Miðvikudagur 03.07.2019 - 12:16 - FB ummæli ()

Óráðshjal alþingismanns um lífeyrismál

 

Óli Björn Kárason, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar æsta grein í Morgunblaðið í dag um það sem hann kallar “tímasprengju” í lífeyrismálum (sjá hér).

Þar leggur hann út af þeirri lýðfræðilegu staðreynd að hlutfall eldri borgara muni fara vaxandi á Íslandi á næstu áratugum – líkt og í öðrum nútímalegum samfélögum.

Segir hann þjóðina ekki hafa efni á svo mikilli fjölgun eldri borgara.

Fólk verði að vinna lengur til að vega á móti þessu. Að öðrum kosti verði að skerða lífskjör þeirra sem eru á vinnumarkaði – eða hækka skatta stórlega.

Allt er þetta hin mesta firra.

Þessar ályktanir Óla Björns eru ýmist á sandi byggðar eða alveg út í hött!

 

Ellilífeyrisþegar framtíðarinnar borga sinn lífeyri sjálfir

Fyrir það fyrsta er fjölgun eldri borgara ekkert sérstakt vandamál hér á landi, því þeir greiða nú þegar stærstan hluta lífeyris síns sjálfir, með söfnun lífeyrisréttinda í lífeyrissjóðunum.

Á næstu áratugum mun sá skyldusparnaður sem í lífeyrissjóðunum er standa undir langstærstum hluta útgjalda þjóðarinnar til ellilífeyris.

Eldri borgarar framtíðarinnar munu að mestu borga sjálfir sinn lífeyri.

Það þarf engar skattahækkanir vegna fjölgunar eldri borgara.

Því síður þarf að skerða kjör vinnandi fólks vegna þessa.

Þetta tal þingmannsins um tímasprengju í opinberum útgjöldum er því alveg út í hött.

Það getur einungis átt við um samfélög þar sem lífeyrir er að mestu fjármagnaður með gegnumstreymiskerfi sem byggir á skattlagningu samtímatekna og þar sem starfsævin er almennt mun styttri en hér á landi.

Öldrunarvandi er nefnilega miklu minna mál á Íslandi en annars staðar.

Sjóðasöfnun lífeyrissjóðakerfisins leysir þann vanda að mestu leyti.

 

Byrði ríkisins af ellilífeyri er minnst á Íslandi meðal OECD-ríkjanna

Það er annað sem þingmaðurinn ætti frekar að huga að í þessu sambandi.

Það er óeðlilega lítið framlag hins opinbera til greiðslu ellilífeyris í gegnum almannatryggingakerfið.

Hvergi í OECD-ríkjunum ber ríkið minni byrðar vegna ellilífeyrismála en á Íslandi.

Ástæðan er óhóflegar skerðingar í almannatryggingakerfinu vegna greiðslna lífeyris úr lífeyrissjóðum.

Þegar lífeyrisgreiðslur lífeyrissjóðanna hækka (vegna aukinna réttinda nýrra lífeyrisþega) þá lækkar framlag almannatrygginga, líka til lágtekjufólks. Sú skerðing er alltof mikil (sjá t.d. hér).

Þetta er stór ástæða þess að lífskjör núverandi lífeyrisþega eru ófullnægjandi.

Hinar óhóflegu skerðingar almannatryggingakerfisins gera það að verkum að útgjöld ríkisins til ellilífeyrisgreiðslna eru jafn lág og raun ber vitni.

Þetta má sjá á myndinni hér að neðan, sem sýnir útgjöld hins opinbera til ellilífeyris meðal OECD-ríkjanna.

Mynd 1: Útgjöld hins opinbera til ellilífeyrisgreiðslna, sem % af landsframleiðslu 2015 til 2017.

 

Ísland (rauða súlan) er með langlægstu útgjöldin, eða rúmlega 2% þegar meðaltal OECD-ríkjanna er 7,5% og fer hæst í um 16%.

Þegar þróun útgjalda ríkisins til ellilífeyris er skoðuð yfir tíma þá hefur hlutfallið rokkað í kringum 2% af vergri landsframleiðslu (sbr. Hagstofa Íslands).

Þrátt fyrir umtalsverða fjölgun eldri borgara á síðustu tveimur áratugum þá hefur byrði ríkisins af slíkum útgjöldum ekki aukist að neinu ráði.

Allt tal um mikla byrði ríkisins af framfærslu eldri borgara í dag og hræðsluáróður um mikla aukningu slíkrar byrði á næstu áratugum er því út í hött.

Íslendingar vinna lengur fram eftir aldri en aðrar þjóðir – svo um munar. Ræða má um hækkun lífeyristökualdurs samhliða hækkun meðalaldurs – en í allt öðru samhengi en Óli Björn gerir.

Ellilífeyrisþegar borga þegar stærstan hluta eigin ellilífeyris sjálfir og munu gera það í enn ríkari mæli á næstu áratugum.

 

Nýfrjálshyggjuórar eða leiftursókn gegn lífskjörum?

Spyrja má hvað þingmanninum gengur til með svo villandi málflutningi?

Óli Björn Kárason er þekktur sem talsmaður nýfrjálshyggju í Sjálfstæðisflokknum.

Er þetta hluti af einhvers konar herferð til að skerða kjör lífeyrisþega eða launafólks, líkt og einkennt hefur hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar á liðnum áratugum?

Kanski eldri borgarar í Sjálfstæðisflokknum ættu að lesa Óla Birni pistilinn og koma honum á réttara ról?

——————————————

Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands og starfar í hlutastarfi sem sérfræðingur hjá Eflingu – stéttarfélagi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar