Laugardagur 9.8.2014 - 10:32 - FB ummæli ()

“Hið ógeðslega samfélag” frjálshyggjunnar

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, er glöggur og heiðarlegur maður. Ég ber yfirleitt virðingu fyrir því sem hann skrifar – þó ég sé honum oft ósammála. Ég held hann vilji Íslandi vel.

Styrmir var lykiláhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum til áratuga, vann flokknum heilt og beitti sér og Morgunblaðinu í þágu hans og þeirra hugsjóna (og hagsmuna) sem þeir stóðu fyrir á dögum kalda stríðsins.

Hann var dyggur andstæðingur kommúnismans og stuðningsmaður vestrænnar samvinnu í skjóli Bandaríkjanna. Á síðustu árum hefur hann fundið sér andstæðing í Evrópusambandinu, sem virðist hafa tekið sess kommúnismans í huga hans.

Styrmir var ekki alfarið neikvæður í garð opinberrar velferðarforsjár hér á árum áður, en það er frekar fátíður eiginleiki í röðum áhrifamanna í Sjálfstæðisflokknum nú á dögum. Þeir setja gjarnan hagsmuni atvinnurekenda og fjárfesta í forgang.

Styrmir hefur auðvitað alltaf verið afskaplega pólitískur maður.  Annars hefði hann ekki gegnt því hlutverki sem hann gerði. Hann beitti sér oft af mikilli hörku.

Ég var sammála hinni frægu yfirlýsingu sem hann gaf Rannsóknarnefnd Alþingis, um hið ógeðslega samfélag á Íslandi, samfélag hagsmuna og engra hugsjóna.

Í myndbandinu hér að neðan útskýrir Styrmir sjálfur vandlega hvað hann átti við með þessum ummælum sínum.

 

„Hið ógeðslega samfélag“ spratt af tíðaranda frjálshyggjunnar

Þegar maður hlustar á þessa umfjöllun Styrmis þá blasir við að hann er að lýsa því hvernig tíðarandi frjálshyggjunnar varð allsráðandi hér á landi.

Það byrjaði fyrir um þrjátíu árum, einmitt þegar frjálshyggjuáhrif fóru að skjóta rótum innan Sjálfstæðisflokksins. Svo ágerðist þetta, breiddist út og fór loks alveg úr böndum eftir aldamótin, eins og Styrmir segir.

Það sem einkenndi hin nýju viðhorf sem Styrmir lýsir var að hagsmunir urðu allsráðandi viðmið en hugsjónir viku. Allt varð falt. Hægt var að kaupa fólk, skoðanir, atkvæði í kosningum. Allt.

Styrmir er einfaldlega að lýsa peningahyggju frjálshyggjunnar, sem er afleiðing af ofurtrú á óhefta markaðinn. Þegar slík markaðshyggja er færð yfir á sífellt fleiri svið samfélagsins verður einmitt allt falt. Áhrif og völd þeirra sem hafa mesta peninga magnast og allt fer að snúast um peninga og hagsmuni sem þeim tengjast.

Þetta er hnitmiðuð og rétt lýsing hjá Styrmi.

Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður og sagnfræðingur, hefur lýst þessari innreið tíðaranda frjálshyggjunnar ágætlega í bókinni Hamskiptin – Þegar allt varð falt á Íslandi.

Ég hef skrifað um það hvernig þessi sjónarmið róttækrar frjálshyggju breyttu Sjálfstæðisflokknum, einmitt með tilvísunum í ágæta bók Styrmis, Sjálfstæðisflokkurinn – Átök og uppgjör.

Páll Skúlason heimspekingur og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands fjallaði líka um þetta í athyglisverðri grein í Skírni vorið 2008, sem heitir Menning og markaðshyggja.

Styrmir segir svo að hann hafi verið að vona að við fengjum það út úr hruninu að þetta ógeðslega samfélag, alræði peninga og hagsmuna, kæmi ekki aftur.

 

Mun “hið ógeðslega samfélag” lifa áfram?

Það er þó ekki líklegt að honum verði að þeirri ósk sinni. Því miður.

Ástæðan er sú, að þeir sem innleiddu frjálshyggjuna, sem eru heimamenn Styrmis í Sjálfstæðisflokknum, samþykkja enga ábyrgð á því sem hér gerðist og fór afvega. Þeir fara undan í flæmingi og búa til villukenningar og stundum beinlínis lygar um orsakir hrunsins.

Styrmir er sjálfur höfundur einnar slíkrar villukenningar sem hann setti fram í léttvægri bók sinni Umsátrið, þar sem sökin var alfarið lögð á útlendinga. Það gerði Styrmir til að bjarga Sjálfstæðisflokknum, Davíð og frjálshyggjunni undan ábyrgð sem þeim þó bar að viðurkenna.

Styrmir hefur þó stundum sagt að alvöru uppgjör við hrunið hafi ekki farið fram þar á bæ – og harmað það.

En það var flokkshollustan sem bar Styrmi ofurliði.

Þessi flokkshollusta fer þó illa saman við þau sjónarmið sem Styrmir lýsir með þessum frægu ummælum sínum og skýringunum á þeim.

Það voru nefnilega frjálshyggjumennirnir í Sjálfstæðisflokknum sem opnuðu Pandórubox peningahyggjunnar og slepptu óværunni lausri.

Nú brýna frjálshyggjumennirnir og braskararnir sverðin og búa sig undir að endurtaka leikinn. Fjárfestar hugsa sér til hreyfings og eru byrjaðir að spenna upp eignaverðin, á fasteignum og hlutabréfum. Krafan um minna eftirlit og hverfandi hlutverk ríkisins og lýðræðisins ríður húsum á ný, ekki síst í röðum atvinnurekenda og peningamanna.

Af hverju gerist þetta svona og af hverju heldur það áfram?

Jú, það er vegna þess að hagsmunaaðilarnir sem ráða för græddu svo mikið á bóluhagkerfi spákaupmennskunnar sem hér ríkti fram að hruni. Það skilaði hærri tekjuhópunum í landinu gríðarlegum auði og menn vilja freista gæfunnar á ný – í skjóli frjálshyggjunnar.

Fjöregg þjóðarinnar skiptir engu máli í ranni þessa fólks. Bara eigin hagur, eins og Styrmir lýsir svo vel.

Það væri þó óskandi fyrir farsæld þjóðarinnar að Styrmi yrði að þeirri ósk sinni að þetta ógeðslega samfélag komi ekki aftur.

Styrmir Gunnarsson og aðrir andmælendur mega sín þó sennilega of lítils gagnvart þessum hagsmunum. Peningahyggja frjálshyggjunnar ræður nú för á ný.

 

 

Síðasti pistill: Finnst þér matur ekki nógu dýr á Íslandi?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 5.8.2014 - 21:39 - FB ummæli ()

Finnst þér matur ekki nógu dýr á Íslandi?

Það er ágreiningur milli stjórnarflokkanna um hvort hækka beri matarskattinn eða ekki. Þetta snýst um virðisaukaskattinn á innlenda matvöru.

Framsóknarmenn óttast að hækkun matarskattsins bitni sérstaklega illa á lágtekjufólki. Það er rétt hjá þeim.

Matvæli bera í dag lægri virðisaukaskatt en flestar aðrar vörur, eða 7% í stað 25,5%.

Lægra álagningarþrepið á matvæli var á sínum tíma sett til að hlífa venjulegum heimilum við útgjaldabyrðum.

Þessu vilja Sjálfstæðismenn nú breyta. Þeir vilja tvöfalda matarskattinn (7%>>>14%) en lækka almennu álagninguna í staðinn, úr 25,5% í 24,5%.

Fáir munu finna fyrir lækkun vsk. um eitt prósentustig (ef kaupmenn skila því yfir höfuð til neytenda). En þeir sem hafa þungar byrðar af matarkaupum, t.d. fyrir barnmargar fjölskyldur, munu finna fyrir tvöföldun vsk-álagningar á innlendu matvælin.

Flestum finnst verð á matvælum á Íslandi meira en nógu hátt. Hvað finnst þér? Ertu til í að borga 14% vsk. ofan á matvöruna í stað 7%?

Þetta heitir að breikka skattstofninn.

Í reynd er þetta þannig að skattbyrði í virðisaukaskattinum yrði flutt af þeim sem kaupa í meiri mæli lúxusvöru yfir á þá sem kaupa í meiri mæli matvöru.

Auk þess vilja Sjálfstæðismenn fella niður öll vörugjöld, sem oft eru sérstaklega lögð á lúxusvarning. Sjálfstæðismenn eru að hugsa um hag tekjuhærri hópanna – eins og fyrri daginn.

Hagfræðingar og Sjálfstæðismenn vísa í tölur úr neyslukönnun Hagstofunnar sem virðast benda til að lágtekjufólk og hátekjufólk verji svipuðu hlutfalli tekna sinna til matvælakaupa. Sumir draga þá ályktun að þetta þýði að hækkun matarskattsins myndi ekki sérstaklega lenda á lágtekjufólki. Það eru villurök.

Tölur neyslukönnunar Hagstofunnar eru villandi m.a. vegna námsmanna í úrtakinu sem teljast hafa mjög litlar eða engar tekjur (lifa á námslánum) en eru með útgjöld til matvæla (sem hækkar meðaltal matvælaútgjalda lágtekjufólks). Það stenst ekki að lágtekjufólk hafi sama neyslumynstur eða lífsstíl og hátekjufólk, eins og sumir lesa út úr neyslukönnuninni.

Auk þess kaupir lágtekjufólk meira af matvöru í lægri gæðaflokki, sem er mun ódýrari en hátekjufólk oft kaupir.

 

Lágtekjufólk á mun erfiðara með að láta enda ná saman

Í öllu falli er lágtekjufólk með meiri byrðar af útgjöldum til nauðþurfta og á mun erfiðara en hátekjufólk með að láta enda ná saman. Það þýðir að auknar álögur ríkisins á matvæli sem keypt eru til daglegrar neyslu leggjast alltaf með hlutfallslega meiri þunga á lágtekjufólk.

Lágtekjufólk hefur einfaldlega minna borð fyrir báru til að taka á sig hækkanir.

Myndin hér að neðan sýnir muninn á erfiðleikum við að láta enda ná saman hjá tekjulægstu 20% heimila og þeim 20% heimila sem hafa hæstu tekjurnar.

Miklu munar. Hátt í 60% lágtekjufólks á erfitt með að láta enda ná saman, en einungis um fjórðungur hátekjufólks.

Erfitt að ná endum saman ha og lá

Sjálfstæðismenn tala alltaf mikið um að þeir vilji lækka skatta á heimilin og fyrirtækin. Í reynd sýnist manni að þeir vilji einkum lækka skatta á hátekjufólk og stóreignafólk – og á fyrirtækjaeigendur.

Þeim virðist hins vegar alveg saman þó þeir hækki skatta á lægri og milli tekjuhópana, eins og þeir gerðu ítrekað á tímabilinu frá 1995 til 2004.

Það er gott að Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra og félagar hennar standa velferðarvaktina og vilja verja þá sem verst standa gegn hækkun matarskattsins. Vonandi finnst leið til þess í samningum milli stjórnarflokkanna.

Aðrar leiðir til skattabreytinga gætu líka verið vænlegar.

Ef menn endilega vilja hafa virðisaukaskattinn flatari en nú er þá er hægt að verja lágtekjufólk með öðrum og jafnvel betri leiðum, t.d. með veglegri hækkun persónufrádráttarins. Vandinn er sá að Sjálfstæðismenn hafa ekki verið hlynntir hækkun persónuafsláttarins og maður óttast að þar kæmu þeir með sýndarhækkun sem ekki jafnaði metin. Sporin hræða.

Önnur leið væri sú, að halda auðlegðarskattinum og nýja veiðigjaldinu til fulls og lækka í staðinn hærra þrepið í virðisaukaskattinum án hækkunar á matarskattinum. Einnig mætti hreinsa til og sanera virðisaukaskattinn á ferðaþjónustuna – afla meiri tekna þar (m.a af útlendingum).

Slíkar leiðir væru betri fyrir lágtekju- og millitekjufólk.

 

Síðasti pistill: Hátekjuhóparnir stinga aðra af – enn á ný

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 30.7.2014 - 08:17 - FB ummæli ()

Hátekjuhóparnir stinga aðra af – enn á ný

Upplýsingar um þróun  atvinnutekna í Tekjublaði Frjálsrar verslunar hafa vakið umræðu um hvort stjórnendur í atvinnulífinu hafi fengið meiri hækkanir en aðrir milli áranna 2012 og 2013.

Vísbendingin þaðan er sú, að stjórnendur hafi að jafnaði fengið um 14% hækkun launa milli áranna, sumir allt að 40% hækkun.

Almennir launamenn hafa fengið mun minni hækkanir og eiga von á frekar litlum hækkunum í þeim kjarasamningum sem gerðir voru í byrjun þessa árs (2,8%).

Tölur Hagstofunnar, sem eru áreiðanlegri en tölur Frjálsrar verslunar, segja sömuleiðis að heildarlaun (atvinnutekjur) stjórnenda hafi hækkað meira en laun annarra, eða einmitt um 14% (það er sjálfsagt hending að talan er sú sama hjá Frjálsri verslun, enda úrtak þeirra hendingarkennt).

Aðrir starfshópar voru með á bilinu -0,4% (háskólamenntaðir sérfræðingar) og upp í 8,4% (sölu- og afgreiðslufólk).

Talsmenn atvinnurekenda hafa reynt að fegra þetta og segja að stjórnendur hafi fengið meiri skerðingu en aðrir í upphafi kreppunnar. Það heldur litlu vatni.

Á myndinni hér að neðan má sjá uppsafnaða þróun heildarlauna fullvinnandi fólks, skv. könnunum Hagstofunnar, alveg frá 1998 til 2013.

Þar má vel sjá hvernig stjórnendur hafa siglt framúr öðrum starfsstéttum á árunum fram að hruni – og svo aftur nú á uppsveiflunni frá 2011 til 2013.

Breyting launa 1998-2013

Ég hef hins vegar áður bent á að í þessar tölur Frjálsrar verslunar (og raunar Hagstofunnar líka) vantar fjármagnstekjur, ef sýna á heildartekjur fólks. Fjármagnstekjur eru sá hluti skattskyldra tekna sem rennur langmest til hæstu tekjuhópanna.

Þau stóru tíðindi fylgja álagningu skattanna fyrir árið 2013 að það er komin mikil uppsveifla í vöxt fjármagnstekna á ný (sjá hér).

Almennt hækkuðu fjármagnstekjur um 23,7% milli áranna – verulega langt umfram launatekjur almennings.

Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig þeir liðir fjármagnstekna sem einkum renna til allra tekjuhæstu hópanna hafa hækkað langt umfram almennar launatekjur vinnandi fólks.

Slide1

Arður sem rennur til eigenda og stjórnenda hækkaði um 14,7% milli áranna. En söluhagnaður hækkaði um 124,3%. Þær tekjur renna einkum til allra tekjuhæstu hópanna, eigenda og stjórnenda. Slíkar tekjur fóru upp úr öllu valdi á bóluárunum frá 2003 til 2007. Brask með hlutabréf er sem sagt farið að gefa verulega vel af sér á ný.

Aðrir liðir fjármagnstekna, vaxtatekjur og leigutekjur, hækkuðu mjög lítið, en eldri borgarar eru stór hluti þeirra sem fá vaxtatekjur af hóflegum sparifjár-innistæður í bönkum.

Þetta þarf að hafa inni í myndinni ef menn vilja sjá heildarmyndina af þróun teknanna í samfélaginu – og sérstaklega þróun háu teknanna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 27.7.2014 - 10:04 - FB ummæli ()

Það sem vantar í tekjublöðin

Nú er sá tími ársins sem Frjáls verslun og dagblöðin birta tölur um tekjur einstaklinga á síðasta ári, byggt á upplýsingum skattstjóra um álagningu tekjuskatts einstaklinga.

Þetta eru atriði sem margir hafa áhuga á.

Það er hins vegar rétt að hafa í huga, að tölurnar sem tekjublöðin birta eru fyrst og fremst um atvinnutekjur og lífeyristekjur.

Fjármagnstekjur einstaklinga vantar alveg inn í myndina.

Það gefur mjög villandi upplýsingar um heildarekjur fólks – sérstaklega um tekjur hátekjufólks (sjá nánar hér).

Hátekjufólk er almennt með stóran hluta heildartekna sinna í formi fjármagnstekna (arðgreiðslur, leigutekjur, vaxtatekjur, söluhagnað o.fl.).

Á hápunkti bóluhagkerfisins, árið 2007, var ríkasta eina prósent heimila í landinu með um 86% heildartekna sinna sem fjármagnstekjur. Til að fara nærri hefði þurft að margfalda birtar tekjur hæstu stjórnenda og eigenda í atvinnulífi um átta til níu sinnum.

Birtar tölur um tekjur hátekjufólksins í Frjálsri verslun það árið voru sem sagt bara brot af því sem hátekjufólk (ríkasta eina prósent heimila í landinu) hafði í raun í heildartekjur.

Þá var líka ótalið það af tekjum og eignum hátekjufólks sem rann í erlend skattaskjól á þeim tíma, en það var umtalsvert.

Árið 2012 höfðu fjármagnstekjur lækkað talsvert en voru samt að jafnaði hátt í helmingur heildartekna ríkasta eina prósentsins. Það hefur að öllum líkindum verið hærra í nýjasta framtalinu, fyrir árið 2013, um eða yfir helmingur.

Það má því segja að óhætt sé að tvöfalda áætlaðar tekjur margra í hópi hátekjufólks sem birtar eru í nýjustu tekjublöðunum, til að fara nærri um áætlaðar heildartekjur viðkomandi út frá meðaltalinu.

Ef fjármagnstekjurnar væru taldar með væru margir topparnir sem sagt með tvöfalt hærri tekjur en birtar eru.

Það munar um minna.

En víða eru líka fjárfestar, atvinnurekendur og eigendur í atvinnulífi skráðir með mjög lágar mánaðartekjur í tekjublöðunum. Margir þeirra eru hins vegar með tekjur í formi fjármagnstekna eða tekna erlendis – þeir hafa líka mun meira en birt er, þ.e.a.s. ef þeir eiga arðgefandi eignir.

Það eru því víða mjög villandi upplýsingar í tekjublöðunum, einkum um háu tekjurnar.

Réttastar eru upplýsingar blaðanna fyrir venjulega launþega, sem ekki eiga miklar arðgefandi eignir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 17.7.2014 - 09:23 - FB ummæli ()

Módernismi í París

Hér er ný myndasería sem ég tók í París í síðasta mánuði. Fókusinn er á módernískar byggingar og speglanir. Flestar eru myndirnar teknar í hinu nýja viðskiptahverfi La Défence. Það er skemmtilegt svæði sem sameinar mikið af athyglisverðri módernískri hönnun og forvitnilegu umhverfi – ekki síst er það góður vettvangur fyrir óvenjulegar myndatökur.

Smellið á myndina hér að neðan til að sjá seríuna.

DSC_6755c1

Síðan má skoða myndirnar í „Slide-show“ (í horninu efst til hægri þegar inn í seríuna er komið) eða smella á hverja og eina til að fá stærri útgáfu.

Þetta er ágætt efni til að skoða í rigningartíðinni – það sést stundum í bláan himinn þarna…

 

Hér er svo tengill á myndagalleríið í heild sinni:

Gallerí

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 16.7.2014 - 00:16 - FB ummæli ()

ESB málið leyst!

Það eru mikil tíðindi að nýskipaður forseti Framkvæmdastjórnar ESB, Jean-Claude Juncker, lýsti yfir í dag að ekki yrðu fleiri umsóknarlönd tekin inn í ESB á næstu fimm árum.

Hann segir þá miklu fjölgun aðildarríkja sem orðin er kalla á aðlögun og andrými innan sambandsins til að huga betur að virkni þess og starfsháttum.

Þetta þýðir að jafnvel þó Ísland vildi klára samningaviðræðurnar þá væri engin þörf á að hafa sérstaklega hraðar hendur í þeirri vinnu.

Ríkisstjórnin sem ekki vill klára aðildarsamninga á kjörtímabilinu getur einfaldlega sett málið til hliðar. Svo má kjósa um hvort taka eigi aftur upp viðræður á næsta kjörtímabili, ef aðstæður eru því hliðhollar.

Í reynd leysir þetta ESB málið í bili. Það liggur beint við að setja aðildarumsóknina á þann ís sem Juncker hefur fryst.

Aðildarsinnar jafnt sem andstæðingar geta sameinast um að setja málið í bið.

Við getum tekið okkur tíma og séð til hvernig ESB þróast og metið kosti og galla aðildar fyrir okkur af yfirvegum og í rólegheitum.

Með því höldum við öllu opnu og hámörkum valkosti framtíðarinnar fyrir Ísland.

 

Hér er það sem haft er eftir Juncker á BBC í kvöld:

He told MEPs: „Over the next five years, there won’t be any new member states acceding to the European Union.

„It’s hard to imagine that one of the candidate states with whom we are negotiating will have, in time, met all the accession criteria.“

Mr Juncker’s office confirmed to the BBC that his remarks were referring to countries already in an accession process with the EU and not to a hypothetical case involving Scotland.

Albania, Iceland, Montenegro, Serbia, Turkey and Macedonia are candidate countries for EU membership.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 12.7.2014 - 14:23 - FB ummæli ()

Rogoff mælir með afskrift skulda

Hinn þekkti fjármálasérfræðingur og prófessor við Harvard háskóla, Kenneth Rogoff, segir í nýrri grein að ekki verði lengur horft framhjá þörf fyrir afskriftir skulda í Evrópu.

Rogoff var áður aðalhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hefur unnið að víðfrægum rannsóknum á fjármálakreppum í heiminum síðustu átta aldirnar, ásamt Carmen Reinhart (sjá t.d. hér).

Reynslan af fyrri fjármálakreppum hefur sýnt að skuldir hins opinbera, heimila og fyrirtækja aukast yfirleitt í kreppunni, stundum verulega. Það á ekki síst við um þær þjóðir sem fara dýpst í kreppuna (sjá hér).

Meiri skuldabaggi leiðir svo að öðru jöfnu til hægari hagvaxtar.

Rogoff telur að ein mikilvæg ástæða hins hæga efnahagsbata í Evrópu sé í senn niðurskurðarstefna og hinn mikli skuldabaggi, sem ekki síst plagar þær þjóðir sem hvað dýpst fóru í kreppuna. Hann tekur einnig undir með Keynesískum hagfræðingum (t.d. Bradford DeLong og Larry Summers, sem og Paul Krugman) sem mæla með örvunaraðgerðum, jafnvel þó þær auki skuldir tímabundið.

Nú er hins vegar komið að því að beita skuldaafskriftum í meiri mæli, segir Rogoff. Erfitt sé að sjá fulla lausn á efnahagsvandanum í Evrópu án verulegrar endurskipulagningar skulda. Beita þurfi öllum tegundum skuldaúrræða („the full debt toolkit“).

Þetta þýðir að alþjóðlegir fjárfestar og bankar þurfa að taka á sig auknar byrðar (enda græddu þessir aðilar gríðarlega í bólunni fyrir kreppu).

Í þessu samhengi hefur verið athyglisvert að sjá hversu mikil andstaða hefur verið við hugmyndir Framsóknarmanna um skuldalækkun til heimila á Íslandi.

Sömu aðilar og hafa lagst gegn slíkum stuðningi við heimilin hafa ekki gert athugasemdir við miklu meiri skuldaafskriftir sem fyrirtæki hér á landi hafa notið (sjá hér).

Mest undrandi getur maður verið á því hve vinstri stjórnmálamenn hafa verið andvígir skuldalækkunum til heimila. Það hefðu þeir átt að styðja kröftuglega (jafnvel þó þeir vildu aðra útfærslu á framkvæmdinni).

Skuldalækkun til heimila er mjög í anda klassískra velferðaraðgerða sem jafnaðarmenn ættu alla jafna að styðja.

Hvers vegna er þetta svona öfugsnúið á Íslandi?

Kanski vinstri menn hér á landi ættu að kynna sér skrif alþjóðlegra fjármálafræðinga, eins og Kenneth Rogoff og Carmen Reinhart.

Eða jafnvel sjónarmið Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (sjá hér).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 8.7.2014 - 20:21 - FB ummæli ()

Um nýsköpun Lennons og McCartneys

Í tímaritinu Atlantic er fróðleg og skemmtileg grein um sköpunarmátt tvíeykisins í Bítlunum, þeirra Lennons og McCartneys. Greinin er eftir Joshua Wolf Shenk og byggir á væntanlegri bók hans um mikilvægi samvinnu í nýsköpun.

Bókin snýst sem sagt um sköpunarmátt tvíeykja eða para (duos). Shenk segir að goðsögnin um hinn einangraða snilling, sem skapi eitthvað nýtt í einveru sinni og komi svo fram með hana fullskapaða, sé villandi. Hinn einangraði snillingur sé í öllu falli hvorki algengasta né árangursríkasta uppspretta frjórrar sköpunar. Samvinna skili meiru.

Tvíeyki eða lið þar sem saman koma einstaklingar með ólíka eiginleika sé líklegra til að búa til frjóan jarðveg, sem skili af sér ríkulegri uppskeru en hinn staki nýsköpunarmaður (eða kona).

Í umræddri grein leggur höfundurinn mikið út af samstarfi Pauls og Johns í Bítlunum. Þeirra höfundarverk er óhemju mikið, frumlegt og í mjög háum gæðaflokki. Þeir mótuðu tónlistarsmekk stórrar kynslóðar og veittu gríðarlega mörgum ómælda gleði.

En John og Paul voru mjög ólíkir karakterar, nánast öndverðir að eiginleikum. Saman mynduðu þeir sterkari og stærri heild. Samt var iðulega togstreita milli þeirra, en þá togstreitu náðu þeir að virkja á uppbyggilegan hátt.

Þeir bættu hvor annan upp – veittu hvor öðrum meiri fjölbreytileika. Saman voru þeir stærri og öflugri.

Einar Benediktsson skáld og nýsköpunarmaður orðaði þetta vel:  „Maðurinn einn er ei nema hálfur, með öðrum er hann meiri en hann sjálfur.“

Joshua Shenk hefur eftir einum af upptökustjórum Bítlanna (Geoff Emerick) eftirfarandi lýsingu á ólíkum eiginleikum þeirra félaga:

“Paul var vinnusamur og skipulagður: hann var alltaf með minnisbók sem hann skrifaði texta og hljómahugmyndir sínar samviskusamlega í, með snyrtilegri rithönd sinni. John var á hinn bóginn eins og hann lifði í viðvarandi ringulreið: hann var sífellt að leita að bréfsnifsum til að hripa hugmyndir sínar á í flýti. Paul átti auðvelt með að tjá sig en John átti oft erfiðara með að koma hugmyndum sínum skipulega frá sér (þó hann væri oft orðheppinn).

Paul var prúður, en John uppreisnarseggur. Paul talaði mildum rómi og var iðulega kurteis; John gat verið mjög hávær og jafnvel ruddalegur. Paul hafði þrautseigju til að verja löngum tíma í að fullkomna verk; John var óþolinmóður, vildi frekar komast áfram í ný verkefni.

Paul vissi venjulega nákvæmlega hvað hann vildi og tók gagnrýni illa; John hafði þykkari skráp og var tilbúinn að heyra hvað öðrum fannst og jafnvel taka tilsögn.”

Eftir Cynthiu Lennon, fyrri eiginkonu Johns, er haft að John hefði haft þörf fyrir Paul til að sinna fínessum og smáatriðum – klára málin. Paul hafði þörf fyrir leitandi hugsun og fjörugt ímyndunarafl Johns.

Við lagasmíðar unnu þeir iðulega vel saman, þó þeir væru alltaf líka í samkeppni. Þeir bættu hvor sínum pörtum í laglínur og texta og deildu hugmyndum.

Að mörgu leyti er lýsingin á ólíkum eiginleikum þeirra félaga eins og lýsingin hjá Grikkjum til forna á guðunum Apollo og Dionysus. Apollo var guð skynsemi og aga, en Dionysus var fulltrúi tifinninga og upplifana (og svalls). Paul var Apollo og John Dionysos!

Joshua Wolf Shenk segir að nútímafræði um nýsköpun undirstriki þá lexíu sem læra megi af farsælu samstarfi þeirra Bítlabræðra. Sama má líklega segja um Keith Richard og Mick Jagger í Rolling Stones – og marga fleiri á ólíkum sviðum (t.d. Steve Jobs og Steve Wozniak í tölvunum o.sfrv…).

Sköpun er frjórri í pörum en hjá stökum einstaklingum. Andstæðir eiginleikar örva og frjóvga, jafnvel þó togstreita fylgi með í pakkanum.

Röstin sem myndast þar sem ólíkir straumar mætast getur þannig verið hin gjöfulasta uppspretta nýmæla og stórverka.

Ég mæli með þessari grein, bæði fyrir þá sem hafa áhuga á Bítlunum og þá er hafa áhuga á nýsköpun almennt (sjá hér).

Screen shot 2014-07-08 at 5.45.04 PM

Síðasti pistill: Lið Davíðs vill Má úr bankanum

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 6.7.2014 - 16:47 - FB ummæli ()

Lið Davíðs vill Má úr bankanum

Það er nokkuð ljóst að stuðningsmenn Davíðs Oddssonar berjast af öllu afli gegn endurráðningu Más Guðmundssonar í stöðu seðlabankastjóra.

Mogganum hefur verið beitt af afli gegn Má um hríð. Davíð á auðvitað harma að hefna. Ríkisstjórn Jóhönnu setti Davíð af eftir hrun fjármálakerfisins og gjaldþrot Seðlabankans og réð Má síðar í stöðuna. Hirð Davíðs hefur ekki fyrirgefið neitt og vill nú ná fram hefndum og koma sínum manni að.

Í gær skrifaði Davíð enn einu sinni til að vega að seðlabankastjóra og herforingjarnir Björn Bjarnason og Hannes Hólmsteinn sömuleiðis. Þeir fóru geyst.

Már gaf reyndar á sér nokkurn höggstað með málaferlum sínum gegn bankanum vegna launakjara sinna og annars sem því hefur fylgt. Það er þó spurning hvort sú yfirsjón eigi að vega meira en augljós fagleg hæfni hans á starfssviðinu.

Liðsmenn Davíðs nota sér feilspor Más þó til hins ýtrasta og ýkja málið úr hófi. Hólmsteinn jafnar þessu máli til dæmis við mistök og lögbrot bankastjóra einkabankanna, sem settu þjóðarbúið í þrot! Ekkert slegið af í afbökunum og furðurökum þar – eins og fyrri daginn!

Liðsmenn Davíðs vilja fá Ragnar Árnason sem seðlabankastjóra í stað Más. Ragnar er náinn samstarfsmaður Hannesar Hólmsteins í framleiðslu frjálshyggjutals og raunar einn róttækasti frjálshyggjumaður Vesturlanda. Gengur lengra en sjálfur Hólmsteinn að því er virðist – segir í öllu falli meira opinberlega um róttæka þjóðfélagssýn sína.

Ragnar Árnason hefur í seinni tíð verið einn alharðasti talsmaður óheftrar markaðshyggju, einkavæðingar og kvótakerfisins í þjóðmálaumræðunni hér á landi. Vill einnig afnema opinbera heilbrigðiskerfið og leggja almannatryggingar niður. Vill að einkaaðilar eigi allar auðlindir landsins, ekki bara fiskimiðin.

Það myndi auðvitað vekja athygli á Vesturlöndum ef Íslendingar myndu setja fiskihagfræðing með róttækar frjálshyggjuskoðanir í stöðu seðlabankastjóra, svo skömmu eftir frjálshyggjuhrunið. Aðrar þjóðir eru jú flestar að herða eftirlit hins opinbera með fjármálageiranum, eftir að ofurfrelsi og afskiptaleysi þar leiddi til fjármálakreppunnar. Menn snúa sér nú frekar frá óheftri frjálshyggju, þó hún eigi að vísu enn marga talsmenn í hópum auðmanna heimsins.

 

Pólitiskt upplegg ráðningarferlisins

En kanski er ekki hægt að útiloka Ragnar í dæminu. Bjarni Benediktsson hefur forðast að taka á Davíðs-mönnum og gerði raunar Ragnar að formanni ráðgjafarhóps í ráðuneyti sínu. Það eru líka Sjálfstæðismenn sem ráða för við ráðningu seðlabankastjóra og allir matsnefndarmenn virðast vera Sjálfstæðismenn, þ.á.m. er fyrrverandi varaformaður flokksins (Ólöf Nordal). Þetta er mjög pólitískt upplegg á ráðningarferlinu.

Ólöf Nordal stýrir líka meðferð bankaráðsins á greiðslumáli Más Guðmundssonar og Ragnar Árnason situr með henni í núverandi bankaráði fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Sem sagt: allt mjög pólitískt.

En það er á hinn bóginn langsótt að forysta Framsóknar muni gleypa slíka frjálshyggjusendingu frá Sjálfstæðismönnum. Traust erlendis á íslenskum fjármálum og fjármálastjórn skiptir líka máli. Framsóknarmenn hafa að vísu verið óánægðir með Má og hávaxtastefnu Seðlabankans, sem og afstöðu forystu bankans gagnvart skuldalækkunarleiðinni.

Frá þeirra bæjardyrum gæti því virst nærtækt að skipta Má út. Friðrik Már Baldursson gæti þá verið góð málamiðlun í stöðunni.

Friðrik Már er jú ágætlega hæfur til starfans, með fjármálahagfræði sem sérgrein, ólíkt Ragnari. Ekki er Friðrik Már heldur þekktur sem villtur frjálshyggjumaður, þó hann sé mikill markaðshyggjusinni. Hann er meira hefðbundinn hagfræðingur.

Helsti löstur á ráði Friðriks Más er aðild hans að skýrslugerð um rekstrarhæfi íslensku bankanna á árinu 2007, með Richard Portes. Skýrsla þeirra var gerð að beiðni Viðskiptaráðs og fól í sér mjög óraunhæft mat á stöðu fjármálakerfisins.

Már Guðmundsson hefur ekki verið fundinn sekur um slíka faglega misbresti við stjórn peningastefnunnar og Seðlabankans. Það verður hins vegar matsnefnd Sjálfstæðismanna sem sker úr um vægi kosta og galla umsækjendanna, þar á meðal ofangreinda þætti.

Már virðist þó standa höllum fæti ef mið er tekið af pólitísku uppleggi í ráðningarferlinu.

 

Síðasti pistill: Veikt eftirlit – svindlarar blómstra

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 5.7.2014 - 10:45 - FB ummæli ()

Veikt eftirlit – svindlarar blómstra

Undanfarið hefur Fréttablaðið staðið fyrir góðri umræðu um innihaldslausar vottanir á matvælum. Slíkar vottanir felast í því að setja jákvæða stimpla á vöruna, án þess að nokkuð sé á bak við það.

Þetta lítur út eins og einhver ábyrgur eftirlitsaðili hafi vottað gæði vörunnar – en er í mörgum tilvikum ekkert annað en glansmynd sem seljandinn setur sjálfur á umbúðirnar. Tær snilld!

“Lífrænt ræktað”.

“Náttúruleg afurð”

“Frjáls kjúklingur” o.s.frv…

Í leiðara Fréttablaðsins í dag vekur Ólafur Stephensen athygli á því, að rúmlega 90% af lambakjöti er með einhverja vottun um að á býlinu sé gæðastýring viðhöfð. Það segir svo sem ekkert um gæði hverrar vörueiningar sem þaðan fer. Þetta er sem sagt lausleg vottun.

En rúsínan í pylsuenda leiðarans er sú, að vara frá þeim tíu prósentum sem ekki eru með slíka vottum er seld eins og hún sé með þessa vottun líka!

Hvers vegna?

Jú, framkvæmdastjóri SS segir að engin búð myndi vilja selja þá vöru sem telst óvottuð. Skiljanlega.

En samt finnst framkvæmdastjóranum í lagi að rýra gildi vottunarinnar og plata neytendur með því að blanda óvottaða kjötinu saman við það vottaða!

Niðurstaðan verður sú, að neytendur halda að þeir séu að kaupa gæðavottaða vöru, en hafa í reynd enga tryggingu fyrir því.

Neytendur eru plataðir – blekktir – rændir.

Þetta er raunar svona á fjölmörgum sviðum. Verðmerkingar eru t.d. meira að segja orðnar verulega ófullkomnar eða engar í sumum tilvikum – þó lög kveði á um að þær skuli vera vandaðar og skýrar.

Neytendaverndarbatteríið er í varanlegu fríi – og mætti þess vegna vera staðsett á Svalbarða eða í sólarlöndum.

Fiskistofa hefur eftirlit með sjávarútvegi og útvegsmönnum. Hún er ekki í tísku frekar en annað eftirlit. Þess vegna var ákveðið að senda hana norður og niður – án umhugsunar eða athugunar á afleiðingum.

Kanski Fiskistofu verði fundinn staður í húsakynnum Samherja á Akureyri? Það gætu verið samlegðaráhrif í því…

 

Veikur eftirlitsiðnaður skapar frelsi til að svindla á neytendum

Orsök alls þessa er sú, að eftirlitsiðnaður er í ónáð hjá atvinnulífinu, sem vill frekar frjálshyggju.

Eftirlitsleysi skapar meiri tækifæri til að blekkja neytendur og hafa þá að fíflum. Án alvöru eftirlits er auðveldara er að selja þeim dýrari vöru á fölskum forsendum.

Grafið var undan eftirliti í fjármálageirum Vesturlanda upp úr 1980, í nafni aukinnar frjálshyggju. Það skapaði meira frelsi á fjármálamörkuðum.

Það notuðu fjármálamenn og braskarar til að fara nýjar og duldari leiðir í gróðasókn sinni. Slíkt skilaði þeim gríðarlegum tekjum og eignum – en setti fjármálakerfi heimsins á hliðina í fjármálakreppunni, þeirri stærstu síðan Kreppan mikla skall á 1929.

Fjármálamenn tóku of miklar áhættur, drekktu öllu í skuldum, hlupu svo með gróðann í felur og skildu skuldirnar eftir handa ríkisstjórnum og almenningi til að glíma við.

Tær en ógeðfelld snilld!

Þetta undirstrikar auðvitað mikilvægi eftirlits og aðhalds hins opinbera, sem sýnt er að markaðir veita ekki sjálfkrafa – heldur finna sífellt leiðir til að sniðganga.

Eftirlit hamlar nefnilega frelsi gróðapunga og svindlara til að fara illa með sakleysingja.

En eftirlit er ekki í tísku hjá atvinnurekendum, fjármálamönnum og alls ekki hjá gróðaþyrstum bröskurum og svindlurum. Hægri stjórnmálamenn vilja það heldur ekki.

Frjálshyggjumenn, sem eru atvinnumenn í áróðri, segja svo að afskiptaleysisstefnan sé góð fyrir alla!

En hún er bara góð fyrir svindlara.

Neytendur eru alltaf fórnarlömbin. Það er arðvænlegt að svindla á þeim í skjóli eftirlitsleysis.

Frelsið virkar ekki til fulls án aðhalds.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 4.7.2014 - 16:15 - FB ummæli ()

Skalli Zidanes

Heimsmeistarakeppnin í fótbolta setur skemmtilegan svip á sumarið – og bjargar miklu þegar rigningin hefur tekið völdin, eins og vill verða hér á landi.

Milli leikja er gaman að rifja upp ýmis atvik og stjörnur fótboltans, ekki síst þegar dregur að úrslitum.

Eitt furðulegasta atvik seinni ára var þegar hinn glæsilegi franski kappi Zinedine Zidane skallaði ítalska bakvörðinn Marco Materazzi, í keppninni árið 2006.

Frakkar höfðu átt einstaklega gott lið um árabil og Zidane var mesta stjarna þeirra, ítrekað kosinn besti knattspyrnumaðurinn, heima jafnt sem erlendis. Hann var einstaklega skemmtilegur og sókndjarfur leikmaður og iðulega mikill gleðigjafi fyrir áhorfendur – og ekki bara meðal stuðningsmanna Frakka.

Atvikið átti sér stað í framlengingu í sjálfum úrslitaleik keppninnar, milli Frakka og Ítala. Eftir stympingar milli Zidane og Materazzi í hita leiksins lét Materazzi ósmekkleg orð falla um móður og systur Zidanes. Zidane sneri sér til baka eftir að hafa heyrt ummælin þrisvar sinnum (eftir því sem hann sjálfur segir) og skallaði Materazzi í bringuna. Ítalinn steinlá!

Zidane fékk umsvifalaust rauða spjaldið og gekk af leikvelli, framhjá gylltri verðlaunastyttunni. Þannig endaði glæsilegur ferill Zidanes sem atvinnumaður í knattspyrnu, því hann hafði áður tilkynnt að þetta yrði hans síðasti leikur.

Drama atviksins liggur kanski ekki síst í því, að það gæti hafa kostað Frakka heimsmeistaratitilinn. Ítalir unnu vítaspyrnukeppnina sem fylgdi að framlengingu liðinni.

Það hefði vissulega munað um að hafa stórskyttuna Zidane með í vítaspyrnukeppninni, fyrir utan shokkið sem atvikið kann að hafa haft á liðið í heild á slíku augnabliki, þegar örfáar mínútur voru eftir af leiktíma. Zidane var jú lykilmaður í liðinu.

Hér má sjá myndskeið af þessu eftirminnilega atviki.

Hér fyrir neðan má svo sjá  skemmtilega styttu af árekstrinum milli þeirra félaga, sem prýðir svæði leikvangsins í Doha í Qatar. Til stendur að halda keppnina þar árið 2022.

