekna strax upp í 109 þúsund og hækkun barna- og vaxtabóta sem nýtist ungu fjölskyldufólki best, en það er sá hópur sem fór einna verst út úr hruninu og býr nú að auki við einstaklega erfiðan húsnæðismarkað.
Aðstæður í efnahagslífinu eru góðar um þessar mundir og hægt að taka fé úr ríkisbönkunum til fjárfestinga, sem léttir af rekstrarútgjöldum ríkisins. Hægt er að gera mikið af góðum og brýnum hlutum án þess að hækka skatta á almenning (lágtekju- og miðtekjufólk).
Þá er einnig hugsanlega hægt að bjóða upp á einhverja skattalækkun með hækkun persónuafsláttar (skattleysismarka) sem yrði gott innlegg til að efla félagslegan stöðugleika og tempra launaþrýsting á vinnumarkaði.
Loks gæti svona stjórn bætt umtalsvert í umhverfis- og mannréttindamál almennt, sem er mikilvægt viðfangsefni.
Það er mikilvægt fyrir bæði VG og Samfylkingu að fá að stjórna við góðar aðstæður í samfélaginu. Síðast stjórnuðu þau við skelfilegar aðstæður hrunsins og var refsað fyrir það með mjög ósanngjörnum hætti.
Vænlegast fyrir Bjarna og Sjálfstæðismenn
Fyrir Sjálfstæðisflokk er líka margt gott í slíku samstarfi, sem minnir á Nýsköpunarstjórn Ólafs Thors sem sat frá 1944 til 1947. Sú stjórn innleiddi afar stór og mikilvæg framfaramál (almannatryggingar, heilbrigðisþjónustu og menntamál, nýsköpun í atvinnulífi o.fl.). Hún var ein af merkustu ríkisstjórnum 20. aldarinnar.
Þriggja flokka stjórn er traustasti grundvöllur stjórnarsamstarfs sem Bjarni Benediktsson á kost á við þessar aðstæður. Að vinna með Miðflokki og Framsókn á sömu skútu getur orðið erfitt eftir djúpan klofning Framsóknar og svo þarf að bæta við óþjálum kostum eins og Viðreisn eða Flokki fólksins í 4-flokka pakka. Það yrði ósamstæð og fallvölt stjórn.
Bjarni lagði jú áherslu á að “trausta og öfluga flokka” þyrfti til samstarfs, ef menn vilja stöðugleika.
Sjálfstæðismenn þyrftu sjálfir að hemja æstustu frjálshyggjuöflin í sínum röðum til að koma þessu í gegn, en það eru einmitt þau öfl sem eyðilögðu “gamla Sjálfstæðisflokkinn” og færðu okkur hrunið og ójöfnuð áratugarins fram að hruni. Það er því rík ástæða til að setja þau öfl til hliðar.
Sem leiðtogi slíkrar sáttastjórnar myndi Bjarni skipa sér veglegan sess í stjórnmálasögunni, sem maður sátta og víðsýni.
Bjarni er reyndar geðþekkur maður og því er leiðtogum VG og Samfylkingar engin vorkunn að fara í samstarf við hann – að því gefnu að þau semji skynsamlega um málefni og fjármagn.
Evrópumál á hins vegar að setja til hliðar en stefna í staðinn á umbætur í stjórnarskrármálinu.
Sáttastjórn hægri og vinstri aflanna er augljóslega vænlegasti kosturinn sem nú býðst.
Hún yrði einnig gott framlag til að efla traust á stjórmálunum í landinu.
En áður en þessi kostur kemst á dagskrá þarf líklega að fara í gegnum möguleika á vinstri eða hægri stjórnum…
Fyrri pistlar