Föstudagur 15.11.2019 - 12:14 - FB ummæli ()

Samherji rannsakar sig sjálfur!

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum stjórnenda Samherja eftir að óvænt innsýn í starfshætti þeirra birtist almenningi í vandaðri umfjöllun Kveiks og Stundarinnar.

Fyrstu viðbrögð Samherja komu reyndar fram áður en gögn Kveiks og Stundarinnar birtust, í formi yfirlýsingar frá fyrirtækinu (sem augljóslega vissi hvað var í vændum).

Þau voru hvorki stórbrotin né veigamikil.

 

Fyrstu viðbrögð

Í yfirlýsingu Samherja var reynt að telja fólki trú um að uppljóstrarinn hefði verið einn að verki og bæri einn ábyrgðina á því ef eitthvað kynni að hafa misfarist í Namibíu.

Rétt eins og hann hefði haft heimildir til að greiða sjálfur út af reikningum Samherja hundruð milljóna króna inn á reikninga mútuþega í Dúbaí – án þess að stjórnendur Samherja tækju eftir slíkum sjóðaleka út úr fyrirtækinu!

Þetta gat aldrei orðið trúverðugt.

Birt gögn frá fundum forystumanna fyrirtækisins og tölvupóstum sáu um það.

Ekki bætti svo úr skák að mútugreiðslurnar héldu áfram af fullum krafti allt fram á þetta ár, löngu eftir að uppljóstrarinn hugrakki hafði verið rekinn frá fyrirtækinu.

Þetta var sem sagt misheppnuð magalending – beinlínis brotlending!

Skilaði fyrirtækinu engu og því ljóst að teikna yrði upp nýjan varnarleik.

 

Næstu viðbrögð

Þá var gripið til þess að leigja norska lögfræðistofu til að „rannsaka“ málið innan Samherja. Stjórn fyrirtækisins „myndi sjá til að það yrði gert“ og niðurstöður kynntar almenningi.

Þetta er auðvitað kostulegt. Að ætla að rannsaka sekt sína sjálfir!

Lögfræðistofur, hvort sem þær eru norskar eða íslenskar, eru ekki sjálfstæðar og óháðar rannsóknarstofnanir.

Menn kaupa þjónustu lögfræðistofa til að gæta hagsmuna sinna.

Þetta er sem sagt hönnun málsvarnarinnar – en ekki óháð úttekt.

Svo láta menn í fjölmiðlum eins og að þannig verði málið afgreitt og vona að með því takist að koma hneykslinu úr augsýn aftur.

Lægja öldurnar – eins og forstjórinn segir.

Þetta er væntanlega gert á forsendum langrar reynslu Samherja, sem hefur haft mikið vald og áhrif á stjórnvöld, hvort sem er í Namibíu eða á Íslandi.

Þeir reikna með að komast upp með þetta.

 

Fyrir hvern vinna stjórnvöld nú?

Maður óttast að vegna mikils áhrifavalds stórfyrirtækja eins og Samherja þá muni þetta mál hafa lágmarksafleiðingar í íslensku samfélagi.

Stjórnvöld eru nú að lækka veiðileyfagjöldin um nærri helming milli ára – þrátt fyrir að þau hafi verið alltof lág á gríðarlegum veltiárum sjávarútvegs eftir hrun.

Samherji og önnur stór sjávarútvegsfyrirtæki hafa byggt upp svo miklar eignir frá hruni að fyrir þeim liggur að kaupa smám saman allt sem máli skiptir á Íslandi.

Er það trúverðugt að stjórnvöld sem þannig beygja sig undir peningahagsmuni eigenda stórfyrirtækja muni tryggja faglega og ákveðna úttekt á mútugreiðslum og skattsvikum sem þessir aðilar stunda?

Ég nefni bara eitt dæmi til viðbótar um linkind stjórnvalda gagnvart slíkum aðilum eins og Samherji er.

Um árabil hefur kvóti Samherja og skyldra fyrirtækja verið yfir lögbundnu leyfðu hámarki heildarkvóta (sem lögum samkvæmt er í eigu þjóðarinnar).

Þetta hefur verið látið viðgangast í kyrrþey – eins og ekkert sé.

Fjölda skyldra dæma um linkind stjórnvalda má auðvitað nefna: óeðlileg verðmyndun á lönduðum afla; brottkast; brot á kjarasamningum; notkun erlendra skattaskjóla, óeðlilega lág skattheimta af fjármagnstekjum, o.s.frv.

Mikið mun þurfa til að á þessu hneyksli Samherja verði tekið á heilbrigðan hátt hér á landi.

Kannski Namibíu-menn taki fastar á þessu sín megin en við hér á Íslandi?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar