Í Bandaríkjunum er nú risin hávær deila milli viðskiptajöfra og auðmanna annars vegar og lýðheilsu- og faraldursfræðinga hins vegar um viðbrögð við veirufaraldrinum.
Talsmenn lýðheilsu og forvarna hafa lagt til samskiptahömlur til að aftra útbreiðslu veirunnar og dauðsföllum. Þetta kemur niður á viðskiptalífinu.
Í flestum ríkjum eru þessi sjónarmið lækisfræðanna ríkjandi. Enda ekki betri leið þekkt til að verjast svo skæðri faraldurssótt, til að vernda líf.
Eftir þessu hefur verið farið í Bandaríkjunum í rúma viku, en þar þykja stjórnvöld þó hafa brugðist alltof seint við hættunni.
Forsetinn Trump gerði framanaf lítið úr ógninni og fullyrti að stjórnvöld hefðu stjórn á faraldrinum – ekkert væri að óttast. Það var augljóslega rangt!
Loks þann 16. mars gaf forsetinn út mild fyrirmæli um hömlur á samskiptum til að draga úr útbreiðslu veirunnar – sem skyldu þó einungis gilda til 15 daga.
Peningamenn gegn lýðheilsufólki í USA
Nú eftir rúma viku af gildistímanum hefur forsetinn komið fram með efasemdir um mikilvægi aðgerðanna og boðar afléttingu þeirra sem allra fyrst – helst ekki seinna en um páska.
Þetta er áður en veiran hefur náð hámarksútbreiðslu í Bandaríkjunum! Ekki er heldur séð fyrir hvenær toppi hættunnar verði náð.
Forsetinn er að hugsa um hagvöxtinn, peninga og gróða efnamanna. Þar á meðal eigin hag.
Aðrir auðmenn og nýfrjálshyggjuhagfræðingar í Bandaríkjunum taka undir með honum (þetta er áberandi á Fox sjónvarpsstöðinni). Sumir úr þessum hópum segja beinlínis að í lagi sé að fórna lífi eldri borgara til að tryggja betra efnahagslíf fyrir yngri kynslóðina.
Þetta gildismat endurspeglar bandaríska samfélagið, þar sem hagsmunir og gildi auðmanna eru alltaf ríkjandi en hagur almennings og sérstaklega þeirra sem höllum fæti standa er víkjandi.
Ráðandi öflum bandaríska samfélagsins finnst gróðinn til skemmri tíma mikilvægari en líf einstakra borgara.
Ísland er réttu megin í gildismatinu
Við sem búum á Íslandi og á Norðurlöndum almennt megum þakka fyrir að búa ekki við þessi bandarísku sjónarmið.
Enda auðkennum við samfélög okkar sem “velferðarríki” – en í Bandaríkjunum er það hugtak næstum skammaryrði.
Hér er lífið veigameira á vogaskálunum en gróði eignafólks – eða svo virðist vera hjá flestum.
Ég held að ef forsætisráðherra okkar myndi tala eins og Trump gerir um þessi mál þá myndi þjóðinni verða verulega misboðið.
Nýkynntar aðgerðir íslenskra stjórnvalda miða að því að fleyta atvinnulífi og heimilum í gegnum kreppuna, sem verður að öllum líkindum skammtímaáfall.
Við getum verið ósammála um stærð aðgerðanna og einstök einkenni á útfærslum, en markmiðið er rétt.
Hvergi er heldur slegið hér af kröfum lýðheilsufræðanna um aðgerðir til að spyrna gegn útbreiðslu og dauðsföllum og fagfólk látið sjá um forystuna.
Jafnvel seðlabankastjórinn, æðsti yfirmaður peningamálanna, er með rétt gildismat þegar hann segir í dag: “Við leggum á okkur kostnað til að bjarga lífum”.
Eftir því sem lengra líður á kreppuna tekur meira á og þá verður erfiðara en jafnframt mikilvægara að halda lýðheilsumarkmiðunum í hávegi – undir leiðsögn sérfræðinganna í heilbrigðisgeiranum.
Þannig dregur stór kreppa fram einkenni samfélaga og ekki síst hugarfar og gildismat ráðandi afla.
Við krefjandi aðstæður kemur best í ljós úr hverju menn eru gerðir og hvað fyrir þeim vakir.
Fyrri pistlar