Stórar kreppur hafa oft verið vendipunktar í þróun kapítalismans – sumar þó meira en aðrar.
Þannig leiddi Kreppan mikla á fjórða áratugnum til grundvallarbreytinga á efnahags- og stjórnmálaskipan vestrænna samfélaga. Kreppan sú var af flestum talin til marks um að óheftur frjálshyggju-kapítalismi hefði brugðist illa og fara yrði nýja leið.
Niðurstaðan var blandaða hagkerfið, grundvallað á hagstjórnarspeki John Meynard Keynes. Það færði ríkisvaldinu stærra hlutverk en áður, með aukinni reglun og aðhaldi að markaðsskipulaginu – fínstillingu efnahagslífsins í þágu almannahags.
Þessi skipan var við lýði í um 3 áratugi, frá lokum seinni heimsstyrjaldar fram á fyrri hluta áttunda áratugarins. Hluti af kerfinu var Bretton Woods skipan gjaldeyrismála, með höftum á flæði fjármagns milli landa og Bandaríkjadal sem kjölfestu í milliríkjaviðskiptum.
Upp úr 1970 losnaði um þessa skipan, vegna nýrra vandamála í vestrænum hagkerfum og skapaði það nýtt svigrúm fyrir sjónarmið nýfrjálshyggju, eða óheftari kapítalisma, eins og tíðkast hafði fyrir seinni heimsstyrjöld.
Er Margrét Thatcher og Ronald Reagan komu til valda í kringum 1980 fékk nýfrjálshyggjan mikinn byr í seglin og varð upp frá því ríkjandi hagstjórnarspeki, ekki bara í vestrænum samfélögum heldur meira og minna um allan heim. Alþjóðavæðingin varð að miklu leyti frjálshyggjuvæðing markaðshátta, fjármála og skattaskjóla.
Tímabil blandaða hagkerfisins (1945-1973) var sem sagt tímabil mikilla framfara: mikils hagvaxtar, nútímavæðingar, aukins jafnaðar og fjárhagslegs stöðugleika.
Tímabil nýfrjálshyggjunnar (1980 til nútímans) hefur hins vegar verið tímabil hægari hagvaxtar, alþjóðavæðingar, aukins ójafnaðar og tíðari fjármálakreppa.
Þetta má sjá á myndinni hér að neðan. Fyrir seinni heimsstyrjöldina var mikið um fjárhagslegan óstöðugleika og kreppur. Síðan tók við stöðugleiki til áttunda áratugarins og loks vaxandi krepputilhneigingar aftur á síðustu áratugum.
Við þetta bætist nú Kóvid-19 kreppan, sem óvíst er hversu stór verður, en sumir hafa spáð því að hún verði á stærð við þær stærstu: Kreppuna miklu 1929-1939 og Fjármálakreppuna sem hófst 2008.[i]
Reynslan er því sú, að óheftari kapítalisma í anda frjálshyggju fylgi meiri hætta á fjármálakreppum og auknum ójöfnuði. Frjálshyggjuskipanin þjónar best hagsmunum fámennrar yfirstéttar atvinnurekenda og fjárfesta, en blandaða hagkerfið bætti kjör lægri og milli stétta (alls þorra almennings) mun betur.[ii]
Eins og myndin sýnir glögglega þá hefur tíðni fjármálakreppa aukist verulega eftir að Bretton Woods skipanin leið undir lok, með auknum frjálshyggjuáhrifum.
Vaxandi skuldasöfnun veldur nú áhyggjum
Áður en Kóvid-19 kreppan skall á voru sumir hagfræðingar farnir að verða uggandi um að senn styttist í nýja fjármálakreppu, til dæmis Nouriel Rubini, sem spáði fyrir um fjármálakreppuna 2008, eins og frægt er. Kenneth Rogoff og Carmen Reinhart, áhrifamiklir sérfræðingar í fjármálakreppum, sömuleiðis.[iii]
Megin ástæða þessa er sú, að skuldir hafa verið að aukast í heimshagkerfinu jafnt og þétt. Of mikil uppsöfnun skulda í spákaupmennsku-umhverfi er yfirleitt helsta orsök fjármálakreppa.
Alþjóðabankinn birti nýlega athyglisverða skýrslu um skuldaþróunina í heimshagkerfinu, Global Waves of Debt: Causes and Consequences (2020). Sjá mynd úr skýrslunni hér að neðan er sýnir þessa þróun.
Höfundar skýrslunnar benda á að síðustu 50 árin, frá 1970, hafi gengið yfir fjórar bylgjur aukinnar skuldasöfnunar. Þrjár þær fyrstu enduðu allar í fjármálakreppu og sú fjórða stendur yfir og hefur undanfarið verið með einna örasta aukningu skulda, mest í einkageirum samfélaganna.
Nú þegar ljóst er að Kóvid-19 kreppan mun leika fjárhag hagkerfa heimsins grátt, vægast sagt, þá er ljóst að hugsanlega muni heimsfarandurinn ekki aðeins leiða af sér efnahagskreppu heldur geti hún að auki breyst yfir í fjármálakreppu, með þjóðargjaldþrotum í kjölfar verulega aukinnar skuldasöfnunar, þessu öllu til viðbótar (sjá grein Carmen Reinhart, This time truly is different, í Project Syndicate).
Hættuleg hnattræn farsótt og loftslagskreppa í ofanálag!
Ofangreindar vaxandi kreppur kapítalismans eru svo að fara fram í umhverfi hnattrænnar hlýnunar, sem rekja má til mengandi framleiðslu og ofnotkunar lífrænna orkugjafa. Þjóðum heimsins hefur ekki beint gengið vel að glíma við þann vanda til þessa.
Fyrir skömmu voru fjölmiðlar heimsins fullir af myndum af slökkviliðsmönnum að glíma við risavaxna skógarelda, andlit hlýnunarinnar, og nú hafa fjölmiðlar fyllst af myndum af örvæntingarfullu heilbrigðisstarfsfólki að glíma á hetjulegan hátt við afleiðingar veirusóttarinnar, sem einnig setur efnahags- og fjármálalífið á hliðina.
Raunir mannkyns er því vaxandi, eftir almennt gott tímabil frá lokum seinni heimsstyrjaldar.
Það blasir einnig við að umskiptin til nýfrjálshyggjutímans eftir 1980 hafa gert illt verra – svo um munar.
Eftir að frjálshyggjan varð ríkjandi skipan alþjóðavæðingarinnar hefur hún leitt til vaxandi fjármálaóstöðugleika, aukins ójafnaðar og veikingar velferðarríkja, sem einmitt eru best til þess fallin að verja almenning á válegum tímum eins og nú ríkja (sjá um það hér).
Heimurinn hefur þannig verið á rangri leið á síðustu áratugum, sem vonandi verður leiðrétt þegar við komum út úr núverandi kreppu, líkt og gerðist í kjölfar Kreppunnar miklu á fjórða áratugnum.
————————–
[i] Myndin er tekin úr grein Agnars Freys Helgasonar, The Political Economy of Crisis Responses, í bók Stefáns Ólafssonar o.fl., Welfare and the Great Recession: A Comparative Study (Oxford University Press 2019).
[ii] Sjá um það í nýrri bók Thomas Piketty (2020), Capital and Ideology (Harvard University Press).
[iii] Sjá t.d. nýlegar greinar eftir Rogoff og Reinhart á Project Syndicate vefsvæðinu.
Fyrri pistlar