Þriðjudagur 03.12.2019 - 14:16 - FB ummæli ()

Ójafnaðarmenn vega að Piketty

Breska tímaritið Economist sagði frá því í grein í síðustu viku að meðal fræðimanna sem rannsakað hafa ójöfnuð tekna og eigna á Vesturlöndum séu uppi deilur um einstakar mælingaraðferðir og að rætt sé um að slíkt geti breytt niðurstöðum sem hingað til hafi verið teknar sem gildar.

Því er sérstaklega slegið fram að niðurstöður Thomasar Piketty og samstarfsmanna hans um aukningu ójafnaðar í nútímasamfélögum séu ýktar og jafnvel ýjað að því að þær standist ekki.

Tímaritið bætir að vísu við fyrirvara um að raddir gagnrýnenda Pikettys og félaga séu ekki endilega réttar.

Hér uppi á Íslandi tók Morgunblaðið kipp og birti grein og svo leiðara um að nú stæði ekki lengur steinn yfir steini í niðurstöðum Pikettys og félaga og reifaði einnig þá skoðun að ójöfnuður gæti verið mjög gagnlegur í samfélaginu.

Mest er þetta þó stormur í vatnsglasi.

Sú umræða um álitamál í mælingum sem Economist segir frá er hvorki ný né heldur hefur hún velt neinum björgum í niðurstöðum rannsókna á ójöfnuði tekna og eigna.

Allar megin niðurstöður Piketty og félaga stranda lítt haggaðar.

 

Um hvað er rætt?

Um er að ræða eðlilegar tilraunir og umræðu um mælingar og athuganir í rannsóknarheiminum sem hafa komið upp á yfirborðið í kjölfar þess að hin áhrifamikla bók Pikettys, Capital in the Twenty-First Century, kom út árið 2014.

Menn velta fyrir sér hvort einstakar mælingaraðferðir séu þær heppilegust eða að einhverju leyti takmarkaðar og menn velta fyrir sér áreiðanleika gagna. Svo prufa menn aðrar aðferðir og önnur gögn og rýna niðurstöður upp á nýtt. Öll er slík endurskoðun sjálfsögð og af hinu góða.

Ef ekki væri tekið á svo áhrifamiklum rannsóknarverkum eins og Piketty og tugir samstarfsmanna hans um allan heim hafa komið fram með frá um 1993 til þessa árs þá væri eitthvað að í rannsóknarheiminum.

Það er jú ein af grundvallarforsendum hinnar vísindalegu aðferðar að menn sannreyni mælingar og niðurstöður hvers annars. Traustar niðurstöður þurfa til lengdar að standast slíkar gagnrýnar athuganir frá vísindasamfélaginu.

Allt hefur þetta þó verið samkvæmt áætlun. Efasemdaraddir og nýjar tilraunir hafa komið fram en meginmynstur niðurstaðna standa þó lítt breytt, þó annað megi ætla af umfjöllun  Morgunblaðsins.

Raunar hafa bæði Piketty og félagar og aðrir sérfræðingar á þessu sviði lengi fjallað um áhrif mismunandi mælingaraðferða og mismunandi gagna sem til grundvallar eru lögð.

Piketty og félagar hafa bæði svarað sumum af þessum atriðum sem Economist nefnir og jafnvel lagt til ýmis frekari nýmæli í rannsóknaraðferðum á allra síðustu árum (t.d. svokallaða „distributional national accounts“), sem fela í sér framfarir og aukinn áreiðanleika í þjóðhagsreikningaskilum og rannsóknum á tekjuskiptingu.

Þá hafa þessir aðilar lagt fram mikið af nýjum gögnum um áhrif skattkerfa og skattaskjóla á tekju- og eignadreifingu (einkum Gabriel Zucman og Emmanuel Saez), sem sömuleiðis auka áreiðanleika og skilning.

Ágætt yfirlit um almennar niðurstöður um þróun ójafnaðar í heiminum má finna í World Inequality Report 2018 (hér).

Rétt er líka að halda til haga að þó samstarfsmenn Pikettys séu stór hópur þekktra sérfræðinga á sviðinu frá öllum helstu löndum jarðarinnar, þá hafa aðrir marktækir aðilar og stofnanir komist að svipuðum niðurstöðum, til dæmis OECD, Congressional Budget Office í USA (óháð úttektarstofnun bandaríska þingsins), Luxembourg Incomes Study stofnunin (LIS) og Eurostat, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Mikið þarf því til ef takast á að snúa niðurstöðum Piketty og félaga á haus!

 

Tæknileg atriði

Skoðum lítillega atriði sem nefnd eru í ofangreindri grein í Economist.

Sagt er að með mismunandi tekjuhugtökum fáist ólíkar niðurstöður. Til dæmis mælist minni aukning ójafnaðar í sumum löndum ef miðað er við ráðstöfunartekjur eftir skatta og bætur en með heildartekjum fyrir skatta og bætur.

Flestir rannsakendur á sviðinu skoða hvoru tveggja og raunar fleiri tekjuhugtök (sjá t.d. bókina Ójöfnuður á Íslandi: Dreifing tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi, sem út kom 2017). Þetta hefur því alltaf verið inni í myndinni, bæði hjá Piketty og flestum öðrum.

Sagt er að öllu breyti hvort miðað sé við fjölskyldur eða einstaklinga, vegna breyttrar hjúskapartíðni í seinni tíð. Þetta hefur einnig alltaf verið inni í myndinni hjá mörgum rannsakendum (sjá t.d. umfjöllun um þetta í Ójöfnuður á Íslandi).

Sagt er að taka eigi tillit til velferðarþjónustu (t.d. Medicaid í USA). Það er að vísu ekki sjálfgefið að jafna eigi velferðarþjónustu við árlegar tekjur, en tilvist opinberra velferðarkerfa dregur úr ójafnaðarstigi í flestum löndum. Það breytir þó ekki meginmynstrum ójafnaðar. Sjá t.d. umfjöllun um þetta í bókinni Ójöfnuður á Íslandi.

Sagt er að skattaleg meðferð ólíkra tekjuþátta og eigna hafi áhrif. Þetta hefur alla jafna verið inni í rannsóknum á skiptingu tekna og eigna. Sjá t.d. ítarlega umfjöllun um þetta í tilviki Íslands í bókinni Ójöfnuður á Íslandi.

Sagt er að skattaundanskot og notkun skattaskjóla skipti máli fyrir ójafnaðarmælingar. Það er vissulega rétt og fáir hafa gert meira til að varpa ljósi á þessa þætti en samstarfsmenn Pikettys (einkum Zucman og Saez). Þau göt sem þessu tengjast fela reyndar oftast í sér mestar líkur á vanmati ójafnaðar því þeir tekjuhæstu og eignamestu eru helstu notendur skattaskjóla.

Sagt er að horft sé framhjá því í rannsóknum á tekjuskiptingu að tekjur fólks breytist yfir starfsferilinn og að fólk færist upp tekjustigann í samfélaginu. Rannsóknir á ójöfnuði draga sérstaklega fram mun milli efstu, mið og lægstu tekna. Breidd og einkenni skiptingarinnar á hverjum tíma. Því fylgir þó engin forsenda um að sömu einstaklingarnir séu á svipuðum stað í tekjustiganum til lengri tíma, þó það eigi reyndar við um flesta.

Raunar eru helstu tíðindi af hreyfanleika um tekjustigann þau, að úr tækifærum til að vinna sig upp hefur dregið mikið í Bandaríkjunum og Bretlandi í seinni tíð. Norrænu velferðarríkin koma betur út sem „lönd tækifæranna“ nú til dags.

Sagt er að niðurstöður um eignaskiptingu séu veikari og bjóði ekki upp á eins ábyggilegar niðurstöður og tekjugögn. Það er rétt og þess vegna þarf ætíð að hafa meiri fyrirvara um ójöfnuð eigna en ójöfnuð tekna, en enginn sérfræðingur á þessu sviði efast um að ójöfnuður eigna er mun meiri en ójöfnuður tekna.

Fáir hafa betur gert grein fyrir þessum tæknilegu vandamálum en einmitt Thomas Piketty og félagar. Um leið hafa þeir unnið þrekvirki í að auka aðgengi að mikilvægum opinberum gögnum um bæði tekjur og eignir, ekki síst gögnum um langtímaþróun ójafnaðar.

 

Niðurlag

Tímaritið Economist er gamalgróið og hefur lengst af átt samleið með fjármagnseigendum í skoðunum sínum. Það hefur í senn verið íhaldssamt og hægri sinnað í pólitík.

Það kom því á óvart fyrir nokkrum árum, í kjölfar fjármálakreppunnar sem hófst 2008, að tímaritið fór í auknum mæli að fjalla um neikvæð áhrif ójafnaðar á hagvöxt og mikilvægi þess að stemma stigu við auknum ójöfnuði.

Meðal annars birti tímaritið óvenju jákvæðan greinaflokk um farsæla sambúð jafnaðar og hagsældarþróunar í norrænum samfélaglögum.

Nú virðist gamli tíminn þó vera að snúa til baka hjá Economist tímaritinu.

Sennilega ræður mestu um það að nú eru vaxandi kröfur um aukna skattlagningu hæstu tekna og mestu eigna í Bandaríkjunum og Bretlandi og víðar. Þetta er oft réttlætt með tilvísunum til niðurstaðna um gríðarlegan vöxt ójafnaðar – og koma nöfn Pikettys og félaga þar oft við sögu.

Til dæmis vísa Bernie Sanders og Elisabeth Warren gjarnan til þessa í stefnumálum sínum fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum.

Hjarta Economist slær augljóslega enn að mestu til hægri. Umhyggjan fyrir hagsmunum fjármálaaflanna og elítunnar sem fleytt hefur rjómann ofanaf hagvaxtarkökunni á síðustu áratugum er augljóslega enn til staðar á ritstjórnarskrifstofum Economist (og Morgunblaðsins).

Flest af því sem nefnt hefur verið sem gagnrýni á niðurstöður Pikettys og félaga og annarra aðila á sviði ójafnaðarrannsókna hefur verið til umfjöllunar og breytir litlu sem engu um megin niðurstöður.

Þeir sem una því illa að almenningur í vestrænum löndum amist við vaxandi ójöfnuði þurfa að bíða þess að raunveruleg þróun tekjuójafnaðar snúist við áður en að þeim verður að ósk sinni um að ójöfnuður verði tekinn af dagskrá stjórnmálanna.

Ritstjórar Economist virðast átta sig á þessu, því undir lok greinar sinnar segja þeir, að jafnvel þó ójöfnuður hafi aukist eitthvað minna en Piketty og félagar segja, þá sé bilið milli ríkra og fátækra „óþægilega“ mikið og margt sé vissulega að í kapítalisma samtímans sem taka þurfi á.

Já, það hvessti aðeins í vatnsglasinu í síðustu viku, en engin alvöru viðvörun var þó gefin út!

Allir haldi því ró sinni og yfirvegun á aðventunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar