Sjálfstæðismenn keyra nú á þeirri stefnu sinni að selja Íslandsbanka að fullu og einnig meirihluta ríkisins í Landsbankanum. Vilja drífa í þessu áður en fólk áttar sig á hvað er að gerast.
Sjálfstæðismenn vilja að ríkið verði einungis áhrifalítill minnihlutaeigandi Landsbankans.
Þjóðin er á allt annarri skoðun.
Í könnum sem nefnd fjármálaráðherra um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið lét gera í fyrra kom fram að um 81% almennings eru jákvæð gagnvart ríkiseign banka (sjá hér).
Í könnun Fréttablaðsins sem birt var í síðustu viku kemur fram að um 60% almennings vilja auka eða halda óbreyttu eignarhaldi ríkisins á bönkunum.
Einungis um 5,1% vilja að ríkið selji alla hluti sína í bönkunum og rétt rúmlega þriðjungur vill minnka hlut ríkisins eitthvað (sjá hér).
Þetta er skýrt: Stór meirihluti almennings vill að ríkið eigi áfram eða auki eignarhald sitt á bönkunum.
Reynslan: Mikil áhætta af einkaeign banka
Þetta er skynsamlegt hjá þjóðinni.
Því Íslendingar hafa óvenju slæma reynslu af einkaeign banka.
Ríkið átti Landsbankann farsællega í 117 ár, fram til 2003 er hann var að fullu einkavæddur.
Það tók einkaaðilana þá um 5 ár að reka Landsbankann og bankakerfið nær allt í risagjaldþrot – með gríðarlega neikvæðum afleiðingum fyrir lífskjör almennings.
Nú segir nýfrjálshyggjumaðurinn Óli Björn Kárason að „ríkið eigi ekki að taka áhættu af því að eiga bankana“.
En áhætta ríkisins af einkaeign bankanna er miklu meiri!
Miklu meiri!
Það kennir tíu ára gömul reynsla okkar af hruninu.
Ríkisrekinn Landsbankinn er þar að auki að skila betri rekstrarafkomu nú en hinir tveir bankarnir, þar á meðal hinn einkarekni Arion banki (sjá hér).
Mikill ábati er af ríkiseign banka.
Þjóðin fær ekki einungis meira öryggi af ríkiseign banka.
Hún hefur fengið um 207 milljarða í arðgreiðslur af eignarhaldi sínu á Landsbankanum og Íslandsbankanum á síðustu 5 árum (til 2018).
Pælið í því!
Pælið aftur í því!
Sjálfstæðismenn vilja nú koma þessum mikla arði af ríkisbönkunum í vasa einkaaðila, fárra auðmanna sem eru Sjálfstæðisflokknum þóknanlegir og sem munu styrkja flokkinn sérstaklega fyrir vikið.
Um þetta snýst málið.
Þjóðin þarf að grípa í taumana og gæta hagsmuna sinna.
Það er ekki bara í orkupakkamálinu sem Sjálfstæðisflokkurinn gengur gegn vilja og hagsmunum þjóðarinnar.
Fyrri pistlar