Zinedine_Zidane_and_Marco_Materazzi (1)

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 1.7.2014 - 00:46 - FB ummæli ()

Hagstofan – fróðleg rannsókn á fátækt

Í gær birti Hagstofa Íslands nýja skýrslu um skort á efnislegum lífsgæðum á Íslandi. Þetta eru tölur fyrir tímabilið frá 2004 til 2013, sem koma úr lífskjarakönnunum Hagstofunnar og Eurostat.

Áður hafa verið birtar ýmsar upplýsingar um fátækt úr þessum könnunum, meðal annars hlutfall fólks sem er undir afstæðum fátæktarmörkum og umfang hættu á fátækt og félagslegri útskúfun.

Nýja skýrslan bætir frekari upplýsingum í þessa flóru. Það er mikilvægt því mælingum á afstæðri fátækt eru takmörk sett og því nauðsynlegt að mæla fleiri hliðar fátæktarvandans, eins og Guðný Björk Eydal og ég bendum á í kafla um fátækt í nýlegri bók (Þróun velferðarinnar 1988 til 2008).

Það er því mikill fengur af þessari nýju skýrslu Hagstofunnar um skort á efnislegum lífsgæðum.

Þeir sem teljast búa við skort á efnislegum lífsgæðum eru skilgreindir þannig, að þeir búi á heimili sem þrennt af eftirfarandi á við:

„Þeir hafa lent í vanskilum húsnæðislána eða annarra lána vegna fjárskorts síðastliðna tólf mánuði og hafa ekki efni á vikulöngu fríi með fjölskyldunni árlega.

Þeir hafa ekki efni á kjöti, fiski eða sambærilegri grænmetismáltíð annan hvern dag, geta ekki mætt óvæntum útgjöldum, hafa ekki efni á heimasíma né farsíma, eiga ekki sjónvarpstæki, eiga ekki þvottavél, hafa ekki efni á bíl eða geta ekki haldið húsnæðinu nægjanlega heitu.“

Meðal niðurstaðna má finna samanburð á útkomu þessara mælinga á skorti á efnislegum gæðum og afstæðri fátækt í ESB-ríkjum (m.v. 60% fátæktarmörk). Þann samanburð má sjá á myndinni hér að neðan.

Screen shot 2014-06-30 at 4.05.34 PM

Myndin er úr skýrslunni „Skortur á efnislegum lífsgæðum 2004 til 2013“ (sjá Félagsvísa Hagstofu Íslands).

 

Þarna kemur fram að meiri munur er milli þjóða hvað snertir umfang skorts á efnislegum gæðum en er á afstæðri fátækt. Að mörgu leyti er mælingin á skorti efnislegra gæða raunsærri en afstæða mælingin, þó hún segi einnig mikilvæga sögu.

Ísland var með lægst hlutfall fólks undir afstæðum fátæktarmörkum á árinu 2012, eða 7,9%. Það hafði lækkað úr um 10%, sem lengst af hafði verið niðurstaðan úr könnunum Hagstofunnar frá 2003. Aðgerðir stjórnvalda gegn kreppuáhrifunum höfðu þessi áhrif, þ.e. að lækka hlutfall afstæðrar fátæktar. Þess gætti sérstaklega hjá eldri borgurum, en þar lækkaði hlutfall eldri borgara sem voru undir 60% fátæktarmörkum úr um 15% árið 2007 í tæp 5% 2010.

Þegar skortur á efnislegum gæðum er borinn saman milli landanna er Ísland í sjötta efsta sætinu, þ.e. einungis fimm lönd voru með minna umfang skorts á efnislegum gæðum.

Þær þjóðir sem eru fyrir ofan okkur eru hagsælustu ríki Vesturlanda, þjóðir sem ekki urðu fyrir alvarlegri kreppu eins og Ísland (þetta eru Sviss, Svíþjóð, Noregur, Lúxemborg og Holland). Þetta er því afar góð útkoma fyrir Ísland nú, ekki síst í ljósi hins gríðarlega áfalls sem hrunið var.

Þegar þessar mælingar eru teknar saman, ásamt fleiri mismunandi mælingum (t.d. raunverulegum ráðstöfunartekjum þeirra sem eru undir fátæktarmörkum og kvörtunum lágtekjufólks undan erfiðleikum við að ná endum saman) þá fæst trúverðug heildarmynd af fátækt á Íslandi í samanburði við önnur lönd. Þetta hefur oft verið deilumál í þjóðmálaumræðu hér á landi, því sumir hafa viljað neita því að hér væri yfir höfuð nokkur fátækt.

Heildarmyndin er almennt séð sú, að fátækt er svipuð hér á landi og á hinum Norðurlöndunum. Þó hafa fátækir Íslendingar lægri ráðstöfunartekjur en samsvarandi hópar á hinum Norðurlöndunum og fátækir Íslendingar kvarta meira undan erfiðleikum við að láta enda ná saman. Svo er útkoman betri hér að sumu öðru leyti, t.d. hefur atvinnustig yfirleitt verið betra hér, en það forðar mörgum frá fátækt.

Annað sem er sérstaklega athyglisvert í þessari nýju skýrslu Hagstofunnar er að skortur á efnislegum gæðum hafði minnkað undir lok bóluáranna fyrir hrun, en jókst svo aftur eftir hrunið, eins og við var að búast. Samt varð hann almennt ekki meiri en verið hafði á árunum 2004 og 2005, eins og ég hef áður bent á.

Það bendir til að sú viðleitni stjórnvalda að hlífa viðkvæmustu heimilunum við verstu afleiðingum hrunsins hefur tekist að umtalsverðu leyti.

Fyrir vikið hefur fátækt ekki aukist varanlega á Íslandi, eins og við mátti búast. Það er mikilvægur árangur og góður grunnur fyrir almenning og stjórnvöld að byggja á til framtíðar.

Myndin hér að neðan sýnir einmitt hvernig skortur á efnislegum lífsgæðum, samkvæmt þessari mælingu, var minni eftir hrun en verið hafði á árunum 2004-5.

Screen shot 2014-07-01 at 4.47.25 PM

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 30.6.2014 - 11:25 - FB ummæli ()

Íhaldið – köld róttækni ræður för

Í fjölmiðlum er nú sagt frá því að Sjálfstæðisflokkurinn sé í samstarfi með hægri öfgaflokkum í Evrópu. Samtökin heita AECR og fengu þau nýlega til liðs við sig Sanna Finna og Danska þjóðarflokkinn á Evrópuþinginu.

Þetta er að vísu ekki ný frétt. Pawel Bartoszek vakti athygli á þessu í Fréttablaðinu fyrir nokkru og varaði við.

En það eru önnur tengsl Sjálfstæðisflokksins við róttæklinga sem hafa verið afdrifaríkari. Þau tengsl breyttu í reynd gamla Sjálfstæðisflokknum svo mikið að hófsöm hægri stefna og umburðarlyndi þekkist varla lengur á þeim bæ (sjá hér).

Ég er að tala um áhrif róttækra frjálshyggjumanna á Sjálfstæðisflokkinn.

Frjálshyggjumenn fluttu inn hugmyndafræði frá bandarískum áróðursveitum (Cato, AEI, Heritage Foundation o.fl.). Sömu aðilar stofnuðu áróðursveitur hér á landi fyrir símiðlun róttækrar frjálshyggju og auðmannadekurs (sjá hér). Þeir eru reyndar líka í samstarfi við AECR.

Þessir aðilar hafa rekið harða hægri pólitík með ofurtrú á óhefta markaðshyggju, auðhyggju og afskiptaleysisstefnu. Þeir hafa réttlætt sérstök fríðindi fyrir hátekju- og stóreignafólk en barist gegn hófsamri velferðarstefnu fyrir almenning.

Þessir aðilar hafa innleitt einstrenging og öfga inn í gamla Sjálfstæðisflokkinn, sem áður var meinlaus og nokkuð umburðarlyndur flokkur. Hann setti þó alltaf atvinnulífið í forgang en sætti sig við hófsama velferðarstefnu til að gera venjulegu fólki kleift að eignast íbúðarhúsnæði og njóta gjaldfrjálsrar heilsugæslu og skólagögnu, sér og samfélaginu til góðs.

Nýi Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið meira mót af bandaríska Repúblikanaflokknum, sem réttlætir og berst fyrir auknum ójöfnuði og forréttindum yfirstéttar, oft gegn almannahag.

Sjáið til dæmis baráttu Repúblikana og hægri róttæklinga í Bandaríkjunum gegn Obamacare, almennum sjúkratryggingum sem allir íslenskir íbúar fengu þegar árið 1946. Þessir aðilar mega ekki til þess hugsa að fátækir Bandaríkjamenn njóti gjaldfrjálsrar heilbrigðisþjónustu eins og tíðkast á Norðurlöndum.

Þarna liggur hin raunverulega hægri róttækni í Sjálfstæðisflokknum.

Nýr Sjálfstæðisflokkur nýfrjálshyggjunnar er allt annar en gamli Sjálfstæðisflokkurinn.

 

Síðasti pistill: Hólmsteinn dansar hrunið

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 27.6.2014 - 14:32 - FB ummæli ()

Hólmsteinn dansar hrunið

Hannes Hólmsteinn kynnti í vikunni ritgerð eftir sig um orsakir hrunsins, sem birt er í riti frá áróðursveitu hægri manna í Ungverjalandi. Þetta er auðvitað ekki fræðirit, heldur pólitískt barátturit sem reynir að fegra hlut skjólstæðinga sinna í fjármálakreppunni. Það á svo sannarlega við um skrif Hannesar.

Hannes hefur áður kynnt þessar hugmyndir sína um endurritunar sögunnar, í ýmsum netmiðlum og víðar.

Miðað við frásögn Hannesar sjálfs af erindi sínu í þessu ungverska riti voru helstu orsakir hrunsins á Íslandi þessar:

  • Íslenska seðlabankanum var einum seðlabanka neitað um gjaldeyrisskiptasamninga við bandaríska seðlabankann.
  • Breskum bönkum í eigu Íslendinga var einum neitað um þá fyrirgreiðslu, sem breska ríkið veitti bönkum í október 2008 og Verkamannaflokksstjórnin breska setti hryðjuverkalög á Íslendinga.

Þetta eru sennilega ódýrustu skýringarnar á bankahruninu sem boðið hefur verið uppá til þessa – fyrir utan þá kenningu að hrunið væri Baugsfjölskyldunni einni að kenna (Hannes og Davíð Oddsson voru höfundar þeirrar kenningar).

Alvöru fræðimenn á sviði fjármála draga upp allt aðra mynd af orsökum hrunsins.

Maður skilur þó vel að helstu þátttakendur í hrundansinum vilji ekki kannast við spor sín og tilþrif á gólfinu. Það á við um fjármálamennina, braskarana, eftirlitsaðilana og stjórnvöldin sem brugðust.

En ekki síður á það við um hugmyndafræðingana sem réttlættu „íslenska efnahagsundrið“, sem færði okkur hrunið. Hannes sjálfur er þar fremstur í flokki.

Og enn stígur hann hrundansinn…

 

Hér var allt í fínasta lagi – samkvæmt kokkabókum nýfrjálshyggjunnar

Hannes fullyrðir sem sagt í þessari grein að hér hafi allt verið í fínasta lagi fram að hruni og að bönkunum hefði átt að bjarga. Hann telur meira að segja að bandarískir skattborgarar hefðu átt að taka það að sér, óháð stöðu þessara banka og þjóðerni.

Þvert á móti taldi seðlabankastjóri Bandaríkjanna þessum bönkum ekki bjargandi og benti hann Íslendingum á neyðaraðstoð AGS, fyrir þjóðir sem búnar eru að koma sér í óviðráðanlegar ógöngur.

Núverandi seðlabankastjóri á Íslandi telur að Ísland hefði aldrei getað staðið undir þeim skuldum sem við hefðum gengist undir ef Bandaríkjamenn hefðu lánað okkur nægilegt fé til að bjarga þessum bönkum. Samt telur Hannes að þeim hefði átt að bjarga!

Hannes Hólmsteinn telur greinilega að ekkert hafi verið óelilegt við þróunina fram að hruni hér á landi, annað en það að Jón Ásgeir var einn af útrásarvíkingunum!

  • Örasti vöxtur banka í sögunni var ekki óeðlilegur.
  • Mesta skuldasöfnun sögunnar var ekki óeðlileg.
  • Risaútlán án fullnægjandi trygginga voru ekki óeðlileg.
  • Geigvænleg áhættutaka og jafnvel löglausir starfshættir voru ekki óeðlilegir
  • Siðlaus einkavæðing ríkisbankanna til flokkstengdra vildarmanna var ekki óeðlileg. Fleira af þessum toga mætti nefna.

Flestir alvöru fræðimenn á sviði fjármálafræða (t.d. Guðrún Johnsen, Robert Aliber og Gylfi Zoega, Gylfi Magnússon, Mats Josefsson og Karlo Jänneri) og Rannsóknarnefnd Alþingis komast að allt annari niðurstöðu. Þessir aðilar segja að starfsemi íslenska fjármálakerfisins hafa verið mjög ámælisverð – raunar í verulegu ólagi.

Íslenska fjármálakerfið var á feigðarflani frá 2003 og alveg fram að hruni. Hrunið var óhjákvæmileg afleiðing af því sem hér var látið viðgangast í fjármálakerfinu, vegna veiks eftirlits og frjálshyggjutíðaranda sem réttlætti og fegraði allt saman („íslenska efnahagsundrið“).

 

Íslenska bankakerfið var í alvarlegu ólagi

Rannsóknarnefnd Alþingis og vönduð bók Guðrúnar Johnsen, Bringing Down the Banking System, sýna t.d. með skýrum hætti, hvernig bankarnir uxu alltof hratt, með alltof mikilli erlendri skuldsetningu og alltof mikilli áhættu.

Örari vöxtur en annars staðar og meiri erlend lántaka þýðir að íslensku bankarnir tóku meiri áhættur en aðrir vestrænir bankar. Samt fullyrðir Hannes að íslenskir bankamenn hafi ekki verið verri en aðrir bankamenn (sem þó voru vissulega slæmir)!

Þá voru starfshættir bankanna að mörgu leyti mjög ámælisverðir, sem gróf undan rekstrarhæfi þeirra. Bankarnir höfðu t.d. rýrt eigið fé sitt í aðdraganda hrunsins með ævintýralega áhættusömum starfsháttum og ofurlánveitingum til eigenda sinna og vildarvina, oft án fullnægjandi eða eðlilegra trygginga. Kúlulán skiluðu engum vaxtatekjum á löngu árabili inn í rekstur bankanna.

Eigendur allra föllnu bankanna tóku til sín óeðlilega mikið af útlánum – oft með ámælisverðum hætti og jafnvel lögbrotum, eins og fram hefur komið í sumum kæru- og dómsmálum.

Bankarnir drógu beinlínis upp falska mynd af eigin rekstri í bókhaldi sínu og ársreikningum. Á því sviði brugðust helstu endurskoðunarfyrirtæki landsins. Það hef ég eftir ofangreindum heimildum og fagmönnum á sviði bókhaldsmála.

Fjöldi ákærumála og sakfellinga á síðustu árum sannar að rangt var við haft í mörgum tilvikum. Fleiri slík mál eru í farvatninu í dómskerfinu.

Allt stuðlaði þetta að því að gera íslensku bankana ósjálfbæra til lengdar og því var einungis tímaspursmál hvenær þeir myndu hrynja, eftir að aðgengi að frekara lánsfé erlendis takmarkaðist frá 2006-7.

Hannes Hólmsteinn telur þó að þetta hafi allt verið í besta lagi!

 

Hannes þakkaði nýfrjálshyggjunni “íslenska efnahagsundrið”!

Hannes er auðvitað málsaðili, því nýfrjálshyggjan sem hann boðaði og auðhyggjan sem hann talaði fyrir réttlættu allt það sem hér gerðist fram að hruni.

Hannes var mesta klappstýra útrásarinnar og auðhyggjunnar. Ef einhver fann að því sem var að gerast sakaði Hannes viðkomandi umsvifalaust um öfund eða óvild í garð auðmanna eða Davíðs Oddssonar! Þetta stóð hjá honum alveg fram að hruni.

Undir lok árs 2007 fékk Hannes vúdú-hagfræðinginn Arthur Laffer til að koma til Íslands. Sá fullyrti við það tækifæri að hér væri allt í allra besta lagi, því Íslendingar væru svo miklir frjálshyggjumenn. Allir vilja þess vegna koma með fé sitt til Íslands, sagði Laffer. Þetta sagði hann skömmu eftir að erlenda lánsfjárstreymið hafði að mestu stöðvast! Þetta var um tíu mánuðum fyrir hrun.

Hannes mærði braskið og útrásina fram að hruni og kallaði hana “íslenska efnahagsundrið” (sjá t.d. hér – þetta er frá frá september 2007).

Frjálshyggjunni og Davíð Oddssyni þakkaði hann sérstaklega þetta meinta “efnahagsundur” (sjá t.d. hér).

En nú þvær hann hendur sínar og nýfrjálshyggjunnar af allri sök, eftir að illa fór.

Allir sjá að þetta er ekki trúverðugur málflutningur hjá Hannesi og öðrum frjálshyggjumönnum og bröskurum – alveg sama hversu oft hann er endurtekinn.

Við þurfum að vara okkur á málflutningi svona fólks, svo hrunið verði ekki endurtekið í náinni framtíð.

 

Síðasti pistill: Hagfræðin varð hugmyndafræði

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 24.6.2014 - 12:28 - FB ummæli ()

Hagfræðin varð hugmyndafræði

Frægt var þegar Elísabet Englandsdrottning spurði stjórnendur hagfræðideildar London School of Economics hvers vegna sérfræðingar deildarinnar hefðu ekki séð fjármálakreppuna koma.

Hvernig gátu þau mistök sem voru að hlaðast upp í aðdraganda kreppunnar farið framhjá þeim, með alla þessa hagfræðiþekkingu?

Fátt varð um skýr svör.

Staðreyndin er sú, að ríkjandi hagfræði hafði farið afvega um áratuga skeið og losnað úr tengslum við raunverulegt fjármála- og efnahagslíf.

Ríkjandi hagfræði (nýklassíska hagfræðin) hafði breyst í hugmyndafræði sem gamnaði sér við stærðfræðilega loftfimleika og óraunhæfar hugmyndir um fullkomleika markaðarins. Fjármálamarkaðir voru t.d. taldir alltaf hafa rétt fyrir sér. Markaðir sem einkennast m.a. af hjarðhegðun, óhófi, of mikilli áhættutöku, græðgi, braski, siðleysi og jafnvel lögbrotum.

Fjármálamarkaðir voru þannig sagðir verðleggja áhættu alltaf rétt að meðaltali og gengið var út frá að gerendur á markaði væru einungis að hegða sér „skynsamlega“. Öll inngrip stjórnvalda eða eftirlitsaðila voru sögð valda skekkjum. Allt hlaut að fara á besta veg, vegna sjálfvirkni þeirrar guðdómlegu vélar sem óheftur markaður væri – bara ef hann fengið að vera í friði fyrir eftirliti og ríkisafskiptum.

Hin ríkjandi hagfræðitrú var kölluð “tilgátan um hinn virka markað” (“the efficient market hypothesis”). Sú hugarsmíð var byggð á ofureinföldum forsendum sem gerðu stærðfræðilegar útfærslur kenningarinnar mögulegar. Þess vegna blómstraði stærðfræði í hagfræðinni og veitti ófullkomnum kenningum sýndarskjól.

Ríkjandi hagfræði breyttist þar með í hugmyndafræðilega kreddu nýfrjálshyggjunnar, eins og heimspekingurinn Stefán Snævarr fjallar ágætlega um í bók sinni Kredda í kreppu.

En einfaldleiki forsendanna sem allt var byggt á gerði hins vegar að verkum, að tengslin við veruleikann rofnuðu. Þess vegna fór fræðigreinin svo illa afvega – og hagstjórnin með.

Allt fór raunar á versta veg! Næst stærsta fjármálakreppa sögunnar skall á frá og með árinu 2008. Sú stærsta var Kreppan mikla á fjórða áratug síðustu aldar. Nýklassíska hagfræðin hafði á síðustu árum gert ráð fyrir að slíkt gæti ekki lengur gerst!

Þessi ofureinfalda markaðshyggjutrú varð grundvöllur aukinnar afreglunar og aukins frelsis á fjármálamörkuðum upp úr 1980, segir Robert Skidelsky, ævisöguritari John Maynard Keynes í nýlegri grein. Frelsi á markaði var aukið og aðhald minnkað. Afskiptaleysisstefna ríkti í vaxandi mæli.

Þróunin endurspeglaði það, að hagfræðin tók yfir pólitíska hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar, sem jafnframt þjónaði fyrst og fremst hagsmunum fjármálaaflanna, stjórnendum og eigendum stórfyrirtækja og banka. Þetta var hagfræði ríkasta eins prósentsins.

 

Greining Krugmans á villuráfi hagfræðinnar

Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefur fjallað nokkuð ítarlega um þessa óheillaþróun hagfræðinnar í átt til ýktra hugmynda um hinn óbrigðula óhefta markað (sjá t.d. hér).

Krugman nefnir einnig ýmis dæmi um tengsl hagfræðinnar við hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar. Hagfræðideildin við Chicago háskóla var lengi helsti vettvangur þessa rétttrúnaðar og nýfrjálshyggju í senn. Milton Friedman og Friðrik von Hayek voru brautryðjendur þar (Hayek þó einkum í frjálshyggjuhugmyndafræði). Seinni tíma áhrifamenn þar voru m.a. Robert Lucas, Eugene Fama og John Cochrane.

Krugman nefnir einnig hagfræðinginn og Nóbelsverðlaunahafann Edward Prescott sem dæmi um fáránleika sumra hugmynda þessara markaðshyggjumanna, en íslenskir nýfrjálshyggjumenn fluttu hann hingað til lands og hafa hampað honum í gríð og erg síðan, meðal annars til að réttlæta vúdú-hagfræðina. Sú villutrú náði óvíða meiri útbreiðslu en hér á landi.

Prescott telur m.a. að atvinnuleysiskreppa (eins og varð í kjölfar fjármálakreppunnar) endurspegli það, að óvenju mikill fjöldi vinnandi manna hafi ákveðið að fara í frí, frekar en að vinna! Atvinnuleysisbætur hvetji menn til þess – jafnvel þó þær hafi ekki hækkað sérstaklega í aðdraganda kreppunnar (sjá hér).

Krugman segir að samkvæmt þessum skilningi Prescotts hafi “Kreppan mikla” í reynd verið “Sumarfríið mikla”! Menn hafi í auknum mæli kosið að hætta að vinna og hagkerfið því fallið saman…

Fáránleikinn í þessu er varla umræðu verður.

Raunar gengu þessir nýju riddarar markaðshyggjunnar lengra út úr veruleikanum en sjálfur Milton Friedman hafði gert á þeim tíma er hann var leiðandi á þessum slóðum. Þó var hann afar atkvæðamikill hugmyndafræðingur nýfrjálshyggjunnar – en heldur skárri hagfræðingur.

Það sem m.a. gerðist, að mati Krugmans, var að lærdómur fræðigreinarinnar frá árum Kreppunnar miklu, lærdómurinn af hagfræði John M. Keynes, var settur til hliðar, því hann samræmdist ekki pólitík nýfrjáshyggjunnar. Í honum fólst skilningur á ófullkomleika markaðarins og mikilvægi ríkishlutverks fyrir aðhald og eftirspurnarstjórnun og jafnvel fyrir rekstur opinberrar velferðarþjónustu.

Hins vegar sjá menn nú, eftir bitra reynslu af fjármálakreppu samtímans, að Keynes hafði að mestu rétt fyrir sér. Þegar menn færðu sig um of í átt hins óhefta markaðar fóru hlutirnir að fara afvega. Jafnvægið tapaðist með of miklu markaðsfrelsi og afskiptaleysisstefnu:  áhætta jókst, skuldir jukust úr hófi og rangar ákvarðanir stýrðu för í of miklum mæli.

Oftrúin á óhefta markaðinn leiddi menn afvega. Verkefnið nú ætti að vera að endurstilla hagkerfið í betra jafnvægi milli frelsis og aðhalds, milli kapítalisma og lýðræðis.

Hér á landi var þetta sérstaklega pínlegt. Enda fóru Íslendingar meira afvega á þessu sviði en flestar eða allar þjóðir á bóluárunum. Hrunið var rökrétt afleiðing þess.

Þetta gæti meðal annars bent til þess, að kennsla í hagfræði hér á landi hafi farið um of í átt hins nýja rétttrúnaðar um yfirburðakosti hins óhefta markaðar – eða að of margir leiðandi kennarar hafi í of miklum mæli gengist hinni ógæfulegu hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar á hönd.

Fróðlegt væri að fá umræðu um þetta og hvernig við Íslendingar getum í framtíðinni best varist endurtekningu þess mikla áfalls sem hrunið var.

VIlluráf hagfræðinnar

Síðasti pistill: Hamskiptin – hvernig pólitík breytti Íslandi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar