Þriðjudagur 28.7.2015 - 09:30 - FB ummæli ()

Magnað bull Guðlaugs Þórs

Í nýlegri grein á Eyjunni vísaði ég til tveggja talsmanna nýfrjálshyggju í Sjálfstæðisflokknum sem sjá nú mikil tækifæri til að veikja opinbera heilbrigðiskerfið og auka stórlega einkavæðingu á því sviði (sjá hér).

Ég varaði við veikingu opinbera kerfisins og benti á slæma reynslu af bandaríska kerfinu, sem er að stórum hluta einkarekið, en jafnframt lang dýrasta heilbrigðiskerfi Vesturlanda. Samt nær það kerfi ekki sérstaklega góðum árangri fyrir almenning, einkum þá efnaminni.

Ég hef greinilega komið við kaunin á Sjálfstæðismönnum með þeim skrifum. Samt var ég bara að vísa til þeirra eigin talsmanna og vel þekktra staðreynda á sviði heilbrigðismála.

Í Fréttablaðinu í dag skrifar Guðlaugur Þór Þórðarson Alþingismaður svo makalausa grein um málið þar sem hann afflytur gróflega málflutning minn og segir að ég vilji leggja niður allan einkarekinn þátt íslenska heilbrigðiskerfisins.

Það er víðáttufjarri og hvergi getur hann fundið þessum orðum sínum stað í skrifum mínum.

Ég hef lengi verið talsmaður blandaða hagkerfisins og þar með blandaðra leiða í veitingu opinberrar þjónustu, einnig í heilbrigðisþjónustu. Ég er heldur ekki neinn sérstakur hugmyndafræðingur vinstri manna – tek engan þátt í flokkastjórnmálum, en veiti öllum ráðgjöf ef óskað er.

Ég er miðjumaður í þjóðmálaumræðunni, eins og ég hef margítrekað. Styð sumt af því sem núverandi stjórnvöld eru að gera, en annað ekki.

Ég hef raunar verið sérstakur stuðningsmaður þriðja geirans í opinberri velferðarþjónustu. Það hefur margoft komið fram á liðnum árum.

Þegar Guðlaugur Þór telur upp fjölda stofnana í þriðja geiranum (SÁÁ og Hjartavernd o.fl.) og einkarekna þætti heilbrigðiskerfisins og segir að ég vilji loka því öllu þá er hann að afbaka umræðuna úr hófi – og það veit hann vel.

Heldur er það ódýr málflutningur hjá þingmanninum. Hann á að vera heiðarlegri og hafa betri rök fyrir máli sínu.

Ég var hins vegar að vara við veikingu opinbera samtryggingarkerfisins, með tilvísun til slæmrar reynslu af bandarísku leiðinni.

Guðlaugur þór hefur oft vísað með velþóknun til þess að Svíar hafi í tíð hægri stjórna þar í landi aukið hlut einkarekinna verktaka í sínu heilbrigðiskerfi á síðustu árum. Hann telur að við ættum að fylgja fordæmi þeirra í mun meiri mæli.

 

Umdeild þróun einkavæðingar í Svíþjóð

Þessi þróun í Svíþjóð hefur þó verið mjög umdeild og var meðal annars mikið gagnrýnt í nýlegri kosningabaráttu að einkarekin fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu tæku sér óhóflegan hagnað, oft með lakari þjónustu en áður var veitt. Til dæmis við umönnun aldraðra.

Ekki bætir úr skák að sum þessara fyrirtækja hafa verið staðinn að því að flytja hagnað sinn í erlend skattaskjól. Hagnaður slíkra fyrirtækja kemur af opinberum útgjöldum (ríkið greiðir fyrir þjónustu þeirra). Með því að veita þjónustu sína með færra og ódýrara starfsfólki auka þau hagnað sinn.

Þegar slíkur hagnaður rennur í erlend skattaskjól er blóði tappað af sænska þjóðarbúinu, því það fé nýtist ekki lengur til uppbyggingar í landinu.

Það er auðvitað magnað á sinn hátt að opinber útgjöld til einkarekins atvinnurekstrar renni í erlend skattaskjól.

Þau greiða þá ekki sinn hluta af kostnaði við rekstur samfélagsins, sem þó skapaði þessum einkafyrirtækjum gróðann.

Sænska Ríkisendurskoðunin gerði nýlega úttekt á hvernig til hefur tekist með þessa auknu einkavæðingu sumra þátta í sænska heilbrigðiskerfinu.

Dómur Ríkisendurskoðunarinnar er falleinkunn.

Breytingarnar í Svíþjóð hafa gert heilbrigðiskerfinu erfiðara fyrir við að veita öllum jafnt þjónustuaðgengi og að setja þá veikustu og með mestu þarfirnar í forgang, sem á að vera markmið kerfisins samkvæmt lögum.

Það er fyrst og fremst minna veikt fólk og fólk sem er í hærri stéttum samfélagsins sem notið hefur þessara breytinga með bættu aðgengi að þjónustu, segir sænska Ríkisendurskoðunin í skýrslu sinni (sjá hér).

Þetta eru þær “framfarir” sem Guðlaugur Þór og aðrir nýfrjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum vilja innleiða í ríkari mæli hér á landi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 26.7.2015 - 14:11 - FB ummæli ()

Sýn Jóns Baldvins á stjórnmálin

Fáir ef nokkrir hafa jafn skýra og rétta sýn á stjórnmálin á Íslandi og Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Alþýðuflokksins sáluga.

Jón Baldvin var í viðtali við Sigurjón M. Egilsson á Sprengisandi í morgun. Þar fór hann yfir meginlínurnar í stjórnmálunum til lengri tíma, orsakir og úrvinnslu hrunsins og horfurnar í Evrópu- og gjaldmiðilsmálunum.

Von er á Jóni aftur í þátt Sigurjóns um næstu helgi til að ræða frekar um stöðu jafnaðarmanna á Íslandi.

Ástæða er til að hvetja fólk til að hlusta á greiningu Jóns Baldvins. Mikið má af honum læra, til að skerpa sýnina á verkefni stjórnmálanna og framtíð íslenska samfélagsins.

Jón Baldvin er raunsæismaður í stjórnmálum og óhræddur við að endurskoða fyrri afstöðu sína, í ljósi reynslu og nýrra raka.

Þrátt fyrir að hafa verið leiðtogi aukinna Evróputengsla Íslendinga á liðnum áratugum hefur hann nú alvarlegar efasemdir um stöðu Evrópusambandsins og segir engar líkur á inngöngu Íslands næstu 5 árin. Það gæti raunar varað lengur, myndi ég segja.

Við verðum því áfram með hina gölluðu íslensku krónu, sem leggur byrðarnar af öllum sveiflum þjóðarbúsins á herðar launafólks – oft með mjög ósanngjörnum hætti. Aðrir, eins og útvegsmenn, geta hins vegar grætt stórlega á slíkum sveiflum og tilheyrandi gengislækkunum.

Sveigjanleg fastgengisstefna er eina leiðin í stöðunni nú, segir Jón Baldvin. Það getur að vísu falist mótsögn í hugtakinu “sveigjanleg fastgengisstefna” (hversu sveigjanleg má hún vera til að hætta að teljast föst?), en það er þó líklega rétt hjá Jóni að sú nálgun sé samt vænlegasti kosturinn í stöðunni.

Meiri festa en nú er, en þó með einhverjum sveigjanleika (vikmörkum).

Tenging krónunnar við Evru, líkt og Danir hafa búið við, gæti þannig komið til greina. Hér hlytu þó væntanlega að vera heldur meiri möguleikar á frávikum (meiri sveigjanleiki en Danir búa við).

Gott væri í öllu falli að fá meiri hömlur á sveiflur krónunnar og betri varnir fyrir almannahag – á kostnað sérhagsmuna. Þetta ættu stjórnvöld og Seðlabankinn að skoða í fullri alvöru.

 

Andstaðan við nýfrjálshyggju nútímans

Jón Baldvin var á fyrri áratugum óþarflega hallur undir almenna frjálshyggjustefnu, sem hann sá sem vænlega leið gegn stöðnuðu fyrirgreiðslukerfi og helmingaskiptastjórnmálum.

Það var ekki fráleit áhersla á þeim tíma.

Síðar kynntist hann bandarísku samfélagi í návígi, sem sendiherra í Washington, og sá skýrlega hversu illa nýfrjálshyggjan og auðmannadekrið leikur bandaríska samfélagið.

Síðan þá hefur Jón Baldvin varað sterklega við fjármálavæðingu og ójafnaðarstefnu nýfrjálshyggjunnar á Íslandi. Efla þarf lýðræðisleg stjórnmál og norræna velferðarstefnu gegn auðræði og ójafnaðarþróun, segir Jón Baldvin.

Ef fleiri vinstri og miðjumenn hefðu jafn skýra sýn á þjóðmálin og Jón Baldvin væru stjórnmálin á Íslandi ekki jafn andlaus og ráðvillt og nú er.

 

Síðasti pistill:  Sjálfstæðismenn vilja veikja Landsspítalann

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 22.7.2015 - 12:05 - FB ummæli ()

Sjálfstæðismenn vilja veikja Landsspítalann

Það er auðvitað ekki ný frétt að frjálshyggjuhjörðin í Sjálfstæðisflokknum vilji rústa opinbera heilbrigðiskerfinu.

Þetta hefur þó lengi verið ákveðið feimnismál í flokknum, enda vill allur þorri almennings hafa öflugt opinbert heilbrigðiskerfi sem byggir á samtryggingu og veitir hágæða þjónustu, óháð greiðslugetu þeirra sem hana þurfa.

Samt hafa Sjálfstæðismenn verið að róa í átt til þess að veikja opinbera kerfið, bæði Landsspítalann og heilsugæsluna.

Þeir líta svo á að lélegra opinbert heilbrigðiskerfi opni fleiri tækifæri fyrir einkarekstur.

Þetta gera Sjálfstæðismenn annars vegar í nafni villutrúar um meinta yfirburði einkarekstrar á þessu sviði (sem þó gæti átt við á öðrum sviðum) og hins vegar vegna þess að sumir þeirra vilja græða sjálfir á slíkri starfsemi.

Í Bandaríkjunum er hlutur einkarekinnar heilbrigðisþjónustu mun stærri en hér. Reynslan er sú, að kostnaður við slíkt kerfi er um 50% dýrari en við opinberu kerfin á Norðurlöndum og sums staðar á meginlandi Evrópu.

Einnig gætir mun meiri áhrifa stéttaskiptingar í einkareknum kerfum, eins og í Bandaríkjunum. Þeir efnaminni njóta lakari þjónustu og lifa verr og skemur en þeir efnameiri.

Tækifæri til að öðlast farsæla heilsu sem lengst verða ójafnari í einkareknu kerfi.

Einmitt þess vegna er heilsufar Bandaríkjamanna að jafnaði verra en meðal íbúa Norðurlandanna og margra annarra Evrópulanda, sem búa við öflug opinber samtryggingarkerfi.

Þeir sem ætla sjálfir að græða á einkarekstri í heilbrigðisþjónustu hirða lítt um það þó samfélaginu sé breytt á verri veg fyrir allan þorra almennings. Þeir hugsa bara um eigin gróðavon.

 

Er nýi Sjálfstæðisflokkurinn kominn til að vera – með minna fylgi?

Hér áður fyrr var Sjálfstæðisflokkurinn meira fyrir opinbera heilbrigðisþjónustu en nú er.

Minna fylgi meðal almennings við Sjálfstæðisflokkinn nú á dögum skýrist meðal annars af því, að Sjálfstæðisflokkurinn er nú orðið fyrst og fremst flokkur hinna efnameiri.

Þess sér augljós merki í heilbrigðismálunum.

Séreignastefnan í húsnæðismálum, sem miðaði að því að gera sem flestum kleift að eignast þokkalegt húsnæði, er meira að segja líka fyrir bí.

Þar vilja Sjálfstæðismenn bara styrkja fyrirtæki sem byggja húsnæði en ekki almenning sem þarf að kaupa eða leigja húsnæði, sem einungis býðs á óviðráðanlegu verði.

Styrkir til fyrirtækja eru sem sagt OK í Sjálfstæðisflokknum (jafnvel þó þeir auki einungis gróða eigenda þeirra, en hafi lítil áhrif á verð húsnæðis).

En niðurgreiðsla húsnæðiskostnaðar fyrir almenning er talin af hinu illa, þó hún hafi reynst vel á árum áður, til dæmis í félagslega húsnæðiskerfinu.

Þegar fólk sér og heyrir raddir nýfrjálshyggjufólksins í Sjálfstæðisflokknum (sjá t.d. nýleg dæmi hér og hér), þá áttar fólk sig á því að þar er talað fyrir hagsmunum eignafólks, en ekki almennings.

Gamli Sjálfstæðisflokkurinn sem hugsaði um millistéttina er sem sagt dauður og Sjálfstæðisflokkur nýfrjálshyggjunnar og auðmannadekurs er sá sem í boði er.

Þeir sem trúa því að nýji Sjálfstæðisflokkurinn bæti samfélagið fyrir almenning eru sennilega fáfróðir eða auðtrúa kjánar.

Gróðapungum sérhagsmunanna er hins vegar alveg sama þó gott samfélag sé skemmt – ef þeir geta sjálfir grætt á því.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 6.7.2015 - 14:15 - FB ummæli ()

Þjóðverjar greiddu ekki skuldir sínar

Við lok seinni heimsstyrjaldarinnar skulduðu Þjóðverjar öðrum þjóðum meira en 200% af landsframleiðslu. Landið var í rúst og þjóðin lifði hörmungar, vegna þeirra byrða sem þýsk stjórnvöld höfðu lagt á landsmenn og aðrar þjóðir Evrópu með stríðsbrölti sínu.

Þá höfðu nágrannar og sigurvegarar styrjaldarinnar ærin tilefni til að saka Þjóðverja um „mistök“ og „stjórnleysi“ og beita þá hörðum aga og refsingum – eins og gert hafði verið með Versalasamningnum eftir fyrri heimsstyrjöldina.

Þá höfðu verið lagðar óbærilegar skuldabyrðar á þýsku þjóðina, sem hún hafði enga möguleika á að standa undir. Það leiddi til meiri ófarnaðar síðar, meðal annars valdatöku Nasista.

Sigurvegaraþjóðirnar lærðu sína lexíu af þessu og lögðu kapp á að gera Þýskalandi fært að ráða við byrðar sínar eftir seinni heimsstyrjöldina og greiddu þeim götu til nýrrar hagþróunar og framfara – á grundvelli lýðræðis.

Um tíu árum eftir stríðslokin höfðu opinberar skuldir Þjóðverja við aðrar þjóðir lækkað úr meira en 200% í um 20%.

Meðulin voru um 60% skuldaafskrift árið 1953, ásamt verðbólgurýrnum annarra skulda (þeir voru ekki með verðtryggingu skulda).

Þessi gríðarlegi skuldavandi Þjóðverja hvarf því á innan við tíu árum – með hjálp annarra. Hann var stærri en skuldabaggi Grikkja er í dag (um 180% af þjóðarframleiðslu).

Einnig fengu Þjóðverjar Marshall-aðstoð frá Bandaríkjamönnum til að greiða fyrir uppbyggingu atvinnulífs og samfélags.

Franski hagfræðingurinn Thomas Piketty bendir á þetta í kröftugu viðtali við þýska tímaritið Zeit um helgina.

Þjóðverjar fengu sem sagt stóran skammt af því sem þeir nú neita Grikkjum um.

Í staðinn krefjast þeir enn meiri niðurskurðaraðgerða, líkar þeim sem hafa engum árangri skilað í Grikklandi síðustu 5 árin og hafa raunar gert stöðuna sífellt erfiðari.

 

Hagfræði blóðtökunnar ræður för í ESB

Forystumenn Evrópusambandsins hafa sett skynsamlega kreppuhagfræði Keynes til hliðar og fest sig við niðurskurðarhagfræði nýfrjálshyggjunnar.

Keynes kenndi að í djúpri kreppu, þegar eftirspurn vantaði í hagkerfið, þá myndi niðurskurður opinberra útgjalda vinna gegn hagvexti og einungis magna vandann. Það er síendurtekinn dómur reynslunnar, líka í núverandi kreppu.

Sjúklingurinn er veikur og lækning niðurskurðarleiðarinnar felur í sér blóðtöku. Hún leiðir til þess að sjúklingurinn veikist enn meira – og þá er boðuð enn meiri blóðtaka.

Þetta er auðvitað “læknisfræði” miðaldanna! Menn lærðu það síðar að blóðtaka er hættuleg í veikindum.

Hvorki Þjóðverjar né aðrir leiðtogar ESB hirða um hagfræðilexíur Keynes og virðast vera fangar hinnar hættulegu hagfræði blóðtökunnar. Minn gamli lærifaðir frá Oxfordháskóla, Nóbelshagfræðingurinn Amartya Sen, skrifaði góða grein um það í New Statesman í síðasta mánuði (sjá hér).

Leiðin sem þeir bjóða Grikkjum felur í sér áratuga skuldabasl og enn meiri þrengingar til skemmri tíma.

Vonleysið eitt er í boði.

Það kaldhæðnislega er að þetta er í algerri andstöðu við hvernig Þjóðverjar sjálfir voru meðhöndlaðir eftir lok hildarleiksins sem þeir stofnuðu til með heimsstyrjöldinni síðari.

Þjóðverjar fengu mikla niðurfellingu skulda sinna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 18.6.2015 - 12:06 - FB ummæli ()

Ánægja og óánægja Íslendinga

Mönnum er tíðrætt um óánægjuna meðal Íslendinga þessi misserin.

Sú umræða er að mestu leyti mörkuð af biturri reynslu þjóðarinnar af hruninu og efasemdum um hvernig við hefur verið brugðist á sumum sviðum.

Lífskjör almennings versnuðu auðvitað verulega við hrunið og fólki finnst enn nokkuð vanta upp á endurheimt fyrri kjara.

Í þessu sambandi er fróðlegt að skoða niðurstöður könnunar um ánægju og óánægju með hina ýmsu þætti lífskjaranna, sem gerð var meðal allra Evrópuþjóða árið 2013 (gögnin koma frá Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins og Hagstofu Íslands).

Á myndinni er útkoma Íslendinga borin saman við meðaltal hinna norrænu þjóðanna og meðaltal ESB-þjóðanna allra.

Ánægja Íslendinga 2013

Íslendingar ánægðir með lífið almennt – en óánægðir með fjárhagsafkomu sína

Íslendingar eru almennt mjög ánægðir með flesta þætti lífskjara sinna sem þarna var spurt um – nema fjárhagsafkomuna.

Við þekkjum það úr fjölmörgum alþjóðlegum könnunum til lengri tíma að Íslendingar segjast flestir vera mjög ánægðir með lífið almennt og jafnvel einna hamingjusamastir þjóða.

Þessi mikla ánægja með lífið minnkaði strax í kjölfar hrunsins, en hefur aukist á ný frá og með árinu 2011, eftir að þjóðarbúið reis við á ný.

En óánægja með fjárhagsafkomuna er enn áberandi meðal þjóðarinnar, þó ánægja með aðra þætti lífskjaranna sé almennt mikil orðin á ný.

Það er raunar vel þekkt í þessum könnunum á ánægju með lífið og hamingju þjóða, að saman getur farið mikil ánægja með lífið almennt og óánægja með fjárhagsafkomu.

 

Hamingjusamastir í heimi!

Þannig var það í fyrstu og frægustu hamingjukönnun Gallup sem gerð var hér á landi árið 1984. Það var í kjölfar kreppu í efnahagslífi og mikillar kjaraskerðingar og aukinna skuldabyrði vegna húsnæðislána (“Misgengið”, sem kallað var).

Það var fyrsta kreppan þar sem gallar verðtryggingarinnar lögðust með fullum þunga á heimilin í landinu: kaupmáttur rýrnaði mikið um leið og skuldir hækkuðu með verðbólguskoti.

Þá kemur þessi könnun árið eftir kjaraskerðinguna miklu og niðursstöður hennar voru að Íslendingar væru hamingjusamasta þjóð í heimi! Sem sagt, “bestir í heimi…”

Mörgum brá og sýndist þetta með miklum ólíkindum, enda fjárhagur heimilanna enn slæmur.

Sú könnun sýndi þó reyndar líka að Íslendingar voru þá mjög óánægðir með fjárhagsafkomu sína, á pari við fátækari þjóðir í Suður Evrópu. Menn tóku minna eftir því í fjölmiðlunum.

Þegar Íslendingar eru spurðir um hamingju sína þá hugsa þeir ekki fyrst og fremst um fjárhagsafkomu, heldur aðra og væntanlega mikilvægari þætti lífsins.

Svo er enn, eins og myndin hér að ofan sýnir.

 

Mun meiri ánægja er með fjárhagsafkomuna í Skandinavíu

Eins og sjá má á fyrstu dálkunum á myndinni eru hinar norrænu þjóðirnar (Danir, Finnar, Norðmenn og Svíar) talsvert ánægðari með fjárhagsafkomu sína en Íslendingar.

Þetta var árið 2013. Á árinu 2014 jókst kaupmáttur á Íslandi líklega meira en á hinum Norðurlöndum og í ár hefur skuldalækkun skilað sér til margra heimila, auk þess sem nýir kjarasamningar eiga að bæta stöðu lægri tekjuhópa nokkuð.

Staðan með fjárhagsafkomuna ætti því að hafa batnað nokkuð á Íslandi frá því könnunin var gerð. Þó hefur varla náðst jöfnuður við skandinavísku þjóðirnar í þessum efnum.

Hin hliðin er svo sú, að ánægja með fjárhagsafkomuna er að meðaltali minni í ESB-ríkjunum en á Íslandi, þrátt fyrir allt, enda eru þar á meðal margar mun fátækari þjóðir í Suður og Austur Evrópu meðtaldar.

Flestar þróuðu þjóðirnar innan ESB koma þó betur út en Ísland hvað ánægju með fjárhagsafkomu snertir (t.d. Þjóðverjar, Svisslendingar, Hollendingar, Austurríkismenn, Belgar og Lúxemborgarar – auk norrænu þjóðanna allra).

Ef við lítum svo á aðra þætti lífskjara, þá voru Skandínavar ögn ánægðari með lífið almennt á þessu herrans ári, þeir voru einnig nokkuð ánægðari með húsnæði sitt, útivistaraðstöðu, hvernig tíma þeirra er varið, gæði umhverfisins sem þeir lifa í og persónuleg tengsl sín.

Íslendingar voru hins vegar ánægðari eða áþekkir Skandinövum hvað snertir ánægju með starfið sem þeir gegna, tíma sem varið er til samgangna og Íslendingar virðast almennt sáttastir þjóða við meiningu lífsins – næstir á eftir Dönum frændum okkar.

 

Lærdómur

Lexían af þessu er sú, að þjóðir gera mikinn greinarmun á ánægju með fjárhagsafkomu sína og ánægju með aðra þætti lífskjara sinna.

Mikil óánægja með fjárhagsafkomu getur farið saman við mikla ánægju með lífið almennt, ekki síst félagslega og umhverfislega þætti lífskjaranna.

Fjárhagsafkoma skiptir þó auðvitað miklu máli og samanburður við hinar skandinavísku þjóðirnar er okkur Íslendingum enn nokkuð erfiður.

Við erum þó á réttri leið á því sviði og höfum verið svo allt frá árinu 2011, þegar endurreisnin tók að skila árangri eftir hið gríðarlega hrun. Sá árangur hefur komið stig af stigi allt til dagsins í dag. Horfurnar framundan um enn betri árangur eru líka ágætar.

Við munum þó varla ná því að verða samkeppnishæf við skandinavísku þjóðirnar hvað fjárhagsafkomu heimila almennt snertir fyrr en grunnkaup hefur hækkað hér umtalsvert um leið og vinnutími hefur styst. Þar ber enn mikið á milli fyrir flestar starfsstéttir.

En slíkar framfarir eru mögulegar, því framleiðsla og auðlegð þjóðarinnar er slík.

Það er einungis spurning um fyrirkomulag lífskjaranna og skiptingu auðlegðarinnar og ávaxta hennar meðal þjóðarinnar.

Bæta má hlut almennings og skerða lítillega hlut yfirstéttarinnar, ekki síst hvað snertir rentu af auðlindum þjóðarinnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 9.6.2015 - 11:54 - FB ummæli ()

Stóru orðin standa

Það virðist ástæða til að hrósa ríkisstjórninni og ráðgjöfum hennar fyrir þá áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna sem kynnt var í gær.

Áætlunin er mjög álitleg og skynsamlega útfærð, með höfuðáherslu á að verja hagsmuni almennings.

Sú nálgun að skilgreina ófrávíkjanleg stöðugleikaskilyrði, sem eiga að tryggja sem best að ekki myndist of mikill þrýstingur á gengisfall krónunnar, er afar mikilvæg leið.

Hótunin um álagningu stöðugleikaskatts styrkir svo samningsstöðu stjórnvalda og ýtir undir að kröfuhafar samþykki samningaleiðina, þ.e. með nauðungarsamningum þrotabúanna.

 

Önnur leið en haukarnir töluðu fyrir

Þessi leið ríkisstjórnarinnar er önnur en sú sem haukar hins óhefta markaðar, sumir atvinnurekendur og braskarar hafa talað fyrir. Þeir hafa ítrekað sagt að afnema ætti höftin í flýti (jafnvel á þremur mánuðum) og taka höggið – en vera svo fljót upp á ný.

Þannig hafa kredduhagfræðingar nýfrjálshyggjunnar ítrekað talað, en líka fulltrúar samtaka fyrirtækja og fjárfesta.

Hvað hefði þeirra leið haft í för með sér?

Jú, hún hefði örugglega leitt til mikils falls krónunnar (eins og þessir aðilar viðurkenndu sjálfir), með tilheyrandi lækkun kaupmáttar heimila og aukinni skuldabyrði. Þetta hefði orðið endurtekið hrun fyrir heimilin og raunar hefði þjóðarbúið að öllum líkindum farið á hliðina á ný.

Ég hef ítrekað sagt að engin ríkisstjórn myndi lifa af slíkar hrossalækningar.

Ríkisstjórnin hafnar leið haukanna og fer leið skynseminnar.

 

Stóru orðin standa

Stjórnvöld leitast við að tryggja stöðugleika og verja krónuna miklu falli, en leggja að auki mikla kröfu á þrotabúin og aðra erlenda krónueigendur. Það getur að sögn fært ríkissjóði tekjur á bilinu 600-800 milljarða, sem ætlað er til niðurgreiðslu ríkisskulda.

Tjón ríkissjóðs af hruninu og braskbólunni er að hluta bætt með stöðugleikagjaldinu (eða stöðugleikaskattinum ef til hans kæmi).

Sú fjárhæð hefði að vísu mátt vera enn hærri, því tjón ríkisins og almennings varð meira (sjá hér og hér).

Þetta eru þó hærri upphæðir en menn hafa almennt gert sér vonir um til þessa.

Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, reynist á ný maður sinna stóru orða.

Enginn hefur talað með afdráttalausari hætti um réttmæti þess að sækja miklar fjárhæðir í þrotabúin og snjóhengjuna en hann, alveg frá því fyrir kosningar 2013. Margir hagspekingar, blaðamenn og stjórnmálamenn hafa gert lítið úr yfirlýsingum hans um þetta. Það reynist nú hafa verið ómaklegt.

Bjarni Benediktsson kemur einnig afar vel frá þessum málatilbúnaði öllum. Ég hef oft gagnrýnt hann fyrir stefnu hans í skattamálum og tillitsleysi gagnvart hagsmunum milli og lægri tekjuhópa, sem er reyndar almennt sjúkdómseinkenni á Sjálfstæðisflokknum.

En menn eiga að vera sanngjarnir og nú sé ég ástæðu til að hrósa Bjarna Benediktssyni og ríkisstjórninni allri fyrir þessa áætlun.

Að hluta er þessi áætlun samhljóma því sem fyrri ríkisstjórn lagði upp með frá 2011 og seðlabankastjóri talaði fyrir, þegar hann sagði að erlendir kröfuhafar þyrftu að gefa eftir allt að 75% af krónueignum. Nú er stefnt á nær fulla eftirgjöf þeirra krónueigna og varfærnislega og skynsamlega framkvæmd.

Vonandi gengur þessi áætlun eftir eins og að er stefnt. Þá mun hún fela í sér mikil tímamót.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 31.5.2015 - 16:45 - FB ummæli ()

Hóflegar launahækkanir og stór ríkispakki

Samningarnir á almennum markaði ná til tæplega fjögurra ára og fela í sér talsverða hækkun lægstu launa, en mjög hóflegar kauphækkanir fyrir þá sem eru með meira en 300 þúsund krónur á mánuði.

Starfsgreinasambandið (SGS), sem fyrst reifaði kröfuna um að koma lágmarkslaunum í 300 þús. kr. árið 2018, vinnur mikilvægan sigur – og fleiri njóta þess.

Kaupmáttaraukningin kemur einkum í ár og á næsta ári hjá flestum.

En fyrir þá sem eru með meira en 300 þús. verður lítil sem engin kaupmáttaraukning vegna samninganna á árunum 2017 og 2018, ef verðbólga verður nálægt markmiði Seðlabankans. Samt er spáð ágætum hagvexti.

Millitekjuhópar fá þó einhverja kaupmáttaraukningu vegna skattalækkana á  þeim árum.

Almennt er mjög lítið tilefni til að auka verðbólgu að hálfu atvinnurekenda vegna þessara kjarasamninga, því kauphækkanir þorra launþega eru hóflegar. Láglaunafólkið sem mest fær er minnihluti launþega.

Framlag ríkisins til kjarasamninganna er hins vegar stórt, í formi umbóta í húsnæðismálum (sem einkum gagnast lægri og millihópum) og skattalækkana (sem einkum gagnast millitekjuhópum).

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra kemur fyrirhuguðum umbótum sínum áfram, þrátt fyrir ómaklega árás fjármálaráðuneytisins á hana fyrir nokkru. Það er sigur, bæði fyrir hana og ASÍ.

Nýtt félagslegt húsnæðiskerfi kemur til sögunnar, með mikilli fjölgun leiguíbúða og húsnæðisbætur hækka umtalsvert – sem einkum bætir hag lágtekjufólks.

Sjálfstæðismenn fá fram skattalækkun til millihópa, með niðurfellingu milliþrepsins í tekjuskattinum. Einnig lækka þeir tolla á fötum og skóm, sem er ágætt úrræði.

Munur stjórnarflokkanna krystallast nokkuð vel í þessum ríkispakka. Framsókn bætir hag lægri og milli hópa en Sjálfstæðisflokkurinn hugsar einkum um þá sem hafa hærri tekjur.

En á heildina litið er þetta framlag ríkisins til kjarasamninganna óvenju stórt og markar tímamót í húsnæðismálunum, sem var aðkallandi.

 

Greining launahækkana og líkur á kaupmáttaraukningu

Í töflunni hér að neðan má sjá yfirlit um launabreytingar samkvæmt samningunum, greint eftir árum og launabilum.

Screen Shot 2015-05-31 at 10.28.15

Með því að telja samanlagðar hækkanir á tímabilinu öllu, sem er 4 ár, þá fá menn nokkuð háar prósentutölur, allt upp í rúmlega 30% fyrir lágtekjufólkið (dálkur 7).

En ef hækkunum er skipt niður á einstök ár þá er heildarhækkunin ekki sérlega mikil að meðaltali á ári hverju (dálkur 8), eða frá 3,6% fyrir tekjuhæsta hópinn, og upp í 7,6% að meðaltali á ári fyrir þá lægst launuðu (fer hjá þeim úr 10,9% fyrsta árið niður í 4,5% árið 2017). Að auki koma smá sporslur fyrir fiskvinnslufólk og afgreiðslufólk.

Svo má sjá í næstneðstu línunni í töflunni hvernig hækkunin kemur frá ári til árs fyrir þá sem eru á meðaltekjum þessara dæma (488 þús. á mán.). Til samanburðar er svo þróunin hjá láglaunafólki og loks verðbólguspá í neðstu línunni.

Þar má sjá að von um kaupmáttaraukningu fyrir þá sem eru með meira en 300 þús. er fyrst og fremst á tveimur fyrstu árum samningsins (2015 og 2016), en mjög litlar líkur eru á kaupmáttaraukningu árin 2017 og 2018, vegna launahækkana.

Vonandi duga útgönguákvæði til að sleppa mönnum þá frá þessum samningi, því alltaf er óásættanlegt að fólk fái minni kaupmáttaraukningu en nemur vexti þjóðarframleiðslu á mann (sem ætti að vera 2-3% á ári í venjulegu árferði).

Á heildina litið færir þessi kjarasamningalota mörgum talsvert, einkum láglaunafólki.

Framlag stjórnvalda skiptir miklu máli fyrir ávinning samninganna.

Hvernig ríkið aflar svo tekna fyrir því sem eftir er gefið gæti þó breytt einhverju um skiptingu ávinnings.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 25.5.2015 - 17:14 - FB ummæli ()

Ójöfnuður tekna og eigna – fyrir og eftir hrun

Mikilvægt er að greina á milli ójafnaðar í tekjuskiptingu og eignaskiptingu þegar rætt er um þróun efnahagslegs ójafnaðar á Íslandi.

Þróun þessara tveggja þátta var ólík, en margir rugla þessu saman.

 

Ójöfnuður tekna

Skoðum fyrst tekjuskiptinguna. Myndin hér að neðan sýnir hve stór hluti tekna þjóðarinnar kom í hlut ríkasta eina prósentsins á Íslandi og í Bandaríkjunum fram til 2012. Miðað er við allar skattskyldar tekjur.

Ójöfnuður USA of ÍS

Eins og sjá má jókst hlutur hátekjuhópsins á Íslandi frá um 1998 til 2007 langt umfram aukninguna hjá sama hópi í Bandaríkjunum. Hlutur ríkasta eina prósentsins er í ágætu samræmi við aðrar mælingar á tekjuójöfnuði (hlutur ríkustu tíu prósentanna eða Gini-ójafnaðarmælinga – sjá hér og hér).

Hlutur hátekjuhópanna fór að aukast markvert í Bandaríkjunum eftir 1980 til 2007 og varð meiri en víðast á Vesturlöndum. Það er vel þekkt og staðfest núorðið.

Sambærileg þróun hófst á Íslandi eftir 1995 og jókst verulega eftir 1998 þegar bóluhagkerfið fór á flug – og síðan með enn meiri hraða eftir 2003.

Aukning ójafnaðar í tekjuskiptingunni á Íslandi varð meiri frá aldamótum og að hruni en sést hefur áður á Vesturlöndum – mun örari en í Bandaríkjunum, eins og sjá má á myndinni.

Eftir hrun snérist þróunin svo algerlega við. Ójöfnuður tekna minnkaði stórlega á ný. Mun meira en í Bandaríkjunum, þar sem hlutur þeirra allra ríkustu er nú aftur orðinn meiri en hann varð mestur fyrir kreppu.

Árin 2011 og 2012 var hlutur hátekjuhópsins á Íslandi orðinn svipaður og verið hafi nálægt aldamótum, eða áður en mestu áhrif bóluhagkerfisins komu fram. Hann er samt nú meiri en verið hafði fyrir árið 2000, eins og sést vel á myndinni.

Tekjuskiptingin varð jafnari eftir hrun vegna mikillar minnkunar fjármagnstekna og vegna aukinna jöfnunaráhrifa af skatta- og bótastefnu stjórnvalda (sjá nánar hér).

Nýjustu tölur um ójöfnuð tekna benda til að tekjuskiptingin á Íslandi sé nú með jafnasta móti meðal OECD-ríkjanna, við erum í hópi 4-5 jöfnustu ríkjanna hvað snertir jöfnuð ráðstöfunartekna (án söluhagnaðarhluta fjármagnstekna).

Upplýsingar úr skattagögnum á síðasta ári benda þó til að fjármagnstekjur hafi aukist meira en aðrar tekjur milli áranna 2012 og 2013, sem þýðir að öðru jöfnu aukinn tekjuhlut allra hæstu hópanna, þ.e. þeirra sem eiga mestar eignir er gefa arð og rentu. Útvegsmenn og aðrir fjármálamenn sem eru allra efst á toppi eignaskiptingarinnar hafa væntanlega notið þess, frá 2013 og fram á núverandi ár.

Að öðru leyti virðast hafa verið litlar breytingar á tekjuskiptingunni eftir 2012, að minnsta kosti í samanburði við árin fyrir hrun.

 

Ójöfnuður í skiptingu eigna jókst hins vegar eftir hrun

Ójöfnuður í skiptingu eigna virðist hins vegar hafa aukist eftir hrun. Það liggur í því að eignir þeirra sem minna áttu rýrnuðu hlutfallslega meira en eignir þeirra sem mest áttu. Um þetta má lesa hér og hér.

Hér að neðan má sjá yfirlitsmynd um þróun hreinna eigna heimila í þremur tíundarhópum: á toppnum (ríkustu tíu prósentin), í efri miðjunni (tíundarhópur nr. 6) og á botninum (eignaminnstu tíu prósentin). Hún sýnir glögglega hvernir hlutur þeirra eignamestu af hreinum eignum jókst eftir 2005 og áfram eftir hrun og til 2010, um leið og neikvæð eiginfjárstaða þeirra sem eru á botninum versnaði hlutfallslega meira en á toppnum (Heimild: Hagstofa Íslands).

Hlutur millistéttarinnar af hreinum eignum heimilanna (svörtu súlurnar litlu) minnkaði um rúmlega helming frá 2005 til 2013, úr 3,9% í 1,4%.

Bilið milli topps og botns í eignaskiptingunni stækkaði þannig eftir hrun – og þó það hafi minnkað aftur frá 2011 til 2013 er það enn talsvert meira en var fyrir árið 2008 og raunar allt tímabilið frá 1997 til 2007.

Eignir þriggja stétta

Það er því nokkuð ólík mynd sem dregst upp af þróun tekjuskiptingarinnar og eignaskiptingarinnar fyrir og eftir hrun. Sú fyrri jafnaðist eftir hrun (í kjölfar mikillar aukningar ójafnaðar frá 1998 til 2007), en sú seinni varð ójafnari á heildina litið. Eignaskiptingin er nú talsvert ójafnari en hún var á tímabilinu frá 1997 til 2005.

Ef eignir fara að gefa af sér örari ávöxtun en var fyrst eftir hrun munu fjármagnstekjur aukast hraðar en allar aðrar tekjur á ný. Þær koma einkum í hlut þeirra eignamestu (arður og söluhagnaður hlutabréfa og fasteigna).

Það gæti þá leitt til aukins ójafnaðar í tekjuskiptingunni líka, að öðru óbreyttu. Ef kjarasamningar hins vegar auka hlut lágtekjufólks umfram aðra myndi það vega gegn ójafnaðaráhrifum af fjármagnstekjum í tekjuskiptingunni.

Framtíðin er því óviss hvað þróun ójafnaðar tekna og eigna snertir.

Stefna stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins skiptir miklu um endanlega framvindu ójafnaðarins í landinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 20.5.2015 - 12:36 - FB ummæli ()

Ómarktæk könnun SA-manna

Samtök atvinnulífsins (SA) kynntu í gær nýja könnun sem þeir gerðu meðal aðildarfélaga samtaka sinna.

SA segir könnunina sýna, að ef gengið yrði að kröfum Starfsgreinasambandsins (SGS) þá muni koma til uppsagna starfsfólks í öðru hverju fyrirtæki.

Með reiknikúnstum fá þeir svo út að um 16 þúsund manns muni missa vinnuna.

Sextán þúsund manns!

Ef þetta væri rétt þá myndi atvinnuleysið í haust verða mun meira en mest varð eftir hrun, eða um 13% (það varð hæst um 9% á árinu 2009).

Þessi fullyrðing SA-manna vekur því stórar spurningar um marktækni þessarar könnunar. Nánari skoðun sýnir raunar að hún er með öllu ómarktæk.

SA-menn spyrja sína eigin meðlimi, sem allir eru í kjarabaráttu við starfsfólk sitt, um hugsanlegar afleiðingar ef þeir þurfa að gefa talsvert eftir til láglaunafólks.

Áður en farið var af stað með könnunina birtu SA og Seðlabankinn nokkrar “fréttatilkynningar” um að til uppsagna kynni að koma ef gengið yrði að háum kjarakröfum yfir línuna. Verðbólga myndi líka fara úr böndum.

Síðan var hringt í meðlimi SA og þeir spurðir hvort það sé ekki svo!

 

Misnotkun könnunar í áróðursskyni

Þetta er óvenju kaldrifjuð misnotkun könnunar í áróðursskyni.

Svarendur sem hafa mikinn hag af tilteknum svörum við spurningunum eru spurðir, eftir að hafa verið hitaðir upp og brýndir um “rétt svör”.

Auðvitað er ekki hægt að útiloka einhverjar uppsagnir og eitthvað aukna verðbólgu í kjölfar talsverðra kauphækkana hjá launafólki öllu.

Það er hins vegar hvorki sjálfsagt né óhjákvæmilegt að útkoman verði sú sem SA segir.

SGS er einkum að berjast fyrir hækkunum til láglaunafólks. Hækkanir sem þeir fá þurfa alls ekki að ganga upp alla línuna á almennum markaði í sömu hlutföllum. Hækkun til hærri hópa gæti verið innan marka hagvaxtarins á mann sem spáð er (um 4,5% í ár) og þá verða þensluáhrif lítil eða engin.

Jafnvel þó hækkun yfir línuna yrði eitthvað meiri en vöxtur þjóðarframleiðslu á mann (sem virðist ætla að vera með mesta móti á næstu þremur árum) þyrfti ekki að koma til mikillar verðbólgu né víðtækra fjöldauppsagna. Svigrúm til að mæta kauphækkunum með styttingu vinnutíma (framleiðniaukningu) og lækkun aukagreiðslna er víða mikið.

Þessi könnun SA-manna er einfaldlega hlutdrægt og hagsmunadrifið inngrip í kjarasamninga.

Hún segir því lítið um afleiðingar af væntanlegum kjarasamningum við SGS. Nema helst að atvinnurekendur vilja sem minnst gefa eftir af hagnaði fyrirtækja og arðgreislum til að hækka kaupið.

Það lá þó þegar fyrir. Dæmisögurnar frá HB Granda og fjármálafyrirtækjunum segja sennilega allt sem segja þarf um það.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 18.5.2015 - 09:56 - FB ummæli ()

Húsnæðismálin: Lítill áhugi Sjálfstæðismanna

Togsteita milli fjármálaráðuneytis og velferðarráðuneytis vegna nýrra frumvarpa Eyglóar Harðardóttur ráðherra um húsnæðisbætur og um félagslegt leiguhúsnæði hefur vakið mikla athygli.

Þessi frumvörp félags- og húsnæðismálaráðherra eru hluti af stórum umbótapakka sem unnið hefur verið að um hríð, með aðkomu margra er málið snertir.

Margir hafa líka vænst þess að húsnæðismálin gætu orðið hluti af lausn kjaradeilna á vinnumarkaði.

Allir eru sammála um mikilvægi umbóta á sviði húsnæðismála, enda ástandið sérstaklega erfitt fyrir ungar fjölskyldur, ekki síst á leigumarkaði.

Eftir að Eygló Harðardóttir lagði fram frumvörp sín hefur fjármálaráðuneytið hins vegar sett þau í frystingu, undir því yfirskyni að svo langan tíma taki að kostnaðarmeta frumvörpin.

Fyrir kunnáttumenn tekur einungis nokkra daga að kostnaðarmeta slík frumvörp – ekki vikur og því síður mánuði.

Í ljósi kjaradeilna og hugsanlegra breytinga er auðvitað mikilvægt að fá grunnmat kostnaðar og einnig með ýmsum breytilegum útfærslum. Þannig er aðilum auðveldað að leggja mat á fýsileika ólíkra leiða og hvað er yfirhöfuð mögulegt í meðferð málsins, bæði á þingi og í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins.

Nei, þá stöðva Sjálfstæðismennirnir í fjármálaráðuneytinu málið og reisa hinar ýmsu hindranir í veg fyrir umbæturnar. Tefja og tafsa. Bera fyrir sig stífar afgreiðslureglur, rétt eins og ekki megi kostnaðarmeta ólíkar útfærslur og afbrigði.

Þessa framgöngu fjármálaráðuneytisins er erfitt að skilja nema sem endurspeglun af miklu áhugaleysi Sjálfstæðismanna fyrir þeim leiðum húsnæðisbóta og hugmyndum um umbætur á leigumarkaði sem í farvatninu eru.

 

Gegn styrkjum til fjölskyldna en vilja styrkja fyrirtæki

Sjálfstæðismenn hafa í seinni tíð talað gegn vaxtabótum (og jafnvel líka gegn leigubótum). Þeir vilja frekar að fullt markaðsverð skelli á fjölskyldunum, jafnvel þó þær ráði ekki við okrið.

Sjálfstæðismenn tala þannig oft gegn húsnæðisbótum og niðurgreiðslum velferðarkerfisins, kalla það “opinbera styrki”, sem þeir segja slæma.

En þeir eru hins vegar hlynntir opinberum styrkjum til verktaka, til dæmis með því að gefa þeim lóðir undir íbúðarbyggingar eða með sérstökum skattafríðindum. Telja að þannig megi gera húsnæði ódýrara fyrir kaupendur og leigjendur.

Gallinn við þá leið Sjálfstæðismana er sá, að engin trygging er fyrir því að slíkir styrkir til fyrirtækja leiði til lægra verðs á íbúðum eða leigu. Þeir geta allt eins farið beint í aukinn hagnað eigenda og braskara. Raunar er það líklegast.

Hér áður fyrr var Sjálfstæðisflokkurinn málsvari séreignastefnu og vildi gera fólki kleift að kaupa íbúðarhúsnæði. Þeir hafa hins vegar alltaf haft lítinn áhuga á félagslegum úrlausnum fyrir fólk með lægri tekjur.

Nú er spurningin hvort Sjálfstæðismenn séu alveg búnir að snúa baki við fjölskyldunum í landinu og hugsi eingöngu um fyrirtæki og fjárfesta?

 

Síðasti pistill:  Mikil auðlegð Íslendinga

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 12.5.2015 - 11:06 - FB ummæli ()

Mikil auðlegð Íslendinga

Nýlega hafa birst tvær alþjóðlegar skýrslur um auðlegð þjóða. Önnur kemur frá svissneska bankanum Credit Suisse og hin frá Alþjóðabankanum.

Með auðlegð er átt við hreinar eignir heimila umfram skuldir. Eignir geta bæði verið fjáreignir (sparifé, verðbréf, hlutabréf, lífeyriseignir o.s.frv.) og fasteignir (einkum íbúðarhúsnæði, en einnig landeignir).

Einnig má telja auðlindir, svo sem ræktarland, námur með verðmætum jarðefnum og aðrar auðlindir. Sjávarauðlindin og orkuauðlindir Íslendinga eru af þeim toga og raunar óvenju verðmætar náttúruauðlindir.

Skemmst er frá því að segja að samkvæmt báðum ofangreindum skýrslum er auðlegð Íslendinga með þeim allra mestu, þegar reiknuð er auðlegð á hvern fullorðinn einstakling í landinu. Skýrslurnar beita þó ólíkum aðferðum.

Á myndinni hér að neðan má sjá niðurstöðu Credit Suisse. Þar kemur fram að Ísland er í þriðja efsta sæti af OECD-ríkjunum, sem eru ríkari hluti jarðarbúa. Við erum þarna næst á eftir Sviss og Ástralíu og á svipuðum slóðum og Norðmenn og Bandaríkjamenn.

Ísland er nokkru fyrir ofan Frakkland, Svíþjóð og Danmörku, en talsvert fyrir ofan Finnland og Þýskaland, svo dæmi séu tekin.

Við og Norðmenn erum sem sagt ríkust norrænu þjóðanna.

AUðlegð Íslendinga

Skýrsla Alþjóðabankans sýnir tölur fyrir 1995, 2000 og 2005, sem eru í öllum tilvikum talsvert hærri, vegna þess að þar er lagt mat á náttúruauð o.fl. umfram það sem er í skýrslu svissneska bankans.

En þrátt fyrir það er Ísland einnig í allra efstu sætum í þeirri skýrslu, enda njótum við þess m.a. að vera fámenn þjóð í stóru landi. Við vorum þegar komin í þessa öfundsverðu stöðu á árinu 1995, að vera ein af ríkustu þjóðum Jarðarinnar.

Þarna eru því tvennar allsterkar vísbendingar um að auðlegð Íslendinga nútímans séu með allra mesta móti sem þekkist á Jörðinni. Samt eru sjávarauðlindin og orkuauðlindir okkar ekki meðtaldar í þessum tölum (þær hafa nýlega verið metnar á að minnsta kosti 5 milljónir króna á hvert mannsbarn á Íslandi, sem væri þá talsvert meira á hvern fullorðinn).

Það er tvennt sem er sérstaklega ríkulegt á Íslandi: eignir heimila í íbúðarhúsnæði og lífeyriseignir. Fjáreignir aðrar en lífeyriseignir eru rétt í meðallagi OECD-ríkja. Náttúruauðlindirnar eru líka óvenju miklar hér.

Þó margir skuldi mikið í húsnæði sínu á fyrri hluta æviskeiðsins er húsnæði á Íslandi stórt og veglegt og séreignarfyrirkomulag er útbreitt, samanborið við margar aðrar vestrænar þjóðir. Þannig að þegar fólk eldist og nær að borga niður skuldir myndast gjarnan mikil eign í íbúðarhúsnæði og öðrum fasteignum á Íslandi, samanborið við það sem er í mörgum öðrum löndum.

Lífeyriseignir Íslendinga eru svo sérstakur kafli í eignaflórunni. Samanlagðar eignir lífeyrissjóðanna nema nú um 150% af árlegri landsframleiðslu, sem er ekki fjarri stærð norska olíusjóðsins, hlutfallslega séð. Skylduaðild að söfnunarsjóðum lífeyriskerfisins skilar þessu.

Mat OECD er að meðal lífeyriseign Íslendinga sé nú samsvarandi til níu árslauna á meðallaunum (inni í því er þó einnig væntanlegt framlag almannatrygginga, ca. 25-30%).

Rétt er að hafa þann fyrirvara á að mat eigna er flókið og talsverðri óvissu háð, þó ofangreindar skýrslur reyni að samræma niðurstöðurnar. En við vitum líka að stórar eignir Íslendinga eru ekki meðtaldar í ofangreindu mati.

Ef eignir íslensku þjóðarinnar í fiskimiðunum og orkulindunum væru meðtaldar væri staða Íslendinga enn betri en þessar tölur Credit Suisse og Alþjóðabankans gefa til kynna. Síðan mætti að auki meta eignirnar í víðernum og óspilltri náttúru, sem bera uppi öfluga og ört vaxandi ferðaþjónustu nútímans.

Það virðist því nokkuð öruggt að Íslendingar séu í reynd ein af alríkustu þjóðum Jarðarinnar, samkvæmt þessum vísbendingum, að öllu meðtöldu.

 

Rík þjóð ætti að geta lifað vel

Ef Íslendingar eru ein af ríkustu þjóðum Jarðarinnar ættu þeir að geta lifað vel. Og það gera Íslendingar að umtalsverðu leyti, samanborið við flestar aðrar þjóðir á Jarðarkringlunni (sjá hér).

Íslendingar búa alla jafna frekar vel, eiga mikið af veglegum bifreiðum, sumarhúsum og margvíslegum húsbúnaði og öðrum efnislegum lífsgæðum.

En mörgum finnst mikið vanta uppá að lífskjör Íslendinga séu jafn góð og hjá sumum grannþjóðunum, einkum á hinum Norðurlöndunum (sjá hér).

Þó er það svo að einkaneysla er alla jafna mikil á Íslandi og umfang efnislegra lífsgæða á íslenskum heimilum er þrátt fyrir allt umtalsvert.

Hins vegar er það vissulega rétt að Íslendingar þurfa að hafa mun meira fyrir lífsgæðum sínum en frændþjóðirnar á hinum Norðurlöndunum. Við vinnum mjög mikið og of erfitt er fyrir ungt fólk að eignast íbúðarhúsnæði á Íslandi.

Kaup fyrir dagvinnu er lægra hér (og raunar óeðlilega lágt miðað við þjóðartekjur á mann og almenna auðlegð þjóðarinnar). Íslendingar bæta það hins vegar upp með mikilli atvinnuþátttöku og löngum vinnutíma og ná að jafna efnislegu lífsgæðin með því.

Við höfum sem sagt mun meira fyrir lífsgæðaöflun okkar en frændurnir á hinum Norðurlöndunum.

Þetta ætti að vera hægt að laga fyrst við erum ein af ríkustu þjóðum Jarðarinnar. Norðmenn sem búa við alíka mikla auðlegð og við hafa mun minna fyrir öflun sinna lífsgæða.

Það ætti líka að vera hægt að hafa gæði heilbrigðisþjónustu og menntakerfis með allra besta móti á Íslandi, með allt þetta ríkidæmi.

Pottur er hins vegar brotinn hvað snertir skiptingu eigna þjóðarinnar og fénýtingu sameiginlegu náttúruauðlindanna (sjávarauðlindarinnar og orkulindanna).

Fámenn yfirstétt fær of mikið af þjóðarauðnum – og fjöldinn fær of lítið.

Eignaskiptingin er mjög ójöfn. Ég mun fjalla nánar um það í seinni pistlum.

 

Síðasti pistill:  Sagnfræði eða sögufalsanir?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 8.5.2015 - 12:10 - FB ummæli ()

Sagnfræði eða sögufalsanir?

Björn Jón Bragason, sem titlar sig “sagnfræðing”, sendi nýlega frá sér bókina Bylting – og hvað svo? Björn Jón er róttækur frjálshyggjumaður, fyrrverandi formaður Frjálshyggjufélagsins.

Meginmarkmið ofangreindrar bókar virðist vera að dreifa ófrægingum og slúðri um ýmsa pólitíska andstæðinga höfundar.

Þegar hefur verið bent á margar rangfærslur og staðreyndavillur í þeirri bók, meðal annars er snerta Jón Baldvin Hannibalsson f.v. utanríkisráðherra.

Þessi skrif Björns Jóns hafa því lítið með alvöru sagnfræði að gera.

 

Saga Hafskips endurskrifuð

En Björn Jón þessi var á bóluárunum fyrir hrun á launum hjá Björgólfi Guðmundssyni og fyrirtækjum hans við að skrifa bók um Hafskip hf, sem Björgólfur og félagar höfðu stýrt í gjaldþrot árið 1985. Bókin heitir Hafskip í skotlínu.

Meginmarkmið þeirrar bókar var að fegra sögu þessa viðskiptaævintýris Björgólfs Guðmundssonar og félaga, svo betur hæfði ímynd hans sem nýs aðaleiganda og stjórnarformanns hins einkavædda Landsbanka Íslands.

Bókin um Hafskip kom út um það leyti er Landsbankinn og aðrir einkareknir bankar íslenskir fóru í þrot, hrundu til grunna, með skelfilegum afleiðingum fyrir íslenskan almenning.

Það hafði einungis tekið Björgólf og hina nýju bankamennina um 5 ár að reka fjármálakerfið allt í þrot. Gjaldþrot banka þeirra voru með stærstu gjaldþrotum heimssögunnar – sem er magnað að teknu tilliti til smæðar íslenska samfélagsins.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, páfi nýfrjálshyggjunnar á Íslandi, hafði nokkrum vikum fyrir hrun útnefnt Björgólf Guðmundsson sem merkasta Íslendinginn, ásamt Davíð Oddssyni og Geir Haarde.

Hrunið kastaði þó óneitanlega nokkurri rýrð á þetta ævintýralega mat Hannesar!

Björn Jón virðist hafa þjónað húsbónda sínum og launagreiðanda vel og dregið upp þá mynd, að Hafskip hafi í reynd ekki verið gjaldþrota heldur hafi fyrirtækið verið látið falla af annarlegum ástæðum.

Kanski næsta verkefni „sagnfræðingsins“ verði að skrifa bók um það, að Landsbankinn hafi hreint ekki verið gjaldþrota haustið 2008, heldur hafi honum verið „fórnað af einhverjum annarlegum ástæðum“. Nema Hannes Hólmsteinn taki af honum ómakið og verði fyrri til!

Kanski þeim detti jafnvel báðum í hug að boða þá speki, að íslensku bankarnir hafi farið á hausinn af því að erlendar ríkisstjórnir hafi neitað að bjarga þeim (eftir að íslenskir snillingar voru búnir að reka þá í þrot)? Það skyldi þó ekki vera…

„Sagnfræðingar nýfrjálshyggjunnar“ telja mikla þörf á að endursemja sögu hrunsins, með fölsunum og afbökunum  enda er hrunið óneitanlega kusk á hvítflibba nýfrjálshyggjunnar og þeirra auðmanna sem bröskuðu Ísland í þrot.

Það yrði ævintýraleg sápuópera, líkt og þessi bláa bók um Hafskip.

 

Sögufalsanir um Hafskip

Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmaður skrifaði í vikunni ítarlega grein á Pressunni um rangfærslur og blekkingar Björns Jóns í þessari bók um Hafskip og segir söguna eins og hún var í reynd (sjá hér).

Fleiri aðilar, meðal annars starfsmenn helsta viðskiptabanka Hafskipa, hafa áður gert alvarlegar athugasemdir við bók Björns Jóns.

Skemmst er frá því að segja, að ekki stendur steinn yfir steini í skrifum Björns Jóns Bragasonar um Hafskip. Hann fegrar Björgólf og félaga vísvitandi með ósannindum og afbökunum, eins og glögglega má sjá í grein Ragnars H. Hall. Staðreyndirnar tala sínu máli.

Það er leiðinlegt að sjá svona skrif kennd við “sagnfræði”, eins og Björn Jón Bragason gerir.

Bókin um Hafskip virðist eiga meira skylt við keypta froðu almannatengla en ábyrg fræðastörf sem alvöru sagnfræðingar stunda.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 2.5.2015 - 22:32 - FB ummæli ()

1. maí 2015 – pólitískur dagur í myndmáli

Hér er smá ljósmynda-ritgerð (photo-essay) um hátíðarhöld verkalýðsins sem fram fóru í Reykjavík í gær.

Myndir segja meira en þúsund orð, segir máltækið. Í samræmi við efnið er þessi myndasería full af skilaboðum og pólitík – og með smá grafísku yfirbragði.

01-DSC_8158b

Óvenju mikil þátttaka var í kröfugöngunni og fundahöldunum á Ingólfstorgi.

01-DSC_8162b1

Fátt jafnast á við að heyra Lúðrasveit verkalýðsins spila Internationalinn á 1. maí. Það fylgir manni út í gegnum lífið.

02-DSC_8166b1

Millistéttin var áberandi í kröfugöngunni, enda háskólamenn í verkfalli.

03-DSC_8198b

Kröftugur fundur á Ingólfstorgi. Bárujárnshús í forgrunni. Það fer vel á því, enda voru Bárufélög sjómanna fyrstu verkalýðsfélögin á Íslandi.

04-DSC_8190b

Alvara málsins – og smá pizza.

05-DSC_8193b

Sjávarútvegsmálin ofarlega í huga.

06-DSC_8222b

Allir mættir – og burt með auðvaldið!

07-DSC_8195b

Einbeittir baráttumenn.

08-DSC_8215b

Verkalýðsbaráttan er alþjóðleg – líka í Reykjavík.

09-DSC_8177b1

Öreigar allra stétta sameinuðust.

10-DSC_8212b

„Ekki skatta fátækt“, segja öryrkjar. Þeir mótmæla matarskatti og lágum bótum.

11-DSC_8196b

Úlfar á ferli.

11-DSC_8216b

Atvinna og jafnrétti fyrir alla.

DSC_8256c

„Þjóðin á fiskinn“, segja þingmenn ungu kynslóðarinnar.

12-DSC_8217b

Reykjavíkurdætur rappa gegn nýfrjálshyggju og auðræði.

14-DSC_8224b

Vinstri beygja bönnuð – segja umferðarskiltin!

17-DSC_8245b

Alþýðufylkingin hélt framhaldsfund. Vladimir formaður þeirra hélt þrumuræðu og söng stef úr Nallanum – mjög impónerandi. Flestir voru þó farnir í verkalýðskaffi.

 

DSC_8236d

Maísólin skein á alla.

„Jöfnuður býr til betra samfélag“, var kjörorð dagsins.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 30.4.2015 - 13:19 - FB ummæli ()

Leiðin út úr kjaradeilunum

Staðan á vinnumarkaði er erfið. Atvinnurekendur segja kröfur alltof miklar en allur almenningur styður kröfu Starfsgreinasambandsins (SGS) um að 300 þúsund króna lágmarkslaun náist á næstu þremur árum.

Það þýðir hækkun um 30 þúsund krónur á ári fyrir þá lægst launuðu, þrjú ár í röð.

Í mörgum atvinnugreinum er auðvelt að verða við þessum kröfum – og kanski víðast.

Sjávarútvegur mun áfram skila ofsagróða og akfeitum arðgreiðslum til eigenda þó gengið verði að þessum kröfum fyrir fiskvinnslufólk og jafnvel fyrir allt starfsfólk.

Annars staðar gæti þurft að hagræða í rekstri og halda aftur af hækkunum til hærri starfsstétta, til að aftra verðbólguskoti.

Þessi krafa um 300 þúsund króna lágmarkslaun er nefnilega innan við meðaltal heildarlauna hjá flestum starfsstéttum SGS, eins og sjá má á myndinni hér að neðan (úr Fréttablaðinu sl. þriðjudag):

Screen Shot 2015-04-30 at 12.50.35

Þó gengið verði til fulls að kröfum SGS (rauðu súlurnar) verður launataxtinn samt að jafnaði innan við það sem greitt er í dag í heildarlaun fyrir viðkomandi störf (ljósbláu súlurnar).

Þetta þýðir að atvinnurekendur hafa það í hendi sér að hemja verðbólguáhrif vegna hækkunar grunnkaupsins, t.d. með einhverri styttingu vinnutíma og lækkun aukagreiðslna – og einfaldlega með almennri hagræðingu.

Til að hemja verðbólguáhrifin frekar er líklega rétt að binda hækkanir til hærri launahópa við flata krónutöluhækkun, svipaða og SGS fær eða lægri.

Atvinnulífið á svo að mæta þessum kauphækkunum með aukinni áherslu á framleiðniaukandi aðgerðir og halda aftur af verðbólguhvetjandi hækkunum til toppanna. Einnig að halda aftur af of miklum arðgreiðslum til eigenda.

Ég vek athygli á því að það sem HB Grandi greiddi út í arð nýlega er miklu hærri fjárhæð en nemur kostnaði við hækkun launa skv. fullum kröfum SGS. Hækkanir til stjórnenda og eigenda flæða líka út í hagkerfið og hafa verðbólguáhrif.

Málið er að atvinnurekendur í flestum greinum geta mætt þessum kröfum sem uppi eru og eiga sjálfir að bera ábyrgð á að þær leiði ekki til verðbólguskots. Ýmislegt er hægt að gera til að ná því.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 25.4.2015 - 12:37 - FB ummæli ()

Allir greiða skatta – líka lágtekjufólkið

Í stórri fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins í dag segir að þau 18% sem lægstar tekjur hafa greiði ekki skatta. Viðskiptablaðið bergmálar uppsláttinn. Í báðum tilvikum er vísað til úttektar í Tíund, fréttablaði Ríkisskattstjóra.

Þetta er hins vegar kolrangt.

Það rétta er að nær allir greiða einhverja skatta. Líka þau 18% sem hafa lægstu tekjurnar.

Lágtekjufólk greiðir til dæmis háan virðisaukaskatt og önnur neyslugjöld af því sem þau kaupa daglega. Einnig fasteignagjöld og útsvar til sveitarfélaga.

Virðisaukaskattur á Íslandi er einn sá hæsti í heimi. Allir sem versla í búðum greiða hann, líka lágtekjufólk.

Það sem er rétt í uppslættinum er að þessi 18% tekjulægstu einstaklinga greiða ekki tekjuskatt (beinan skatt). Þegar greinargerð Ríkisskattstjóra í Tíund er skoðuð kemur berlega í ljós hvað átt er við.

Með því er þó minna en hálf sagan sögð.

Það er nefnilega svo að virðisaukaskattar vega meira í tekjuöflun ríkisins en tekjuskattar einstaklinga, eða um 29% heildartekna á móti um 25% sem koma af tekjuskatti einstaklinga.

Óbeinir skattar, eins og virðisaukaskattur, tollar og vörugjöld, eru alla jafna stærra hlutfall af tekjum lágtekjufólks en af hærri tekjum, því lágtekjufólk eyðir nær öllum sínum tekjum í vsk-skylda vöru og þjónustu, en ekki hátekjufólk (það á frekar afgang til að spara eða fjárfesta).

Þetta er yfirleitt alls staðar þannig, að beinir skattar leggjast með meiri þunga á hærri tekjur og jafna tekjuskiptinguna, en óbeinir skattar leggjast yfirleitt með meiri þunga á lágar tekjur – með öndverðum áhrifum á tekjuskiptinguna.

Það er því vægast sagt villandi að fullyrða að lágtekjufólk greiði enga skatta.

Slíkt er oft sett fram til að grafa undan jöfnunaráhrifum tekjuskatta og jafnvel til að létta byrðum af hærri tekjuhópum og stóreignafólki, sem hefur meiri greiðslugetu.

Adam Smith boðaði þó að þeir sem meiri greiðslugetu hafa ættu að bera meiri skattbyrðar. Þannig er það líka víðast hvar, þó mismikið sé.

Þannig er það líka hér á landi, á heildina litið. Hátekjufólk á Íslandi er þó með heldur minni skattbyrði en samsvarandi hópar í grannríkjunum. Fyrir hrun var skattbyrði hátekjufólks á Íslandi hins vegar orðin minni en skattbyrði hjá lægra meðaltekjufólki (sjá hér, bls. 40).

Samt vilja sumir á hægri væng stjórnmálanna og þeir sem eru ofar í tekjustiganum gjarnan létta skattbyrði af hærri tekjuhópum og auka hana hjá lágtekjuhópum. Morgunblaðið og Viðskiptablaðið hafa lengi verið höll undir þau sjónarmið.

Þannig var einmitt skattastefnan sem rekin var frá um 1995 til hruns á Íslandi. Núverandi ritstjóri Morgunblaðsins var helsti boðberi og framkvæmdaraðili þeirrar stefnu.

Í þessu samhengi er það hættulega röng fullyrðing þegar sagt er að lágtekjufólk greiði enga skatta.

Hafa skal það sem sannara reynist – í þessu sem öðru.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar