Í nýrri könnun kemur fram að um 83% svarenda vilji að fólk sem er með lægstu tekjur (500 þúsund kr. eða minna á mánuði) fái meiri skattalækkun en aðrir (sjá hér).
Um 9% eru hlutlaus en einungis 8% eru þessu andvíg.
Þetta er í takti við áherslur verkalýðshreyfingarinnar og einnig í takti við loforð sem ríkisstjórnin sjálf gaf við upphaf samráðsviðræðna við aðila vinnumarkaðarins á síðasta ári (sjá hér).
Í skýrslunni Sanngjörn dreifing skattbyrðar eru útfærðar nokkrar leiðir í þessum anda.
Stjórnvöld virðast vilja verðlauna ofurlaunafólkið enn frekar
Stjórnvöld lögðu hins vegar fram tillögur sínar um skattalækkun sem fela í sér sömu krónutölu lækkun til allra, frá láglaunafólki sem ekki nær endum saman og upp til forstjóra, bankastjóra og ráðherra.
Allir fá sömu krónutöluna í lækkun, alls 6.750 kr. á mánuði – háir jafnt sem lágir.
Stjórnvöld vilja þannig verðlauna ofurlaunafólkið sem fékk ofurlaunahækkanir á síðustu árum með þessari skattalækkun í ofanálag – í trássi við eigin loforð!
Þjóðin er á annarri leið
Flestir líta hins vegar þannig á, að þessar ofurlaunahækkanir toppanna séu stór orsök þeirrar miklu óánægju sem er nú á almennum vinnumarkaði.
Það eina eðlilega hefði verið að stjórnvöld notuðu til fulls það svigrúm sem þau eru tilbúin að veita í skattalækkun til að lækka eingöngu skatta á tekjulægri hópana.
Með því væri t.d. hægt að koma skattalækkun til þeirra sem eru með undir 500 þúsund króna tekjum á mánuði upp í eða vel yfir 10.000 krónur á mánuði.
Þá færi framlag ríkisins að skipta alvöru máli.
Vonandi verður það niðurstaðan.
Allur þorri almennings vill það – eins og könnunin sýnir.
Fyrri pistlar