Það er ekki umdeilt að kvótakerfinu fylgdi aukin hagkvæmni.
Með því að fækka útvegsaðilum og stækka hlut hvers af heildarveiðum þá batnar hagur þeirra fyrirtækja sem fá að veiða.
Það segir sig sjálft.
Þetta fólst í kvótakerfinu.
Með því myndaðist mikill auður sem safnaðist hefur á sífellt færri hendur á tíma kvótakerfisins (1984 til nútímans).
Örfáir eigendur stærstu útvegsfyrirtækja fara í dag með meirihluta veiðiheimildanna.
Þetta er miklu meiri samþjöppun en nokkurn óraði fyrir við upphaf kvótakerfisins.
Kvóti hefur flust frá fjölda byggðarlaga sem liggja vel við sjósókn – með tilheyrandi tjóni fyrir íbúa og samfélag (sjá t.d. hér).
Á sama tíma hefur mikil auðsöfnun stærstu útvegsmanna aukið vald þeirra stórlega.
Eignamyndun og arðgreiðslur út úr sjávarútvegsfyrirtækjum hafa verið svo miklar eftir hrun að útvegsmenn eru í stórum stíl að kaupa upp áhrifamikil fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum (olíufélög, flutningafyrirtæki, verslanir, fjölmiðla o.fl.).
Með sama áframhaldi munu fáir útvegsmenn eignast flest sem máli skiptir í íslensku samfélagi – ásamt nokkrum fjáraflabröskurum (sjá t.d. hér).
Slík samþjöppun auðs og valds grefur undan lýðræði og eykur spillingu.
Þannig sprettur mikið ójafnvægi og óréttlæti af kvótakerfinu (sjá t.d. hér).
Það var hannað til að fáir einstaklingar gætu fengið stærri hluta af auðlindarentunni – og orðið vellauðugir.
Á þetta var bent á fyrstu árum kerfisins og það hefur svo sannarlega gengið eftir.
Þetta kallar á grundvallarbreytingar sem færa ávinning kvótakerfisins mun betur til þjóðarinnar en nú er.
Þrengja þarf að frelsi útvegsmanna og auka frelsi almennings.
Þrengja þarf að auðsöfnun útvegsmanna og bæta hag fjöldans.
Kvótakerfið í núverandi mynd er bara fyrir stóra og vellauðuga útvegsmenn.
Fyrri pistlar