Í nýjasta hefti af SÍBS blaðinu eru áhugaverðar greinar um velmegun og vellíðan, í ritstjórn Páls Kr. Pálssonar. Hér er grein sem ég skrifaði í blaðið um samband hagvaxtar og lífsgæða almennings:
Við sem búum í hagsældarríkjunum erum flest mikið efnishyggjufólk. Við erum yfirleitt mjög upptekin af efnislegum lífsgæðum og hagvexti. Hér áður fyrr var gjarnan talað um “lífsgæðakapphlaupið” (“rat race” á ensku) sem helsta viðfangsefni fólks í lífinu, með skírskotun til eltingarleiksins við efnahagslegu gæðin. Hugsunin var oft sú, að efnahagslegu gæðin ein skiptu öllu máli fyrir hamingjuleitina. Meiri hagvöxtur og meiri kaupmáttur áttu sem sagt að færa okkur nær æðsta hamingjustiginu.
Lengst af á tuttugustu öldinni var í samræmi við þetta algengast að mæla árangur þjóða í framfaraleitinni með hagvaxtartölum þjóðhagsreikninganna. Þær þjóðir sem höfðu mesta þjóðarframleiðslu á mann voru taldar fremstar í lífsgæðakapphlaupi þjóðanna. Þær voru ríkastar eða “hagsælastar”. Orðið hagsæld vísar raunar bæði til efnahags og sældar og endurspeglar þannig vel þennan gamla skilning um að hagvöxturinn skili meiri hamingju eða ánægju með lífið.
Félagsvísindamenn þráttuðu þó um langt árabil um hvort hagvöxturinn skilaði í raun aukinni hamingju. Bandaríski hagfræðingurinn Richard Easterlin setti fram það sem síðar var kallað Easterlin-þversögnin í nokkrum greinum frá 1973 til 2005. Grundvöllurinn að þessari þversögn var sú niðurstaða Easterlins að þó hagvöxturinn í Bandaríkjunum væri sífellt að bæta í þjóðarframleiðsluna þá væri hamingjustig þjóðarinnar ekki að hækka í sama mæli og fyrr. Hann taldi því að hagvöxturinn skilaði meiri hamingjuauka einungis á fyrri stigum hagsældarþróunarinnar, en síðan hætti bættur efnahagur að auka hamingju þjóðarinnar, að minnsta kosti í sama mæli og áður.
Easterlin taldi þetta almennt eiga við í samanburði milli þjóða sem og í samanburði tekjuhópa innan einstakra þjóða. Kenningar Easterlins hafa menn síðan dregið í efa með nýrri gögnum (sjá t.d. Wolfers og Sachs 2010).
Nú til dags er þetta ekki sérstaklega lifandi umræða, þó af henni megi draga einhvern lærdóm. Nýrri og ítarlegri gögn styðja almennt þá niðurstöðu Easterlins að ekki sé um að ræða sjálfvirkt og skilyrðislaust samband milli hagvaxtar og aukinnar hamingju eða ánægju með lífið.
Það sem blasir við í samtímanum er að hátt hagsældarstig leiðir ekki sjálfkrafa til meiri ánægju borgaranna með líf sitt – en hagvöxturinn getur þó hjálpað til.
Útkoman er þannig ýmsu háð. En hver eru helstu skilyrði þess að hagvöxtur auki lífsgæði almennings?
- Hvernig hagsældin er notuð skiptir öllu máli, ekki síst hvernig þjóðarkökunni er skipt milli verkefna í samfélaginu, milli stétta, þjóðfélagshópa og einstaklinga. Skipting tekna og eigna er þannig mjög mikill áhrifavaldur þess hvort stækkandi þjóðarkaka skilar sér í aukinni ánægju þjóðarinnar eða ekki. Þá skiptir auðvitað öllu hvort hagvöxturinn skilar sér í hærri tekjum og auknum kaupmætti fjöldans, alls þorra almennings. Ef hagvöxturinn fer að stórum hluta einungis í að auka tekjur fámennrar yfirstéttar en gerir lítið fyrir alla aðra þá er ekki líklegt að hagvöxtur skili sér í aukinni ánægju þjóðarinnar með lífið eða aukinni hamingju (Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson 2017).
- Hversu mikið er lagt í velferðarkerfið og hversu vel tekst með því að jafna tækifæri og draga úr fátækt í samfélaginu eru einnig mjög mikilvægir áhrifaþættir. Ef velferðarkerfið er veikburða og gerir lítið til að bæta hag þess helmings sem lægri tekjurnar hefur þá skilar hagvöxtur sér síður í aukinni ánægju þegnanna.
- Einnig skiptir miklu máli hversu fagleg og lýðræðisleg stjórnvöld eru og hversu vel þeim tekst að halda aftur af spillingu og byggja upp traust í samfélaginu. Þar sem saman fara fagleg stjórnsýsla og traust almennings á opinberum stofnunum og á samborgurum sínum, í þróttmiklu umhverfi lýðræðis, þar eru meiri líkur á að hagvöxturinn skili sér í aukinni hamingju þegnanna (Stefán Ólafsson 2013).
Allt á þetta sér samnefnara í því hvort samfélaginu er stýrt og þjóðarkökunni skipt í þágu almannahags eða sérhagsmuna og forréttinda fámennrar yfirstéttar.
Góðar vísbendingar um hið breytilega samband milli hamingju og hagsældarstigs í nútímanum má sjá á myndinni hér að neðan, en hún sýnir ánægju borgaranna með líf sitt og hagsældarstigið sem ríkir í samfélögum þeirra. Norðurlöndin eru hér borin saman við ýmis ríkustu samfélög heimsins (gögnin koma úr World Happiness Report 2020).
Þannig eru margar af þjóðunum sem eru með minni ánægju með lífið með meiri þjóðarframleiðslu á mann en ánægðustu norrænu þjóðirnar. Þarna höfum við dæmi um nokkrar þjóðir sem búa við hátt hagsældarstig (þjóðarframleiðslu á íbúa) en sem eru ekkert sérstaklega ánægðar með líf sitt.
Auðlegðin í þeim löndum er einfaldlega ekki að skila sér nógu vel í betri skilyrðum fyrir hamingju almennings, þó efni til þess séu klárlega fyrir hendi. Stjórnvöld og valdastéttirnar í þessum löndum hafa aðra forgangsröðun, oft einmitt þá að hirða sjálf drjúgan hluta af þjóðarkökunni í eigin vasa.
Tökum Bandaríkin sem dæmi
Bandaríkin hafa um langt árabil verið í hópi auðugustu ríkja heims. Þau nutu mikils hagvaxtar lengst af á tuttugustu öldinni og ágæts vaxtar einnig fram á síðustu ár. Tuttugasta öldin hefur oft verið kölluð “Ameríska öldin”, vegna þess einmitt að Bandaríkin þóttu forysturíki í hagþróun og lýðræðisvæðingu langt frameftir öldinni.
Frá því um 1980 breyttu Bandaríkin hins vegar um stefnu, í átt aukinnar nýfrjálshyggju og alþjóðavæðingar. Síðan þá hefur hagvöxturinn í markvert minni mæli skilað sér í bættum hag almennings, en stóraukið tekjur og eignir ríkasta eina prósentsins í landinu. Kaupmáttur láglaunafólks og millistéttarfólks hefur ýmist staðið í stað eða jafnvel rýrnað. Samhliða hafa skuldir heimila aukist og skólagjöld í háskólum stórhækkað, sem aftur bætir í skuldabaggann.
Slík þróun er ekki til þess fallin að létta almenningi byrðar og lund, enda sér þess ekki merki að hagvöxturinn á síðustu áratugum tengist aukinni ánægju almennings með lífið í Bandaríkjunum. Fátækt er viðvarandi á háu stigi og tækifæri til að vinna sig upp í bandaríska samfélaginu eru minni en á áratugunum fyrir 1980. Norðurlöndin eru nú í mun meiri mæli lönd tækifæranna en Bandaríkin (sjá nánar í Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson 2017).
Viðvarandi og djúpstæð mannréttindabrot og mismunun gagnvart lituðu fólki og lök kjör innflytjenda eiga svo sinn þátt í að halda hamingju bandarísku þjóðarinnar á lægra stigi en almennt er á Norðurlöndum.
Segja má að Bandaríkin hafi verið á ágætu róli frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar til um 1980 en síðan farið illa afvega. Hagvöxturinn hætti að umtalsverðu leyti að skila þorra almennings bættum kjörum.
Skipan bandaríska samfélagsins nú á dögum er sem sagt vel til þess fallin að viðhalda eða auka hamingju ríkasta eina prósentsins, elítunnar í viðskiptalífinu, og annars hátekjufólks. En þorri almennings nýtur nú á dögum frekar lítils ábata af viðvarandi hagvexti í landinu.
Tökum Hong Kong sem dæmi
Borgríkið Hong Kong var í áratugi talið einstakt fyrirmyndarríki nýfrjálshyggjunnar. Umhverfið var einstaklega vinsamlegt fjárfestum og viðskiptum, eins konar paradís auðmanna. Lítið hefur breyst hvað þetta snertir eftir að Hong Kong varð hluti af kínverska alþýðulýðveldinu.
Skattar voru og eru enn almennt mjög lágir. Söluhagnaður af hlutabréfabraski er skattfrjáls. Arðgreiðslur úr fyrirtækjum eru skattfrjálsar. Enginn skattur er á erfðafé. Allt skattkerfið og viðskiptaumhverfið tekur fyrst og fremst mið af hagsmunum fjárfesta en almenningur mætir afgangi. Hlutverk hans er að vera samviskusamt og skyldurækið vinnuafl á lágum launum.
Ójöfnuður í tekjuskiptingu er með almesta móti í hópi vestrænna hagsældarríkja. Allur þorri íbúa býr í óhemju dýru leiguhúsnæði, sem oft er afar þröngt. Útgjöld hins opinbera til velferðarmála er með allra minnsta móti í hópi vestrænna ríkja. Hlutverk ríkisins var lengst af skilgreint í anda frjálshyggjunnar sem vörður eignaréttarins, eins konar næturvarðarríki eignastéttarinnar.
Hagvöxtur hefur lengi verið mikill í Hong Kong og þjóðarframleiðsla á íbúa er með mesta móti. Þarna er hins vegar að finna dæmi um að hagvöxturinn hafi að verulegu leyti farið til að bæta hag fámennrar yfirstéttar. Íbúarnir hafa því lítið fundið fyrir frelsinu sem fjármálaöflin búa við og hafa þess vegna lengi mælst með frekar lágt stig ánægju með lífið.
Hong Kong er því gott dæmi um samfélagsskipulag sem þjónar einkum hagsmunum fámennrar yfirstéttar. Hagvöxturinn skilar því almenningi lítilli velferð og lítilli lífsánægju.
Mótmælin sem hafa verið algeng í seinni tíð í Hong Kong eiga sér að mestu leyti rætur í þeim mikla ójöfnuði sem ríkir í samfélaginu í þessu sérstaka eyríki. Breytingin á framkvæmd réttarfars sem kínversk stjórnvöld hafa nýlega staðið fyrir eru meira eins og neistinn sem kveikir í púðrinu sem ójöfnuðurinn hefur getið af sér.
Rannsóknir Piketty og félaga
Thomas Piketty og félagar hafa brotið blað með rannsóknum sínum á þróun ójafnaðar í heiminum, bæði til lengri og skemmri tíma. Þær rannsóknir hafa sýnt á ítarlegan hátt hvernig ójöfnuður hefur verið að aukast í flestum ríkjum jarðarinnar á síðustu 30 til 40 árum. Misjafnlega mikið þó milli ríkja.
Þetta er mikilvægt því svo víðtækar breytingar á tekjuog eignaskiptingu sem um ræðir benda til að sömu áhrifa gæti í alþjóðahagkerfinu. Böndin berast því að aukinni alþjóðavæðingu og sérstakri tengingu nýfrjálshyggjuhugmynda við þá þróun.
Alþjóðavæðingin er að umtalsverðu leyti nátengd úrbreiðslu markaðs- og afskiptaleysisstefnu nýfrjálshyggjunnar. Sú stefna hefur sýnt sig að setja hagsmuni fjárfesta, hátekju- og stóreignafólks í forgang um leið og vegið er að hlutverki lýðkjörinna stjórnvalda og velferðarríkinu. Það á einmitt stóran þátt í almennri aukningu ójafnaðar í heiminum.
Þessi stefna sem breiddist út upp úr 1980 fól í sér veruleg frávik frá stefnu blandaða hagkerfisins og velferðarríkisins sem var við lýði í vestrænum ríkjum frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Sú stefna fól í sér mun betri skilyrði fyrir lífskjarabata almennings. Í millistétt fjölgaði um leið og mörgum í verkalýðsstétt buðust tækifæri til að flytja sig í störf með betri kjörum og tækifærum. Jöfnuður var meiri. Hagvöxturinn á þeim árum skilaði sér því mun betur til almennings en síðar varð.
Niðurstöður
Hagvöxtur er gagnlegur svo langt sem hann nær. Hann er til marks um aukna efnislega verðmætasköpun í samfélaginu, sem skapar aukna möguleika á að bæta efnisleg lífsgæði fólks. En það er hins vegar ekki sjálfgefið að aukinn hagvöxtur skili sér í bættum lífsgæðum alls þorra almennings. Síðan hefur hagvöxturinn auðvitað neikvæð umhverfisáhrif á plánetunni, sem sporna þarf við.
Hvort hagvöxturinn skili sér í bættum lífsgæðum almennings er öðru fremur háð skiptingu þjóðarkökunnar sem þjóðin bakar í sameiningu og sem menn gjarnan kalla þjóðarframleiðslu. Þegar mikill ójöfnuður ríkir í samfélagi fer hagvöxturinn í of miklum mæli til fámennrar yfirstéttar eða skilur of stóran hluta þegnanna eftir í fátækt.
Umfang jafnandi velferðarríkis, lýðræðis og faglegrar stjórnsýslu sem nær að hemja spillingu skiptir einnig miklu máli í þessu sambandi.
Norrænu þjóðirnar hafa lengi haft nokkra yfirburði í heiminum, ásamt örfáum öðrum ríkjum, í að skapa góð lífsgæði fyrir allan þorra almennings, langt umfram það sem er í Bandaríkjunum, Hong Kong og arabísku olíuríkjunum sem öll státa þó af háu hagsældarstigi.
Jöfnuður, velferðarríki, lýðræði og traust eru lyklarnir að góðum árangri norrænu þjóðanna. Það er ekki nóg að auka efnislega verðmætasköpun með hagvexti. Hvað verður um verðmætin innan samfélaganna er það sem mestu máli skiptir fyrir lífsgæði almennings.
Helstu heimildir
- Easterlin, R. (1995). Will raising the incomes of all increase the happiness of all? Journal of Economic Behaviour and Organization, 27(1), 35–47.
- Daniel Sachs og Justin Wolfers (2010), “Debunking the Easterlin Paradox, Again”. Brookings Instiotution (https://www.brookings.edu/opinions/ debunking-the-easterlin-paradox-again/).
- Stefán Ólafsson (2013), Well-being in the Nordic Countries: An International Comparison, í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla, árg. 9, nr. 2, bls. 345- 371.
- Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson (2017), Ójöfnuður á Íslandi: Skipting tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi (Háskólaútgáfan).
- John Helliwell, Richard Layard, Jeffrey D. Sachs, and Jan Emmanuel De Neve (2020), World Happiness Report 2020.
- Oxfam, Hong Kong Inequality Report (https://www.oxfam.org.hk/tc/f/news_- and_publication/16372/Oxfam_inequality%20report_Eng_FINAL.pdf).
Fyrri pistlar