Fimmtudagur 11.01.2018 - 11:34 - FB ummæli ()

Lök eignastaða millistéttarinnar á Íslandi

Í bók okkar Arnaldar Sölva Kristjánssonar, Ójöfnuður á Íslandi, er mikil umfjöllun um tekju- og eignaþróun íslensku millistéttarinnar og annarra tekjuhópa, bæði til lengri og skemmri tíma.

Þar kemur meðal annars fram að heldur hefur fjarað undan millistéttinni í seinni tíð, bæði í tekjum og eignum.

Hrunið og kreppan sem fylgdi í kjölfarið fór verr með þá tekju- og eignaminni en þá eignamestu í íslenska samfélaginu.

Margir halda að þær miklu eignir sem til urðu á bóluárunum í aðdraganda hrunsins hafi allar verið froða sem einfaldlega hvarf.

Það er mjög rangt.

Mikið af eignum þeirra eignamestu varðveittist og þær eignir eru nú farnar að skila vaxandi fjármagnstekjum til eigenda sinna á ný. Það fleytir hátekjuhópunum framúr venjulegu vinnandi fólki – eins og mikil brögð voru að á áratugnum að hruni.

Forskot stóreignamanna, sem Thomas Piketty útskýrði í frægri bók sinni frá 2014, gildir líka á Íslandi. Mestu eignirnar vaxa alla jafna örast í venjulegu árferði.

Við megum búast við að sjá enn aukna samþjöppun eignarhalds á næstu árum og áratugum, að öðru óbreyttu.

 

Athyglisverðar upplýsingar í Morgunblaðinu í dag

Í Morgunblaðinu er í dag greint frá athugun sem Creditinfo gerði fyrir blaðið. Þar er vísbending um að 1000 manns eigi 98% allra hreinna eigna í íslensku atvinnulífi. Pælið í því!

Tíu eignamestu einstaklingarnir eiga nærri þriðjung alls eiginfjár sem einstaklingar eru skráðir fyrir í atvinnulífinu. Aðeins tíu einstaklingar.

Það er sem sagt þegar orðin mjög mikil samþjöppun eigna á Íslandi – eins og við skýrum á ýmsa vegu í bókinni. Eignaskiptingin hér á landi er mjög ójöfn – líka í samanburði við önnur vestræn lönd.

Eignir þessara eignamestu einstaklinga í landinu munu vaxa hraðar en atvinnutekjur og húsnæðiseignir venjulegs vinnandi fólks – ef fram fer sem horfir.

 

Mikil samúð með stóreignafólki

Staða millistéttarinnar er sem sagt ekki nógu góð. Eignamyndun í íbúðarhúsnæði er of hæg, m.a. vegna of hárra vaxta og verðtryggingarinnar til lengri tíma. Staða lægri stéttarinnar er svo auðvitað enn verri.

Og afar lök staða ungs fólks sem er að stofna fjölskyldur boðar ekki gott til framtíðar. Það fólk – og lágtekjufólk almennt –  þarf að geta komist áfram og orðið að alvöru millistétt.

Kanski við ættum að skoða þessi mál nánar.

Manni finnst stundum að það sé meiri meðaumkun með auðmönnum á Íslandi en með fátæku fólki og tekjulágum almennt – og það sama gildir um millistéttina.

Eftir fjölmörg ár með gríðarlegri eignamyndun og miklum arðgreiðslum til eigenda útgerðanna er nú efst á baugi að lækka veiðileyfagjaldið. Það stendur í stjórnarsáttmálanum og málafylgjumenn eru komnir á fullt að réttlæta það.

En það er ekki hægt að auka við í barnabótum til ungra foreldra sem einnig mæta ógnarháum húsnæðiskostnaði á markaði. Það má heldur ekki auka vaxtabætur sem hjálpa ungu fólki að eignast húsnæði – jafnvel þó húsnæðisverð sé í hæstu hæðum.

Á húsnæðismarkaði eru eignamennirnir (fjárfestar svokallaðir) í óða önn að hækka bæði kaupverð íbúða og húsaleigu enn frekar. Það eykur arðsemi eiginfjár þeirra.

Eignamönnum gengur allt í haginn á húsnæðismarkaðinum – en flest er þar öndvert hagsmunum ungs fjölskyldufólks.

Í Bandaríkjunum gengur ríkustu 10 prósentunum allt í haginn (og sérstaklega ríkasta eina prósentinu), en hin 90 prósentin standa í stað eða dragast afturúr. Þannig hefur það verið í meira en 30 ár.

Viljum við festast í sama farvegi með okkar samfélag?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar