Það var skemmtilegt að sjá viðtal Egils Helgasonar í Silfrinu við hina ungu verkakonu sem býður sig fram til forystu í verkalýðsfélaginu Eflingu (sjá hér).
Hún heitir Sólveig Anna Jónsdóttir og minnti mig á Sölku Völku í skáldsögu Halldórs Laxness.
Þarna birtist allt í einu nýr aðili á leiksviði launþegahreyfingarinnar og virðist til alls vís.
Henni mæltist vel og augljóst var að hún meinti það sem hún sagði.
Hún talaði um stéttabaráttu og þörf fyrir aukna róttækni í kjarabaráttunni. Vill hífa lægstu launin upp á það stig að hægt verði að hafa þak yfir höfuðið og ná endum saman með stritinu.
Svona tal hefur ekki heyrst lengi, en er alveg tímabært.
Það er helst að atvinnurekendur (Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð) hafi verið í róttækri hagsmunadrifinni stéttabaráttu fyrir yfirstéttina á síðustu árum! Það hefur verið alvöru stéttabarátta – en með öfugum formerkjum miðað við sögu stéttabaráttunnar frá 19. öld.
Framboð Sólveigar Önnu og félaga er afspengi þeirra aðstæðna sem nú ríkja.
Þrátt fyrir þokkalegar launahækkanir á síðustu árum, eftir mikla kjaraskerðingu hrunsins, þá er búið að skekkja lífskjaraumhverfi launafólks stórlega með þeirri þróun sem orðið hefur í húsnæðismálum.
Það var afleiðing hrunsins að of lítið var byggt í nokkur ár og svo bættist við verulega aukin eftirspurn túrista eftir húsnæði. Ofan á það allt leggst einnig stóraukinn fjöldi innflytjenda á síðustu árum – þeir þurfa líka húsnæði (þó sumir þeirra sætti sig við að búa í gámum og kústaskápum til að byrja með). Þeim fjölgaði alls um 12-13.000 í fyrra.
En einnig vegur þungt víðtæk innkoma gróðasækinna fjáraflamanna og braskara á húsnæðismarkaðinn (t.d. Gamma). Afleiðing þessa er veruleg hækkun á kaupverði íbúðarhúsnæðis og leigu sömuleiðis – langt umfram framleiðslukostnað.
Stjórnvöld hafa svo gert þetta enn verra með því að lækka vaxtabætur niður í það lægsta sem sést hefur síðan 1988 (sjá hér).
Þó laun fari aftur upp á það stig sem var árið 2007 þá dugir það ekki í þessu nýja umhverfi húsnæðismálanna. Okurverðin á húsnæðismarkaði útiloka að góðærið rati til venjulegs launafólks, ekki síst yngri kynslóðarinnar.
Boðskapur hinnar ungu baráttukonu er því skiljanlegur. Hún lýsir veruleika félaga sinna ágætlega. Og það eru margir í hennar stöðu.
Ekkert er launafólki mikilvægara en launþegahreyfingin.
Það að nú skuli koma til kosninga milli ólíkra framboða ætti að vera fagnaðarefni. Það er einum of sterílt og einræðislegt að einungis sé hægt að velja framboð sitjandi stjórnar, eins og í einveldisríki eða frímúraraklúbbi sé.
Menn eiga að fagna því að ungt og kröftugt fólk vilji bjóða sig fram til starfa í launþegafélögunum.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig Sólveigu Önnu og félögum hennar vegnar í kosningunum í Eflingu.
Fyrri pistlar