Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og starfsmaður Eflingar, segir almennt litið svo á að með batnandi afkomu styttist vinnutími launafólks.
Tilefnið er umfjöllun Morgunblaðsins á þriðjudaginn var um meðalvinnutíma á Íslandi, í ESB og á öðrum Norðurlöndum. Umfjöllunin byggðist á tölum Eurostat, hagstofu ESB, og benti til að vinnuvikan á Íslandi hefði verið að styttast – þó hún sé enn umtalsvert lengri á Íslandi. Þær tölur eru endurbirtar í grafi hér fyrir ofan. Grafið hefur verið leiðrétt en tölur um vinnutíma í ESB árið 2017 voru rangar í fyrri útgáfu. Þá víxluðust tölur um samdrátt á tímabilinu.
Færri muni vilja yfirvinnu
»Almennt má ætla að með batnandi afkomu styttist vinnutíminn, a.m.k. hjá þeim hópum sem eru að sækja í yfirvinnu til þess að bæta afkomuna fyrir venjulega neyslu og fjölskyldurekstur. Það má ætla að öðru óbreyttu og ef við höldum þokkalegum hagvexti á næstu árum, og erum ekki að fara í nein stór áföll, að batnandi afkoma heimila muni skila sér í styttri vinnuviku, ef markmið kjarasamninga sem fyrir liggja nást að einhverju leyti.
Þá myndi ég telja nokkuð ljóst að vinnuvikan myndi styttast að jafnaði í kjölfarið,« segir hann.
Má geta þess að Efling hefur hafnað tillögum Samtaka atvinnulífsins um breytingar á vinnutíma og útreikningi launa. Þær hafi gengið út á að víkka ramma dagvinnutímans úr 10 klst. í 13, að taka kaffitíma út úr launuðum vinnutíma og að lengja uppgjörstímabil yfirvinnu.
Gæti átt við yngra fólkið
Spurður hvort ekki megi ætla að fólk nýti tækifærið og vinni meira þegar framboð af störfum er gott og launin há segir Stefán þá ályktun ganga gegn algengustu kenningum í þessu efni. Þó megi heimfæra þetta upp á ungt fólk og innflytjendur sem eru að koma undir sig fótunum – og þá tímabundið.
Hann rifjar upp að skattfrjálsa árið 1987, sem svo var kallað, hafi yngra fólk nýtt sér umframeftirspurn eftir vinnuafli.
»Skattfrjálsa árið fólst í því að árið 1988 var tekin upp staðgreiðsla skatta, sem þýddi að árið 1988 voru greiddir skattar af tekjum þess árs. Árið á undan, 1987, voru hins vegar greiddir skattar af tekjum ársins 1986, sem þýddi að í reynd var aldrei greiddur skattur af tekjum ársins 1987. Sumir hættu í skóla og nýttu sér að árið 1987 kom vel út skattalega séð gagnvart aukatekjum umfram tekjur ársins 1986. Það þýddi hins vegar náttúrulega ekki að árið væri skattlaust.
Stefán telur aðspurður að Ísland sé að færast frá þeirri yfirvinnumenningu sem hafi tíðkast hér.
»Já, ég held að viðhorfin séu að breytast í þá áttina að ef fólki er gert það kleift kjaralega, með viðunandi dagvinnulaunum, vilji það vinna minni yfirvinnu. Það á sérstaklega við um yngri kynslóðina sem er komin út á vinnumarkaðinn. Ef fólki verður gert þetta auðveldara munum við sjá markverða styttingu vinnutíma í framhaldinu. Þetta er hluti af þeirri hugsun sem er á bak við kröfur í núverandi kjarasamningum. Sem er að gera þetta kleift með því að bæta sérstaklega hag fólks sem er á lægri tekjum og hag unga fólksins sem er að byrja á vinnumarkaði og er á lægri tekjum en þeir eldri,« segir Stefán og bendir á að kröfur um skattalækkanir á lægri tekjur og millitekjur hjálpi einnig til í þessu efni.
Lifað af yfirvinnu og í fleiri en einu starfi
Yfirvinna hefur gegn lykilhlutverki í afkomu launafólks.
»Til dæmis má nefna Eflingarfólkið, verkafólk á höfuðborgarsvæðinu, en þar eru menn að bæta við sig á annað hundrað þúsund krónum í mánaðarlaun með yfirvinnu og starfi númer 2 og 3 ef svo ber undir. Það er reyndar kannski ekki svo algengt að menn séu í þremur störfum. Hlutfallslega margir í þessum hópum hafa þó tekjur úr tveimur störfum.
«Spurður um ástæður langs vinnutíma á Íslandi rifjar Stefán upp að á fyrri áratugum hafi kaup á Íslandi fyrir dagvinnu verið óvenjulágt miðað við hagsæld og nágrannalöndin.
»Íslendingar bættu sér það upp með mikilli vinnu … Rótin að þessu öllu var metnaður Íslendinga í lífsgæðakapphlaupinu. Við höfum verið heldur mikið efnishyggjufólk og með djarfa neyslu á köflum og helsta leiðin til þess að fullnægja því hefur í gegnum tíðina verið að vinna hrikalega mikið, leggja hart að sér.
«Spurður hvort ein skýringin á lengri vinnuviku sé að Ísland hafi verið komið skemmra á þróunarbrautinni en hin Norðurlöndin segir Stefán að um 1970 hafi þjóðarframleiðslan á mann verið komin á svipað ról og í þessum löndum. Hann hafi í bókinni Lífskjör og lífshættir á Norðurlöndum (1990) borið saman lífskjörin á Norðurlöndunum.
»Þá vorum við klárlega komin upp á sama hagsældarstig. Við vorum með svipaða þjóðarframleiðslu á mann og einkaneyslu og frændþjóðirnar á hinum Norðurlöndunum en með lægra grunnkaup, lengri vinnutíma og lægri skatta. Samhliða vorum við hins vegar með minni stuðning frá velferðarkerfinu en hinar Norðurlandaþjóðirnar, en með þessu aukna vinnuálagi náðum við að trekkja einkaneyslu hér upp á svipað stig og á hinum Norðurlöndum.
Fylgifiskur hnattvæðingar
Spurður um það fyrirkomulag sem er til dæmis í Noregi að borga út yfirvinnu með frítökurétti, í stað hærri launa, segir Stefán slíkt fyrirkomulag hafa orðið algengara á Vesturlöndum á síðustu tveimur áratugum, eftir því sem verkalýðshreyfingin hafi veikst og hnattvæðing markaðshátta aukist.
Þetta sé oft í raun rýrnun starfskjara.
Á Íslandi hafi yfirvinnutíminn til dæmis verið um 80% dýrari en dagvinnutíminn. Yfirvinnutekjur hafi gegnt stóru hlutverki í að gera láglaunafólki kleift að láta enda ná saman.
Getur grafið undan réttindum
»Ef þessi svokallaði sveigjanleiki gengur mjög langt getur hann gefið atvinnurekendum aukið svigrúm til þess að vera með fólk í vinnu langt fram á kvöld og um helgar en alltaf á dagvinnukaupi einu, sem taki það svo út í dagvinnufríi einhvern tímann miklu síðar.
Þá er í raun verið að misnota starfsfólkið og rýra kjörin.
Vinnuveitandinn er með slíku að fá aukið svigrúm til að vera með fólk í vinnu á ókristilegum tíma og jafnvel undir miklu álagi, sem kemur niður á fjölskyldulífi, en alltaf aðeins á dagvinnukaupi.
Þótt ég telji að skoða megi einhverjar útfærslur á sveigjanleika verða að vera mjög afgerandi og stíf mörk gagnvart því að ekki sé verið að auka álag og kröfur og rýra um leið kjör fyrir hverja vinnustund hjá vinnandi fólki með svona leiðum …
Þetta er vandmeðfarið og margt að varast.
Að auki mætti alls ekki færa atvinnurekendum sjálfdæmi í slíku.
Við þurfum að vernda það sem áunnist hefur í verkalýðsbaráttu síðustu aldar og byggja ofaná það, en ekki gefa réttindi og starfskjör frá okkur.
Annars verðum við komin niður á kjarastig þróunarlandanna fyrr en síðar. Slíka stefnu geta menn séð í framkvæmd víða í Bandaríkjunum, svo dæmi sé tekið,« segir Stefán.
Fyrri pistlar