Laugardagur 18.04.2020 - 11:27 - FB ummæli ()

Viðbrögð við kreppunni – tékklisti launafólks

Kóvid-kreppan er ólík fjármálakreppunni sem hófst 2008. Viðbrögðin þurfa því að vera með öðrum hætti.

Nú stöðvast efnahagslífið vegna tímabundinna sóttvarnaraðgerða. Fjármálakreppan varð vegna djúpstæðs skuldavanda banka, fyrirtækja og heimila.

Allsherjarlokun samfélaga nú leiðir til fordæmalausrar aukningar atvinnuleysis, en hún er tímabundin. Það er lykilatriði.

Þegar sóttvarnaraðgerðum linnir mun atvinnulífið fara í meiri virkni, stig af stigi. Þá mun aftur draga úr atvinnuleysi, eins og gert er ráð fyrir í nýrri spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir umheiminn (sjá hér) og í spá Vinnumálastofnunar hér á landi (sjá hér).

Meðaltal atvinnuleysis á árinu 2020 verður því mun lægra en er nú á meðan sóttvarnaraðgerðir eru í hámarki.

Ferðaþjónustutengdar greinar verða hins vegar í verstu stöðu hér á landi. Þar mun kreppan vara lengst. Ferðaþjónustan þarf því að vera í gjörgæslu um hríð.

Hvað snertir það stóran hluta vinnumarkaðarins?

Í ferðaþjónustutengdum greinum störfuðu fyrir kreppu um 12-14% vinnandi fólks. Þó greinin sé mikilvæg fyrir störf og gjaldeyrisöflun þá er hún eftir sem áður minnihluti vinnumarkaðarins og efnahagslífsins.

Eftir að sóttvarnaraðgerðum linnir mun meirihluti atvinnugreina geta snúið til þokkalegra starfsskilyrða á ný. Vandi ferðaþjónustunnar er því ekki vandi alls atvinnulífsins í sama mæli.

Fyrirtæki í byggingariðnaði, sjávarútvegi, framleiðsluiðnaður, verslun, sem og landbúnaður og opinber þjónusta, eiga öll þokkalega góðar líkur á að ná tiltölulega fljótt upp viðunandi starfsemi – að óbreyttu háttarlagi veirunnar.

Þetta er einmitt forsenda spár AGS um að árið verði mun skárra en staðan er nú í miðjum sóttvarnaraðgerðum.

Menn ættu því ekki að ýkja stærð áfallsins.

Því til viðbótar er staða fjármála ríkisins og seðlabankans mjög góð og getan til að taka á skammtímavanda því mikil.

Stærstu álitamálin nú snúast um útfærslur viðbragða við kreppunni.

 

Það sem gera þarf – frá sjónarhóli launafólks

Mikilvægast er að tryggja afkomu launafólks í gegnum kreppuna og verja betur þá sem missa vinnuna að hluta eða fullu. Efna þarf alla þætti lífskjarasamningsins til að tryggja viðspyrnu í uppsveiflunni og stöðugleika í framhaldinu.

Eftirfarandi eru lykilatriði til að ná ofangreindum markmiðum:

  • Skila kaupmætti lífskjarasamningsins til fulls svo hægt verði að efla einkaneyslu innanlands í kjölfar sóttvarnaraðgerða.
  • Hækka flatar atvinnuleysisbætur úr 289.510 kr. á mán. til samræmis við lágmarkslaun (341.000 kr. á mánuði frá 1. apríl sl.).
  • Lengja tímabil atvinnulausra á hlutfalli fyrri heildarlauna úr 3 mánuðum í 6.
  • Hækka hámarksviðmið atvinnuleysisbóta úr 456.404 kr. á mánuði í átt að meðallaunum (um 650.000).
  • Útvíkka og framlengja hlutabótaleiðina svo hún nái markmiðum sínum til fulls.
  • Tryggja afkomu þeirra sem ekki geta stundað vinnu til fulls vegna smithættu (t.d. vegna undirliggjandi sjúkdóma eða vegna skertrar þjónustu leikskóla og grunnskóla o.fl.). Þessir hópar falli undir lög um laun í sóttkví.
  • Skila öllum úrræðum í húsnæðismálum sem lofað var í lífskjarasamningi (hlutdeildarlán, aukning almennra íbúða, leigubremsa o.fl.).
  • Seðlabankinn tryggi að verðbólga fari ekki yfir markmið (2,5%), svo kaupmáttur lífskjarasamningsins sé tryggður og að skuldakreppu verði aftrað.
  • Lífeyrir almannatrygginga hækki að lágmarki til samræmis við lágmarkslaun á vinnumarkaði.
  • Í kjölfar sóttvarnaraðgerða verði virkni- og stuðningsúrræði fyrir langtímaatvinnulausa efld.
  • Aðgerðir stjórnvalda stuðli að jöfnuði, líkt og lífskjarasamningurinn.
  • Eigendur fyrirtækja sem njóta opinbers stuðnings í kreppunni undirgangist skilyrði um að greiða ekki út arð eða kaupa hlut í sjálfum sér næstu tvö árin.

Vegna þess að lengri tíma mun taka að fá erlenda ferðamenn aftur til landsins í nægjanlegum mæli þarf uppsveiflan í kjölfar sóttvarnaraðgerða að byggja öðru fremur á aukinni innlendri eftirspurn, þ.e. einkaneyslu almennings og auknum opinberum framkvæmdum.

Ofangrein kjaraatriði munu leika lykilhlutverk í að ná því markmiði.

Um þessi sjónarmið er víðtæk samstaða innan hreyfingar launafólks (sjá t.d. hér og hér).

Stuðningsaðgerðir stjórnvalda og seðlabanka við fyrirtæki í tímabundnum vanda skipta einnig miklu máli.

Að verja kjör almennings og líf mikilvægra lífvænlegra fyrirtækja í þessum aðstæðum er bæði réttlátt og efnahagsleg hagkvæmt (í anda Keynes).

Saman munu þessar aðgerðir auka líkur á farsælli framvindu þjóðarbúskaparins eftir að sóttvarnaraðgerðum linnir – uns bóluefni verða tiltæk.

 

Síðasti pistill: Lækkun tryggingagjalds vegi á móti launahækkun

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar