Laugardagur 23.4.2016 - 18:46 - FB ummæli ()

Blóðsugur á þjóðarbúinu

Panama-skjölin auka þekkingu okkar á því sem gerðist á Íslandi á áratugnum fram að hruni.

Við vissum auðvitað að tíðarandi og pólitík nýfrjálshyggjunnar sleppti öllu lausu í íslenska þjóðarbúinu.

Græðginni héldu engin bönd.

Brask varð að meginviðfangsefni atvinnulífs og fjármálageira.

Fyrirtækjum og bönkum var drekkt í skuldum. Eignir voru losaðar út.

Stjórnvöld stóðu hjá og hlógu þegar fjármálaráðherrann sagði: “Sjáið þið ekki veisluna drengir?”

Á endanum féll þjóðarbúið undan þessu öllu. Kafnaði í skuldum og fjármálakerfið hrundi, með tilheyrandi byrðum fyrir almenna skattgreiðendur heimilanna.

Enda skapa braskarar engin verðmæti.

Þeir eru yfirleitt í hlutverki blóðsuganna. Sjúga til sín verðmæti sem aðrir hafa skapað.

Þetta vitum við allt.

En nú vitum við líka að Íslenskir braskarar voru stórtækari en flestir braskarar Vesturlanda í notkun erlendra skattaskjóla.

Í stað þess að brauðmylsnur féllu af háborðum yfirstéttarinnar niður til pöpulsins á landinu bláa þá streymdi fjármagn í stórum stíl í erlend skattaskjól.

Blóðinu var tappað af þjóðarbúinu.

Svo þegar snillingarnir fóru á hausinn á Íslandi og áttu ekki fyrir skuldum þá reynast enn vera miklar eignir á leynireikningum þeirra í útlöndum – sem ekki er hægt að ganga að.

Þar sýna skattaskjólin gildi sitt.

Sennilega eru margir íslenskir “snillingar” í hópi “erlendu” hrægammanna sem eru kröfuhafar í þrotabúum bankanna.

Það getur ekki verið að fjölskylda forsætisráðherra sé eini aðilinn í landinu sem það á við um.

Það hlýtur að vera eðlilegt að birta nöfn allra kröfuhafanna í þrotabú bankanna, sem nú á að leysa út með gjaldeyrisvarasjóði þjóðarinnar.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 15.4.2016 - 15:04 - FB ummæli ()

Skattsvikamálin: Stórmerk grein Gunnars Smára

Í Fréttatímanum í dag er stórmerk grein, eftir ritstjórann Gunnar Smára Egilsson, um það hvernig stjórnvöld á Íslandi studdu kerfisbundið við skattaundanskot efnafólks á liðnum áratugum (sjá hér).

Þetta var sérstaklega afgerandi á áratugnum fram að hruni, þegar stjórnvöld lögðu lykkju á leið sína til að greiða fyrirtækjaeigendum og fjárfestum nýjar leiðir til að nota leynifélög í skattaskjólum, samhliða því að þau veiktu skattaeftirlitið umtalsvert.

Tilmælum ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra um að Ísland fylgdi öðrum þjóðum í útfærslu skattareglna var ítrekað hafnað af Árna Matthiesen og Geir Haarde, fjármálaráðherrum í stjórnartíð Davíðs Oddsonar.

Gunnar Smári byggir að hluta á sögulegum gögnum úr mjög athyglisverðri MA ritgerð Jóhannesar Hraunfjörð Karlssonar sérfræðings í skattamálum.

Þetta er ekki bara saga um það hvernig ormagryfja skattaskjólanna stækkaði og dýpkaði á frjálshyggjuárunum, þegar Hannes Hólmsteinn hvatti félaga sína í Sjálfstæðisflokknum til að sleppa öllu siðferði lausu í þágu auðmanna. Sem þeir og gerðu, eins og Styrmir Gunnarsson hefur nú viðurkennt (sjá hér).

Þetta er líka saga langtíma samhengisins í forréttindameðferð stjórnvalda á yfirstéttinni á Íslandi.

Saga þess hvernig stjórnvöld, sem oftast voru undir forystu Sjálfstæðisflokksins, beinlínis leyfðu efnafólki margvísleg undanskot og vik frá þeim reglum sem almennum launaþrælum var gert að fara eftir í hvívetna.

Þetta er ljót saga sem allir eiga að kynna sér.

Greinin hefur líka mikið gildi fyrir það samhengi sem fylgir birtingu Panama-skjalanna, sem nú er hafin.

Gunnar Smári á þakkir skyldar fyrir að taka þetta efni saman og miðla því á svo skýran hátt í Fréttatímanum.

 

Síðasti pistill:  Skattaskjól stuðla að lögbrotum og siðleysi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 5.4.2016 - 16:53 - FB ummæli ()

Skattaskjól stuðla að lögbrotum og siðleysi

Menn segja að það sé ekki ólöglegt að nota skattaskjól, að eiga félög þar og vista í þeim eignir. Hins vegar er ólöglegt að svíkja undan skatti.

Skattaskjól eru þó fyrst og fremst notuð til að fela eignir og komast undan skattgreiðslum í heimalandinu.

Íslendingar sem nota skattaskjól gera það til þess að komast hjá því að greiða til fulls skatta af tekjum og eignum sem verða til á Íslandi.

Helsta málsvörn þeirra sem nota skattaskjól er að segja, að þeir gefi eignir og tekjur sínar sem skráðar eru í skattaskjólum upp til skatts í heimalandi sínu.

Hins vegar er ekki hægt að sannreyna það. Engin leið.

Einmitt vegna leyndarinnar sem er kjarninn í notkun og starfsemi skattaskjólanna.

Slík málsvörn getur því einfaldlega verið innantóm yfirlýsing, ef hún er ósannreynanleg.

 

Hvers vegna er notkun skattaskjóla ekki bönnuð?

Skattaundanskot eru sem sagt lögbrot. Þau bitna á heiðvirðum skattgreiðendum og eru beinlínis svik við samfélagið þar sem viðkomandi eignir urðu til.

Allar ríkisstjórnir í vestrænum löndum segjast vera andvígar starfsemi skattaskjóla og vilja beita sér gegn þeim, meðal annars á vettvangi OECD.

En hvers vegna er notkun skattaskjóla þá ekki beinlínis bönnuð?

Hvers vegna er ekki bannað fyrir íslenska ríkisborgara að eiga félög í þekktum skattaskjólum og að vista eignir þar?

Það væri þó ekki bann við því að eiga eignir erlendis almennt, þ.e. í löndum þar sem stjórnsýsla og upplýsingagjöf er skilvirk og heiðarleg. Ég er einungis að tala um bann við vistun eigna á óheiðarlegum aflandssvæðum, sem stuðla að lögbrotum.

Bann við notkun skattaskjóla virðist vera nauðsynleg forsenda fyrir skilvirkri og sanngjarnri framkvæmd skattalaga í landinu.

 

Yfirstéttin er helsti notandi skattaskjóla

Nú er það svo að notendur skattaskjóla eru alla jafna efnaðasta fólkið í hverju landi. Þetta er leið yfirstéttarinnar til að komast hjá fullum skattgreiðslum til heimalandsins.

Sennilega er það til marks um vald og áhrif yfirstéttarinnar í vestrænum samfélögum að notkun skattaskjóla er yfirleitt ekki beinlínis bönnuð.

Frá sjónarhóli heilbrigðrar stjórnsýslu og almenns siðferðis ætti notkun þeirra þó auðvitað að vera bönnuð.

 

Eru Íslendingar methafar í notkun skattaskjóla?

Nú benda Panama-skjölin til þess að Íslendingar séu óvenju miklir notendur erlendra skattaskjóla.

Það endurspeglar þá lausung, græðgi og spillingu sem festi rætur hér í tíðaranda áratugarins að hruni.

Bankarnir beinlínis beittu sér fyrir mikilli notkun skattaskjóla. Þeir grófu þannig undan samfélaginu, með blygðunarlausum hætti. Hugmyndafræðingar yfirstéttarinnar (nýfrjálshyggjumenn) sögðu sjálfsagt að nota viðskiptafrelsið með þessum hætti.

Sú þátttaka íslenskra stjórnmálamanna í notkun skattaskjóla sem lekinn frá Panama hefur þegar opinberað virðist einnig benda til óvenju mikillar virkni stjórnmálamanna okkar í skattaskjólum.

Þar erum við á plani með spilltum og vanþróuðum þróunarlöndum. Minnumst þess líka að þessi Panama skjöl eru örugglega ekki tæmandi upplýsingar um notkun Íslendinga á skattaskjólum.

Margt á því eftir að koma í ljós.

Það verður fróðlegt að sjá nöfn þeirra 600 íslensku efnamanna sem eru á Panama-listanum og mun segja mikið um samfélagið sem þróaðist á Íslandi á áratugnum að hruni.

Það er því mikið verkefni að vinna á Íslandi við að hreinsa út þá spillingu og lögleysu sem mikil notkun íslensks efnafólks á skattaskjólum er.

Það er sá hluti uppgjörsins við hrunið sem enn á eftir að framkvæma. Sú hreinsun er nauðsynleg forsenda þess að verjandi sé að selja hluti ríkisins í bönkunum. Hún er forsenda þess að koma á heilbrigðum kapítalisma í landinu.

Stjórnvöld eru aðilinn sem þarf að veita hið eðlilega viðnám gegn því að notkun skattaskjóla haldi áfram að grafa undan samfélaginu, bæði fjárhagslega og siðferðilega.

Það gengur því ekki að stjórnmálamenn séu sjálfir notendur skattaskjóla.

Það hljóta allir að sjá.

 

Síðasti pistill: Hve mikið eiga Íslendingar í skattaskjólum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 30.3.2016 - 11:17 - FB ummæli ()

Hve mikið eiga Íslendingar í skattaskjólum?

Umræðan um eignir Íslendinga í skattaskjólum er að aukast með nýjum upplýsingum um málið.

Hún nær væntanlega hámarki þegar Jóhannes Kristjánsson og samstarfsfólk hans birta lista yfir efnaða Íslendinga sem vista eignir í erlendum skattaskjólum.

Það ætti þó auðvitað ekki að koma neinum á óvart að íslenskt efnafólk eigi miklar eignir í erlendum skattaskjólum.

Íslensku einkabankarnir stofnuðu allir útibú í Lúxemborg sem höfðu það sem meginverkefni að hjálpa efnuðum Íslendingum við að koma eignum sínum úr landi og vista þær í hinum ýmsu skattaskjólum.

Einhverju hafa bankarnir væntanlega áorkað í þeim verkefnum, svo við hljótum að ætla að fjölmargir Íslendingar eigi umtalsverðar eignir erlendis.

En hversu miklar upphæðir gætu verið í þessum spilum?

Á það mætti slá út frá opinberum gögnum um fjármagnsflæði úr landi. Best væri að fá Indriða H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóra, til að lesa í þær tölur.

Önnur leið er að yfirfæra niðurstöður annarra sem rannsakað hafa notkun skattaskjóla.

 

Mat Zuckmans

Frakkinn Gabriel Zucman, einn af samstarfsmönnum Thomasar Piketty, birti í fyrra bók um slíkar rannsóknir í heiminum almennt, The Hidden Wealth of Nations.

Mat Zuckmans er að um 8% af auði heimsins sé nú vistað í ýmsum skattaskjólum og hefur umfangið verið mjög vaxandi á síðustu tveimur áratugum.

Samkvæmt Hagstofu Íslands eru skráðar hreinar fjáreignir íslensku þjóðarinnar um 7600 milljarðar króna, eða ígildi landsframleiðslu þriggja og hálfs árs.

Ef við notum heimsmeðaltal Zuckmans og áætlum að um 8% af fjáreignum Íslendinga séu vistuð í erlendum skattaskjólum gæti íslenskir efnamenn átt nálægt 600 milljörðum króna þar á bókum – þ.e. sex hundruð þúsund milljóna króna ígildi.

Það gæti til dæmis dugað til að byggja sjö til átta eintök af nýja Landsspítalanum.

Ef Íslendingar hafa notað skattaskjól meira en margar aðrar þjóðir á bóluárunum að hruni, sem virðist líklegt, þá gæti þessi upphæð verið hærri.

En kanski tapaðist líka eitthvað af þessum eignum í fjármálakreppunni. Eigendur eigna í skattaskjólum hafa þó verið betur varðir en ef þeir hefðu geymt slíkar eignir í íslenskum krónum, því gengi hennar féll miklu meira en gengi þeirra gjaldmiðla sem skattaskjólin nota.

Íslenskir stjórnmálamenn eru ekki líklegir til að vera stórtækastir í þessum efnum. Eignir eiginkonu forsætisráðherra, sem til umræðu hafa verið, eru til dæmis bara lítið brot af þessum heildareignum (um 1 af 600 milljörðum).

Það eru atvinnurekendur og fjárfestar sem eiga langmest af þessum eignum erlendis. Þar á meðal svokallaðir forystumenn atvinnulífsins á liðnum árum.

Fróðlegt verður að sjá hverjir úr þeim hópi verða á listunum sem væntanlega birtast á næstunni.

En skattaskjólin eru mörg og leiðirnar þangað flestar að einhverju leyti leyndar.

Því er varla við að búast að einstakir listar yfir notendur erlendra skattaskjóla geti verið tæmandi. Rétt er að hafa þann fyrirvara í huga.

 

Síðasti pistill:  Gunnar Þórðarson – okkar besti maður

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 29.3.2016 - 11:42 - FB ummæli ()

Gunnar Þórðarson – okkar besti maður

Mikið var gaman að horfa á afmælistónleika Gunnars Þórðarsonar á RÚV í gærkveld. Ég missti því miður af tónleikunum í Hörpu á sínum tíma og beið því spenntur.

Það er raunar óhjákvæmilegt að tónleikar þar sem flutt er yfirlit um lög Gunna Þórðar verði góðir, því af slíku perlusafni er að taka. Og það gekk eftir.

Frábær hljómsveit, landsliðið í söng og ágætur kór tryggðu topp flutning.

Að öðrum ólöstuðum stóðu gítarsnillingarnir Guðmundur Pétursson og Friðrik Karlsson út úr, enda almennt gert ráð fyrir stóru hlutverki gítarsins í verkum Gunna.

Ég mæli eindregið með þessari kvöldskemmtun og gaman var að fá Gunna sjálfan á svið með syni sínum í lokin.

Mér fannst það raunar hraustlegt hjá Gunna að syngja Fyrsta kossinn meira og minna einn undir lokin. Þó hann hafi gert það vel þá vantaði auðvitað rödd Rúnars Júlíussonar, því hann var meira áberandi í upprunalegri útgáfu lagsins.

Mikið má Gunnar Þórðarson vera ánægður með æviverk sitt í tónlistinni – og hvergi nærri hættur.

Sjá tónleikana hér: http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/afmaelistonleikar-gunnars-thordarsonar/20160328

Screen Shot 2016-03-29 at 11.38.59

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 22.3.2016 - 14:02 - FB ummæli ()

Kári með drottningarstæla

Það er fyndið þegar Kári Stefánsson segir RÚV vera með drottningarstæla.

Staðreyndin er nefnilega sú, að það er hann sjálfur sem öðrum fremur er með drottningarstæla!

RÚV bauð honum að vera á pallborði á áhugaverðum borgarafundi um heilbrigðismál í Háskólabíói í kvöld – sem einnig verður í beinni útsendingu.

Auðvitað hefði Kári átt að vera þar og taka þátt í umræðunni, eftir hið góða framtak hans með undirskriftarsöfnun, tækjagjöf og ágætri annarri baráttu fyrir umbótum í heilbrigðisþjónustunni.

Enda bauð RUV honum að vera þar í öndvegi.

En Kári var með drottningarstæla. Bjó til mál um það að honum væri ekki réttilega til sætis skipað á pallinum.

Hann sætti sig ekki við að vera á borði með sérfræðingum um heilbrigðismál. Vildi heldur vera í hópi stjórnmálamanna.

„Who cares“ – myndu rappararnir segja!

Það er bara fyrir sérfræðinga í snobbi að ráða í mikilvægi þeirrar sætaskipanar sem í boði var og hvers vegna Kári styggðist við og afþakkaði boðið. Skiptir þó litlu máli, en samt hefði verið fengur af því að hafa hann með í umræðunni.

Þetta er raunar algengt hjá Kára. Hann er með stórt egó og ruddalega samskiptahætti á köflum. Sumir kalla þetta hroka. Slíkt getur þó haft skemmtigildi, ef það er ekki tekið of alvarlega.

Menn ættu því bara að brosa að hinum drottningarlegu leiksýningum sem hann annað slagið setur á svið.

Kanski Kári verði þrátt fyrir allt með uppistand á gólfinu í salnum í kvöld og taki nokkrar sveiflur í umræðunni…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 20.3.2016 - 09:12 - FB ummæli ()

Gistináttagjald er besta leiðin

Ég tek undir með Jónasi Kristjánssyni þegar hann mælir með gistináttagjaldi og hertri innheimtu á virðisaukaskatti, til að fjármagna umbætur fyrir ferðaþjónustuna.

Aðgerðaleysi ráðherra ferðamála er orðið ámælisvert.

Eftir að hinni afleitu hugmynd hennar um náttúrupassa var hafnað þá hefur hún ekkert gert í málinu.

Á meðan hefur þörfin hlaðist upp.

Ferðaþjónustan rekst áfram á grundvelli afskiptaleysisstefnu, líkt og var í fjármálakerfinu á áratugnum fram að hruni. Gylfi Zoega hagfræðingur líkti þessu tvennu saman í afar góðri grein fyrir skömmu.

Mér finnst almennt að innheimta eigi það fé sem þarf fyrir ferðaþjónustuna fyrst og fremst af erlendu ferðafólki og hlífa Íslendingum við slíkri gjaldtöku, þó það sé hugsað til að verja íslenska náttúru.

Meiningin var að ferðaþjónustan væri tekjuöflun fyrir Íslendinga en ekki nýtt tilefni til skattheimtu á þjóðina.

Nægar eru skattbyrðar almennings nú þegar! Raunar of miklar…

Gistináttagjaldið er best til þess fallið að hlífa Íslendingum, en komugjald og úrbætur á virðisaukastattkerfinu eru næst bestu kostirnir.

Svo má líka blanda þessum leiðum.

En aðgerðaleysið er versta leiðin – næst á eftir náttúrupassanum sáluga.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 18.3.2016 - 14:10 - FB ummæli ()

Heppilegur bakgrunnur forseta?

Það hefur vakið nokkra athygli að Halla Tómasdóttir, fjárfestir og fyrrverandi framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs (2006-2007), hefur ákveðið að bjóða sig fram í forsetakjörinu í júní.

Útaf fyrir sig er ekkert að því að Halla Tómasdóttir bjóði sig fram. Hún virðist hæf og geðþekk kona.

Það varpar þó óneitanlega skugga á framboð hennar að hún var virkur þátttakandi í mesta bulli bóluáranna, sem reyndist íslenskum almenningi dýrkeypt.

Viðskiptaráð fór offari í útbreiðslu dólgafrjálshyggju og græðgisvæðingu samfélagsins, ekki síst á þeim tíma sem Halla var þar við stjórnvölin. Viðskiptaráð og aðrir frjálshyggjuspámenn mögnuðu upp þennan tíðaranda sem á endanum gat af sér hrunið.

Það var til dæmis í hennar tíð að skýrslan um framtíðarsýnina “Ísland 2015” var birt. Þar var útrásin og fjármálavæðingin upphafin, með fádæma hroka, óvarkárni og einfeldni (sjá hér).

Þar var meðal annars þessi fræga setning:

“Viðskiptaráð leggur til að Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum.” (bls. 22)

Þó maður vilji þessari ágætu konu ekkert illt þá verður vissulega fróðlegt að sjá hvort þjóðin er nú reiðubúin til að velja sem forseta einstakling er tengdist útrásinni og fjármálabraskinu svo sterkum böndum.

Ef til vill er þetta framboð prófsteinn á það hvort þjóðin hafi yfirhöfuð eitthvað lengur við tíðaranda bóluáranna og brask fjármálaaðalsins að athuga.

 

Síðasti pistill:  Sýnum þeim hvað samkeppni er

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 12.3.2016 - 15:27 - FB ummæli ()

Sýnum þeim hvað samkeppni er

Tryggingafélögin hafa nú látið undan þrýstingi frá almenningi, vegna víðtækrar óánægju með framferði þeirra í iðgjalda og arðgreiðslumálum.

Þau ætla að lækka arðgreiðslurnar.

En þau ætla ekki að láta viðskiptavini njóta breyttra reglna ESB um bótasjóði né góðrar afkomu af ávöxtun þeirra.

Það ætla þau að hafa alfarið áfram fyrir eigendur. Líka ofteknu iðgjöldin.

Tryggingafélögin hafa sem sagt ekki enn lært lexíu sína, eins og FÍB bendir á (sjá hér).

Þess vegna þarf að veita þeim mun meira aðhald.

 

Veitum aðhald og látum samkeppnina virka

Nú ættu sem flestir viðskiptavinir stóru tryggingafélaganna þriggja að snúa sér til tryggingafélagsins Varðar og óska eftir tilboðum í tryggingar sínar (hringja eða senda skilaboð á netfang þeirra).

Það er auðvelt, gerist fljótt og án nokkurrar fyrirhafnar. Vörður hefur ekki tilkynnt um neinar sambærilegar arðgreiðslur og stóru félögin.

Ég hef heyrt af mörgum sem hafa fengið tilboð þaðan með umtalsverðri lækkun iðgjalda.

Menn geta slegið tvær flugur í einu höggi ef flutningur viðskipta til annars félags felur að auki í sér lækkun iðgjalda.

Þá er gráðugum skúrkum refsað og kjör viðskiptavina bætt.

Það er mikil þörf á að kenna tryggingafélögunum hvað samkeppni er. Raunar þarf að kenna miklu fleiri fyrirtækjum á Íslandi þá lexíu.

Þegar fyrirtæki ganga fram af óbilgirni gagnvart viðskiptavinum og starfsfólki, eða með siðleysi og græðgi gagnvart samfélaginu, þá á fólk að leita annað – ef hægt er.

Það er hægt í máli tryggingafélaganna.

Nú skulum við sem flest kenna þeim hvað samkeppni er og kanna kjörin hjá öðrum.

 

Síðasti pistill: Tryggingar:  Séríslensk sjálftaka?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 7.3.2016 - 11:06 - FB ummæli ()

Tryggingar: Séríslensk sjálftökuleið?

Það vakti athygli um daginn þegar upplýst var að stærstu íslensku tryggingafélögin greiddu eigendum sínum arð langt umfram hagnað síðasta árs – sem var þó veglegur.

Enn meiri athygli vakti þegar rifjað var upp að öll tryggingafélögin höfðu hækkað iðgjöld viðskiptavina sinna fyrir jólin, “vegna lélegrar afkomu” tryggingastarfseminnar á árinu.

Viðskiptavinirnir fá hækkun iðgjalda vegna lakrar afkomu en eigendur fá verulega aukinn arð vegna góðrar afkomu!

Hver er svo skýringin á þessari mótsagnakenndu útkomu?

Maður hefði haldið að annað hvort væri afkoma tryggingafélaga góð eða slæm, en ekki hvoru tveggja í senn!

 

Rán í björtu?

Skýringin kom fram í umfjöllun um málið í Fréttablaðinu. Þar var upplýst að stjórnendur tryggingafélaga ákveða iðgjöld með því að aðgreina fjárfestingastarfsemina frá tryggingastarfsemi félaganna.

Fjárfestingastarfsemin snýst um að ávaxta tryggingasjóðinn sem viðskiptavinir greiða inn með iðgjöldum sínum, sem eru staðgreidd, þó bætanlegt tjón flestra verði síðar eða aldrei.

Þess vegna eru tryggingafélög alla jafna með mikið fé í geymslu fyrir viðskiptavini sína. Þessir sjóðir eru skráðir í bókhaldi félaganna sem skuld við viðskiptavini, eins og inneignir í banka eru skuldir banka við viðskiptavini sína (innstæðueigendur).

Tryggingafélögin eiga ekki þessa sjóði, frekar en að bankinn geti sagt að hann eigi innstæður viðskiptavina sinna. Bankarnir taka hluta af ávöxtun þeirra með vaxtamun (sem reyndar er yfirleitt of mikill hér á landi). Innstæðueigendur fá þó eitthvað í sinn hlut.

En þannig er það ekki hjá tryggingafélögunum. Þau láta eins og þau eigi þessa sjóði og geti ráðstafað ávöxtun þeirra að fullu til eigenda en ekki til tryggingataka, viðskiptavina sinna.

Iðgjöldin eru sem sé ákveðin án þess að taka tillit til afkomu af fjárfestingastarfseminni, sem alla jafna er mjög ábatasöm. En viðskiptavinir eiga auðvitað einnig að njóta ávöxtunar tryggingasjóðanna.

Þetta lítur því út eins og rán í björtu.

Þessu til viðbótar var nýlega breytt reglum ESB um hversu stórir slíkir tryggingasjóðir eiga að vera og boðað að þá mætti minnka. Það þýðir með öðrum orðum að viðskiptavinir hafi verið látnir greiða hærri iðgjöld til þessa en þurfi alla jafna.

Í stað þess að endurgreiða viðskiptavinum sínum þessa oftöku iðgjalda þá juku stjórnendur tryggingafélaganna “eigið fé” þeirra og greiddu út til eigenda félaganna.

Þetta er augljóslega rán í björtu, eins og framkvæmdastjóri FÍB hefur ítrekað bent á.

 

Óvarinn almenningur?

Þannig hafa íslensku tryggingafélögin komið sér upp fyrirkomulagi sjálftöku sem á sér sennilega ekki mörg fordæmi í siðuðum samfélögum.

Að minnsta kosti er dæmi frá Danmörku um að alvöru tryggingafélag endurgreiði viðskiptavinum nærri helming af arði fyrra árs, vegna góðrar afkomu (sjá hér).

Á Íslandi skrökva menn því fyrst að afkoma síðasta árs hafi verið slæm og hækka iðgjöld. Örfáum vikum síðar segja þeir að afkoman hafi verið góð og greiða eigendum mun meira í arð en nemur hagnaði ársins!

Þetta hlýtur að vera séríslensk leið í sjálftöku! Hún er auðvitað ríkjandi í fjármálageiranum öllum og kanski víðar í atvinnulífinu.

Ef Fjármálaeftirlitið lætur þetta afskiptalaust þá hlýtur það að vera til marks um að almenningur standi óvarinn gegn slíku, eins og FÍB bendir á. Ekkert aðhald er að finna í raunverulegri samkeppni milli félaganna. Hún er lítil sem engin.

Á endanum eiga stjórnmálamenn að sjá til þess að einhverjar varnir séu í samfélaginu gegn slíkri sjálftöku elítunnar á kostnað almennings.

Góð byrjun væri að kanna hvort það sé almennt í tryggingum á Vesturlöndum að viðskiptavinir njóti ekki ávöxtunarinnar af tryggingasjóðum þeirra og hvernig iðgjöld eru ákveðin.

Við sáum hvernig þetta var á bóluárunum. Þá voru engar varnir gegn sjálftöku og braski með lánsfé, hvorki hjá Fjármálaeftirliti, Seðlabanka né ríkisstjórnum.

Því fór sem fór.

Sjálftökuliðið rak þjóðarbúið í þrot, með taumlausri græðgi sinni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 1.3.2016 - 23:45 - FB ummæli ()

Karl Garðarsson skorar enn!

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknar, hefur ítrekað vakið athygli fyrir málefnalegar tillögur á þinginu.

Hann tekur á því sem máli skiptir fyrir almenning.

Til dæmis skattavikum, bankaokrinu, fjármálakerfinu, kennitöluflakki… svo nokkur nýleg dæmi séu tekin.

Karl hefur nýlega lagt fram tillögu, ásamt fulltrúum allra flokka nema Sjálfstæðisflokks, um aðgerðir til að sporna hóflega gegn kennitöluflakki. Það er löngu tímabært verkefni…

Í kvöld var Karl í Kastljósi að rökræða við Brynjar Níelsson frá Sjálfstæðisflokknum um kennitöluflakkið.

Það var dapurlegt að hlusta á Brynjar tafsa og stama upp þunnum punktum sínum, um að tillögur Karls og félaga væru „íþyngjandi fyrir fyrirtæki“!

Já, auðvitað eru siðareglur og lög landsins íþyngjandi fyrir Sjálfstæðismenn!

Þeir virðast vilja hafa frelsi til að brjóta lög og hlaupa undan ábyrgð.

Þess vegna er það einmitt iðjuleysi sem einkennir þann ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem með málið fer, Ragnheiði Elínu Árnadóttur.

„Verkin tala“ segja menn stundum.

Hjá Sjálfstæðisflokknum er það iðjuleysið „sem talar“ í kennitöluflakks-málinu!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 26.2.2016 - 15:05 - FB ummæli ()

Bankar: Öllum er misboðið – en breytist eitthvað?

Meðal helstu ástæða hruns bankanna haustið 2008 voru ófagleg vinnubrögð stjórnenda þess.

Bankakerfið var síðan endurreist með framlagi skattgreiðenda og er nú að hluta í eigu ríkisins (skattgreiðenda).

Hið endurreista bankakerfi hefur þó ekki beinlínis slegið í gegn! Hneykslunarefni hafa hlaðist upp. Hér eru nokkur dæmi…

  • Borgunarmálið
  • Símamálið
  • Fleiri vafasamar eignasölur
  • Bónusgreiðslur
  • Miklar launahækkanir stjórnenda
  • Alltof háir vextir útlána
  • Frumskógur þjónustugjalda
  • Alltof há þjónustugjöld banka og kortafyrirtækja
  • Léleg þjónustu
  • …o.s.frv.

Svo bætist við að þetta auma bankakerfi, sem engin verðmæti skapar, skilar ofurgróða – 107 milljörðum á einu ári.

Góðinn hér virðist vera 5 til 6 sinnum meiri hlutfallslega en í Bandaríkjunum, þar sem flestum þykir nóg um (sjá hér).

Allt virðist þetta vera til marks um að stjórnendur bankakerfisins séu enn með sama hugarfarið og var á árunum fyrir hrun – þó „hin tæra snilld“ þeirra sé enn sem komið er ekki jafn stórtæk.

Öllum er misboðið!

En mun eitthvað breytast?

Eru stjórnmálamenn okkar ekki örugglega á fullu að hanna áætlanir um að breyta þessu?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 14.2.2016 - 11:19 - FB ummæli ()

Saga ASÍ: Mikið rit um lífskjör og framfarir

JPV535799Fyrir nokkrum misserum kom út Saga Alþýðusambands Íslands eftir Sumarliða R. Ísleifsson. Verkið er mikið af vöxtum, í tveimur bindum sem eru hvort um sig um 400 blaðsíður. ASÍ hafði frumkvæði að því að ráðist var í þessa söguritum, en ASÍ fagnar hundrað ára afmæli á þessu ári. Verkið spannar tímabilið frá efri hluta 19. aldar til um 2010 og gefur víðtæka og heildstæða mynd af viðfangsefninu.

Sumarliði R. Ísleifsson skilgreinir nálgun verksins í inngangi sem “sögu verkalýðs á Íslandi”, frekar en sem hefðbundna sögu verkalýðshreyfingarinnar sem stofnunar. Hann fylgir í þessu fordæmi Þorleifs Friðrikssonar í ritum hans um sögu Dagsbrúnar, þar sem fókusinn var frekar á lífshætti og lífskjör verkafólks og sagan sögð út frá sjónarhóli fólksins frekar en hreyfingarinnar. Í höndum Sumarliða vefst þetta þó eðlilega saman, saga lífskjaranna og saga hreyfingarinnar. Það má því lýsa þessu verki sem sögu verkalýðs, lífskjara og framfara.

Þessi nálgun Sumarliða og þeirra ASÍ manna sem með honum unnu er afar vel heppnuð, sérstaklega í fyrra bindinu. Bækurnar gefa ljóslifandi sýn á stöðu verkafólks og þróun lífskjara á Íslandi frá því að nútímavæðing samfélagsins hófst undir lok 19. aldar til þess tíma er Ísland var komið í hóp hinna hagsælustu þjóða og gat státað af lífskjörum almennings sem eru með því besta sem þekkist í heiminum í dag (Stefán Ólafsson 2013).

Þetta er því saga mikilla breytinga og mikils árangurs. Sjónum er auðvitað sérstaklega beint að því hvernig framfarirnar spruttu úr grasrót hins vinnandi fólks og hvernig barátta þess fyrir umbótum með virkjun samtakamáttar fór fram, skref fyrir skref. Þar skiptust á skin og skúrir, sigrar og ósigrar, samstaða og sundrung – en mest var þróunin þó framávið.

Sumarliði leitar víða fanga, í fræðiritum og samantektum um sögu verkalýðshreyfingarinnar, þingtíðindum, dagblöðum, tímaritum og skýrslum, auk æviminninga og rita um sögu einstakra verkalýðsfélaga. Þó meginsjónarhornið sé á líf alþýðufólks nær hann að tengja frásögnina vel við stofnanasögu verkalýðshreyfingarinnar, sem náði því að verða frá og með fjórða áratug síðustu aldar ein af áhrifamestu stofnunum samfélagsins.

Hvert tímabil í sögunni er skilmerkilega sett í samhengi við stöðu og þróun samfélagsaðstæðna. Þannig byrjar Sumarliði bæði bindin með kafla um samfélagið á tímabilinu og helstu breytingaþætti. Til dæmis byrjar fyrra bindið á umfjöllun um atvinnubyltinguna á Íslandi frá um 1890 til 1940, eftir stutta kynningu á þróun verkalýðshreyfingar í nágrannalöndunum. Það er að vísu stutt umfjöllun en mikilvæg til að setja verkalýðsbaráttuna í samhengi þjóðfélagsaðstæðna, bæði hér á landi og erlendis.

Aðstæður verkafólks á fyrri hluta 20. aldar

Það slær lesandann frá fyrstu köflum verksins hversu frumstæðar aðstæður íslensks verkafólks voru á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar. Vinna var stopul, aðstæður afar erfiðar og kjörin lök. Enda var Ísland eitt fátækasta svæði Evrópu á þeim tíma. Vegferð Íslendinga á tuttugustu öldinni, frá fátækt til bjargálna og velsældar var því löng og gerðist hratt, sérstaklega frá og með árum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Í verki Sumarliða má því greina mikilvæga þætti nútímavæðingarinnar á Íslandi, þó fleira komi auðvitað við sögu þeirra víðtæku breytinga, svo sem tækniþróun, aukin menntun, menning og stjórnmál. Stjórnmál leika þó afar stórt hlutverk í sögu Sumarliða, enda var verkalýðshreyfingin öðrum þræði sprottin af pólitískum rótum og lék lengst af stórt hlutverk á leikvangi stjórnmálanna, einnig eftir að formleg skipulagsleg skil urðu milli Alþýðuflokksins og Alþýðusambandsins árið 1940. Án þessa sjónarhorns alþýðunnar og verkalýðshreyfingarinnar væri saga nútímavæðingarinnar á Íslandi afar takmörkuð og ófullnægjandi.

Sumarliði fjallar um alla mikilvægustu þætti lífskjaranna og lífsháttanna: kaup, vinnutíma og önnur starfstengd réttindi, atvinnu og atvinnuleysi, tryggingar (alþýðutryggingar og almannatryggingar), húsnæðismál, vinnutíma, frítíma og orlof, vinnuaðstæður, öryggi og aðbúnað, lífeyri og almenn velferðarmál. Hlutverk verkalýðshreyfingarinnar við mótun framfara á hinum ýmsu sviðum vinnunnar og lífskjaranna er vendilega rakið, stundum svolítið þó á kostnað anarra áhrifavalda, eins og tækniþróunar, menntunar og víðtækari stjórnmálaáhrifa en þeirra sem beinlínis tengdust verkalýðshreyfingunni.

Þá gerir höfundur vel grein fyrir því hvernig þróunin var ólík á Reykjavíkursvæðinu og á landsbyggðinni og hann gerir jafnréttismálum kynjanna og alþjóðlegum áhrifum góð skil. Eitt af því sem slær lesandann er hversu seint verkalýðshreyfingin fór að láta sig stöðu kvenna einhverju varða. Það var fyrst eftir að atvinnuþátttaka kvenna tók að aukast umtalsvert, eftir 1960, að eitthvað fór að þokast til hagsbóta fyrir vinnandi konur.

Á tíma Hannibals Valdimarssonar sem forseta ASÍ, á sjötta áratugnum, urðu samt nokkur umskipti í jafnréttismálum kynjanna. Bæði var framganga þeirra innan hreyfingarinnar þó hæg framanaf og umbótum í launamálum kvenna miðaði líka hægt í fyrstu og að sumu leyti einnig eftir að ASÍ-félögin fóru að sinna þeim af meiri krafti. Það var ekki bara að verkalýðshreyfingin hafi upphaflega mótast sem hreyfing verkakarla heldur gætti þar, eins og í samfélaginu almennt, íhaldssemi gagnvart breytingum á stöðu kvenna. Þetta batnaði þó umtalsvert á síðustu áratugum.

Þá setur Sumarliði víða stöðu og þróun verkalýðsmálanna í samhengi við þróunina í öðrum löndum, einkum á hinum Norðurlöndunum. Þó þar sé ekki um skipulegan víðtækan samanburð að ræða þá er mikið gagn af því að hafa slíkan almennan samanburð við grannríkin í verki sem þessu.

Meira er til af heimildum um sögu verkalýðs og alþýðuhreyfingar á fyrri hluta síðustu aldar en á síðustu áratugum. Seinni tíma verk eru oftar unnin á öðrum vettvangi en á sviði sagnfræðanna og birtingarvettvangur líka í meiri mæli erlendur en áður var. Heimildaöflun um seinni tíma þróun þarf því að fara meira á aðrar slóðir en duga Sumarliða svo vel á fyrra tímabilinu.

Pólitísk átök innan verkalýðshreyfingarinnar

Sérstaklega fróðleg er umfjöllun Sumarliða um pólitísk átök innan hreyfingarinnar á skeiðinu fram að seinni heimsstyrjöldinni, einkum átökum jafnaðarmanna og kommúnista/sósíalista um áhrif og völd í verkalýðsfélögunum vítt og breitt um landið. Sú saga er öðru fremur saga átaka og vonbrigða, saga sundrungar sem endaði með því að veikja verkalýðsflokkanna í heild og skapa Sjálfstæðisflokknum, flokki atvinnurekenda, umtalsverð ítök innan hreyfingarinnar á eftirstríðsárunum.

Þegar líða tók á eftirstríðsárin urðu pólitísku baráttumálin áfram fyrirferðamikil en beindust í vaxandi mæli að sitjandi ríkisstjórnum á hverjum tíma og réð þá nokkru um samskipti hreyfingar og ríkisstjórnar hverjir sátu í stjórn, báðu megin. Frá um 1980 breyttist pólitíska áherslan í verkalýðshreyfingunni meira frá slíkum flokkadráttum og litið var meira á ríkisstjórnir sem samningsaðila sem hægt væri að vinna með, til hagsbóta fyrir vinnandi fólk.

Þó samráðsskipanar (corporatisma) hafi gætt stöku sinnum á fyrri áratugum, svo sem í tíð stjórnar hinna vinnandi stétta 1934-1938, í tíð vinstri stjórnarinnar 1956-58 og eftir 1963, þá er það mat Sumarliða að með þjóðarsáttarsamningunum 1990 hafi samráðsskipanin orðið enn meira ráðandi en fyrr og breytt einkennum kjarabaráttunnar. Úr verkföllum tók að draga eftir 1980 og svo enn frekar hjá meðlimum ASÍ eftir 1990. Þá urðu átök á vettvangi opinberra starfsmanna oft fyrirferðameiri.

Þrátt fyrir að verk Sumarliða sé afar vel heppnaðí heild sinni þá finnst mér nokkur munur á fyrra og seinna bindinu. Það fyrra er betur heppnað sem heildstæð og ljóslifandi saga lífshátta og lífskjara verkalýðsins í baráttu sinni og framfaranna frá örbirgðarlífi margra til neyslusamfélags eftirstríðsáranna. Fyrra bindið er líka betur stutt af ríkulegum heimildum.

Seinna bindið er í meiri mæli stofnanasaga, þar sem umfjöllun um skipulag hreyfingarinnar verður fyrirferðameiri. Það endurspeglar þá þróun að verkalýðshreyfingin sjálf varð í meiri mæli stofnun þegar leið á tuttugustu öldina, með þeim kostum og göllum sem því fylgja. Eðli máls samkvæmt kemur þyngra og þurrara efni til skoðunar þegar stofnanaumhverfið verður viðameira og átök og framvinda markast meira af skipulagi innávið og tengslum hreyfingarinnar við samfélagið útávið.

Stofnanaþróuninni er ágætlega lýst af Sumarliða, ekki síst því hvernig hreyfingin var að mestu sjálfsprottin og borin í fyrstu uppi af einstaklingum í sjálfboðavinnu. ASÍ hóf ekki reglulegan rekstur skrifstofu fyrr en um 1930, eða um einum og hálfum áratug eftir stofnun þess. Skrifstofunum fjölgaði svo með auknum þroska hreyfingarinnar og auknum umsvifum seinni áratuga, með aukinni þjónustu við meðlimi.

Þó seinna bindið sé þannig heldur þyngra yfirlestrar er þar þó einnig víðast sami stíll og framsetning og í fyrra bindinu. Þannig eru þar ágætir ítarlegir kaflar um félagsleg réttindi og félagslíf, þróun kjara og efnahags 1960 til 2010 og um jafnréttismál og lífeyrissjóði. Meira fann ég fyrir því í seinna bindinu að heimildaöflun hefði mátt vera víðtækari, með meiri notkun efnis úr öðrum áttum en af vettvangi sagnfræðinnar, en það er kanski ósanngjarnt að ætlast til slíks.

Í seinna bindinu fann ég líka meira fyrir hnökrum, flestum smávægilegum þó. Til dæmis er þar sagt á bls. 17, í umfjöllun um kjaramál eftir 1960, að á árinu 1963 hafi verið tekin upp umræða við stjórnvöld um að koma kjaramálum í annan farveg en verið hafði. “Tekin voru upp formleg samráð með markmið um að vinna að bættum hag almennings með því að stytta vinnutíma, lengja orlof, auka vinnuvernd og gera átak í húsnæðismálum.”

Síðan segir: “Næstu ár hélt þetta samráð áfram, ekki síst á sviði húsnæðis- og atvinnumála. Friðvænlegra varð á vinnumarkaði en verið hafði og kom ekki til almennra verkfalla fyrr en í efnahagskreppunni1968.” Það sem sagt er um samráðin er vissulega rétt, ekki síst um húsnæðismálin (sbr. miklar húsbyggingar fyrir lágtekjufólk í Breiðholti frá 1965), en það er villandi og ekki í samræmi við það sem fram kemur í kaflanum um kjaramál og efnahagslíf síðar í bindinu að friðvænlegra hafi verið frá 1963 til 1968 en áður. Víðtæk verkföll voru bæði í desember 1963 (t.d. meiri en á árinu 1961) og einnig á árinu 1965. Viðreisnarstjórnin hafði byrjað feril sinn upp úr 1960 með mikilli kjaraskerðingu og átök við verkalýðshreyfinguna voru mjög einkennandi mest allan sjöunda áratuginn og náðu hámarki frá 1968 til 1970, eins og fram kemur skilmerkilega síðar í bindinu.

Í inngangi að seinna bindinu (á bls. 9) má einnig misskilja í lauslegri umfjöllun um óðaverðbólgu og átök tímabilsins frá 1970 til um 1990, þegar sagt er í því samhengi að “verkafólk fékk sjaldnast aukinn kaupmátt nema rétt um stundasakir.” Þetta er að vísu rétt að í kjölfar mikilla kauphækkana (sem oft komu í kjölfar gengisfellinga sem höfðu skert kaupmátt umtalsvert) var gjarnan svarað með enn annarri gengisfellingu sem rýrði kaupmátt á ný. Menn tala iðulega um víxlhækkanir kaups og verðlags en mættu alveg eins tala um víxlverkun gengislækkana og kauphækkana.

Átök og hagsmunabarátta skiluðu árangri

En þegar kaupmáttarþróun bæði launa og ráðstöfunartekna heimilanna er skoðuð fyrir allt tímabilið frá um 1960 til 1987, sem almennt var tímabil óvenju mikilla kjaraátaka og verðbólgu, þá var það einnig tímabil hinna mestu kjarabóta fyrir almenning. Bæði var hagvöxtur mikill á þessum tíma og einkaneysla jókst óvenju mikið. Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna jókst þá meira en bæði fyrr og síðar (Stefán Ólafsson 2008). Þetta kom til af því, að þó sviftingar hafi verið miklar og kjaraskerðingar tíðar, þá jókst kaupmátturinn gjarnan mikið á hagvaxtarárunum og gjarnan meira en vöxtur þjóðarframleiðslu á mann (sbr. Katrín Ólafsdóttir og Stefán Ólafsson 2014, bls. 29). Verkalýðshreyfingin var sem sagt venjulega fljót að ná kjaraskerðingunum til baka – og vel það, þrátt fyrir allt.

Tímabilið frá um 1961 til 1987 var þannig mikið velsældartímabil, þrátt fyrir verðbólgu og hörð átök á vinnumarkaði. Kanski einmitt vegna mikillar ákveðni verkalýðshreyfingarinnar í kjarabaráttunni. Það var einmitt á þessu tímabili sem Íslendingar komust í röð þeirra þjóða sem hvað best lífskjör höfðu (Stefán Ólafsson 1990). Þó var það ekki bara hagstæð aukning kaupmáttar launa sem því skilaði heldur gætti einnig jákvæðra áhrifa af aukinni atvinnuþátttöku kvenna á ráðstöfunartekjur heimila. Hækkun kaups kvenna umfram kaup karla á sama tímabili skilaði sömuleiðis auknum kaupmætti heimila.

Á þessum tíma stórbatnaði húsakostur Íslendinga, bílaeign þeirra náði upp í hæstu hæðir í heiminum, húsbúnaður og rafeindatæki blómstruðu sem aldrei fyrr og ferðalög erlendis urðu almenningseign. Þessi mikla lífskjarabylting hefði mátt koma betur fram í umfjöllun Sumarliða í kaflanum um kjaramál og efnahagslíf 1960 til 2010, þó hennar sjái vissulega merki. Þetta er mikilvægt vegna þess að sumir sem tjá sig um þessi mál virðast halda að kjör almennings á Íslandi hafi ekki farið að batna að ráði fyrr en eftir þjóðarsáttarsamningana 1990. Þessi aðfinnsla mín er þó einkum spurning um áherslu og framsetningu, því þessa þróun má vel ráða af heildarumfjöllun Sumarliða í kaflanum um kjaraþróunina 1960 til 2010 – og víðar í verkinu.

Bækurnar eru vel skrifaðar, skýrar og aðgengilegar og ríkulega myndskreyttar. Varla má annars staðar finna á einum stað jafn víðtæka og yfirlitsgóða frásögn af þróun lífshátta alþýðunnar á Íslandi og mótun mikilvægra þátta samfélagsins síðustu hundrað árin eða svo. Sumarliði R. Ísleifsson hefur unnið mikið og gott verk og ASÍ á heiður skilinn fyrir að hafa haft þá víðsýni að láta gera slíkar bækur um þetta mikilvæga mál.

Heimildir:

Katrín Ólafsdóttir og Stefán Ólafsson (2014). Economy, Politics and Welfare in Iceland – Booms, Busts and Challenges. Osló: Fafo, bls. 1-123.

Stefán Ólafsson (1990). Lífskjör og lífshættir á Norðurlöndum. Reykjavík: Iðunn.

Stefán Ólafsson (2008). “Íslenska efnahagsundirð: Frá hagsæld til frjálshyggju og fjármálahruns”, í Stjórnmál og stjórnsýsla, árg. 4, nr. 2, bls. 231-256.

Stefán Ólafsson (2013). “Well-Being in the Nordic Countries: An International Comparison”, í Stjórnmál og stjórnsýsla, árg. 9, nr. 2, bls. 345-372.

 

PS. Þetta er ritdómur minn sem birtur var í tímaritinu Sögu fyrir skömmu.

Síðasti pistill:  Leiða vaxtabætur til hærra húsnæðisverðs?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 6.2.2016 - 12:56 - FB ummæli ()

Leiða vaxtabætur til hærra húsnæðisverðs?

Í umræðum um húsnæðismál er oft fullyrt að ekki þýði að hækka vaxtabætur eða húsaleigubætur því það leiði einfaldlega til verðhækkana á íbúðarhúsnæði, hvort sem er til kaupa eða leigu.

Þetta hefur verið fullyrt í tengslum við fyrirhugaðar breytingar ríkisstjórnarinnar á skipan húsnæðismála, sem nú eru til meðferðar á Alþingi.

Þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa fullyrt þetta, einnig talsmenn Samtaka atvinnulífsins (SA) og Viðskiptaráðs og einstaka hagfræðingar.

Þessir aðilar hafa hins vegar ekki sýnt nein gögn sem styðja mál þeirra.

Enda hafa þeir kolrangt fyrir sér.

Þetta er mikilvægt, því þessi málflutningur um að stuðningur ríkisins við kaupendur íbúðahúsnæðis eða leigjendur leiði einfaldlega til verðhækkana á húsnæði, getur haft skaðleg áhrif á möguleika ungs fólks á að koma sér upp húsnæði.

 

En hvað segja staðreyndirnar?

Hér að neðan sýni ég tvær myndir er varpa skýru ljósi á málið.

Fyrst er mynd sem sýnir þróun þess stuðnings sem vaxtabæturnar hafa veitt fjölskyldum við húsnæðiskaup frá 1995 til 2014. Stuðningur vaxtabótanna er sýndur sem hlutfall af vaxtakostnaði vegna húsnæðiskaupa (og sýnir þar með hve stóran hluta vaxtakostnaðar vaxtabætur greiða).

Stuðningur vaxtabóta

Hér má sjá að um 1996 greiddu vaxtabæturnar um 27% af vaxtakostnaði húsnæðislána hjá meðalfjölskyldunni (lágtekjufjölskyldur fengu meira en hátekjufólk minna). Þessi stuðningur minnkaði svo ár frá ári til 2008, er hann var kominn niður í 13%.

Stuðningurinn var svo aukinn mikið eftir hrun, frá 2009 til 2012, til að létta húsnæðisskuldurum verulega auknar byrðar vegna verðbólgu og kauðmáttarskerðingar, meðal annars með sérstöku vaxtabótunum 2010 og 2011.

Þær runnu svo út árið 2013 og vaxtabætur lækkuðu enn frekar á árinu 2014 og er stuðningur vaxtabótakerfisins nú með minnsta móti á ný.

Ef við bætum inn á myndina línu um þróun söluverðs á íbúðarhúsnæði (á föstu verðlagi 2015 per fermetra) þá má sjá hvort hækkanir eða lækkanir vaxtabóta tengist hækkunum verðlags á íbúðarhúsnæði.

Niðurstaðan er sú, að ekkert samband er milli hækkunar vaxtabóta og hækkunar húsnæðisverðs. Raunar er sterkt neikvætt samband milli þessara þátta á tímabilinu.

Samband vaxtabóta og íbúðaverðs

Þarna má glögglega sjá að á tímabilinu eru þrjú megin skeið verðhækkana íbúðarhúsnæðis (1998 til 2000; 2003 til 2007 og svo 2012 til 2014 – raunar hækkar verðið einnig 2015 og þá meira en frá 2012 til 2014).

 

Villukenningin afsönnuð

Þegar fyrsta verðhækkunin ríður yfir (1998 til 2000) höfðu vaxtabætur verið lækkandi frá 1996 og lækkuðu áfram samhliða verðhækkun húsnæðis.

Vaxtabæturnar lækkuðu svo áfram næstu árin og umtalsvert einmitt þegar mesta verðhækkun íbúðarhúsnæðis reið yfir, frá 2003 til 2007.

Ástæða þeirrar verðhækkunar á bólutímanum voru verulega auknar lánveitingar bankanna, en ekki stuðningur vaxtabótakerfisins. Hann var verulega minnkandi samhliða þessum verðhækkunum.

Síðan þegar vaxtabætur voru hækkaðar verulega árin 2009 og 2010 þá fór það saman við verulega lækkun húsnæðisverðs (vegna hrunsins). Toppurinn í upphæð vaxtabóta á árinu 2011 tengist engri sprengingu í húsnæðisverði það árið.

Svo þegar húsnæðisbætur fóru aftur lækkandi eftir 2011 þá var húsnæðisverð hækkandi og mest á árinu 2015 eftir að vaxtabætur voru aftur komnar í lægstu lægð.

Það er því enginn fótur fyrir fullyrðingum um að hækkun vaxtabóta leiði sjálfkrafa til hækkunar húsnæðisverðs.

Raunar mætti lesa gögnin þannig að lækkun þess stuðnings sem vaxtabótakerfið veitir húsnæðiskaupendum tengist frekar hækkunum húsnæðisverðs. En aðrir þættir eru oft að verki.

Það sama gildir um húsaleigubætur. Það var engin hækkun húsaleigubóta sem orsakaði verulega hækkun leiguverðs á Höfuðborgarsvæðinu á síðustu árum. Aðrir þættir voru þá að verki.

Þarna eru því engin rök fyrir því að draga úr stuðningi ríkisins við húsnæðiskaupendur og leigjendur.

Þetta eru hins vegar sterk rök fyrir því að auka slíkan stuðning, eins og fyrirhugað er í nýjum frumvörpum Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Vonandi lætur Alþingi staðreyndir ráða för við afgreiðslu umbótafrumvarpanna, en ekki áróðurstengdar villukenningar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 1.2.2016 - 14:46 - FB ummæli ()

Húsnæðismálin: Sjálfstæðismenn skila auðu

Það hefur ekki farið framhjá neinum að Sjálfstæðismenn hafa ítrekað reynt að leggja stein í götu þeirra umbóta í húsnæðismálum sem Eygló Harðardóttir hefur barist fyrir, í samvinnu við launþegahreyfinguna.

Hér á árum áður voru Sjálfstæðismenn talsmenn séreignastefnu í húsnæðismálum og vildu greiða fyrir því að venjulegt fólk gæti eignast íbúðarhúsnæði, sérstaklega ef það álpaðist til að kjósa flokkinn.

Þetta gerði Gamla Sjálfstæðisflokkinn að meiri millistéttar- og alþýðuflokki en efni annars stóðu til.

Nú er öldin önnur.

Gamli Sjálfstæðisflokkurinn er dauður og við tók Nýr Sjálfstæðisflokkur Davíðs Oddssonar og Hannesar Hólmsteins, sem yljar sér við sértrúarbrögð nýfrjálshyggjunnar.

Með þeim siðaskiptum rýrnaði hinn hóflegi áhugi flokksins á milli og lægri stéttum og gamla slagorðið “stétt-með-stétt” var tekið úr umferð. Við tók gegndarlaust daður og þjónkun við þá ríkustu í samfélaginu, í nafni óheftrar markaðshyggju og brauðmolakenningarinnar.

Þessara umskipta sér víða merki, meðal annars á sviði húsnæðismála, sem hafa verið í miklum öldudal eftir hrunið eins og alþjóð veit. Ungt fólk hefur hvorki efni á að eignast íbúð né að leigja á almennum markaði.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur beitt sér af miklum krafti við að leysa þennan bráða vanda og hefur nýlega lagt fram 4 mikilvæg frumvörp um nýskipan húsnæðismála, sem eru til mikilla bóta.

 

Sjálfstæðismenn vilja styrkja fyrirtæki – en ekki almenning

Sjálfstæðismenn leggja hins vegar ekki fram neinar vitrænar tillögur um hvernig megi snúa vörn í sókn fyrir unga fjölskyldufólkið.

Í staðinn sprengja þeir skítabombur hér og þar, með tilheyrandi úrtölum og fúlmennsku, í von um að skemma umbótastarf Eyglóar og félaga (sjá hér og hér).

Þeir kvarta yfir að hlutverk ríkisins verði of mikið í nýja kerfinu (jafnvel þó venjuleg lánastarfsemi Íbúðalánasjóðs verði aflögð). Þeir vilja ekki félagslegt húsnæðiskerfi (jafnvel þó ljóst sé að niðurlagning gamla félagslega kerfisins hafi verið alvarleg mistök).

Þeir vilja að einkageirinn og óheftur markaður sjái alfarið um húsnæðismálin (jafnvel þó það hafi einmitt verið einkageirinn sem með öllu brást á því sviði frá 2004 og fram að hruni).

Og Sjálfstæðismen hafna vænlegum húsnæðisbótum Eyglóar, bæði vaxtabótum og húsaleigubótum (jafnvel þó ljóst sé að það eru raunhæfustu stuðningsaðgerðirnar sem gera fleirum kleift að komast í húsaskjól, hvort sem er í leigu eða eigu).

Í staðinn vilja þeir frekar styrkja verktaka og byggingafélög og horfa þá framhjá því, að líklegast er að slíkir styrkir til fyrirtækja fari einfaldlega í aukinn gróða eigenda, en ekki í lægra verð íbúðarhúsnæðis.

Þeir segja líka að fólk eigi bara sjálft að spara fyrir húsnæðiskaupum, rétt eins og allir séu efnafólk!

Loks hvetja þeir til þess að lífeyrissparnaði sé eytt í íbúðakaup – og grafa þar með undan lífeyriskerfinu.

Það er enginn stuðningur í þessu. Sjálfstæðismenn skila auðu.

 

Húsnæðisumbætur eru hluti kjarasamninganna

Ríkisstjórnin lofaði launþegahreyfingunni því í síðustu kjarasamningum að koma fram þessum umbótum í húsnæðismálunum.

Það yrðu söguleg mistök Sjálfstæðismanna að eyðileggja eða hefta framgang þessara nýju frumvarpa.

Kjósendur myndu án efa refsa þeim sem það gera – ekki síst ungt fjölskyldufólk.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar