Laugardagur 27.9.2014 - 14:55 - FB ummæli ()

Vill Bjarni nýjar upplýsingar um skattsvik?

Það sætir tíðindum að íslenskum stjórnvöldum bjóðast nú upplýsingar um skattaundanskot íslenskra aðila, sem hafa fleytt umtalsverðu fé í erlend skattaskjól, í gegnum Lúxemborg.

Það eru án efa efnamenn og útrásarvíkingar sem þarna hafa verið að verki.

Skattrannsóknarstjóri segir að þetta séu gagnlegar upplýsingar um talsverðan fjölda einstaklinga. Því gæti verið um alvöru fjárhæðir að ræða.

Þarna gætu legið umtalsverðar tekjur fyrir ríkissjóð, sem nota mætti til að efla illa stadda heilbrigðisþjónustu okkar.

Þýsk stjórnvöld hafa nýtt sér slíkar upplýsingar, einnig dönsk stjórnvöld. Það hefur skilað góðum árangri.

Fyrrverandi fjármálaráðherra mælir með notkun þessara gagna, að gefnum skilyrðum um gæði.

Hvers vegna skyldi Bjarni Benediktsson núverandi fjármálaráðherra ekki vilja nýta slíkar upplýsingar í þágu almennings og skattasiðferðis í landinu?

Stjórnvöld beita öllum tiltækum ráðum til að ná skattsvikurum hér á landi. Sama hlýtur að gilda um þá er flytja fé í erlend skattaskjól – jafnvel enn frekar.

Þarna bjóðast sem sagt gögn um meint lögbrot.

Bjarni Benediktsson hlýtur að þiggja boð um slíkar upplýsingar með þökkum – og nýta í þágu almennings.

 

Síðasti pistill:   Matur er of dýr – líka fyrir millistéttina

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 25.9.2014 - 11:20 - FB ummæli ()

Matur er of dýr – líka fyrir millistéttina

Þegar hagfræðingar segja að lægra álagningarþrep á matvæli sé óskilvirk leið til að bæta hag fólks með lægri tekjur, þá afbaka þeir það sem andstaða við hækkun matarskattsins snýst um.

Lægri álagning á matvæli snýst um að hafa mat ódýrari en ella væri.

Hækkun matarskatts gerir matvæli dýrari og leggst með meiri þunga á lægri og milli tekjuhópa.

Það er slæm leið að hækka skattinn því þá eykst framfærslukostnaður heimila.

Lægri tekjuhópar hafa minna svigrúm en aðrir til að taka á sig hækkun nauðsynjaútgjalda. Það er minna mál hjá okkur sem erum hátekjumenn.

En matur á Íslandi er líka of dýr fyrir venjulegt fólk í millistétt. Alltof dýr.

Það er ekki á íslenska okrið bætandi.

Að vísu má hugsa sér að bæta hækkun matarskattsins upp með mótvægisaðgerðum (hækkun barnabóta og niðurfellingu vörugjalda á sjónvörp og önnur slík tæki, eins og nú er boðað).

Gallinn er sá, að þær mótvægisaðgerðir sem fjármálaráðherra býður uppá eru hvergi nærri nógu veigamiklar. Margir munu finna fyrir skattahækkunum að óbreyttu.

Hækkun persónufrádráttar þyrfti því einnig að koma til – svo þetta verði alvöru skattalækkun eða óbreytt staða.

Betri leið er þó að lækka efra álagningarþrepið rólegra en nú er áformað og fella einnig niður vörugjöldin, en láta lægra álagningarþrepið óhreyft.

Það er ekkert í þjóðfélaginu eða skattkerfinu sem kallar á hækkun matarskattsins (sjá hér).

Stóð annars ekki til að lækka skatta?

Ég minnist þess ekki að Bjarni Benediktsson hafi boðað lækkanir og hækkanir í bland – sem í besta falli jafni hvor aðra út.

 

Síðasti pistill:  Bjarni, hvar er vúdú-hagfræðin núna?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 21.9.2014 - 14:10 - FB ummæli ()

Bjarni, hvar er vúdú-hagfræðin núna?

Fyrir kosningarnar í fyrra sagðist Sjálfstæðisflokkurinn geta lækkað skatta, öllum til hagsbóta.

Forystumenn flokksins sögðu að skattalækkanir myndu hafa svo örvandi áhrif á efnahagslífið að tekjur ríkisins þyrftu ekki að minnka vegna hennar.

Þessa speki höfðu forystumenn flokksins eftir Hannesi Hólmsteini, sem fékk hana að láni frá Arthur Laffer, páfa vúdú-hagfræðinnar í heiminum.

Þetta var náttúrulega aldrei annað en blekking sem sett var fram í áróðursskyni, eins og ég benti á í nokkrum greinum (t.d. hér og hér og hér).

Nú er Sjálfstæðisflokkurinn kominn til valda og formaðurinn Bjarni Benediktsson orðinn fjármálaráðherra þjóðarinnar, sem fer með skattamál.

Bjarni er sem sagt í stöðu til að setja vúdú-hagfræðina í framkvæmd: lækka skatta og láta ríkissjóð græða á galdrabrögðunum, án þess að nokkur finni fyrir neikvæðum afleiðingum neins staðar.

En nú er annað uppi á teningnum.

Bjarni segist vilja lækka skatta, en í stað þess að láta vúdú-brögðin borga tekjutap ríkisins segist hann þurfa að hækka matarskattinn (lægra þrepið í virðisaukaskattinum) – til að afla tekna í staðinn.

Nú er sem sagt ekki lengur gripið til vúdú-hagfræðinnar!

Skattalækkun þarf í senn að verða skattahækkun, til að dæmið gangi upp, segir Bjarni.

Það er bara svigrúm til að færa skattbyrði af sumum til að lækka hana á öðrum. Svo er boðið upp á ófullnægjandi mótvægisaðgerðir, sem ná alls ekki að bæta öllum auknar skattaálögur.

Hagur okkar allra væri náttúrulega betri ef vudú-hagfræðin hefði staðist. En hún var bara til að blekkja kjósendur til fylgilags og skilaði sínu. Svo tekur „alvöru“ hagfræði við þegar völdum er náð.

Bjarni á hins vegar enn þann kost í stöðunni að lækka skattbyrði allra í raun. Það gæti hann gert ef hann hækkaði persónufrádráttinn myndarlega, til viðbótar við boðaðar mótvægisaðgerðir.

Þetta bendir Jón Steinsson hagfræðingur á í nýrri grein í Kjarnanum og ég hef ítrekað fært rök fyrir nauðsyn þess ef mótvægið á að vera fullnægjandi. Einnig ASÍ.

Ef Bjarni Benediktsson færi að þeim ráðleggingum, þá gæti hann í framhaldinu hælt sér af því, að hafa í alvöru  lækkað skatta, í stað þess að færa skattbyrðina einfaldlega af breiðu bökunum yfir á þau sem mjórri eru.

Framsókn ætti að þrýsta á um öflugri mótvægisaðgerðir með hækkun persónuafsláttarins.

Kjósendur kynnu að meta það.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 17.9.2014 - 14:47 - FB ummæli ()

Ísland yrði með fjórða hæsta bókaskatt í Evrópu

Ef virðisaukaskatturinn á bækur verður hækkaður úr 7% í 12% þá verður Ísland með fjórða hæstu vsk álagningu á bækur í Evrópu.

Þessar þjóðir verða með hærri bókaskatt en Ísland:

Búlgaría (20%), Danmörk (25%) og Tékkland 15%)

 

Þessar verða með lægri bókaskatt en Ísland:

Belgía                        6%

Þýskaland                 7%

Eistland                     9%

Grikkland                  6,5%

Spánn                         4%

Frakkland                 5,5%

Króatía                       5%

Ítalía                           4%

Kýpur                          5%

Litháen                      9%

Lúxemborg               3%

Ungverjaland           5%

Malta                          5%

Holland                     6%

Austurríki                  10%

Pólland                      5%

Portúgal                     6%

Rúmenía                   9%

Slóvenía                    9,5%

Slóvakía                    10%

Finnland                   10%

Bretland                     0%

Írland                          0%

Færeyjar                    0%

Noregur                     0%

 

Lettland væri svo með sama skatt og Ísland – 12%.

Það er sem sagt ákveðinn metnaður í því að hækka bókaskattinn…

 

Síðasti pistill:  Áfram Heimdallur!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 16.9.2014 - 13:27 - FB ummæli ()

Áfram Heimdallur!

Fyrir kosningar í fyrra lofaði Sjálfstæðisflokkurinn skattalækkunum.

Þeir héldu meira að segja á lofti hinni vitlausu vúdú-hagfræði Arthurs Laffer, í boði Hannesar Hólmsteins. Þeir sögðu að hægt væri að lækka skatta stórlega og tekjur ríkisins myndu aukast sjálfkrafra – og jafnvel meira en bæta tekjutapið.

Bjarni Benediktsson virtist trúa þessu fyrir kosningar.

Nú er hann í fjármálaráðuneytinu og hefur þegar lært það, að skattalækkanir leiða venjulega til tekjumissis fyrir ríkiskassann. Bullið í Hannesi Hólmsteini og öðrum frjálshyggjubörnum stenst ekki.

Þetta er útaf fyrir sig framför hjá Bjarna Benediktssyni. Hann tekur líka alvarlega hina erfiðu stöðu ríkisfjármála og vill vera raunsær.

Samt vill Bjarni þykjast lækka skatta og hyggst gera það með skattalækkun á einu sviði sem greitt sé fyrir með skattahækkun á öðru.

Nettó útkoman verður í besta falli lítil breyting á meðal skattbyrði þjóðarinnar (einungis tilfærsla á byrðum af hærri tekjuhópum yfir á lægri tekjuhópa). Þetta er brella.

Nú bregður svo við að ungir Sjálfstæðismenn í Heimdalli eru ekki ánægðir með að matarskattur verði hækkaður og hvetja þingmenn Framsóknar til að fylgja fast eftir andstöðu sinni við það.

Ég er sammála Heimdellingum um þetta.

Bjarni á frekar að láta duga að fella niður vörugjöld og ofurtolla, en að hækka matarskattinn til að greiða fyrir lækkun efra álagningarþrepsins.

Áfram Heimdallur!

 

Síðasti pistill:  Matarskattur í Evrópu – umræðan í samhengi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 13.9.2014 - 14:45 - FB ummæli ()

Matarskattur í Evrópu – umræðan í samhengi

Talsmenn hækkunar matarskattsins, það er lægri álagningarþrepsins í virðisaukaskattinum, segja gjarnan að æskilegt sé að hafa einungis eitt álagningarþrep á alla neysluvöru. Það sé einfaldara og skilvirkara.

Ekkert land í Evrópu býr hins vegar við slíkt fyrirkomulag.

Öll Evrópulöndin eru með tvö eða fleiri álagningarþrep, misjafnt er þó á hvaða vöruflokka lægri álagningin gildir.

Öll OECD-ríki nema tvö (Japan og Chile) eru með tvö eða fleiri álagningarþrep í virðisaukaskatti og undanþágur.

Algengast er að hafa álagninguna lægri á matvæli, lyf og læknistæki, bækur, tannlækningar, hótelgistingu, fólksflutninga, dagblöð og menningarneyslu (aðgengi að söfnum og menningarviðburðum o.s.frv.).

Á myndinni hér að neðan má sjá lægstu álagningu á matvæli og hið almenna álagningarhlutfall í virðisaukaskatti í Evrópulöndum á árinu 2014 (heimild Eurostat – sjá hér).

Matarskattur 2014

Miðað við núverandi fyrirkomulag þá er lægsta álagning á matvæli svipuð á Íslandi og í Þýskalandi, en lægri í 13 Evrópulöndum og hærri í 14 löndum. Einungis 5 lönd eru með almennu álagninguna á matvæli, en öll hafa þau þó lægri álagningu á einhverja aðra vöruflokka.

Ef álagningin á mat (lægra þrepið) hækkar á Íslandi úr 7% í 12%, eins og fjármálaráðherra leggur til í fjárlagafrumvarpinu, þá yrði niðurstaðan þessi:

9 Evrópulönd væru með hærri álagningu á mat en Ísland, en 17 lönd yrðu með lægri álagningu en við (tvö væru með sömu álagningu í lægsta þrepi fyrir matvæli).

 

Til hvers er breytingin?

Þegar þetta er skoðað í samhengi, þá er ekki augljóst hvers vegna þessi breyting er æskileg. Hagfræðingar hafa þó mælt með þessu, en þeir hallast oft að því að einfalda líf tölvanna sem reikna út skattinn (þó þær ráði vel við verkefnið!).

Með breytingunni verða áfram tvö þrep, en einungis með öðrum tölum. Flækjustigið helst óbreytt.

Hins vegar væri það klárlega æskileg einföldun að afnema vörugjöld á tiltekna neysluvöru, en það leiðir ekki sjálfkrafa til neinnar nauðsynjar á hækkaða álagningu á mat.

Það sem fjármálaráðherra er í reynd að leggja til, er að láta hækkunina á matarskattinum greiða fyrir lækkun á vörugjöldum og hærra álagningarþrepinu.

Lofuð skattalækkun verður því í senn skattahækkun (sem leggst með meiri þunga á lægri tekjur) og skattalækkun (sem kemur betur út fyrir milli og hærri tekjuhópa). Byrðunum er fyrst og fremst breytt milli tekjuhópa, sem þó er háð neyslumynstri.

Hækkun matarskattsins er sögð skila um 10-11 milljörðum aukalega í ríkiskassann (svipað og lækkun auðlegðarskatts og veiðigjalda nemur), en á móti er boðið upp á hækkun barnabóta upp á um 1 milljarð króna (sem skila sér sérstaklega til láglaunahópa).

Meiri metnaður hefði verið í því, að lækka efra þrepið og afnema vörugjöldin án hækkunar matarskattsins. Það hefði verið alvöru skattalækkun fyrir alla.

Ef ástand ríkisfjármála er þannig, að ekki sé staða til að gera það, þá væri eðlilegri málamiðlun að láta duga nú að afnema vörugjöldin en fresta lækkun hærra álagningarþrepsins. Slík aðgerð væri klárlega viðráðanleg.

Að láta hækkun matarskattsins um 10-11 milljarða greiða fyrir aðrar breytingar á skattkerfinu er þunnur þrettándi, sem gerir matvæli enn dýrari á Íslandi en nú er.

Síðan sýnist mér að í kynningu fjármálaráðherra á heildarútkomu aðgerðanna þá reikni hann skuldaniðurfellinguna inn í dæmið um heildaráhrif breytinganna á skattkerfinu.

Með því er hann að selja okkur ábatann af skuldalækkun til heimilanna tvisvar sinnum. Það er varla boðlegt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 11.9.2014 - 15:04 - FB ummæli ()

Karl Garðarsson kemur sterkur inn

Að öðrum nýjum þingmönnum Framsóknar ólöstuðum verður að segjast að Karl Garðarsson hefur komið sterkar inn en flestir.

Karl hefur tekið skynsama og afgerandi afstöðu í ýmsum málum, nú síðast varðandi matarskattinn og niðurskurð til skattrannsóknarstjóra.

Hækkun matarskattsins úr 7% í 12%, sem er draumur Sjálfstæðisflokksins, gæti reynst ríkisstjórninni erfið, ekki síst Framsóknarflokknum.

Því er mikilvægt að Framsókn fylgi fordæmi Sigmundar Davíðs frá 2011 og vari við áhrifum matarskattsins á lágtekjufólk og millistéttina. Karl Garðarsson hefur haft forystu um þetta og margir úr röðum Framsóknarmanna hafa tekið undir með honum.

 

Hækkun matarskatts erfiðust fyrir lægri tekjuhópa

Nú hefur ASÍ birt nýjar tölur (hér) er sýna á skýran hátt að lágtekjufólk ver helmingi stærri hluta tekna sinna til matarkaupa en hátekjufólk. Þar með er tekið undir það sem ég sagði um hvernig byrðar af hækkun matarskattsins dreifast á tekjuhópa í byrjun þessarar umræðu (sjá hér og hér).

Screen shot 2014-09-11 at 2.15.30 PM

Með þessum tölum er líka kveðin niður sú hugsanavilla, sem margir hagfræðingar hafa flaggað, að ekki sé munur á vægi matarútgjalda í heimilishaldi hjá lægri og hærri tekjuhópum.

Niðurstaðan er ljós: Hækkun matarskattsins leggst með mun meiri þunga á þá sem minnst hafa.

Sú leið sem er farin í nýja fjárlagafrumvarpinu er að stilla upp mótvægisaðgerð, einkum hækkun barnabóta um nærri einn milljarð, sem á sérstaklega að beinast að lágtekjufólki.

Þá er spurningin: Er það sé nóg til að bæta fyrir hinar auknu álögur?

Svo er augljóslega ekki, vegna þess að mun fleiri verða fyrir hækkun matarskattsins en þeir sem fá fullar og óskertar barnabætur (samhliða á reyndar að auka skerðingu bótanna, sem þýðir að barnabæturnar dragast fyrr saman þegar tekjur barnafjölskyldna hækka upp fyrir lágtekjumörk).

Nettó staða heimila með lægri tekjur versnar því við breytinguna. Þeir sem kaupa mikið af flatskjám og rafmagnstækjum gætu þó fengið nettó lækkun virðisaukaskatts með breytingunni – en sú leið að stórauka neyslu á dýrum heimilistækjum er varla fær fyrir lágtekjufólk.

Eins og venjulega þegar Sjálfstæðismenn breyta skattkerfinu, þá vill hagur hátekjufólks batna en byrðar lægri og milli tekjuhópa þyngjast.

Framsóknarfólk sem hefur efasemdir um hækkun matarskattsins þarf því að herða róðurinn og fá mun öflugri mótvægisaðgerðir, til dæmis hækkun persónufrádráttarins.

 

Veikara eftirlit – meira svigrúm til undanskota

Það er líka hárrétt hjá Karli Garðarssyni að niðurskurður á fjárveitingum til skattrannsóknarstjóra er vægast sagt furðulegur, því slíkar fjárveitingar skila sér í auknum tekjum ríkissjóðs, auk þess að veita eðlilegt og mikilvægt aðhald.

Framlög til skattrannsóknarstjóra borga sig sjálf eða skila beinum hagnaði.

Lækkun þeirra verður því einungis til að veita meira svigrúm til undanskota – en ekki til að spara í ríkisrekstrinum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 8.9.2014 - 22:03 - FB ummæli ()

Rangfærslur um gjaldeyrishöft

Fæstir hafa nokkurn áhuga á höftum, hvort sem þau tengjast gjaldeyri eða viðskiptum almennt. Auðvitað vilja flestir frekar frelsi en höft. Skiljanlega.

Hins vegar vita þeir sem kynna sér sögu og virkni kapítalismans, að algerlega óheftum markaði fylgja miklar áhættur, mikill ójöfnuður og óstöðugleiki.

Óheftur kapítalismi skilar ekki meiri hagvexti en hóflega taminn kapítalismi blandaða hagkerfisins.

 

Óheftur kapítalismi brást í Kreppunni miklu – og aftur nú

Á Vesturlöndum lærðu menn þá lexíu af Kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar, að óheftur kapítalismi fer á endanum illa afvega – í óhófi, áhættum, skuldasöfnun og ójöfnuði. Sem leiðir svo iðulega til fjármálahruns, eins og varð á Wall Street haustið 1929 og sem breiddist þaðan út um heiminn, með miklum hörmungum fyrir almenning.

Þess vegna gripu allar vestrænar þjóðir til þess úrræðis að hefta eða temja markaðsfrelsið að hluta á eftirstríðsárunum, til að tryggja betur öryggi þjóða og stöðugleika – og raunar einnig til að tryggja að allur þorri almennings nyti efnahagsframfara, en ekki bara yfirstéttin.

Við tók hið blandaða hagkerfi, með virku hlutverki ríkisvaldsins (hagstjórn, reglun og fínstillingu), við hlið markaðarins.

Hluti af hinni nýju skipan var Bretton Woods fyrirkomulag peningamála, sem meðal annars fól í sér gjaldeyrishöft, þ.e. takmarkanir á frelsi til fjármagnsflutninga milli landa. Milliríkjaviðskipti voru þó tiltölulega greið og vaxandi.

Gjaldeyrishöftum á Vesturlöndum fylgdi ekkert helsi eða hörmungar, heldur gríðarlegar framfarir, þrátt fyrir allt!

Tímabil blandaða hagkerfisins frá um 1945 og til um 1975 var eitt almesta framfaraskeið sögunnar. Hagvöxtur var með mesta móti og kaupmáttur almennings jókst meira en fyrr og síðar. Velferðarríkið byggðist upp og dró verulega úr áhrifum stéttaskiptingar á tækifæri ungs fólks.

Allt gerðist þetta innan gjaldeyrishafta, sem voru almennt við lýði á Vesturlöndum fram til um 1973, er þau tóku að leysast upp. Frá 1980 jókst frelsi til fjármagnsflutninga á ný í mörgum löndum og með því jókst áhættan á fjármálakreppum og ójöfnuði sömuleiðis. Tíðni fjármálakreppa stórjókst einnig, eftir að hafa verið afar lítil sem engin á gullöld blandaða hagkerfisins.

 

Frjálshyggjuvæðing frá 1980 jók áhættur og ójöfnuð

Sú þróun að auka frelsi á fjármálamörkuðum var réttlætt með barnalegri frjálshyggjupólitík, sem réttlætti ójöfnuð og boðaði að óheftari markaðir myndu skila auknum hagvexti. Það gekk hins vegar ekki eftir.

Hagvöxtur eftir 1980 hefur almennt verið minni en á gullöld blandaða hagkerfisins frá 1945 til um 1980. Ójöfnuður hefur hins vegar stóraukist eftir 1980 og óstöðugleiki sömuleiðis.

Fáar þjóðir voru jafn illa leiknar og Íslendingar, af óheftum markaði og afskiptaleysisstefnu frjálshyggjunnar, á áratugnum frá um 1998 til 2008. Því fylgdi glórulaus skuldasöfnun, óhóf og óreiða. Það færði okkur svo hrunið og lífskjaraskerðinguna í kjölfarið.

Að ráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var gripið til hamlana á flæði fjármagns úr landi, til að aftra því að gengi krónunnar félli enn meira en um þau ca. 50% sem yfir þjóðina gekk, með hátt í 30% kjaraskerðingu.

 

Gjaldeyrishöftin eru til að verja heimilin og þjóðarbúið

Þess vegna erum við nú með gjaldeyrishöft. Til að aftra því að krónan hrynji enn frekar en orðið er og rýri kjör heimilanna á ný – beinlínis með öðru hruni lífskjara. Erlendar skuldir myndu einnig verða þyngri klafi með öðru hruni krónunnar, bæði fyrir ríkisvaldið og fyrirtækin.

Seðlabankinn hefur, ásamt AGS, boðað að skapa verði skilyrði til að hægt verði að létta gjaldeyrishöftum án þess að stefna stöðugleika og kjörum þjóðarinnar í bráða hættu.

Það er skynsamlegt.

Sumir áhrifamenn, einkum í fjármálaheiminum, ásamt atvinnurekendum og efnafólki, hafa hins vegar verið talsmenn hraðferðar út úr gjaldeyrishöftunum. Rétttrúaðir frjálshyggjumenn taka svo alltaf undir, ef þeir eru þá ekki beinlínis forsöngvarar.

Þessir aðilar virðast ekki hafa áhyggjur af því að krónan hrynji aftur með þekktum afleiðingum fyrir heimilin. Þeir vilja kanski um fram allt koma eigum sínum úr landi, jafnvel þó almenningi blæði með frekari gengisfellingu og kjaraskerðingu.

 

Rangfærslur um höftin

Margir kaupa áróður þeirra sem hafa skammtíma hag af hröðu afnámi gjaldeyrishafta. Dæmi um það mátti sjá í leiðara eins dagblaðanna í gær.

Þar var ítrekuð dæmigerð villutrú um gjaldeyrishöftin, í umræðu um brýnustu verkefni ríkisstjórnarinnar. Svona hljómaði það:

“Þar ber náttúrulega helst að nefna afnám hinna alræmdu gjaldeyrishafta sem eru hægt og bítandi að murka lífið úr viðskiptalífinu og gera okkur að ríkisvæddu láglaunalandi – algjöru brottkasti meðal þeirra þjóða sem við höfum oftast borið okkur saman við í gegnum tíðina. “

Í þessari stuttu klausu er öllu snúið á haus, með miklum rangfærslum. Til dæmis eru gjaldeyrishöftin ekkert sérstaklega “alræmd”. Þau eru að verja þjóðina gegn frekari hruni lífskjaranna og auka stöððugleika.

Gjaldeyrishöftin eru heldur ekki að “murka lífið úr viðskiptalífinu”. Ísland hefur verið með eitt hæsta hagvaxtarstigið á Vesturlöndum alveg frá 2011 og spáð er enn meiri hagvexti á næstu tveimur árum.

Atvinnuleysi minnkar stöðugt og betur en hjá öðrum kreppuþjóðum (sjá t.d. hér). Þrátt fyrir gjaldeyrishöftin.

Höftin eru alls ekki að gera okkur að “ríkisvæddu láglaunalandi” – heldur aftra því að við verðum óheft og markaðsvætt láglaunaland, með enn lakari kjör en nú er.

Ísland varð eitt að ríkustu löndum heims innan gjaldeyrishafta, sem voru í gildi hér til ársins 1995.

Afnám haftanna drekkti þjóðinni síðan í skuldum gráðugra braskara eftir aldamótin 2000.

Sjálfsagt er að stefna að afnámi gjaldeyrishafta í framtíðinni, en það verður að gerast án þess að krónan hrynji um tugi prósenta, á kostnað heimilanna. Til þess þarf að byggja upp þau skilyrði sem duga til að verja þjóðina gegn öðru lífskjarahruni. Síðan þarf að tryggja að óheft peningafrelsið steypi okkur ekki fyrir björg á ný. Ríkisvaldið þarf að temja fjármálaheiminn, reka eftirlit og veita aðhald.

Þetta getur tekið tíma.

Það er þó í góðu lagi, vegna þess að gjaldeyrishöftin hafa tiltölulega litlar afleiðingar fyrir hagvöxt og nýsköpun – ef einhverjar.

 

Síðasti pistill:   Basl einstæðra foreldra á Íslandi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 6.9.2014 - 08:47 - FB ummæli ()

Basl einstæðra foreldra á Íslandi

Í gær benti ég á óvenju mikla fátækt meðal einstæðra foreldra á Íslandi, í samanburði við hin Norðurlöndin.

Þar var miðað við tölur OECD um afstæða fátækt, þ.e. hlutfall einstæðra foreldra með minna en 50% af miðtekjum allra.

Það er sú mæling sem alla jafna sýnir góða útkomu Íslands í samanburði við hinar norrænu þjóðirnar, sem eru með einna minnstu fátækt í heiminum og hafa lengi verið.

Tölur um erfiðleika við að láta enda ná saman í daglegum rekstri heimila benda hins vegar til talsvert meiri fjárhagsþrenginga á Íslandi almennt, einnig meðal þeirra sem eru undir fátæktarmörkum (sjá hér).

Hér á myndinni má sjá hlutfall einstæðra foreldra sem segjast einungis geta náð endum saman með miklum erfiðleikum.

Þetta er mæling sem taka ber sem vísbendingu um fátæktarbasl og það er afar mikið meðal einstæðra foreldra á Íslandi, mun meira en hjá öðrum barnafjölskyldum í landinu (gögnin koma frá Eurostat).

Takið eftir muninum á Íslandi og hinum norrænu þjóðunum. Við erum jafnvel fyrir ofan Bretland, sem þekkt er fyrir mikið fátæktarbasl almennt.

Basl einst foreldra

Síðasti pistill: Fátæk börn á Íslandi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 4.9.2014 - 21:50 - FB ummæli ()

Fátæk börn á Íslandi

Á morgun mun ég flytja erindi á norrænni ráðstefnu um velferðarmál, sem haldin er á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og velferðarráðuneytisins. Ég verð þar í góðum hópi sérfræðinga, innlendra sem erlendra.

Viðfangsefni mitt er  fátækt barnafjölskyldna á Íslandi og mun ég sýna nokkrar ólíkar mælingar á umfangi fátæktar hjá þeim hópi og reifa skýringar á útkomu Íslands.

Almennt er fátækt frekar lítil á Íslandi. Umfangið er þó svolítið háð því hvaða mæling er notuð.

Á suma mælikvarða er minni fátækt á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum, en á aðra er hún meiri hér. Vega þarf og meta hvað ólík gögn segja okkur. Síðan drögum við ályktanir af heildarmyndinni.

Eitt af því sem ég mun sýna á ráðstefnunni eru nýleg gögn frá OECD um barnafátækt, meðal annars það sem er á myndinni hér að neðan.

Þar er sérstaklega athyglisvert að fátækt meðal einstæðra foreldra er markvert meiri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum, en það sama á ekki við um fátækt meðal hjóna sem eru með börn á heimilinu, einkum ef bæði eru útivinnandi.

Örin sýnir hvar Ísland er á myndinni og rauði hringurinn sýnir hvar einstæðir foreldrar á Íslandi eru í samanburðinum (mun hærri en hjá hinum norrænu þjóðunum).

Slide1

Þessi útkoma fyrir einstæða foreldra er þrátt fyrir það, að velferðarkerfið gerir tiltölulega vel við einstæða foreldra, samanborið við hjón með börn.

Sérstaklega athyglisvert er að rúmur fjórðungur einstæðra foreldra sem vinna fulla vinnu er samt undir fátæktarmörkum. Þar gætir bæði lágra launa í sumum tilvikum og lítils stuðnings velferðarkerfisins ef fólk hefur launatekjur lítillega fyrir ofan fátæktarmörkin, meðal annars vegna tekjutengingar barnabóta.

Stuðningur velferðarkerfisins við hjón með börn er markvert minni hér á landi en á hinum Norðurlöndunum, jafnvel þó viðkomandi séu með tiltölulega lágar tekjur.

Staða einstæðra foreldra er hins vegar það sem stendur öðru fremur út úr, sem viðfangsefni til að taka á hér á landi.

Forsenda þess að eignast húsnæði eða reka sig á leigumarkaði er til dæmis alla jafna sú, að tvær fyrirvinnur séu á heimilinu. Öðru vísi er það mjög erfitt. Einstætt foreldri sem á að standa sig í þeim aðstæðum þarf að hafa verulega góð laun eða njóta meiri stuðnings frá velferðarkerfinu en nú er.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 2.9.2014 - 14:39 - FB ummæli ()

51 prósent velja ekki flokk

Í nýrri könnun um fylgi flokka sem birtist í dag er svörun óvenju léleg. Um 51% þeirra sem voru í úrtakinu velja engan flokk.

Hvað þýðir það?

Jú, það þýðir að óvenju lítið er byggjandi á þessari könnun. Það gildir ætíð að því lakari sem svörun er, þeim mun minna er hægt að byggja á niðurstöðunum.

Þetta er stundum svona á miðju kjörtímabili eða þegar nokkuð er liðið frá kosningum og nokkuð enn í þær næstu.

Fjölmilar hafa slegið því upp að Sjálfstæðisflokkurinn sé nú í sókn og hafi farið yfir 30% markið, í fyrsta sinn í langan tíma. Ekki er þó allt sem sýnist í því.

Kanski eru mikilvægustu tíðindin þau,  að óráðnum hefur fjölgað.

Með rúmlega helming úrtaksins óráðinn eða óvissan þýða niðurstöðurnar að um 15% úrtaksins hafi gefið upp stuðning við Sjálfstæðisflokkinn. Það er líklega harðasti kjarni flokksmanna á þeim bæ – þeir sem alltaf skila sér. Ekki er víst að flokkurinn eigi sama hlutfall af þeim sem ekki gefa sig upp í könnuninni og því getur raunverulegt fylgi verið minna en könnunin bendir til.

Annað sem lesa má úr þessari veiku könnun er að stjórnarandstaðan virðist ekki mikils megnug. Hámarks sundrung á vinstri og miðju stjórnmálanna, sem kom út úr síðustu kosningum, gerir val miðju og vinstri kjósenda erfitt og því eru óvenju margir þeirra óráðnir.

Flestir þeirra skila sér þó “heim” þegar nær kosningum dregur, að öðru óbreyttu.

Samt mætti líka segja að krataflokkarnir, Samfylkingin og Björt framtíð, séu samanlagt með mesta fylgið í þessari könnun, um 34% þeirra sem gefa sig upp. Þessir flokkar hafa algerlega sömu stefnu og greiða alltaf eins atkvæði í þinginu – og því nánast sami flokkurinn í tveimur deildum.

Ef fylgi VG væri bætt við vantar lítið upp á vinstri meirihluta. Þessu fylgir þó sama óvissa og ég benti á hér að ofan.

Hinn stóri hópur óráðinna þýðir væntanlega einnig að Framsókn geti átt inni meira fylgi en könnunin sýnir, því ætla má að margir bíði t.d. niðurstöðu um hversu mikið þeir fái í skuldalækkun.

Grundvallaratriðið er þó það, að þegar hópur þeirra sem ekki gefa sig upp á flokk fer yfir þriðjung verður ónákvæmni niðurstaðna kannana of mikil.

Með 51 prósent kjósenda óráðna er könnun óvenju veikur efniviður í ályktanir um raunverulegt fylgi flokka.

 

Síðasti pistill:  Neytendur búa til störfin – ekki þeir ríku

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 31.8.2014 - 22:17 - FB ummæli ()

Neytendur búa til störfin – ekki þeir ríku

Það er ríkjandi klisja í nútímanum að þeir ríku skapi flest störfin í samfélaginu, með auði sínum og fjárfestingum.

Íslenskir frjálshyggjumenn, hinar fáklæddu klappstýrur auðmanna, kyrja þetta í sífellu. Þeir segja að ekki skipti máli hvað auðmenn, millistéttin og verkalýðsstéttin fái í sinn hlut, heldur skipti mestu að verðlauna “þá sem baka þjóðarkökuna” (og þá eiga þeir við auðmenn).

Þeir telja iðulega auðmennina eina í hlutverki bakarans – aðrir skipta ekki máli í heimsmynd frjálshyggjunnar. Vinnandi almenningur telst ekki með, þó hann skapi stærstan hluta þjóðarkökunnar.

Hér að neðan er myndband með stuttu en hnitmiðuðu erindi bandaríska auðmannsins Nick Hanauer, þar sem hann gerir gys að hugmyndafræði klappstýranna, sem réttlæta sívaxandi ójöfnuð – með ofurlaunum og skattfríðindum yfirstéttarinnar og láglaunastefnu fyrir alla aðra.

Nick segir að það sé kaupmáttur millistéttarinnar og lægri stétta sem skapar flest störf. Ekki kaupmáttur þeirra ríkustu, sem hann tilheyrir.

John M. Keynes, merkasti hagfræðingur 20. aldarinnar, hefðu getað skrifað uppá þetta.

Hér áður fyrr var Sjálfstæðisflokkurinn flokkur millistéttarinnar. Eftir að frjálshyggjumenn tóku flokkinn yfir hefur hann misst áhugann á millistéttinni (sjá hér).

Sjálfstæðismenn hafa til dæmis engan áhuga lengur á séreignastefnunni, sem á árum áður var höfuðstefna þeirra. Þá vildu þeir gera sem flestum kleift að eignast íbúðarhúsnæði. Nú hugsar flokksforystan bara um hag yfirstéttarinnar: fjármálamanna, atvinnurekenda og braskara.

Kanski Sjálfstæðismenn ættu að hlusta á boðskap hins raunsæa og ágæta auðmanns Nick Hanauer.

Þá gætur þeir enduruppgötvað þann sannleik (sem Bjarni Benediktsson hinn eldri þekkti), að það er kaupmáttur almennings sem drífur hagkerfið áfram, ekki skattafríðindi þeirra ríkustu.

Hér er meira:

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 23.8.2014 - 11:12 - FB ummæli ()

Metnaðarleysi í skattamálum

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, vill einfalda virðisaukaskattkerfið: Lækka efstu álagninguna (úr 25,5% í 24,5%), en hækka á móti matarskattinn (úr 7% í 11% eða  jafnvel 14%)

Þetta myndi hækka verð matvæla á Íslandi, sem er þegar eitt það hæsta í heimi.

Er þetta það sem brýnast er að gera í skattamálum?

Er þetta gott fyrir heimilin, sem fengu loforð um skattalækkanir?

Hækkun matarskattsins úr 7% í 11% mun leggja aukalega um 5,3 milljarða (fimm þúsund og þrjú hundruð milljónir) á heimilin í landinu.

Í staðinn hugsa Sjálfstæðismenn sér að sletta nokkrum tugum eða hundruðum milljóna í barna- og vaxtabætur (sem þegar hafa lækkað um talsverðar upphæðir). Hætt er við að slíkar hækkanir yrðu smáaurar í samanburði við hinar auknu álögur sem fylgja hækkun matarskattsins.

Engin heimili komast hjá matvælaútgjöldum. Frekar er hægt er að fresta eða neita sér um önnur útgjöld.

Þeir sem túlka neyslukönnun Hagstofunnar þannig að hækkun matarskatts skipti lágtekjufólk ekki máli eru á miklum villigötum.

Fyrir erum við með eitt hæsta matvælaverð í heimi. Verðlag matvæla hækkaði að auki næst mest á Íslandi af öllum vestrænum þjóðum frá 2005 til júlí 2014, eins og sjá má á myndinni hér að neðan (heimild: Eurostat).

Matarverð

Er á þetta bætandi, með mikilli hækkun matarskattsins á næstunni?

 

Metnaðarleysi og falskar skattalækkanir

Hvers vegna ekki að standa við loforðin og lækka skatta í alvöru, en ekki bara færa skattbyrði frá einum til annars – frá hærri tekjuhópum til lægri tekjuhópa?

Sjálfstæðismenn hafa lengi verið talsmenn flatra skatta, af því þeir sjá í þeim möguleika á að lækka skattbyrði á hærri tekjuhópa og greiða fyrir það með hækkun skattbyrði hjá lægri tekjuhópum. Þetta lærðu þeir af frjálshyggjunni.

Slíkar breytingar gerðu þeir á tekjuskatti einstaklinga á tímabilinu frá 1995 til 2006, sem komu illa við láglaunafólk og lífeyrisþega.

Hvers vegna ekki að hafa alvöru metnað og lækka einfaldlega efsta álagningarþrepið í virðisaukaskattinum, en halda matarskattinum óbreyttum? Í staðinn má þétta kerfið gagnvart undanþágum, undanskotum og frávikum, ekki síst í ferðaþjónustu.

Auðlegðarskattur og veiðigjöld byggja á traustum skattstofnum þar sem ágæt greiðslugeta er fyrir hendi, sem nýta má betur.

Það er lítill metnaður fólginn í því að leggja verulega auknar byrðar á matvælaútgjöld heimilanna í einu dýrasta landi heims – eftir að hafa lofað þessum sömu heimilum skattalækkunum.

Leiðin ætti frekar að vera að færa efra þrep álagningar niður í átt til matarskattsins – skref fyrir skref, á lengri tíma.

Eða að hækka skattleysismörkin veglega. Það bætir hag alls þorra heimila, mest þeirra sem minnst hafa.

Skattalækkun á einu sviði sem mætt er að fullu með skattahækkun á öðru er ágætlega til blekkinga fallin, en þjónar ekki hagsmunum venjulegs fólks.

 

Síðasti pistill: DV-menn höfðu rétt fyrir sér

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 19.8.2014 - 22:26 - FB ummæli ()

DV-menn höfðu rétt fyrir sér

Ég hef ekki skrifað um lekamálið, en fylgst með úr fjarska. Sumt hefur mér þótt skrítið við framvindu málsins, ekki síst það sem hefur snúið að ráðuneytinu.

Það vakti hins vegar athygli mína hversu staðfastir DV-menn voru í umfjöllunum sínum um málið, þrátt fyrir að oft væri harkalega að þeim vegið.

Sjálfstæðismenn og vildarvinir þeirra sökuðu DV um einelti gegn ráðherranum. Talað var m.a. um tilbúning, samsæri og ljótan pólitískan leik.

Sérstakur lögfræðilegur ráðgjafi ráðherrans, Jón Steinar Gunnlaugsson, segir af þessu tilefni að DV sé “óheiðarlegt fréttablað sem er alltaf í erindagjörðum í sínum frásögnum…”

En Jón Steinar er ekki í neinum erindagjörðum eða hvað?!!  Hvorki fyrir Flokkinn né ráðherrann…

DV-menn bentu hins vegar staðfastlega á að málið snérist um mannréttindi og leikreglur vandaðrar stjórnsýslu, sem virtust hafa verið brotnar.

Og nú hefur ríkissaksóknari gefið út kæru á hendur aðstoðarmanns ráðherra. Eftir að málið var rannsakað ofan í kjölinn.

Það eru stór tíðindi – hvort sem sakfellt verður eður ei.

Þar með blasir við að DV-menn höfðu rétt fyrir sér. Það var ástæða til að fjalla um málið.

Kanski þeir sem harðast hafa sótt að DV vegna málsins ættu að biðja blaðamennina afsökunar á því…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 13.8.2014 - 20:14 - FB ummæli ()

Smá abstraktúr

Hér er smá tilraun í abstract ljósmyndun. Þetta er ný sería í myndagalleríi mínu á netinu.

Myndirnar eru teknar í París, í La Defence hverfinu, Pompidou listamiðstöðinni og við Canal Saint-Martin.

Smellið á myndina til að sjá galleríið.

05-DSC_6677b

 

Hér er tengill á myndasafnið allt: Gallerí

 

Ég vara ykkur svo við síðasta pistli mínum! Hann er svolítið eitraður, eins og sjá má hér:  „Hið ógeðslega samfélag“ frjálshyggjunnar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar