Þegar Ögmundur Jónasson var innanríkisráðherra setti hann reglugerð sem takmarkaði heimildir útlendinga til landakaupa hér á landi.
Skilyrðið var að viðkomandi landakaupandi gæti sýnt fram á búsetu eða áform um atvinnurekstur hér á landi.
Þegar Sjálfstæðisflokkurinn komst til valda á ný (2013) afnam eftirmaður Ögmundar, Hanna Birna Kristjánsdóttir, reglugerð hans umsvifalaust. Sagði hana hafa verið á gráu svæði (sem var þó auðvitað út í hött – sjá hér).
Síðan þá hafa hér átt sér stað viðamikil uppkaup erlendra auðmanna á landi, ekki síst tengt veiðihlunnindum (sjá hér). Margir hafa áhyggjur af þessari þróun (sjá hér).
Breski auðmaðurinn Jim Ratcliffe hefur á stuttum tíma keypt um 1% af Íslandi! Sumt af slíkum eignum er skráð í draugafélögum í skattaskjólum.
Stefnubreyting?
En nú segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að ríkisstjórnin vilji innleiða slíkar takmarkanir á ný. Um það sé „þverpólitísk samstaða“.
En vilja Sjálfstæðismenn það eitthvað frekar nú en áður?
Þeir hafa alltaf verið andvígir því að takamarka frelsi auðmanna, hvort sem er til landakaupa eða til að braska með fjöregg þjóðarinnar…
Spurningin er því hversu langt Katrín fær að fara með þessu áfrom sem hún talar um.
Nær hún að fara jafn langt og Ögmundur gerði í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms?
Ástæða er til að ætla að Sjálfstæðismenn muni vilja þynna málið út og gera að sýndarbreytingu sem engu máli skiptir …
Fyrri pistlar