Það verður að segjast eins og er, að dóninn Trump hefur haft afar mikið skemmtigildi eftir að Bandaríkjamenn kusu hann sem forseta.
Það var sterkur leikur! Ég vissi satt að segja ekki að bandarískir kjósendur hefðu svona mergjaða kímnigáfu. Maðurinn var jú vel þekktur í landinu svo kjósendur vissu vel hvað þeir voru að kjósa.
Einstaka úrtölumenn hafa reyndar hrokkið upp með andfælum þegar Trump grínast með kjarnorkuhnappinn og lætur kasta sprengjum á einhver lönd. Fáir hlusta þó á úrtölumenn svo kliðurinn frá þeim skiptir engu máli. Hann er bara eins og hvert annað “fake”.
Grínið heldur sem sagt áfram, eða “the show must go on”, eins og Bandaríkjamenn segja.
Það nýjasta er að lögregluforinginn James Comey hefur gefið í skyn í alvörugefinni bók að Trump ljúgi mikið, sé siðlaus og hafi látið vændiskonur í Rússalandi míga á sig. Hann hegði sér eins og mafíuforingi.
Comey hefur einnig líkt ríkisstjórn Trumps við “skógareld sem veður stjórnlaust yfir landið”, brenni upp siðferði og menningu og svo segir hann forsetann sjálfan umgangast konur eins og þær séu ekkert annað en “kjötstykki”.
Í staðinn tvístar Trump að Comey þessi sé lélegur skemmtikraftur, líkir honum við “showboat” og “slímbolta” og segir hann lygara sem helst ætti heima bak við lás og slá (sjá hér).
Trump vildi reyndar líka að glæpakvendið Hillary Clinton („Crooked Clinton“), mótframbjóðandi hans til forsetaembættisins, yrði fangelsuð fyrir að nota netþjón úr einkageiranum frekar en ríkisrekinn netþjón.
Á meðan Comey var enn lögreglustjóri fann hann sig knúinn til að rannsaka þessa notkun glæðakvendisins á einkareknum netþjóni, vegna ítrekaðra ábendinga frá Trump. En nú telur Trump að einmitt það sýni að Comey hafi verið óhæfur lögreglustjóri – að láta sér detta í hug að rannsaka glæpakvendið rétt fyrir kosninguna, sem leiddi svo til sigurs Trumps!
Þannig kemur Trump úr mörgum áttum í senn og slær alla út af laginu. Sjálfan sig líka…
En sjóið heldur áfram og söguleg met í dónaskap og öðrum djörfum forsetatilburðum eru slegin í hverri viku.
Dóri DNA verður að hafa sig allan við ef hann ætlar að halda sjó með klúru brandarana sína, því uppistandið í Hvíta húsinu slær öll met í dónaskap.
Raunar falla flestir grínarar nútímans í skuggann af Dónaldinum Trump. Hann trumpar allt…
Fyrri pistlar