Þriðjudagur 27.11.2018 - 09:29 - FB ummæli ()

Ójöfnuður eykst á ný

Tekjuójöfnuður jókst gríðarlega mikið á Íslandi á áratugnum fram að hruni – meira en dæmi eru um í öðrum vestrænum samfélögum. Sú aukning var frá stöðu eins allra mesta jafnaðar sem var að finna á Vesturlöndum fyrir árið 1995. Hámarki náði ójöfnuðurinn árið 2007.

Eftir hrun jafnaðist tekjuskiptingin mikið á ný, vegna samdráttar fjármagnstekna og aukinna jöfnunaráhrifa í skatta- og bótakerfunum.

Á uppsveiflunni frá 2011 til 2017 hefur ójöfnuður hins vegar tekið að aukast á ný. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan, sem sýnir hlutdeild hátekjuhópanna af heildartekjum allra framteljenda (Heimild: Fjármálaráðuneytið).

Hlutur tekjuhæsta eina prósentsins fór úr um 7% árið 2011 upp í 9,4% á síðasta ári. Hlutur tekjuhæstu fimm prósentanna fór úr 20,7% upp í 22,6%. Þetta þýðir að tekjur hæstu hópanna hafa verið að aukast hraðar en tekjur lægri tekjuhópa.

Ójöfnuðurinn jókst á hverju ári eftir að uppsveiflan eftir hrun komst á skrið, nema á árinu 2015. Þetta er umtalsverð breyting á tekjuskiptingunni.

Megin ástæðan fyrir þessum aukna ójöfnuði er að fjármagnstekjur (sem einkum koma í hlut allra tekjuhæstu hópa) hafa verið að aukast meira en almennar launatekjur. Þar eð fjármagnstekjur eru skattlagðar mun minna en atvinnutekjur og lífeyristekjur og þar eð þeim sem fá barna- og vaxtabætur hefur snarfækkað (einkum fólk í lægri tekjuhópum) þá má búast við að ójöfnuður eftir skatta og bætur hafi aukist enn meira en myndin sýnir. Gríðarlegar verðhækkanir á húsnæðismarkaði, sem bitna hlutfallslega mest á lágtekjufólki, magna þessa þróun enn frekar.

 

Langtímaþróun ójafnaðarins

Þrátt fyrir að tekjuskiptingin hafi jafnast strax í kjölfar hrunsins þá fer því fjarri að hún hafi orðið álíka jöfn og hún hafði verið á árunum í kringum 1995 og fyrr. Nærri lagi er að tekjuskiptingin er nú svipuð og hún hafði verið milli áranna 2002 og 2003.

Tekjuskiptingin er því á hærra ójafnaðarstigi í dag en var fyrir árið 2002. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan, sem sýnir nettó ójafnaðarsveiflu frá 1995 til 2017.

Hlutur tekjuhæstu fimm prósenta framteljenda var 17,3% árið 1995 en var orðinn 22,6% í fyrra, samkvæmt gögnum Ríkisskattstjóra. Hlutur tekjuhæsta eina prósentsins var 5,2% og er nú kominn í 9,4% – hefur hátt í tvöfaldast. Á sama tíma fór auðvitað hlutur hinna 95 prósentanna, alls þorra almennings, úr 82,7% niður í 77,4%.

Skipting þjóðarkökunnar er þannig umtalsvert ójafnari nú á dögum en var fyrir árið 2002.

Ójafnaðaraukningin skýrist almennt af mikilli aukningu fjármagnstekna sem einkum koma í hlut hæstu tekjuhópanna og þær tekjur eru skattlagðar með mun minna móti en atvinnutekjur stritandi almennings og lífeyristekjur eldri borgara og öryrkja.

En ójöfnuðurinn á Íslandi skýrist einnig af stóru skattatilfærslunni, sem fól í sér lækkun skattbyrðar í hæstu tekjuhópunum (einkum vegna þeirra fríðinda sem fjármagnstekjuskatturinn færir hátekjufólki) og aukinnar skattbyrðar lægstu og milli tekjuhópa (sjá hér). Lækkun eignaskatta og skatta á hagnað fyrirtækja átti einnig sinn þátt í þessari þróun allri. Skattbyrðin var færð af hæstu hópum og yfir á lægri tekjuhópa, hlutfallslega mest yfir á þá allra lægstu. Rýrnun velferðarbóta átti einnig hlut í þessari þróun, ekki síst á allra síðustu árum (sjá hér).

 

Þróun tekjuójafnaðarins frá ári til árs

Loks má einnig sjá á þriðju myndinni hvernig tekjuhlutdeild þessara hátekjuhópa þróaðist frá ári til árs, á aldarfjórðungnum milli 1992 og 2017.

Þarna má á skýran hátt sjá hina gríðarlegu aukningu ójafnaðarins á áratugnum fram að hruni, jöfnunina fyrst eftir hrunið og hvernig hún náði ekki að færa tekjuskiptinguna alla leið niður á jafnaðarstigið sem hér ríkti áður en nýfrjálshyggjan ruddi auknum ójöfnuði leið inn í samfélagið.

Síðan er augljós hin nýja aukning ójafnaðarins, sem tók við frá og með árunum 2011 til 2017.

Rétt er einnig að skoða þessa þróun í tekjuskiptingunni í samhengi við þróun ójafnaðar í eignaskiptingunni, sem Þórður Snær Júlíusson hefur sýnt á glöggan hátt í nýlegum greinum í Kjarnanum (sjá t.d. hér og hér).

——————

Skýringar: Gögnin koma frá Ríkisskattstjóra og ná til allra framteljenda. Tekjuhugtakið er heildartekjur fyrir skatt (allar skattskyldar tekjur, þ.m.t. allar fjármagnstekjur sem taldar eru fram hér á landi). Gögnin fyrir árin 1997 til 2017 voru nýlega lögð fram á Alþingi af fjármálaráðherra, en gögn fyrir árin 1992 til 1996 koma úr bók Stefáns Ólafssonar og Arnaldar Sölva Kristjánssonar, Ójöfnuður á Íslandi (sem kom út hjá Háskólaútgáfunni 2017).

——————

Höfundur er prófessor við HÍ og starfar í hlutastarfi sem sérfræðingur hjá Eflingu – stéttarfélagi

 

Síðasti pistill: Villandi tal um vinnutíma

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar